Stormmáfur (Larus canus)

Máfar, kjóar og þernur eru af sama ættbálki og vaðfuglar og svartfuglar og teljast til strandfugla (Charadriiformes). Þetta eru dýraætur sem lifa aðallega á sjávarfangi en einnig á skordýrum, úrgangi, fuglsungum, eggjum og fleiru. Fuglarnir hafa sundfit, flestir máfar og kjóar eru með sterklegan gogg sem er krókboginn í endann. Þeir eru leiknir flugfuglar, en farflug kríunnar er hið lengsta sem þekkist meðal fugla. Kynin eru eins útlits, en karlfuglinn er oftast heldur stærri. Máfar, kjóar og þernur verpa yfirleitt í byggðum. Ungar þeirra eru bráðgerir, þeir yfirgefa hreiðrið fljótlega eftir klak. Máfum er oft skipt í tvo hópa til hægðarauka, stóra máfa (svartbakur, hvítmáfur, sílamáfur o.fl.) og litla (t.d. hettumáfur, rita og stormmáfur).
Fullorðinn stormmáfur á Akureyri.
Fullorðinn stormmáfur í vetrarbúningi á Reykjavíkurtjörn.
Stormmáfur á 1. vetri við Bakkatjörn á Seltjarnarnesi.

Útlit og atferli

Stormmáfur er ekki ólíkur silfurmáfi en mun minni, er á stærð við ritu. Hann er ljósgrár að ofan, vængbroddar svartir með hvítum doppum, annars hvítur á fiður. Höfuð er brúnflikrótt á veturna, líkt og hjá stórum máfum. Ungfugl er grábrúnflikróttur með svartan stéljaðar, brúnt bak verður blágrátt strax á fyrsta hausti. Fuglar á fyrsta vetri eru hvítari á höfði og að neðan, með grátt bak og axlafjaðrir, yfirvængir eru brúndröfnóttir með dökkum flugfjöðrum. Þeir lýsast síðan og á öðrum vetri eru þeir svipaðir fullorðnum fuglum, hafa þá misst svarta stélbandið en handflugfjaðrir og vængþökur þeirra eru dekkri.

Goggur er grannur og fremur stuttur, gulleitur, enginn rauður blettur á honum. Fætur eru grængulir, augu dökk. Ungfugl er með dökkbrúnan gogg og húðlita fætur. Goggurinn lýsist með aldrinum og á öðrum vetri er mjótt dökkt band á honum fremst. Það sést einnig á fullorðnum fuglum á veturna. Gefur frá sér hávært og skerandi garg, hástemmdara en silfurmáfs, minnir á mjálm (heitir Mew Gull vestanhafs).

Stormmáfur er stærri en hettumáfur en minni og léttari á flugi en silfurmáfur, með hnöttóttara höfuð. Minnir einnig á ritu, en hún er með alsvarta vængbrodda og svarta fætur.

 

 

Lífshættir

Fæða og fæðuhættir svipaðir hettumáf og sjást þeir frændur oft saman í ætisleit: ormar, skordýr, skeldýr og fiskur, einnig úrgangur.

Verpur í litlum byggðum, stök pör eða með öðrum máfum, sérstaklega hettumáfum. Er mest nærri ströndinni en einnig inn til landsins, á áreyrum, í óshólmum, móum, á melum og sandi. Hreiðrið er í opnu landi, milli steina eða í gróðri, gert úr grasi, mosa og sinu. Eggin eru 2-3, álegan tekur 22-27 daga og ungarnir verða fleygir á um 5 vikum. Á veturna sést fuglinn helst í höfnum og við þéttbýli.

Stormmáfspar á Akureyri, karlfuglinn til vinstri.

Stormmáfshreiður við Þverá í Eyjafirði.

Útbreiðsla og stofnstærð

Stormmáfur er að nokkru farfugl. Hann er nýr landnemi, fyrsta þekkta varpið var við Akureyri 1936 og hann varp fyrst á Suðvesturlandi 1955. Aðalvarpstöðvarnar eru á Norðurlandi, mest í Eyjafirði, og svo kringum Kollafjörð og Hvalfjörð á Suðvesturlandi. Hann er smátt og smátt að dreifa sér um landið. Hluti fuglanna fer til Bretlandseyja á veturna en nokkur hundruð sjást á Suðvesturlandi, í Eyjafirði, á Skjálfanda, í Öxarfirði, á Austfjörðum og Suðausturlandi. Stofnstærðin er talin vera um um 1000 pör. Heimkynni stormmáfs eru víða um norðurhvel jarðar.

Vernd

Stormmáfur er alfriðaður. Hann var á eldri válista fugla vegna stofnsmæðar, en vegna fjölgunar er hann talinn úr hættu á nýjum válista frá 2018.

Þjóðtrú og sagnir

Stormmáfurinn er það nýr borgari í íslenskri fuglafánu, að engin þjóðtrú tengist honum beint. Erlendis er hann og aðrir máfar oft tengdir margs konar þjóðtrú um veðurfar og afla og jafnvel líf og heilsu sjómanna. Á Bretagne skaga voru sálir sjómanna, sem farist höfðu á sjó, taldar taka sér búsetu í stormmáfum. Þeir vöruðu sjómenn við illviðrum.

Hringmáfur til vinstri og stormmáfur til hægri á Bakkatjörn á Seltjarnarnesi, báðir í vetrarbúningi. Hringmáfurinn er stærri, höfuðmeiri, með áberandi hring á gulum goggnum og minna hvítt milli gráa litarins á bakinu og svartra vængbrodda.
Hringmáfur á 1. vetri við Bakktjörn á Seltjarnarnesi.

Skyldar tegundir

Hringmáfur (Larus delawarensis) er árviss gestur hér landi frá Norður-Ameríku.

Hann sést á öllum tímum árs, en er þó algengastur á vorin, í apríl og maí. Hringmáfar dvelja stundum langdvölum á sama stað. Flestar athuganir eru á sunnanverðu landinu, frá Borgarfirði og austur á Höfn. Hringmáfur er mjög líkur stormmáfi, en ívið stærri, með höfuðlag stórra máfa. Enni er lægra og goggur stærri, vel afmarkaður svartur hringur fremst á skærugulum goggi á fullorðnum fuglum. Hringmáfur er með meira dökkt í vængbroddum, minni hvíta bletti og á sitjandi fugli er hvíti bletturinn milli svartra vængbrodda og grárra vængja minni en á stormmáfi. Ungfuglar eru svipaðir, ungir stormmáfar eru með svartan goggbrodd og á 2. vetri með hring, en þekkjast þó á höfuðlaginu. Algengasti ameríski máfurinn hér við land, sem og annars staðar í Evrópu.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson