Náttúruminjasafn 2007

Þann 17. mars árið 2007 urðu merk tímamót í sögu náttúruminjasafna hérlendis en þá voru loks samþykkt á Alþingi lög nr. 35/2007 um Náttúruminjasafn Íslands.

Þáverandi menntamálaráðherra skipaði í janúar árið 2002 þriggja manna nefnd sem skyldi gera tillögu að frumvarpi að sérlögum fyrir Náttúruminjasafn Íslands. Samkvæmt skipunarbréfi átti nefndin að skila tillögum í apríl sama ár, en framlagning frumvarpsins tafðist og lög um Náttúruminjasafn voru ekki samþykkt fyrr en í mars 2007.

Þrátt fyrir langa sögu, og oft á tíðum stranga, stendur Náttúruminjasafn Íslands nánast á byrjunarreit, a.m.k. hvað varðar sýningahald. Stofnunin býr við jafnframt óvissu varðandi skrifstofuhúsnæði og fjárheimildir hafa til þessa rétt dugað til reksturs með einn starfsmann auk forstöðumanns.

Það er á valdi ríkisins að styrkja starfsemi safnsins og gera það að þeirri stofnun sem sárlega hefur vantað í íslenskt mennta- og menningarlíf í áratugi og raunar allt frá stofnun Hins íslenska náttúrufræðifélags í Reykjavík árið 1889.