Basalt

Vissir þú að langstærstur hluti gosbergs á Íslandi er basalt? 

Basalt er algengasta hraunið í kringum okkur og myndast oftast í flæðigosum. Basísk kvika er heit og kísilsnauð, sem þýðir að kvikan er mjög fljótandi og því geta basalthraun runnið langt frá upptökum, jafnvel yfir hundrað kílómetra leið. Þjórsárhraun er til að mynda um 130 km langt, lengsta hraun sem runnið hefur á Íslandi eftir ísöld og mögulega á jörðinni. 

Basalt er samt sem áður ekki alltaf eins. Það fer eftir efnasamsetningu hvaða kristallar myndast í basaltinu en oftar en ekki er basalt með svokölluðum dílum sem eru stórir kristallar sem við getum séð með berum augum. Af þeim eru hvítir plagíóklaskristallar og grænir ólivínkristallar algengastir. 

Næst þegar þið gangið um hraun, skulið þið endilega skoða hvort þið sjáið kristalla í hraunmola. 

Basaltmyndun: Stuðlabergið í Reynisfjöru.

Dílabasalt með grænum ólivínkristöllum sem sjást með berum augum.