Með safnalögum nr. 106/2001 urðu þáttaskil í safnamálum hér á landi, en þá voru í fyrsta sinn sett rammalög um safnastarfsemi í landinu. Safnalögin voru nýlega endurskoðuð og tóku ný Safnalög nr. 141/2011 gildi þann 28. september 2011. Í safnalögunum frá 2001 er að finna í fyrsta skipti tilvísun í íslenskri löggjöf í Náttúruminjasafn Íslands sem stofnunar, „höfuðsafns“ í eigu íslenska ríkisins.
Tilgangur safnalaganna er (sbr. 1. gr., 141/2011): „að efla starfsemi safna við varðveislu menningar- og náttúruarfs Íslands, tryggja að honum verði skilað óspilltum til komandi kynslóða, veita fólki aðgang að honum og stuðla að aukinni þekkingu á þessari arfleifð og skilningi á tengslum hennar við umheiminn.“ Lögin taka til safna í eigu ríkisins og annarra safna sem eru viðurkennd samkvæmt safnalögunum.
Um hlutverk safna segir í 3. gr.:
„Söfn í skilningi laga þessara eru varanlegar stofnanir sem starfa í þágu almennings og eru ekki rekin í hagnaðarskyni. Þau skulu vera opin almenningi.
Með söfnun, skráningu, varðveislu, rannsóknum, sýningum og annarri miðlun er það hlutverk safna að tryggja menningar- og náttúruarf Íslands, varpa ljósi á menningar-, náttúru- og listasögu landsins, styrkja safnkost og heimildasöfnun innan síns sérsviðs og gera safnkost sinn og heimildasöfn aðgengileg almenningi og fræðimönnum. Í starfi sínu skulu söfn hafa að leiðarljósi að auka lífsgæði manna með því að efla skilning á þróun og stöðu menningar, lista, náttúru eða vísinda.
Söfn skulu stunda markvissa söfnun muna og heimilda til að safnkostur þeirra gefi sem heildstæðasta mynd af sérsviði þeirra.“
Um höfuðsöfn stendur eftirfarandi:
„Höfuðsöfn eru þrjú: Listasafn Íslands, Náttúruminjasafn Íslands og Þjóðminjasafn Íslands. Þau eru öðrum söfnum til ráðgjafar og skulu stuðla að samvinnu safna og samræmdri safnastefnu hvert á sínu sviði.
Höfuðsöfn skulu hafa forustu í málefnum safna á sínu sviði, stuðla að eflingu og samræmi í safnastarfi og leiða faglegt samstarf safna og annarra aðila. Höfuðsöfn skulu leitast við að efla og auka þekkingu og færni starfsfólks safna.
Höfuðsöfn skulu annast kynningu á sérsviði sínu innan lands og utan.
Safnkostur höfuðsafna skal vera undirstaða fræðslu- og sýningarstarfs þeirra. Hann skal jafnframt vera aðgengilegur til rannsókna.
Höfuðsöfn mega ekki taka við gjöfum sem kvaðir fylgja. Ráðherra getur veitt undanþágu frá þessu ákvæði ef sérstök rök mæla með því.“
Menntamálaráðherra skipaði í janúar árið 2002 þriggja manna nefnd (Karítas Gunnarsdóttir, Gunnar Jóhann Birgisson og Jón Gunnar Ottósson) sem skyldi gera tillögu að frumvarpi að sérlögum fyrir Náttúruminjasafn Íslands. Átti nefndin samkvæmt skipunarbréfi að skila tillögum sínum í apríl sama ár, en framlagning frumvarpsins tafðist og lög um Náttúruminjasafn voru ekki samþykkt fyrr en í mars 2007. Tafirnar má m.a. rekja til þess að ekki tókst að leysa úr ýmsum þeim atriðum sem fylgdu stofnun safnsins og snúa m.a. að verkaskiptingu þess og Náttúrufræðistofnunar og skiptingu gripasafna.