Skriðuföll
Skriðuföll er samheiti yfir ýmsar gerðir skriðna, svo sem berghlaup, aurskriður, grjóthrun og jarðvegsskriður. Skriðuföll eru býsna algeng á Íslandi enda landið markað djúpum dölum og fjörðum sem umkringdir eru bröttum fjöllum og fjallgörðum. Skriður geta fallið á öllum árstímum en þó er skriðuhætta mest í kjölfar haustlægða og vorleysinga.
Orsakir skriðufalla eru ekki alltaf ljósar en algengast er að vatn eigi einhvern þátt í þeim. Þar má nefna óvenju mikla úrkomu, leysingar, breytingar á grunnvatni og bráðnun sífrera en jarðskjálftar, jarðhitavirkni og eldgos geta einnig valdið skriðuföllum.
Þann 6. október síðastliðinn féll umfangsmikil aurskriða við Gilsá frammi í Eyjafirði, um 30 km suður af Akureyri. Tveir bæir voru í framhaldi rýmdir, auk sumarhúss. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur varað við aukinni hættu á skriðuföllum á svæðinu.
Móafellshyrna. Ljósm. Þorsteinn Sæmundsson
Askja. Ljósm. Þorsteinn Sæmundsson