Fjölbreytt efni í nýjum Náttúrufræðingi

Út er komið 1.-2. hefti Náttúrufræðingsins, 85. árgangs, stútfullt af fjölbreyttu efni um náttúru landsins og rannsóknir á henni.

forsida_Nfr_85_1-2_bigSkúli Skúlason ritar leiðara um Verðmæti hálendisins, Karl Gunnarsson, Guðrún G. Þórarinsdóttir og Óskar Sindri Gíslason segja frá 15 tegundum framandi sjávarlífvera sem fundist hafa hér við land á undanförnum árum, m.a. grjótkrabba, flundru, og einnig ögn, sem er lítið krabbadýr sem prýðir forsíðu heftisins.

PKD-nýrnasýkingar í laxfiskum varð fyrst vart á Íslandi 2008 og Árni Kristmundsson og Ragnhildur Þ. Magnúsdóttir skýra frá rannsóknum á mosadýrum, lítt þekktum dýraflokki sem talinn er gegna hlutverki millihýsils í þessum alvarlega fisksjúkdómi.

Agnes-K.Kreiling, Matthías Alfreðsson og Erling Ólafsson segja frá nýrri bjöllu, sniglanárakka, sem fannst sumarið 2012 á Mógilsá, en þetta litla skógardýr er algengt á meginlandi Evrópu og lifir einkum á sniglum.

Hvernig hegða ungir laxfiskar sér í fæðuleit og á óðali? Stefán Óli Steingrímsson, T. D. Tunney og Guðmundur Smári Gunnarsson hafa rannsakað atferli ungra laxfiska, bleikju, urriða og laxa, en töluverður munur er á bæði einstaklingum, stofnum og tegundum í þessu efni.

Þegar alnæmisveiran ræktaðist fyrst úr manni í kringum 1980 var vitnað til rannsókna á visnu og mæði sem fram fóru á Íslandi í kringum miðja síðustu öld. Þessir sjúkdómar léku sauðfjárstofn landsmanna illa, en mæði og visna barst hingað með karakúlfé árið 1933. Björn Sigurðsson forstjóri Keldna lýsti þessum sjúkdómum fyrstur manna sem hæggengri veirusýkingu á árinu 1954. Halldór Þormar skrifar um upphafið að rannsóknum á lentiveirum, en svo eru þessar hæggengu sjúkdómsvaldandi veirur nefndar.

10. janúar 2012 gekk mikið éljaveður yfir vestanvert landið, en við slíkar aðstæður berast saltagnir úr hafi inná land og geta valdið seltuáraun m.a. á einangrara háspennulína. Guðrún Nína Petersen og Einar Sveinbjörnsson lýsa því hvernig veðrið barst að og yfir landið, en það olli m.a. skammhlaupi í spennuvirki í Hvalfirði og miklum rafmagnstruflunum og spennuflökti um allt land.

Í Vopnafirði er ísalt lón, Nýpslón, sem Vesturdalsá fellur í. Ingi Rúnar Jónsson og Þórólfur Antonsson rannsökuðu farleiðir sjóbleikju úr ánni um lónið og út í sjó og renna niðurstöður þeirra stoðum undir þá tilgátu að vegna lónsins dveljist bleikjan lengur utan árinnar en ef áin félli beint til sjávar.

Á síðasta ári fjallaði Árni Hjartarson um Hallmundarkviðu sem hann telur vera nánast samtímaheimild um eldsumbrot sem urðu á 10. öld þegar Hallmundarhraun í Borgarfirði rann frá gígum uppi við Langjökul niður í byggð innst í Hvítársíðu. Nú fjallar Árni um áhrif eldgossins á mannlíf og byggð í Borgarfirði, en örnefni benda til að landslag hafi breyst og vatnsföll flust til vegna hraunsins.

Elsta heildarrit um veðurfræðileg fyrirbæri er Veðurfræði Aristótelesar, talið samið um 340 f.Kr. Þekking á veðurfræði í gegnum athuganir og áhuga kynslóðanna er þó mun eldri og kom að góðum notum við veiðar, siglingar, landbúnað o.fl. Þór Jakobsson rifjar þetta upp í ágripi sínu að forsögu nútíma veðurfræði frá árdögum fram á 20. öld.

Þverun fjarða hefur löngum verið umdeild og því varð það 1985, sex árum áður en Dýrafjörður var þveraður 1991, að gerðar voru umfangamiklar vistfræðirannsóknir m.a. á hryggleysingjum í leirum, fjörum og á botni fjarðarins. Þessar rannsóknir voru endurteknar á árunum 2007–2008. Þorleifur Eiríksson, Böðvar Þórisson og Guðmundur Víðir Helgason bera saman niðurstöður þessara tveggja rannsóknartímabila og telja að erfitt sé að benda á sérstakar breytingar sem rekja megi til þverunarinnar, nema í námd við brúarhafið.

Náttúrufræðingurinn er félagsrit Hins íslenska náttúrufræðifélags og tímarit Náttúruminjasafns Íslands. Í þessu heftinu er að finna skýrslu stjórnar HÍN fyrir starfsárið 2014 ásamt reikningum félagsins. Ritstjóri er Álfheiður Ingadóttir, líffræðingur, og formaður ritstjórnar er Droplaug Ólafsdóttir, dýrafræðingur. Að jafnaði eru gefin út fjögur hefti á ári, en útgáfa ritsins hófst 1931. Áskrift sem jafnframt er árgjald í Hinu íslenska náttúrufræðifélagi er 5.800,- kr, námsmannagjald kr. 4.000,- og hjónaáskrift kr. 6.500,-. Náttúrufræðingurinn fæst í lausasölu í verslunum Pennans og Eymundson. Áskriftarsíminn er 5771802 eða hjá hin@hin.is.

Hér má nálgast efnisyfirlitið.