Þórshani (Phalaropus fulicarius)

Þórshani er sundhani, líkt og óðinshani og amerískur frændi þeirra, freyshani.

Þórshani er dálítið stærri en óðinshani. Sumarbúningur hans er rauðbrúnn að neðan en með áberandi ljósum og dökkum röndum að ofan. Kvenfugl er með svartan koll, goggrót og kverk og hvítan vanga, karlfugl er litdaufari, með rákóttan koll og oft með ljósa bletti á bringu og kviði. Vængbelti eru hvít. Á veturna er þórshani ljósblágrár að ofan en ljós að neðan, með dökka augnrák. Ungfugl er svipaður en dekkri á kolli, hnakka, baki og síðum. Goggur er gulur, nema dökkur fremst, og gildari en goggur óðinshana; hann dökknar á veturna. Fætur eru gráleitir með gulum sundblöðkum, augu dökk.

Þórshani sést oftast á sundi, hann er hraðfleygur þegar hann hefur sig á loft. Þórshani liggur hátt í vatninu og skoppar á vatnsborðinu. Hann er gæfur, eins og óðinshani.

Þórshani er líkur óðinshana í háttum. Í tilhugalífinu á kvenfuglinn frumkvæðið og það er karlfuglinn sem sér um álegu og ungauppeldi, en kerlan lætur sig hverfa strax eftir varpið og getur stundum verið í tygjum við fleiri en einn karl (fjölveri). Dömurnar safnast saman í hópa og frílista sig meðan karlarnir streða við uppeldið. Þessi femínismi er líka við lýði hjá hinum sundhönunum: óðinshana og freyshana.

Röddin er lík rödd óðinshana, en hvellari.

Þórshanahjón, kerlan til hægri.

Þórshanahjón, kerlan til vinstri.

Lífshættir

Notar svipaðar aðferðir við fæðuöflun og óðinshani, hann hringsnýst á sundi og þyrlar upp fæðu, dýfir gogginum ótt og títt í vatnið og tínir upp smádýr eins og rykmý, brunnklukkur, smákrabbadýr, tínir einnig rykmý af tjarnarbökkum og landi.  Úti á sjó etur hann svif. Í fjörum tekur hann þangflugulirfur, doppur og önnur smáskeldýr.

Er meiri sjófugl en óðinshani. Á sumrin heldur hann sig helst við sjávarlón, í fjörum með þanghrönnum og á grónum jökulaurum með tjörnum og lækjum. Hreiðrið er grunn laut, falin í gróðri. Eggin eru fjögur, útungun tekur 18-20 daga og ungar verða fleygir á 16-20 dögum.

Stofnstærð og útbreiðsla

Hér eru aðeins tæplega 300 fuglar í smáum byggðum umhverfis landið. Þórshani er með sjaldgæfustu varpfuglum okkar og er í útrýmingarhættu. Hann er á válista sem tegund í hættu (EN) og er stranglega bannað að nálgast hreiður hans nema með leyfi umhverfisyfirvalda. Þórshani dvelur aðeins 1−2 mánuði á varpstöðvunum. Fuglar sem sjást fram í október eru ef til vill fargestir frá heimskautalöndum. Talið er að vetrarstöðvarnar séu í Atlantshafi, nálægt miðbaug. Þórshani er hánorrænn fugl sem verpur víða við strendur landanna umhverfis Norðurheimskautið en þó hvergi í Evrópu nema á Íslandi, Svalbarða og Novaja Zemlja.

Þórshanakarl á flugi.

Þórshanahjón, karlinn ofar.

Þjóðtrú og sagnir

Fátt er um svo sjaldgæfan fugl í íslenskri þjóðtrú. Kunnasti varpstaður þórshana – líklega á heimsvísu – var um tíma á Eyrum, nærri Hraunsárósi. Þangað sóttu fuglaskoðarar og eggjasafnarar víða að til að berja þennan sjaldgæfa fugl augum eða ræna eggjum hans. Hann hvarf að mestu frá Eyrum um eða uppúr 1980. Ísólfur Pálsson frá Stokkseyri, faðir Páls tónskálds og organista, segir svo frá: „Þórshaninn, hinn undurfallegi miðsumarsfugl, sem kemur hingað aðeins til að verpa og er svo horfinn áður en varir, á einnig skilið að kallast hygginn. Spói er að vísu klókur, heiðlóa hyggin og jaðrakan jafnslungið að láta ekki vita um eggin sín, en þórshaninn er þeim öllu snjallari í klókindum. Hann verpur á þröngum stöðum, á vatnafitjum, heiðabörðum nálgægt vötnum, á sjávarbökkum og oft í götubrúnum við alfaravegi, og er þá vanur að liggja kyrr, hversu mikil umferð sem er, og unga þannig út í næði. Fljúgi hann af eggjum, fer hann beint uppí loftið, bregður máske á leik og flýgur svo í sama hasti eitthvað langt burt og sezt á vatn eða sjó. Fari maður svo á eftir honum, situr hann oftast uppi á þurru, er að er komið, og er að kroppa sig, læzt ekki taka eftir neinu, og má ganga mjög nærri honum án þess hann styggist. Kvenfuglinn hagar sér líkt og karlfuglinn. Það þykir merki þerritíðar, ef þórshanar og óðinshanar verpa lágt, sem kallað er. Þeir verpa t.d. stundum niðri í vatnsfarvegum, er lágt er í, og er margreynt, að ekki rignir svo mikið útungunartímann (3 vikur), að það komi að sök, þó að lega hreiðranna sé þannig, að það ekki þurfi nema eins dags regn til þess að flæði yfir það. Verpi þeir aftur á móti hátt í heiðabörðum, þó að vatnslítið sé og þurrkar hafi gegnið, þá mun varla bregðast, að rosi og óþerritíð komi, er að túnaslætti líður. Og oft hefur vaxið svo í vötnum, að flætt hafi upp að hreiðrum þeirra, en ekki lengra.“ (Eimreiðin 1941 (47, 4): 396-401).

Óðinshana- og þórshanahjón, frá vinstri: óðinshanakerla, óðinshanakarl, þórshanakarl og þórshanakerla.

Þórshanahjón á góðri stundu.

Ungur þórshani á fyrsta hausti.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson