Náttúrgripasafn 1947-1965

Náttúrugripasafnið gefið ríkinu

Árið 1947 afhenti Hið íslenska náttúrufræðifélag menntamálaráðuneytinu náttúrugripsafn sitt til eignar. Gjöfin tók til allra gripa, bóka, rita, mynda, skjala, skápa og annarra innanstokksmuna, ásamt byggingarsjóði félagsins. Gjöfin var afhent gegn munnlegu loforði um að byggt yrði yfir safnið og starfsemi þess. Í samningi félagsins og menntamálaráðuneytis er þess getið að félagið fái aðstöðu í væntanlegu húsi.

Teikningar að nýju húsi fyrir náttúrugripasafn voru tilbúnar árið 1950 og árið eftir voru fyrstu lögin um safnið samþykkt, Lög um Náttúrugripasafn Íslands nr. 17/1951.

Til að hefja framkvæmdir þurfti fjárfestingarleyfi frá Innflutningsskrifstofu ríkisins og í umsókn til hennar kom fram að búið væri að tryggja fé til að greiða allan byggingarkostnað. Þrátt fyrir þessa yfirlýsingu og þá staðreynd að bæði ríkisstjórn og háskólaráð höfðu samþykkt framkvæmdina og teikningar og lóð tilbúnar, fékkst ekki fjárfestingarleyfi frá Innflutningsskrifstofu ríkisins. Ekkert varð því af framkvæmdum.

Náttúrugripasafn Íslands stofnsett 1951

Fyrstu lög um Náttúrugripasafn Íslands nr. 17 voru samþykkt af Alþingi 10. febrúar 1951. Þar er safninu skipt upp í dýrafræði-, grasafræði- og jarðfræði- og landfræðideild. Hlutverk safnsins var að safna íslenskum og erlendum náttúrugripum og varðveita þá, annast fuglamerkingar, vinna skipulagsbundið að rannsóknum á náttúru Íslands og annast tilteknar rannsóknir samkvæmt óskum ríkisstórnarinnar. Auk þess skyldi Náttúrugripasafnið vera opið almenningi til sýnis eigi sjaldnar en þrisvar í viku. Stöður voru þrjár og skiptust deildarstjórar á að vera forstöðumenn, en heimilt var að ráða fleiri starfsmenn til eins árs í senn „ef sérstök ástæða virðist til“.

Lögin um Náttúrugripasafn Íslands frá 1951 voru endurskoðuð árið 1965 og við tóku Lög um almennar náttúrurannsóknir og Náttúrufræðistofnun Íslands, nr. 48/1965. Þar er nafni Náttúrugripasafnsins breytt og við tók ný stofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands.