Snæugla (Bubo scandiacus)


Uglur eru sérstakur ættbálkur, þær eru óskyldar ránfuglum. Hér á landi er branduglan algengust; eyruglan er að nema land og breiðast út og verpur orðið reglulega á vissum stöðum. Snæuglan er þeirra sjaldgæfust. Fábreytt nagdýrafána er ástæðan fyrir þessum fáu uglum, en nagdýr er aðalfæða þeirra. 

Útlit og atferli

Afar stór, hvít ugla, með um 1,5 m vænghaf, „minnir á hálslausa álft“. Fullorðinn karlfugl er oftast snjóhvítur með fáeinum, dökkum dílum; kvenfugl og ungfugl með dökkbrúnum flikrum og þverrákum, svo mjög að ungfuglar kunna að virðast dökkir tilsýndar. Andlitið er þó alltaf hvítt. Vængir eru breiðir og rúnnaðir. Miklu stærri og með breiðari vængi en brandugla. Goggur og klær dökkgrá eða brúnsvört, fætur fiðraðir fram á klær. Augu stór og gul.

Snæugla er fremur stygg og fer oftast einförum utan varptíma. Hún er oft á ferli á daginn. Hefur sig til flugs með hægum vængjatökum, flýgur lágt og grípur stundum til renniflugs. Fuglinn er venjulega þögull, en lætur í sér heyra um varptímann.

Snæugla, kvenfugl.

Snæugla, kvenfugl/ungfugl.

Snæugla, karlfugl.

Lífshættir

Hér skortir aðalfæðu snæuglunnar, læmingja, þess vegna verður hún að gera sér að góðu að veiða fugla, aðallega rjúpu, gæsarunga og vaðfugla, einnig endur og eitthvað taka þær hagamýs.

Snæuglan verpur á hólum og öðrum mishæðum á bersvæði, þar sem vel sést yfir, hérlendis gjarnan í úfnum hraunum eða á gilbörmum. Hreiðrið er stór, grunn skál, venjulega eitthvað fóðruð með sinu, mosa og fjöðrum. Notar oft sama hreiðurstaðinn ár eftir ár. Eggin eru 3-7, klaktíminn 4-5 vikur og ungarnir verða fleygir á 6-7 vikum. Uglur byrja strax að liggja á og er útungun því ekki samstillt, eins og hjá flestum fuglum. Venjulega fara þeir ekki að liggja á fyrr en öllum eggjum hefur verið orpið og klekjast eggin því nokkurn vegin samtímis. Ungar í hreiðri geta verið mjög misþroska og bitnar það á yngstu ungunum, ef fæða er af skornum skammti.

Snæugla í ljósaskiptunum.

Snæuglukarl á músaveiðum.

Útbreiðsla og stofnstærð

Snæugla er túndrufugl sem verpur á miðhálendinu og öðrum afskekktum, hálendum landshlutum. Varp var fyrst staðfest 1932, en sagnir um varp eru mun eldri. Nýlegar athuganir benda til að hún verpi eða reyni varp árlega, þó hingað til hafi hún verið talinn óreglulegur varpfugl, og stofnstærðin sé 3-5 pör. Ekki er vitað hvort varpfuglarnir séu staðfuglar, en uglur sjást á öllum tímum árs og má búast við þeim víða, þó helst á miðhálendinu og í jöðrum þess. Snæugla er alfriðuð og er óheimilt að nálgast hreiður hennar nema með leyfi Umhverfisstofnunnar.

Snæugla verpur allt í kringum Norður-Íshafið, m.a. bæði á Austur-Grænlandi og Norður-Skandinavíu. Leitar stundum langt suður fyrir hin eiginlegu heimkynni sín í Íshafslöndunum, sérstaklega í lélegum læmingjaárum. Reglulegar sveiflur eru í læmingjastofninum, sem spanna 3-5 ár. Ef til vill tengist varp hennar hér fæðunni á Grænlandi og niðursveiflu í læmingjastofninum, hún reyni frekar fyrir sér hérlendis þegar stofninn er lítill.

Þjóðtrú og sagnir

Íslensk þjóðtrú geymir lítið um snæugluna. Uglur eru tákn viskunnar og hefur sú trú teygt anga sína inní íslenskar bókmenntir og þjóðtrú.

Snæugla, líklega karlfugl, í hrjóstrugu landi á Miðhálendinu.

Snæugla, kvenfugl.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson