Agnars Ingólfssonar minnst í nýjum Náttúrufræðingi

3. – 4. hefti 84. árgangs Náttúrufræðingsins …
er komið út. Heftið, sem er 92 bls. er helgað minningu Agnars Ingólfssonar prófessors í vistfræði við Háskóla Íslands, sem lést í árslok 2013. Agnar var brautryðjandi í rannsóknum á vistfræði Íslands og kennslu í vistfræði við Háskóla Íslands þar sem hann hóf störf 1970. Agnar var farsæll og öflugur vísindamaður og rannsóknaniðurstöður hans voru mikilvægt framlag til þekkingar m.a. á stofnerfðafræði, fjörulífi og flutningi og landnámi flóru og fánu þvert yfir heimshöfin.

84_3-4 forsida

Í þessu nýjasta hefti Náttúrufræðingsins eru níu ritrýndar greinar sem tengjast rannsóknum og fagsviði Agnars Ingólfssonar og fjalla um fjölbreytt efni:  Félagslyndar köngulær á þróunarfræðilegum blindgötum, uppruna ólíkra dvergbleikjustofna í lindarsvæðum á Íslandi, rykmý sem lifir í sjó, vistfræði mosa, lítinn fjörusnigil, stranddoppu, sem fóstrar fuglasníkjudýr, útbreiðslu og fjölda hvítmáfa og mikilvægi fjörunnar sem kennslustofu í líffræðilegri fjölbreytni og náms til sjáfbærni.

Þá er í heftinu yfirlit um ævi og störf Agnars Ingólfssonar og frásögn af stofnun Líffræðifélags Íslands, en Agnar var fyrsti formaður þess.

Hér má nálgast efnisyfirlitið.