Stari (Sturmus vulgaris)


Stari er þéttvaxinn, dökkur spörfugl, á stærð við skógarþröst og býr gjarnan í nábýli við manninn. Hann hefur langan, oddhvassan gogg og fremur flatt enni, stutta, þríhyrnda, oddhvassa vængi og stutt og breitt stél. Í sumarfiðri er hann svartur með bláan, grænan og fjólubláan gljáa. Er lítillega doppóttur, aðallega að ofan, sterkari gljái er á karlfuglinum. Á veturna er hann alsettur fínlegum doppum, ljósbrúnum um bak en hvítum um kvið. Doppurnar eru ljósir fjaðraendar sem eyðast á útmánuðum. Ungfugl er grábrúnn með ljósa kverk og rákir á bringu og kviði, hann fær fullorðinsbúning um haustið. Goggurinn er gulleitur á sumrin en brúnn á veturna. Fætur eru rauðbrúnir og augu dökk.

Starinn flýgur beint, blakar vængjunum hratt eða lætur sig svífa og er auðþekktur á fluglagi og lögun. Hann syngur á setstað með lafandi eða skjálfandi vængi og úfnar hálsfjaðrir, einnig á veturna. Hann situr hnarreistur og hleypur eða gengur á jörðu niðri en hoppar ekki eins og þrestir. Stari er ávallt félagslyndur og oft í stórum hópum við náttstaði.

Söngrödd starans er breytileg, oftast fremur skræk og ískrandi. Hann er mikil hermikráka og getur jafnvel lært orð og stef. Margar sögur eru til um þessa hæfileika starans, allt frá því að hann hermi eftir öðrum fuglum, hringitónum gemsa og vélsögum yfir í fugla með talsverðan orðaforða.

Stari að vetri á Stokkseyri.

Syngjandi stari í Þórshöfn í Færeyjum.

Nýfleygur staraungi í Borgarnesi.

Lífshættir

Starinn lifir á fjölbreyttri fæðu: skordýr og köngulær eru mikilvæg og fæða þeir ungana á þeim. Hann tekur einnig ber, bæði í mó og görðum, sem og önnur fræ og aldin. Hann leitar í fjörur eftir æti, sömuleiðis öskuhauga og skólpræsi. Starar sækja í garða þar sem fuglum er gefið og eta flest allt sem lagt er út, síst þó korn.

Kjörlendi stara er þéttbýli ýmiss konar og sveitabæir. Hann verpur í ýmiss konar mannvirkjum og varðkössum en varp í klettum og hraunum hefur aukist á síðustu árum. Hreiðrið er grófgert, úr tágum, sinu, fjöðrum og drasli, og staðsett í holum undir þakskeggjum, veggjum, hreiðurkössum og jafnvel í yfirgefnum vinnuvélum og skipum, og klettaskorum. Urptin er 4-6 egg, álegutíminn er um tvær vikur og ungarnir eru þrjár vikur í hreiðrinu, þeir eru oftast alfleygir þegar þeir yfirgefa það. Verpur stundum tvisvar á sumri. Starar af stórum svæðum nátta sig saman, oftast í grenilundum eða háum byggingum.

Stari að bera í unga á Stokkseyri.

Útbreiðsla og stofnstærð

Starinn er staðfugl. Hann hóf að verpa í Hornafirði um 1940. Hann hóf varp í Reykjavík um 1960 og hefur breiðst hægt út þaðan. Aðalútbreiðslusvæði hans er á suðuvestanverðu landinu og þaðan uppá Snæfellsnes og austur í Mýrdal. Hann er sestur að á Akureyri og víðar í þéttbýli á Norðurlandi, t.d. Hvammstanga, Sauðárkróki og Siglufirði; og er að þreifa fyrir sér á Austurlandi. Hann er aftur kominn til Hornafjarðar, eftir nokkurt hlé. Stofninn er talinn vera um 10.000 pör. Stari verpur víða um heim, bæði á norður- og suðurhveli, þar sem hann er innfluttur.

Hilmar J. Malmquist kynnir starfsemi Náttúruminjasafnsins fyrir gestum

Þjóðtrú, sagnir… og óværa

Víðast hvar í Evrópu er starinn talinn boða gleði og hamingju. Hér er því á annan veg farið, hann er víða illa þokkaður og stafar það af nábýli hans við manninn. Þegar starinn nam land á Innnesjum um 1960, gerði hann sér gjarnan hreiður í loftræstiopum og álíka stöðum. Það varð til þess að óværan í hreiðrinu, flóin, átti greiða leið inní híbýli manna. Þó að mestu hafi verið komið í veg fyrir þetta, loðir það enn við starann, að hann sé „grálúsugur“. Sníkjudýr það sem stundum leggst á folk, er hænsafló, Ceratophyllus gallinae, sem m.a. lifir á staranum. Flær og önnur óværa er á öllum fuglum og er staranum oft kennt um, þó flærnar séu komnar af þröstum, maríuerlum eða öðrum fuglum, sem lifa í nábýli við fólk. Dúnfló úr æðarhreiðrum plagar gjarnan dúntekjufólk. Best er að loka öllum opum, sem starinn kemst innum, þegar ungar eru farnir eða áður en hann verpur, því starinn er alfriðaður og ólöglegt að hrófla við hreiðri hans. Setja má upp varpkassa í tré, á hús fjarri gluggum eða á skúra og útihús, fáir fuglar eru jafn lifandi og skemmtilegir og starinn. Ef fólk fær flóabit, er um að gera að klóra sér ekki, það má setja krem á bitin og þau eru horfin eftir 3-4 daga. Menn hafa ekki mært starann í ljóðum og bundnu máli hér á landi, allavega ekki enn sem komið er. Svo við leitum til gömlu herraþjóðarinnar og ástkærrar, ilhýrrar dönskunnar eftir kvæði um staran.

 

Stæren

Hann kommer med Stæren, han dvæler med den
i Danmark – med Stæren han gaar.
Hvor tit forynger, naar Stæren synger,
dit Hjerte sig endnu en Vaar?

Úr kvæðinu Stæren eftir Johannes V. Jensen, útg. 1915.

Starahreiður í varpkassa á Stokkseyri.

Starahópur við náttstað í Skógræktinni í Fossvogi.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson