Stelkur (Tringa totanus)


Vaðfuglar tilheyra allir sama ættbálki, strandfuglum (Charadriiformes), ásamt máfum og svartfuglum. Einkenni margra vaðfugla eru langur goggur, langir fætur og langur háls. Þeir eru dýraætur sem eta alls konar hryggleysingja og langur goggurinn er hentugur til að grafa eftir æti í leirum, tjarnarbotnum og jarðvegi. Vaðfuglar helga sér óðul og verpa pörin stök, en stundum er hægt að tala um að þeir verpi í dreifðum byggðum. Þetta getur átt við stelkinn þar sem hann verpur þéttast. Ungar eru bráðgerir og yfirgefa hreiðrið strax og þeir eru orðnir þurrir. Hjá flestum vaðfuglum ala báðir foreldrarnir önn fyrir ungunum. Kynjamunur er lítill hjá vaðfuglum.

Stelkur í Friðlandinu í Flóa.

Stelkur á flugi á Stokkseyri.

.

Nýfleygur stelksungi í Eyrarbakkafjöru.

.

Stelkur í vetrarbúningi í Hafnarfirði.

Ungur stelkur í vatnsnálarpolli við Eyrarbakka.

Útlit og atferli

Stelkurinn er meðalstór, hávær vaðfugl. Á sumrin er hann grábrúnflikróttur að ofan og ljósari að neðan, minnst flikróttur á kviði. Hvítur gumpur og vængbelti eru áberandi á flugi, stélið er þverrákótt. Hann er grárri að ofan og jafnlitari á veturna. Ungfugl er brúnleitur að ofan, með gula fætur.

Goggur er rauður með svartan brodd. Augun eru brún og augnhringur ljósgrænn. Fætur eru skærlitir, gulrauðir, standa aftur fyrir stél á flugi.

Á varpstöðvum er stelkurinn áberandi og tyllir sér gjarnan á staura með stél- og höfuðrykkjum og hefur hátt, ef honum finnst utanaðkomandi nálgast hreiður eða unga um of. Flýgur þá með stuttum, rykkjóttum vængjatökum. Flýgur annars hratt og beint. Er félagslyndur utan varptíma.

Hljóð stelksins eru breytileg, endurtekin stef, hræðsluhljóð og kallhljóð margvísleg.

Lífshættir

Fæðan er skordýr, ormar og áttfætlur til landsins; í fjörum marflær, smáskeljar, kuðungar, mýlirfur og þangflugulirfur. 

Stelkurinn heldur sig í graslendi og votlendi á sumrin en í fjörum á fartíma og á veturna. Hann gerir sér hreiður í graslendi eða mýrum, oft í óræktarlandi í þéttbýli, í túnjöðrum eða við bæi. Hreiðrið er vel falið í þúfnakolli eða sinu. Eggin eru fjögur og klekjast þau á 24 dögum. Ungar verða fleygir á 25–35 dögum.

Stelkshjón á góðri stund á Stokkseyri.

Stelkur á flugi á Stokkseyri.

Útbreiðsla og stofnstærð

Stelkurinn er að mestu farfugl. Flestir íslenskir stelkar fara af landi brott á haustin og hafa vetursetu á Bretlandseyjum og víðar í Vestur-Evrópu en 1.000–2.000 fuglar hafa vetrardvöl í fjörum á Suðvesturlandi og fáeinum öðrum lífríkum fjörum. Um 19% af öllum stelkum í heimi verpa hér á landi og er varpstofninn talinn vera um 75.000 pör.

Þjóðtrú og sagnir

Mjög lítið finnst í þjóðtrúnni um stelkinn. Ættkvíslarheitið, Tringa, merkir þann sem býr við ströndina. Á norrænum málum er hann ýmist kenndur við rauða eða háa fætur og gæti íslenska heitið og svipuð heiti allt eins táknað „háfætta fuglinn sem gengur sperringslega“.

 

Að skálabrekku

Hér stend ég aftur á brekkunnar brún og horfi
á blálygnt djúpið með himinhvolf sitt og fjöll. 
En jaðraki, stelkur og hrossagaukur hamast
við hljómleika sína í nánd við iðgrænan völl. 

Úr kvæðinu Að Skálabrekku eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson

 

 

 

Myndir og texti eftir Jóhann Óla Hilmarsson