Súla (Morus bassanus)


Súlan telst til súluættar og var lengi talin til árfætla eða pelíkanfugla (Pelicaniformes), þeir draga nafn sitt af því að fuglarnir hafa sundfit milli allra fjögurra tánna (auk súlu tilheyra díla- og toppskarfur ættbálknum hér á landi). En með nútíma DNA tækni hefur allri flokkunarfræði verið umbylt. Höfundur treystir sér ekki til að fara nánar útí þá sálma hér.

Útlit og atferli

Súla er stór, ljós og rennilegur sjófugl. Fullorðin súla er nær alhvít, með gulleitan haus, sem lýsist á veturna, og svarta vængenda. Vængir eru langir, oddmjóir og stélið fleyglaga. Kynin eru eins. Ungfugl er margbreytilegur að lit en þó alltaf auðþekktur á stærð, lögun og hegðun frá öðrum sjófuglum. Nýfleygir ungar eru aldökkir með ljósum dílum, en lýsast smám saman þangað til þeir skrýðast fullorðinsbúningi fjögurra ára gamlir. Þeir byrja að lýsast að neðan, svo á höfði, hálsi og bringu, síðan á vængjum og síðast armflugfjöðrum og stéli.

Goggur er súlunnar er langur, oddhvass og blágrár að lit. Fætur grásvartir með ljósgrænum langröndum. Augu ljósblágrá með kóbaltbláum augnhring. Fiðurlaus húð er umhverfis augu að goggi.

Súlan er oft nefnd drottning Atlantshafsins vegna þess hve tíguleg hún er. Er venjulega félagslynd og flýgur oft í litlum hópum lágt yfir haffleti. Flugið er kraftmikið með djúpum vængjatökum, brotið upp af svifflugi með lítið eitt aftursveigðum vængjum. Er fremur létt á sundi.

Gefur frá sér rám, geltandi hljóð á varpstöðvum.

Súluhreiður í Skrúðnum.

Súluvarpið í Karli við Skoruvíkurbjarg.

Súlur á flugi við Garð á Rosmhvalanesi, nokkrir fuglar eru í ungfuglabúningi.

Tveggja ára súla við Skoruvíkurbjarg.

Lífshættir

Súlukast er það kallað þegar súlan stingur sér eftir æti með aðfelldum vængjum, lóðrétt úr allt að 40 m hæð, en einnig á ská úr minni hæð á grunnu vatni.  Fæðan er fiskur, eins og síld, loðna, makríll, þorskfiskar, sandsíli o.fl., jafnvel úrgangur frá fiskiskipum.

Súlan er úthafsfugl, sem verpur í þéttum byggðum á sæbröttum eyjum, stöpum eða í björgum. Gerir stóran hreiðurhrauk úr þangi, þara og ýmsu drasli, notar drit og leir til að líma hreiðurefnin saman.

 

Útbreiðsla og stofnstærð

Varpheimkynni súlunnar, auk Íslands, er beggja vegna Atlantsála: í Kanada, Færeyjum, á Bretlandseyjum, stærstu vörpin eru í Skotlandi, í Noregi, Þýskalandi og Frakklandi. Hún er nýfarin að verpa á Kólaskaga í Rússlandi og á Bjarnarey. Vel hefur verið fylgst með súlustofninum á varpstöðvum hennar.  Talningar hafa farið fram í öllum íslenskum byggðum á 5−10 ára fresti frá 1977. Sumar byggðir hafa verið vaktaðar allt frá árinu 1913. Stofninn telur nú um 37.000 pör og hefur vaxið stöðugt um langt skeið, um tæp 2% á ári. Vörpin eru aðeins fimm, ef vörpin í Eyjum eru talin sem eitt. Eldey var löngum langstærsta byggðin en nú hafa vörpin í Vestmannaeyjum náð henni. Alls verpa á þessum tveimur svæðum um sunnanvert landið um 30.000 pör. Hinar þrjár byggðirnar eru á austanverðu landinu: í Skrúði (rúmlega 6.000 pör), Skoruvík á Langanesi (656 pör) og Rauðanúpi á Melrakkasléttu (655 pör). Súlan er eini íslenski sjófuglinn sem ræður við makrílinn og gæti landnám hans, illu heilli, á íslensku hafsvæði, ýtt undir fjölgun hennar.

Súlan er talin farfugl en hún hverfur aðeins frá landinu í stuttan tíma, frá október til desember. Vetrarstöðvar eru í Norður-Atlantshafi. Íslenskar súlur hafa fundist á Grænlandi og með ströndum Vestur-Evrópu suður til Vestur-Afríku.

Súla að lenda í Skoruvíkurbjargi.

Ársgömul súla við Skoruvíkurbjarg.

Súla stingur sér í Kolgrafarfirði.

Súla undirbýr stungu í Kolgrafarfirði.

Þjóðtrú og sagnir

Íslensk þjóðtrú geymir ekki mikið um súluna. Hún var talin boða góðan afla, eins og margir aðrir sjófuglar.

Hægt er að fylgjast með lífi súlunnar í varpi í beinu streymi á vefnum eldey.is.

Hrafnar flugu úr huga okkar frjálsir
Súlur svömluðu
með rótfestu okkar alsetta verndarorðum

Súlur og hrafnar:
Boginn og örvarnar
Tréð og söngur fuglanna
Staðfestan og hugarflugið

úr Ljóðnámuland eftir Sigurð Pálsson

Þar er hafsúla og már,
þar er haftyrðill smár,
þar eru hrafnar, lundar og skarfar.
Þar er æður og örn
þar sín ótalmörg börn
elur svartfugl og skegglurnar þarfar.

Úr Skrúðsbóndanum eftir Ólaf Indriðason

Súlukast í Kolgrafarfirði.

Súla í Skrúðnum.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson