Apríl er mánuður farfuglanna og vorkomunnar. Farfuglar færa sig á milli staða eftir árstíðum, leita á vorin eftir ákjósanlegu varpsvæði á norðlægum slóðum en leita aftur á suðlægar slóðir þegar kólnar í veðri. Á vorin er mikið líf og fjör, sumir farfuglarnir dvelja hér sumarlangt en aðrir hafa einungis stutta viðkomu áður en þeir halda lengra, til Grænlands eða Kanada. Heiðlóan er einn af vorboðunum okkar, hún kemur snemma í apríl og fer seint. Söngur lóunnar er eitt af einkennishljóðum íslenska sumarsins.