Jarðlagahalli

Af hverju halla fjöllin svona á Austfjörðum? Þegar horft er til fjalla fyrir austan mætti halda að annar endi þeirra sé að sökkva ofan í jörðina. Það er raunar ekki fjarri lagi. Jarðlögin halla niður á við inn til landsins í átt að gosbeltinu. Skýringarinnar er að leita í flekahreyfingum og fergingu eldri hrauna undir nýrri hraun. Flekahreyfingar valda því að hraun sem koma upp í eldgosum á gosbeltinu færast jafnt og þétt út frá miðju landsins. Samtímis koma sífellt nýrri hraun upp á yfirborðið í eldgosum og þessi yngri hraun flæða yfir eldri hraunin og þrýsta þeim niður. Eldri hraunin fergjast því og sökkva undir nýrri hraun og fá á sig jarðlagahalla niður á við í átt að gosbeltinu.