Náttúrufræðistofnun Íslands
Lögin frá 1951 um Náttúrugripasafn Íslands voru endurskoðuð árið 1965 og við tóku Lög um almennar náttúrurannsóknir og Náttúrufræðistofnun Íslands, nr. 48/1965. Þar var nafni Náttúrugripasafnsins breytt og meginverkefni hinnar nýju stofnunar skilgreint svo að hún eigi „að vera miðstöð almennra vísindalegra rannsókna á náttúru Íslands.“
Hlutverk Náttúrufræðistofnunar var jafnframt að sinna áfram safnavinnu og sýningahaldi og í lögunum var kveðið á um að stofnunin skuli „koma upp sem fullkomnustu vísindalegu safni íslenskra og erlendra náttúrugripa og varðveita það“ og „að koma upp sýningarsafni sem veiti sem gleggst yfirlit um náttúru Íslands og sé opið almenningi.“
Í skýringum við lögin 1965 segir svo um nafnabreytinguna og hlutverk hinnar nýju stofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands, orðrétt:
„Nafnið breytist úr Náttúrugripasafni Íslands í Náttúrufræðistofnun Íslands. Fyrra nafn stofnunarinnar hefur valdið töluverðum misskilningi. Margir hafa álitið, að verkefni stofnunarinnar hafi fyrst og fremst eða jafnvel eingöngu verið að safna náttúrugripum til sýnis fyrir almenning. Því er lagt til, að nafninu verði breytt og áherzla lögð á meginverkefni stofnunarinnar, sem er vísindalegar rannsóknir á náttúru landsins.
Í lögum nr. 17/1951 er það talið fremst í aðalhlutverkum safnsins að safna náttúrugripum og varðveita þá. Í þessu frumvarpi er þessu breytt og fyrst talið það mikilvæga verkefni stofnunarinnar að vera miðstöð almennra vísindalegra rannsókna á náttúru landsins.“
Í kjölfar framangreindra áherslubreytinga á hlutverki Náttúrufræðistofnunar fylgdi töluverð umræða og nefndavinna á vegum hins opinbera þar sem fjallað var um málefni náttúruminjasafns og sýningahalds. Hæst ber í þessu samhengi skýrsla svokallaðrar NNN-nefndar sem kom út fyrst í mars 1990 (Náttúruhús í Reykjavík. NNN-nefnd. Mars 1990. 20 bls.) og aftur í nóvember 1991 þá endurskoðuð af nýrri nefnd (Náttúruhús í Reykjavík. Starfshópur. Nóvember 1991. 79 bls.). Fyrri nefndin starfaði á vegum menntamálaráðuneytisins en sú síðari undir umhverfisráðuneytinu, en málefni Náttúrufræðistofnunar voru færð til umhverfisráðuneytisins við stofnun þess árið 1990.
Í báðum skýrslunum er lagt til að starfsemi Náttúrufræðistofnunar verði tvískipt. Annars vegar starfsemi sem lýtur að grunnrannsóknum á náttúru landsins (Náttúrufræðistofnun) og hins vegar starfsemi sem snýr að miðlun og sýningahaldi (Náttúrusafn). Báðir hóparnir lögðu til að reist yrði Náttúruhús í Reykjavík, nánar til tekið í Vatnsmýrinni, og ráðgert að það yrði 6.850 m2 að flatarmáli, þar af væri Náttúrusafn 3.300 m2 auk sameiginlegs rýmis. Þá var gengið út frá því að Náttúrusafnið yrði sameign ríkis, Reykjavíkurborgar, Háskóla Íslands og e.t.v. fleiri aðila og stofnað félag meðal eigendanna um reksturinn. Náttúrufræðistofnun skyldi vera burðarstólpi Náttúrusafnsins fyrir hönd ríkisins.
Á árunum 1990-1992 var unnið á vegum umhverfisráðuneytisins að undirbúningi hins nýja „safns“ með það fyrir augum að starfsemi gæti hafist árið 1995. Húsið átti að hýsa bæði Náttúrusafn og Náttúrufræðistofnun. Fyrir lá viljayfirlýsing frá Reykjavíkurborg og Háskóla Íslands um þátttöku í sýningarþættinum, þ.e. Náttúrusafninu. Þáverandi borgarstjóri Davíð Oddsson og Sigmundur Gubjarnarson rektor Háskóla Íslands veittu málinu brautargengi. Undirbúningsfjárveiting vegna byggingaframkvæmda fór í fjárlagafrumvarp vegna ársins 1992, en þá hljóp snurða á þráðinn, stjórnarliði gekk úr skaftinu og fjárveitingin var strikuð út. Síðan hefur málefnið átt á brattan að sækja, enn einn ganginn.
NNN-nefndin hafði einnig það hlutverk að semja lagafrumvarp um breytingar á lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands á grundvelli áherslubreytinganna sem urðu á hlutverki stofnunarinnar með lögum nr. 48/1965. Ný lög nr. 60/1992 um Náttúrufræðistofnun Íslands voru sett og tóku þau mið af framangreindum áherslubreytingum. Rannsóknahlutverk stofnunarinnar var styrkt en dregið úr sýningastarfsemi. Í 4. gr. laga nr. 60/1992 er kveðið á um aðalhlutverk Náttúrufræðistofnunar: „Náttúrufræðistofnun Íslands stundar undirstöðurannsóknir í dýrafræði, grasafræði og jarðfræði landsins og annast skipulega heimildasöfnun um náttúru Íslands. Hún varðveitir niðurstöður og eintök í fræðilegum söfnum er veiti sem best yfirlit um náttúru landsins.” Jafnframt segir í d-lið 4. gr. að Náttúrufræðistofnun skuli: …„styðja við uppbyggingu sýningarsafna um náttúrufræði með upplýsingum og ráðgjöf og miðla þekkingu um íslenska náttúru til skóla, fjölmiðla og almennings,“.