Út er komið 4.–5. hefti Náttúrufræðingsins, 90. árgangs. 
Í heftinu er m.a. fjallað um gróður sem vex í miðjum Vatnajökli á skerjum sem komið hafa undan jöklinum vegna hlýnunar á undanförnum áratugum. Sagt er frá tveimur berghlaupum á Heimaey; Herjólfshaug og Mykitaksgrjóti. Áfram er fjallað um ferðir yfir Vatnajökul til forna og  sagt frá rannsóknum á viðhorfi ferðamanna til óspilltrar náttúru og víðerna. Í heftinu er einnig greint frá ummerkjum jarðskjálftanna á Reykjanesskaga í haust, samspili stara við hross og einstökum hraunhellum í Þeistareykjahrauni.

Nýja heftið er 88 bls. að stærð. Útgefendur eru Hið íslenska náttúrufræðifélag og Náttúruminjasafn Íslands. Ritstjóri er Álfheiður Ingadóttir.

Hér má sjá efnisyfirlit heftisins. 

 

Hálfdán Björnsson á Kvískerjum var frá upphafi lykilmaður við rannsóknir í skerjunum. Hér er hann að huga að skordýrum í Bræðraskeri 1985 eða 1988. Ljósm. Kristbjörn Egilsson.

Gróðurframvinda á miðjum Vatnajökli

Á árinu 1944 varð vart við nýtt jökulsker í Breiðamerkurjökli og gáfu Kvískerjabræður því nafnið Kárasker eftir Kára Sölmundarsyni þegar þeir heimsóttu það fyrstir manna 1957. Bræðasker, svo nefnt til heiðurs Kvískerjabræðrum, kom upp úr jöklinum 1961 og hefur gróðurframvinda í báðum skerjum verið rannsökuð frá árinu 1965. Athygli vekur að æðplöntur einkenna fyrstu stig framvindunnar, en mosar og fléttur  koma síðar. Höfundar eru: Bjarni D. Sigurðsson, Starri Heiðmarsson, †Hálfdán Björnsson og Eyþór Einarsson.

Forn berghlaup í Herjólfsdal

 

Herjólfsdalur á Heimaey í Vestmannaeyjum varð til þegar gjóska og hraun fylltu lítinn vog í eldsumbrotum fyrir um 6 þúsund árum. Eftir að hraunið rann urðu tvær meiriháttar skriður eða berghlaup í dalnum og hafa þau verið nefnd Mykitaksgrjót og Herjólfshaugur. Gjóskulög benda til að Mykitakshlaupið, sem er um 500.000 rúmmetrar að stærð hafi orðið nokkru fyrir landnám eða á árabilinu 700–750 e.Kr., en fátt er hægt að fullyrða um Herjólfshaug þar sem hann hvarf  vegna efnistöku og umsvifa í dalnum. Höfundar eru Árni Hjartarson og Jón Kristinn Helgason. 

Dalfjall og Blátindur í Herjólfsdal.

Ferðir yfir Vatnajökul til forna

Hjörleifur Guttormsson hefur ritað þrjár greinar fyrir Náttúrufræðinginn um ferðir yfir Vatnajökul til forna. Hér birtist 2. greinin sem nefnist Vatnajökull og grennd í tímans rás – Samskiptin yfir jökul í árdaga og þar eru raktar helstu heimildir um ferðir frá Fljótsdalshéraði og úr Norðurlandi yfir jökulinn og í grennd hans til sjóróðra og getið sagna um samskipti vermanna við heimafólk í Suðursveit. Sérstaklega er fjallað um tengsl Skriðuklausturs við Borgarhöfn og Hálsahöfn á 16. öld, og Skaftafells og Möðrudals yfir jökul fyrr á öldum.

Uppdráttur Sigurðar Þórarinssonar frá 1974 af fornum leiðum yfir Vatnajökul.

Hálendið í hugum Íslendinga

Rannveig Ólafsdóttir og Anna Dóra Sæþórsdóttir skrifa síðari grein gína um Hugmyndir og viðhorf Íslendinga til víðerna. Spurningakönnun var send á úrtak landsmanna og valdi hver þátttakandi milli mynda sem hann taldi passa best og síst við hugmynd sína um víðerni. Niðurstöður sýna að ummerki um mannvist í hvaða mynd sem er, fyrir utan fornminjar, draga úr víðernisupplifun Íslendinga. Í hugum þeirra felst gildi víðernis einkum í tækifæri til að upplifa kyrrð og ró á svæðum með fábrotna og einfalda innviði.

Dæmi um myndaspjald sem notað var við rannsóknina – hér má sjá myndir þar sem engin sýnileg mannvirki eru í landslaginu. 

Ummerki um jarðskjálfta á Reykjanesskaga

Mikil skjálftavirkni hófst á Reykjanesskaga í lok árs 2019 og hélst hún mest allt árið 2020. Esther Hlíðar Jensen segir frá og birtir myndir af ummerkjum skjálftans 20. október s.l. sem var Mw5,6. Skjálftans varð vart á höfuðborgarsvæðinu þar sem m.a. hrundi úr hillum stórmarkaða.

Nýjar og gamlar sprungur á bjargbrún Krýsuvíkurbjargs.
Ljósm. Dagur Jónsson 

 Hellarnir eru fagurlega skrýddir.
Ljósm. Hellarannsóknafélag Íslands.

Hraunhellar í Þeistareykjahrauni

Daníel Freyr Jónsson og Guðni Gunnarsson segja frá hraunhellum í Þeistareykjahrauni sem eru einstaklega ríkir af af dropsteinum, hraunstráum og öðru viðkvæmu hellaskrauti. Félagsmenn Hellarannsóknafélags Íslands fundu hellana 2016 og vinna að kortlagningu þeirra og könnun. Umhverfisstofnun lokaði tveimur hellum s.l. haust og bannaði umferð um aðra hella í hrauninu nokkru fyrr.

Samskipti stara og hesta

Starar eru félagslyndir fuglar og safnast í hópa undir kvöld með miklum tilþrifum. Hrefna Sigurjónsdóttir greinir frá athugun sinni á þeirri hegðun stara að sækjast eftir því að vera nálægt hrossum, en þeir sjást iðulega sitja á baki þeirra eða í fæðuleit í grasinu mjög nálægt höfði og fótum. Hún taldi allt að 15 fugla á baki sama hestsins og komst m.a. að þeirri niðurstöðu að þeir velja sér reiðskjóta eftir lit hestsins.

 

 

 

Starahópur á hestbaki í Leirvogstungu. Ljósm. Berglind Njálsdóttir.
Auk framangreinds er í 4.–5. hefti Náttúrufræðingsins grein um hálfrar aldar afmæli Náttúruverndarsamtaka Austurlands, NAUST, kortlagningu spendýra í Evrópu og leiðari sem  ritstjóri skrifar um árið 2020.