Vatnabobbar

Vissir þú​ að litur vatnabobba (Radix balthica) fer eftir því hvar þeir búa?

Vatnabobbar eru mjög algengir bæði hér á landi og í Evrópu, Asíu og Afríku. Þeir verða um 10–20 mm á hæð. Skel þeirra, kuðungurinn, er oftast gulhvít eða ljósbrún en tekur lit af umhverfinu sem snigillinn er í. Lögun kuðungsins er mismunandi, strýtan mishá og munnurinn misvíður. Vatnabobbar hafa aðlagast fjölbreyttu búsvæði, allt frá smápollum til jarðhitasvæða. Þetta hefur gert flokkunarfræði erfiða og hafa dýrin gengið undir mörgum fræðiheitum. Vatnabobbar eru lungnasniglar (Pulmonata) sem hafa þróað með sér vísi að lungum í stað tálkna, ólíkt flestum sjávarsniglum. Eins og flestir sniglar nota vatnabobbar skráptungu til að skrapa þörunga og aðra lífræna fæðu af yfirborði steina. Sjálfir eru þeir mikilvæg fæða fiska og fugla í og við ferskvatn.
 
📸: © Wim van Egmond