Tjaldur (Haematopus ostralegus)


Vaðfuglar tilheyra allir sama ættbálki, strandfuglum (Charadriiformes), ásamt máfum og svartfuglum. Einkenni margra vaðfugla eru langur goggur, langir fætur og langur háls. Þeir eru dýraætur sem eta alls konar hryggleysingja. Vaðfuglar helga sér óðal og verpa pörin stök. Hjá flestum vaðfuglum ala báðir foreldrarnir önn fyrir ungunum sem yfirleitt eru bráðgerir og yfirgefa hreiðrið strax og þeir eru orðnir þurrir.

Útlit og atferli

Tjaldurinn er auðgreindur á stærð og lit en hann er í hópi stærstu vaðfugla sem verpa á Íslandi. Hann er svartur um bak, höfuð og háls niður á bringu en hvítur að neðan. Á svörtum vængjunum eru hvít belti mjög áberandi. Stélið er hvítt með svörtum bekk og hvítur fleygur frá því upp á bak. Goggurinn er langur og rauðgulur, fætur bleikrauðir og sterkbyggðir. Augu eru hárauð. Á ungfugli er hvítur blettur á kverk, hann er móskulegri á lit en sá fullorðni og goggurinn er dökkur fremst.

Tjaldur við vatnið Þveit í Nesjum, Hoffellsjökull fjær.

Ungur tjaldur í Sandgerðisfjöru.

Tjaldar við Stokkseyri

Tjaldur er hávaðasamur og félagslyndur fugl. Hann er kröftugur flugfugl en vængjatökin eru ekki djúp. Hann flýgur venjulega fremur lágt. Á vorin stíga tjaldar oft á tíðum sérkennilegan dans með miklum hljóðum, stundum kallaður blístursdans og eru þátttakendur í honum gjarnan þrír fuglar. Þetta er oftast nær staðbundið par og aðkomufugl, gjarnan nágranni og er dansinn óðalsbundinn. Tjaldurinn er einn fárra vaðfugla sem matar unga sína, sem gerir það að verkum að hann getur orpið á stöðum þar sem enga fæðu er að hafa, eins og á húsþökum.

Köll tjalds er hvellt og gjallandi blíbb en annars gefur hann frá sér margvísleg hljóð.

Tjaldar á farflugi taka land í Mýrdal.

Tjaldspar fóðrar unga á ánamaðki á Seltjarnarnesi.

Tjaldur á hreiðri á Stokkseyri.

Tjaldur með unga á húsþaki í Ármúla, Reykjavík.

Tjaldur á Stokkseyri færir ungum sínum ánamaðk.

Lífshættir

Tjaldurinn grefur eftir sandmaðki í fjörunni, tekur krækling og aðra hryggleysingja og beitir löngum, sterklegum goggnum til þess arna. Inn til landsins eru ánamaðkar aðalfæðan. Hann leitar að fæðu með því að pota goggnum ótt og títt í mjúkt undirlagið.

Tjaldur verpur einkum í möl og sandi nálægt sjó en einnig við ár og vötn inn til landsins, stundum í grónu landi og oft í vegköntum, stöku sinnum á húsþökum. Eggin eru oftast þrjú, útungunartíminn er 24–27 dagar og ungarnir verða fleygir á 28–32 dögum. Hreiðrið er grunn dæld í sendinni jörð eða möl, ávallt á berangri, fóðrað innan með þurrum gróðri, smásteinum og skeljabrotum. Tjaldurinn heldur til í fjöru utan varptíma.

 

Útbreiðsla og stofnstærð

Tjaldur er að mestu farfugl. Hann var áður sjaldgæfur á Norður- og Austurlandi en hefur náð þar fótfestu á síðustu áratugum. Landnámið stendur hugsanlega enn yfir, t.d. á Ströndum, en þar fjölgaði fuglum verulega á árunum 1995 til 2007. Varpstofninn er talinn vera 10.000–20.000 pör. Meirihlutinn heldur til Bretlandseyja á haustin en um 5.000–10.000 fuglar eyða vetrinum í fjörum frá Reykjanesskaga og norður í Breiðafjörð, svo og á Suðausturlandi. Heimkynni tjalds eru annars mjög víða við strendur Evrópu og austur um meginland Asíu, austur að Kyrrahafi.

Þar sem tjaldi hefur fækkað víða, er hann nú á heimsválista sem tegund í yfirvofandi hættu (NT) og á Evrópuválista sem tegund í nokkurri hættu (VU).

 

Þreyttir tjaldar nýkomnir til landsins í Eyrarbakkafjöru.

Tjaldar á fjörusteini í Hafnarfirði.

Þjóðtrú og sagnir

Íslensk þjóðtrú geymir ekki margt um tjaldinn. Í norskri þjóðtrú er hann vorboði og spáfugl um veðurfar komandi sumars. Jafnframt sagði hann fyrir um hjónabönd og barneignir. Hann er þjóðarfugl Færeyinga og tákn um sjálfstæðisbaráttu þeirra. Þar er hann einnig vorboði og miða bæði Færeyingar og Norðmenn við komudaginn 12. mars. Hann er jafnframt vorboði víða hérlendis, þegar tjaldurinn heyrist fyrst kalla að næturlagi í lok mars er vorið í nánd.

Rauðfættur fuglinn í fjörunni,
hann kann ekki að kreppa sig í körinni,
eingan ber hann ótta fyrir örinni,
ekki heldur tekur hann á tjörunni,
svo snillilega sneiðir hann hjá snörunni.

Í hámálinu hreykir hann sér,
heyrast má þar skvaldur,
svartan kufl á baki ber
blóma dreginn faldur.
Nefið rautt við nasaker
nú er þetta tjaldur.
Þulubörnin þakki mér,
að þessu er ég valdur.,

Fuglinn í fjörunni,
hann heitir tjaldur.
Það er svo gott að verja það,
sem maður er ekki valdur.
Fuglinn í fjörunni.

Fuglinn í fjörunni,
fullur er hann með galdur.
Skjóttu’ hann ekki’ á helgum degi,
því hann heitir tjaldur –
þar sem öðlíngar fram ríða.

– Úr Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur. Jón Árnason og Ólafur Davíðsson 1887–1903.

Enginn í eyðidal

Þegar komið er í eyðidal er ekkert.
Aðeins gróður. Gróður upp í háls.

Þegar komið er í eyðidal er ekkert.
Aðeins rústir. Rústir tveggja bæja.

Þegar komið er í eyðidal er ekkert.
Aðeins ein kirkja. Kirkja með krosslausum turni.

Þegar komið er í eyðidal er ekkert.
Aðeins þú. Aðeins þú sjálf
og hundspakur tjaldur við læk.

Þegar komið er í eyðidal er ekkert.
fyrir utan tjaldinn og þig

og tvo menn uppi í kirkjuturni.
Þeir negla kross á kollóttan turninn
og fylla dalinn af höggum.

– Steinunn Sigurðardóttir

Texti og myndir: Jóhann Óli Hilmarsson