Lúpína og vatnamýs í nýjum Náttúrufræðingi

Lúpínubreiða á leið inní lyngmóa prýðir forsíðu nýja heftisins

Lúpínubreiða á leið inní lyngmóa prýðir forsíðu nýja heftisins

Náttúrufræðingurinn, 1.-2. hefti 86. árgangs er komið út. Að venju er í tímaritinu fjölbreytt og spennandi efni um rannsóknir á íslenskri náttúru.

Forsíðugreinin er að þessu sinni um rannsókn sem gerð var í Stykkishólmi á ólíkum aðferðum til að hefta útbreiðslu lúpínu. Greinin nefnist Áhrif sláttar og eitrunar á lúpínubreiður og gróðurfar, en eitrun og árlegum slætti var beitt á lúpínubreiður í tilraunareitum á fimm ára tímabili, 2011–2015. Lúpína var fyrst nýtt hér á landi til landgræðslu 1945 en vegna hraðfara útbreiðslu, drjúgs fræforða sem lifir árum saman í jarðvegi og mikilla áhrifa á náttúrulegan gróður er hún nú skilgreind sem ágeng tegund og mörg sveitarfélög reyna að hefta útbreiðslu hennar. Þetta er fyrsta rannsókn sinnar tegundar hér á landi og sýna niðurstöðurnar að það er langtímaverkefni að útrýma lúpínu og að bæði ítrekaður sláttur og eitrun duga. Gróðurþekja reyndist þó meiri og plöntutegundir fleiri eftir fimm ár í slegnum reitum en eitruðum og skilar slátturinn því betri árangri. Höfundar eru Kristín Svavarsdóttir, Menja von Schmalensee, Ása L. Aradóttir, Anne Bau og Róbert A. Stefánsson.

Árangurslitlar tilraunir fagfólks, áhugamanna og stofnana til að friða auðnir og viðkvæmustu vistkerfi landsins fyrir beit er viðfangsefni Ólafs Arnalds í leiðara sem hann nefnir: Sauðfjárbeit og íslensk vistkerfi: Afneitun vanda. Telur Ólafur sem er prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands að nýgerður samningur um sauðfjárrækt sýni glögglega að sjónarmið náttúruverndar séu gerð hornreka í stjórnsýslunni þegar kemur að beitarnýtingu á Íslandi.

Af öðru efni má nefna grein um rannsókn á Kynblöndun ilmbjarkar og fjalldrapa á nútíma eftir Lilju Karlsdóttur, Margréti Halldóttur, Ægi Þór Þórsson og Kesera Anamthawat-Jónsson; yfirlit Ævars Petersens o.fl. um Vatnamýs á Íslandi, en vatnamýs myndast þegar mosi veltist í vatni vegna öldugangs eða straumkasts og verður oftast kúlulaga að lokum. Haraldur R. Ingvason, Finnur Ingimarsson og Stefán Már Stefánsson skrifa greinina Fjöldi og dreifing fugla í Fossvogi, Haraldur Ólafsson skrifar um Vindáttarbreytingar, Rannsóknastöðin Rif á Raufarhöfn er kynnt til sögunnar og birt ársskýrsla Hins íslenska náttúrufræðifélags fyrir árið 2015 sem og reikningar félagsins.

Þetta er 1.-2. hefti 86. árgangs Náttúrufræðingsins sem hóf göngu sína 1931 og er félagsrit Hins íslenska náttúrufræðifélags og tímarit Náttúruminjasafns Íslands. Heftið er 72 bls. að stærð. Ritstjóri er Álfheiður Ingadóttir, líffræðingur. Að jafnaði eru gefin út 4 hefti á ári. Félagsgjald – og innifalin áskrift kostar 5.800 kr. og er veittur afsláttur fyrir stúdenta og hjón.

Hér má nálgast efnisyfirlitið.

——————————————————-

85. árg. 1–2. hefti 2015 

85. árg. 3–4. hefti 2015

84. árg. 3–4. hefti 2014