Horft í suðaustur yfir Víti og Öskjuvatn.

Geldingadalir

Geldingadalir eru í miðju miðlungsstórs móbergsfjallaklasa sem er í heild sinni kenndur við stærstu bunguna, en hún nefnist Fagradalsfjall. Toppur Fagradalsfjalls er með þeim hæstu á Reykjanesskaga vestan Brennisteinsfjalla, í um 385 metra hæð yfir sjávarmáli. Neðri hlutar fjallsins eru úr móbergi en á toppi þess er umfangsmikil hraunhetta. Móbergið í Fagradalsfjalli myndaðist undir jökli á síðasta jökulskeiði en hraunhettan rann eftir að gosið náði upp úr ísaldarjöklinum. Elstu hlutar fjallgarðsins umhverfis eru hins vegar eldri og ef til vill nokkurra tugþúsunda ára gamlir. Eftir að jökla leysti fyrir um 14–10 þúsund árum hefur fjöldi misstórra gosa orðið á svæðinu vestur og norður af fjallaklasanum.

Reykjanesskagi

Kort af Reykjanesskaga. Geldingadalaeldstöðin er merkt með rauðri stjörnu.

Eldstöðvakerfi Íslands

Eldstöðvakerfi á Íslandi (Náttúrufræðistofnun Íslands)

Umgjörð

Eldvirkni á Reykjanesgosbeltinu á rætur að rekja til flekaskila tveggja jarðskorpufleka, Norður-Ameríkuflekans í vestri og Evrasíuflekans í austri. Þeir gliðna í sundur á Atlantshafshryggnum, sem liggur á nokkurra kílómetra dýpi í sjónum eftir endilöngu Atlantshafinu. Á Íslandi rís hann hins vegar upp úr hafinu og liggur ofan sjávar í gegnum landið frá Reykjanestá í suðvestri norður í Öxarfjörð. Auk þess situr Ísland á djúpum möttulstrók, eins konar stöpli heits bergs sem rís djúpt úr möttlinum upp undir landið. Möttullinn myndar megnið af rúmmáli jarðar og liggur á milli kjarna jarðar og jarðskorpu (sjá þversnið). Þegar heitt möttulbergið í möttulstróknum nálgast yfirborð jarðar tekur það að bráðna og mynda kviku. Það gerist fyrst á um 100 km dýpi ofan í jörðinni en kvikukmyndunin eykst eftir því sem ofar er komið í möttlinum. Þessi tvö ferli, gliðnun jarðskorpuflekanna og ris möttulstróksins undir landið, gera það að verkum að Ísland er eitt allra eldvirkasta svæði jarðar. Eldvirknin liggur á öllu gliðnunarbelti landsins auk þriggja hliðarsvæða á Snæfellsnesi, frá Landmannalaugum suður í Vestmannaeyjar og í Öræfajökli. Eldvirknin skiptist í fjölda sjálfstæðra eldstöðvarkerfa, oftast með stóra megineldstöð í miðju kerfisins. Meðal þeirra mikilvirkustu má nefna Heklu, Kötlu, Grímsvötn, Bárðarbungu og Kröflu.

Oft er horft á Fagradalsfjall og umhverfi þess sem sjálfstæða einingu, sérstakt eldstöðvakerfi á Reykjanesskaganum. Það er þó skilgreiningaratriði og mismunandi hvort jarðfræðingar skipta eldvirkninni á skaganum upp í þrjú til fimm sjálfstæð eldstöðvakerfi sem hvert hefur sín sérkenni. Hér verður ekki tekin afstaða til þess eða farið dýpra í þau fræði. 

Gossaga

Umfangsmesta hraunið við Fagradalsfjall frá lokum síðasta jökulskeiðs, og raunar eitt af þeim allrarúmmálsmestu á Reykjanesskaga, rann fyrir um 14 þúsund árum og nefnist það Þráinsskjöldur. Hann er gríðarstór dyngja, um 5–6 km³, og hefur að öllum líkindum komið upp í rólegu en áratugalöngu gosi. Þráinsskjöldur gengur nú í sjó fram á Vatnsleysuströnd og liggur Reykjanesbraut að stórum hluta um hann norðanverðan þar sem heitir Strandarheiði. Fjallað verður frekar um dyngjur hér að neðan.

Eftir Þráinsskjaldargosið hafa mörg minni gos orðið á svæðinu en ekkert þeirra í líkingu við Þráinsskjöld. Þessi gos hafa flest komið upp um gossprungur og hraun runnið tiltölulega stuttan veg. Yngst þessara hrauna er Beinavörðuhraun sem er að minnsta kosti 6 þúsund ára gamalt. Þar til 19. mars 2021 hafði því ekki gosið við Fagradalsfjall í meira en 6 þúsund ár þótt fjöldi gosa hafi orðið annars staðar á skaganum.

Aðdragandi

Hin glænýja Geldingadalaeldstöð er um margt afar áhugaverð í jarðfræðilegu tilliti. Aðdragandinn að gosinu hefur verið nokkuð langur, hófst í upphafi árs 2020 þegar greinileg merki sáust um kvikusöfnun undir fjallinu Þorbirni norður af Grindavík þegar bráðið berg tók að færast ofar í jarðskorpuna. Það ferli endurtók sig nokkrum sinnum, bæði við Þorbjörn og í Krýsuvík. Skjálftavirkni hefur verið mikil síðasta árið en 24. febrúar 2021 kom loks snarpur skjálfti, 5,7 að stærð, miðja vegu milli Fagradalsfjalls og Keilis. Skjálftahrinan fylgdi í kjölfarið og er hún sú mesta sem orðið hefur á Reykjanesskaganum frá upphafi mælinga. Um 50 þúsund skjálftar hafa mælst í vöktunarkerfi Veðurstofu Íslands. Hver skjálftinn rak annan, stærri á svæðinu en sést hafa undanfarin ár, og fundust þeir víða um land þótt Grindvíkingar hafi fundið langmest fyrir þeim.

Eldgosið í Geldingadölum

Gos hefst

Í byrjun mars sáust loks greinileg merki á gervihnattamyndum um að kvika væri að troðast upp í jarðskorpuna í norðvesturátt frá Fagradalsfjalli í átt að Keili. Þar var að myndast svokallaður kvikugangur, lóðréttur og örfárra metra þykkur fylltur af bráðinni kviku, sem náði djúpt neðan að upp í jarðskorpuna. Mælingar bentu til þess að efsti hluti gangsins væri á aðeins nokkurra kílómetra dýpi og í því ljósi var hættan á eldgosi mikil ef kvikan næði að komast upp á yfirborð. Þann 3. mars varð óróapúls þegar hrina lítilla skjálfta mældist og var það merki um kvikuhreyfingar en kvikan rataði ekki upp á yfirborð í það sinn. Annar óróapúls varð örfáum dögum síðar án eldgoss en skjálftavirkni dvínaði þó nokkuð eftir það og um tíma virtist virknin jafnvel vera að koðna niður. Að kvöldi föstudags 19. mars urðu Suðurnesjabúar hins vegar varir við bjarma uppi á fjöllum Reykjanesskagans og ljóst að eldgos var hafið.

Upphaf eldgossins

Upphaf eldgossins var tíðindalítið og kom mörgum á óvart. Gosórói sem fylgir upphafi eldgosa greindist varla á mælum fyrr en rýnt var í gögnin síðar. Það er þó ekki í fyrsta skipti sem slíkt gerist, upphaf Fimmvörðuhálsgossins 2010 var svipað og eldri kynslóð jarðvísindamanna mundi eftir svipaðri atburðarás frá því í Kröflueldum á 8. og 9. áratugnum. Fljótlega kom í ljós að gosið var smátt í sniðum; eldvirknin var lítil á stuttri sprungu í miðjum Geldingadölum og bjuggust flestir við því að það myndi fjara hratt út, jafnvel á örfáum klukkutímum eða dögum enda var gangur þess ákaflega hægur strax í upphafi miðað við flest sprungugos undanfarinna áratuga.

„Frumstæð kvika“ djúpt úr iðrum jarðar

Snemma varð þó ljóst að kvikan sem kom upp í Geldingadölum barst djúpt að og hafði aðra efnasamsetningu heldur en kvikan í flestum gosum okkar tíma. Í slíkum tilvikum tala jarðfræðingar um „frumstæða kviku“. Efnasamsetningin bendir til þess að kvikan berst af miklu dýpi og staldrar ekki við í jarðskorpunni á leið sinni upp á yfirborð.

Í flestum öðrum eldgosum á Íslandi frá því landið byggðist bendir nefnilega efnasamsetning kvikunnar sem kemur upp til þess að hún hafi stöðvast um hríð á nokkru dýpi í jarðskorpunni og safnast þar saman í eins konar kvikupoka, sem jarðfræðingar kalla kvikuhólf. Kvikuhólf geta verið misstór og á mismiklu dýpi, en ef kvikan geymist lengi í þessum kvikuhólfum án þess að berast upp á yfirborð breytist efnasamsetning hennar smám saman. Hún aðskilur sig, svolítið eins og mjólk sem skilur sig í undanrennu og rjóma. Kvikan getur einnig brætt aðliggjandi berg út frá sér, og þá mengar hið bráðna berg kvikuna eilítið með öðrum frumefnum. Eftir slík ferli er kvikan sögð hafa „þróast“ og er þá talað um „þróaða“ kviku. Basaltið sem kemur nú upp í Geldingadölum er mun frumstæðara heldur en mestallt basalt sem komið hefur upp á Reykjanesi síðustu þúsundir ára.

Í tilviki Geldingadalagossins bendir hlutfall mismunandi frumefna og kristalla í kvikunni til þess að hún komi beint af um 15 km dýpi eða jafnvel meira. Mörk jarðskorpu og möttuls eru á þessu bili og því er hægt að segja að kvikan komi nánast beint upp úr möttlinum. Bergið í möttlinum hefur aðra samsetningu heldur en megnið af jarðskorpunni og því er mögulegt að sjá á efnasamsetningu hrauna hversu skyld þau eru möttulberginu neðan við jarðskorpuna. Helsta efnafræðilega einkenni hinnar frumstæðu kviku er hátt hlutfall frumefnisins magnesíums (Mg) en margfalt meira er af því í möttlinum heldur en jarðskorpunni. Innbyrðis hlutföll annarra frumefna í kvikunni eru einnig ólík eftir því hvort kvika er frumstæð eða þróuð. Mikið magnesíum í Geldingadalahrauni má raunar sjá ef rýnt er í hraunmola þaðan, sem margir hafa nú þegar nælt sér í. Ef vel er að gáð sjást stórir stakir kristallar í hrauninu. Slíkir kristallar, sem skera sig úr annars gráleitum hraunmassanum, eru kallaðir dílar. Flestir stóru kristallanna í Geldingadalahrauninu eru hvítir og nefnast plagíóklas, en einnig má finna litla flöskugræna kristalla. Þeir nefnast ólivín og eru einmitt að miklu leyti úr magnesíum og því góð vísbending um að bergið sé frumstætt. Geldingadalagosið er því efnafræðilega töluvert skyldara bergi möttulsins heldur en mestöll kvika sem komið hefur upp á Íslandi undanfarin árþúsund.

Skjaldbreiður

Skjaldbreiður, dyngja norðan Þingvalla.

Stærðarsamanburður á dyngjutoppum á Íslandi (byggt á Rossi 1996).

Dyngjutímabil í lok ísaldar

Við lok síðasta jökulskeiðs kom upp fjöldi gríðarstórra dyngjuhrauna víða á gosbeltinu sem liggur um Ísland frá Reykjanestá norður í Öxarfjörð. Þráinsskjöldur norðan Fagradalsfjalls er gott dæmi um dyngju. Þekktustu og stærstu dyngjurnar eru fjöll eins og Skjaldbreiður og Trölladyngja norðan Vatnajökuls, sem eru tugir rúmkílómetra, og e.t.v. allt að 50 km³. Dyngjugos voru margfalt algengari í lok ísaldar, fyrir um 14–10 þúsund árum, heldur en þegar nær dregur okkar tíma. Nokkurn veginn á sama tímabili mynduðust raunar einnig risastórir stapar eins og Eiríksjökull, Hlöðufell og Herðubreið. Staparnir eru sambærilegar gosmyndanir og dyngjurnar en urðu til þegar ísaldarjökullinn lá enn yfir landinu. Þetta dyngju- og stapagostímabil var í lok síðasta ísaldarskeiðs þegar þungur ísaldarjökullinn var að hverfa af landinu. Jökullinn var allt að tveggja kílómetra þykkur og hafði lagst með öllum sínum þunga ofan á jarðskorpuna og þrýst henni niður. Þegar jökulinn leysti varð því afar umfangsmikill þrýstingsléttir í jarðskorpunni og efst í möttlinum. Þetta hleypti nokkuð sérstöku ferli af stað þar sem heitt berg djúpt í jörðinni tók skyndilega að bráðna, einfaldlega vegna sjálfs þrýstingsléttisins. Við þetta jókst kvikumyndun undir landinu ákaflega, og er talin hafa verið allt að 30 sinnum meiri en nú. Svipað ferli mun raunar mögulega eiga sér stað á okkar tímum við hvarf jökla vegna loftslagsbreytinga en þó í miklu minna mæli.

Eftir þetta afkastamikla dyngjugosatímabil í lok síðasta jökulskeiðs hafa sprungugos hins vegar einkennt gosvirkni á Íslandi, og má þar sem dæmi nefna Holuhraunsgosið 2014–2015, Skaftárelda (Lakagíga) 1783–1784, Veiðivatnagosið 1477 og Eldgjárgosið á 10. öld. Nokkrar dyngjur hafa þó myndast undanfarin árþúsund svo sem Leitahraun austan Vífilsfells, sem rann fyrir um 5.200 árum. Taumur þessa dyngjuhrauns rann til norðvesturs alla leið niður í Elliðaárdal og myndaði á þeirri leið bæði Rauðhóla og Tröllabörn. Það eru því til dæmi um dyngjugos undanfarin árþúsund þótt langflestar dyngjur Íslands hafi myndast við lok síðasta ísaldarskeiðs.

Einkenni dyngna

Dyngjur einkennast af nokkrum þáttum. Hraunrennslið sjálft er lítið og kvikan þunnfljótandi. Vegna þessa er svokallað helluhraun áberandi í dyngjugosum. Helluhraun er slétt, auðvelt yfirferðar og einkennist af fallegum hraunreipum. Hraunreipi myndast á yfirborði þegar efsta lag hins þunnfljótandi hrauns storknar og leggst í fellingar meðan hraunmassinn undir heldur áfram að hreyfast. Þetta er ekki ósvipað skán á yfirborði heits súkkulaðis. Annað einkenni helluhrauns er að hraunið rennur oft í hraunrásum neðanjarðar frá eldstöðinni. Í lok goss geta hraunrásirnar tæmst og eftir standa hellar þar sem hraunið rann áður.

Annað einkenni dyngna er að gígopið sjálft er í miðju fjallsins og yfirleitt eitt og stakt, þótt gosið hafi að öllum líkindum upphaflega hafist á stuttri sprungu. Með tímanum hafa því gígarnir á sprungunni sameinast í einn aðalgíg sem flætt hefur lengi upp úr. Hlíðar dyngna eru mjög aflíðandi, oft með halla upp á aðeins 2–3° og líkjast þær flötum diski eða hringlaga skildi á hvolfi, eins og nafn Skjaldbreiðar ofan Þingvalla er til marks um. Skjaldbreiður hefur einmitt gefið dyngjum nafn sitt á erlendum málum, fyrir tilstilli þýskra jarðfræðinga sem rannsökuðu eldfjöll á Íslandi í upphafi 20. aldar.

Tilkomumestu dyngjurnar eru umfangsmikil, hringlaga fjöll eins og Skjaldbreiður og Trölladyngja norðan Vatnajökuls. Þær eru báðar gríðarstórar og hafa myndast í rólegum en ákaflega langvinnum eldgosum, sem staðið hafa í áratugi eða jafnvel meira en öld. Vegna hins hæga rennslis renna dyngjuhraun ekki langar leiðir heldur hlaðast hraun þeirra upp þótt ystu hraunflákarnir geti þó náð býsna langt frá gígopinu í miðju dyngjunnar. Þetta er andstætt kröftugum og rennslismiklum sprungugosum þar sem gýs á löngum sprungum. Hraun sprungugosa geta runnið tugkílómetra langar leiðir, svo sem í Lakagígagosinu og Eldgjá. Lengsta hraun sem runnið hefur á Íslandi frá lokum síðasta ísaldarskeiðs er hið mikla Þjórsárhraun sem kom upp á langri sprungu fyrir um 8600 árum á öræfunum vestan Vatnajökuls og rann um 130 km leið niður að sjó við Eyrarbakka og Stokkseyri.

Þunnfljótandi helluhraun

Þunnfljótandi helluhraun í Geldingadölum.

Þunnfljótandi helluhraun

Hraunkantur í Geldingadölum með fallegum hraunreipum.

Er Geldingadalagosið dyngjugos?

Því hefur verið fleygt að gosið í Geldingadölum sé einmitt svokallað „dyngjugos“. Það er þó málum blandið. Efnasamsetning kvikunnar sem kemur upp líkist mjög efnasamsetningu þess hrauns sem myndar stóru dyngjurnar á Reykjanesskaganum og annars staðar á landinu. Þetta er því „dyngjuhraun“ ef aðeins er horft til efnasamsetningar kvikunnar. Hvort þetta gos muni að lokum mynda fullburða dyngju verður hins vegar ekkert sagt um á þessu stigi. Minni háttar dyngjur á Reykjanesskaga runnu í eldgosum sem tóku allt frá örfáum mánuðum upp í eitt til tvö ár, svo að það verður að bíða dágóða stund til að sjá hvort Geldingadalagosið muni að lokum mynda dyngju. Einnig er möguleiki á að efnasamsetning og hegðun eldgossins breytist á síðari stigum. Það er því enn óljóst hvernig gosið þróast og kannski skynsamlegra að bíða með að stimpla gosið sem „dyngjugos“ á þessu stigi nema í mjög þröngum jarðefnafræðilegum skilningi. Ef gosið stendur aftur á móti í marga mánuði eða nokkur ár er ekki ólíklegt að gígopið hlaði undir sig dágóðum aflíðandi hraunbunka og myndi þá að lokum dyngju.

Margur er knár þótt hann sé smár!

Hraunrennsli úr Geldingadalaeldstöðinni hefur verið metið með því að mæla þykkt og umfang hraunsins úr lofti, bæði á gervitunglamyndum og úr loftförum. Miðað við hraunmagn og tíma frá upphafi gossins er rennslið talið vera um 5–6 rúmmetrar á sekúndu. Það er örlítið meira en meðalrennsli Elliðaánna í Reykjavík og virðist ekki mikið við fyrstu sýn. Til samanburðar var rennslið í Holuhraunsgosinu talið um 100 rúmmetrar á sekúndu, eða hér um bil tuttugu sinnum meira en í Geldingadölum. Rennslið er enn smærra í sniðum borið saman við allra stærstu hraungos Íslandssögunnar eins og Skaftárelda. Í Lakagígum er talið að hraunrennslið hafi verið mest um 5–6 þúsund rúmmetrar á sekúndu, sem er um þúsund sinnum meira en í Geldingadalagosinu.

Á þeim mælikvörðum sem gjarnan eru notaðir á stærð eldgosa, svo sem rennsli og sprengivirkni er Geldingadalagosið því afar lítið. En þetta eru ekki einu mælikvarðarnir á stærð eldgosa. Magn gosefna er ekki síðra viðmið. Rúmmálsmestu dyngjurnar eru sem fyrr segir taldar hafa haft mjög lítið rennsli og litla sem enga sprengivirkni. Gosin stóðu aftur á móti afar lengi. Rúmmál hinna allra stærstu varð því að lokum jafnmikið eða meira en í stærstu sprungugosunum. Margur er knár þótt hann sé smár!

Geldingadalagosið telst því enn sem komið er ansi lítið á flesta mælikvarða en með tíð og tíma gæti hins vegar mikið hraun streymt upp úr gosopinu. Lítið er þó hægt að fullyrða um það á þessari stundu. Það er aðeins hægt að bíða og sjá.

Eldfjallagas

Mikið hefur verið rætt um gastegundir og gasmengun við Geldingadalaeldstöðina. Kvika sem kemur upp í eldgosum er misjafnlega gasrík en gas í kviku er einn helsti drifkraftur kviku sem gýs upp úr iðrum jarðar. Djúpt ofan í jörðinni er allt gas meira og minna uppleyst í kvikunni vegna mikils þrýstings. Þegar kvikan rís upp og nálgast yfirborð jarðar minnkar þrýstingurinn sífellt og gas tekur að losna úr kvikunni. Það er svipað ferli og þegar tappi er tekinn af gosflösku. Í óupptekinni gosflösku er koltvísýringur uppleystur í vökvanum, ekkert gas sést í drykknum í flöskunni. Þegar tappinn er losaður verður skyndilegt þrýstingsfall, koltvísýringur losnar úr vökvanum og hann freyðir. Á leið kviku upp á yfirborð minnkar þrýstingur á sama hátt, sífellt meira gas losnar úr kvikunni og hún tekur að freyða. Gasið þenst einnig út og eykur rúmmál sitt margfalt. Útþensla gassins rétt neðan yfirborðs drífur kvikuna hratt upp á við svo að hún vellur í gosopinu eða þeytist jafnvel upp í háum gosstrókum. Kvika sem kemur upp í eldgosum er því í raun froðukennd blanda af bráðnu bergi og ýmsum gastegundum, ekki ósvipað þeyttum rjóma. Þetta sést vel á ferskum hraunmolum sem eru alsettir blöðrum, sem voru áður gasbólur og bera merki þess að kvikan hafi verið froðukennd þegar hún storknaði.

Sjálft gasið losnar bæði ofan við gígana í sjálfu eldgosinu og einnig við storknun hraunsins eftir að það rennur úr gígunum. Það fer eftir flatarmáli storknandi hraunflæmis hversu mikið gas stígur upp af því en við stærstu hraunbreiður getur gasmengun orðið gífurleg, líkt og móðan frá Skaftáreldahrauninu sem rann 1783–1784. Margvíslegar gastegundir koma upp með kviku en þær algengustu eru vatnsgufa (H₂O), koldíoxíð (CO₂) og brennisteinsdíoxíð (SO₂), en einnig töluvert af vetni (H₂), brennisteinsvetni (H₂S) og kolmónoxíði (CO). Aðrar gastegundir berast einnig upp en í miklu minna mæli. Gastegundirnar eru mishættulegar en þeim má skipta í tvo hópa. Annars vegar er gas sem er beinlínis eitrað, svo sem brennisteinsdíoxíð og brennisteinsvetni. Þær lofttegundir eru ákaflega ertandi, leggjast á öndunarfæri og taugakerfi, og eru lífshættulegar í miklu magni. Hinn hópurinn eru eðlisþungar gastegundir sem liggja næst jörðu og geta fyllt lægðir og rutt burt súrefni. Þar er helst um að ræða tegundirnar koldíoxíð og kolmónoxíð sem eru ósýnilegar og lyktarlausar. Meðvitund manna og skepna skerðist fljótt ef farið er niður í súrefnissnauðar lægðir. Hlutfall súrefnis í andrúmslofti er um 21% en með minnkandi styrk verður fólk ruglað og þreytt og finnur fyrir ógleði. Þegar hlutfallið fer niður fyrir 6–10% veldur það fljótt meðvitundarleysi og loks dauða ef fólki er ekki komið hið snarasta úr þeim aðstæðum. Það er hins vegar lífshættulegt að hlaupa til bjargar án súrefniskúts því þá lendir sú manneskja í sömu lífshættulegu aðstæðum. Þegir gengið er að gosstöðvunum er þess vegna alltaf öruggast að hafa vindinn í bakið og forðast allar lægðir og dældir í landslagi.

Lakagígar

Lakagígar sem mynduðust í eldgosi 1783–1784 (Anne Schöpa).

Geldingadalir gas

Gas stígur upp af hrauninu í Geldingadölum.

Gangur eldgossins og framhaldið

En hvernig gæti landslagið við Fagradalsfjall breyst ef gosið heldur áfram til langs tíma? Eldfjallafræði- og náttúruvárhópur Háskóla Íslands sem og Veðurstofan hafa útbúið hraunrennslislíkön, sem geta gefið okkur vísbendingar um hvert hraunið frá Geldingadalaeldstöðinni muni renna næstu vikur. Þegar þetta er skrifað, tíu dögum eftir að gosið hófst, takmarkast hraunið enn sem komið er við sjálfa Geldingadali en hefur þakið dalbotn þeirra að mestu. Botninn lá áður í um 180 m hæð yfir sjávarmáli en skörðin yfir í næstu dali liggja til austurs í Meradali í um 208 m hæð og til suðurs yfir í Nátthaga í rúmlega 220 m hæð. Hraunið í Geldingadölum þarf því að þykkna umtalsvert áður en það nær að skríða yfir í næstu lægðir. Hraunrennslislíkönin benda þó til þess að ekki sé langt í það og hraunið muni fyrst renna til austurs í Meradali. Með sama áframhaldi gæti það gerst snemma í apríl.

Út frá hæðarlínukorti af svæðinu má átta sig á hæðum og lægðum í landinu og hvar hallar undan fæti á hverjum stað. Til einföldunar má reikna með að hraunið renni undan halla og fylli lægðir áður en það rennur áfram. Myndin er þó í raunveruleikanum flóknari þar sem seigja hrauns er mikil og það hleðst iðulega upp áður en það rennur áfram niður í móti. Kort af rennslisleiðum frá Geldingadölum gefur þó ágæta mynd af líklegustu farvegum hraunsins, sem má ætla að leiti að mestu til austurs og norðurs áður en það tekur að renna til suðurs í átt að suðurströndinni.

Á meðfylgjandi korti má sjá mögulegan farveg hraunsins. Farvegurinn liggur sem fyrr segir fyrst til austurs um skarð í Meradali í um 208 metra hæð. Meradalir eru umfangsmiklir og mun eflaust taka langan tíma að fylla þá áður en hraunið rennur áfram. Hugsanlega gæti hraunið runnið í Nátthaga á leið sinni í Meradali en það þarf þó að skríða yfir örlítið haft til að ná þangað. Frá Meradölum liggur leiðin áfram til austurs um skarð í 135 metra hæð í átt að Sandfelli. Þar er nokkuð greið leið niður í móti í átt að Lyngbrekkum, þar sem hraunið mun falla niður að Suðurstrandarvegi, sem liggur í um 30 metra hæð. Við Suðurstrandarveg er nægt rými fyrir hraunið til að dreifa úr sér áður en það fellur svo út í sjó.

Öll spálíkön velta hins vegar augljóslega á því hve lengi gosið varir og örðugt að spá fyrir um hvar hraunið verður á hverjum stað fram í tímann. Rennslisleið niður í móti úr Geldingadölum hefur því ekkert raunverulegt forspárgildi um hve langt hraunið nær á endanum enda byggist það á hve lengi eldgosið varir. Sem stendur virðist gosvirknin stöðug og fátt benda til þess að gosið muni stöðvast í bráð þótt ekki sé mögulegt að fullyrða neitt um framhaldið. Ekki er vitað hversu mikil kvika er til staðar í kvikuhólfinu sem fæðir gosið og ómögulegt að spá fyrir um hve mikið magn muni á endanum koma upp. En ef gosið stendur í lengri tíma, nokkra mánuði eða jafnvel ár þá gæti að endingu töluvert hraun borist upp á yfirborð. Ef 5–6 rúmmetra rennsli helst til lengri tíma munu um 0,2 km³ af hrauni koma upp á ári. Til samanburðar komu um 1,4 km³ af hrauni upp á tæpum sex mánuðum í Holuhraunsgosinu. Geldingadalagosið þyrfti því að standa í sjö ár til að jafna Holuhraun og miklu lengur til að mynda stóra formfagra dyngju.

Farvegur hrauns

Mögulegur farvegur hrauns úr Geldingadölum (sjá frekari skýringu í texta).

Snæbjörn Guðmundsson, jarðfræðingur á Náttúruminjasafni Íslands