Saga safnsins

Náttúruminjasafn Íslands er ung stofnun með djúpar rætur sem ná aftur á níunda áratug 19. aldar. Á nokkrum síðum er hér stiklað á stóru í sögu safnsins, aðdraganda þess og lengst af þyrnum stráðri vegferð frá Kaupmannahöfn árið 1889, þegar Hið íslenska náttúrufræðifélag var stofnað, til Reykjavíkur árið 2007, þegar lög nr. 35 um Náttúruminjasafn Íslands voru samþykkt á Alþingi.

 Náttúruminjasafn Íslands er eign íslenska ríkisins, höfuðsafn á sviði náttúrufræða og heyrir undir mennta- og menningarmálaráðuneytið. Menntamálaráðherra fer með yfirstjórn stofnunarinnar.

Náttúruminjasafnið var stofnsett með lögum árið 2007 en rætur stofnunarinnar má rekja aftur a.m.k. til ársins 1889 þegar Hið íslenska náttúrufræðifélag var stofnað. Eitt meginmarkmið félagsins frá upphafi hefur verið að koma upp náttúrufræðisafni í höfuðborginni sem gagnist landi og þjóð. 

Hlutverk Náttúruminjasafns Íslands eru skilgreind í lögum um Náttúruminjasafn Íslands nr. 35/2007 og Safnalögum nr. 141/2011. Náttúruminjasafnið er fræðslu- og vísindastofnun sem er ætlað að gegna miðlægu hlutverki við miðlun þekkingar og upplýsinga um náttúrufræðileg efni og vera ráðgefandi gagnvart öðrum söfnum landsins sem sýsla með náttúruna. Stofnunin byggir starfsemi sína á rannsóknum og gagnaöflun á eigin vegum og í samstarfi við aðra, miðlun þekkingar og upplýsinga með staf- og rafrænni útgáfu, ráðgjöf, fyrirlestrum og sýningahaldi.

Á aldarafmæli fullveldis Íslands, 1. desember 2018, opnaði Náttúruminjasafnið fyrstu stóru sýningu sína, Vatnið í náttúru Íslands, í Perlunni í Reykjavík. Sýningin veitir á nýstárlegan hátt innsýn í eina mikilvægustu auðlind landsins, vatnið okkar dýrmæta, leyndardóma þess og mikilvægi fyrir farsæla framtíð og búsetu í landinu.  Á sýningunni eru lifandi vatnadýr og jurtir og áhersla lögð á virka þátttöku gesta. Sýningunni er ætlað að höfða til fróðleiksfúsra landsmanna og erlendra gesta, fólks á öllum aldri en einkum þó til barna. 

Í ársbyrjun 2019 eru starfsmenn Náttúruminjasafnsins átta. Dr. Hilmar J. Malmquist var skipaður forstöðumaður til fimm ára frá og með 1. september 2013. Hrefna Berglind Ingólfsdóttir gegndi starfi ritstjóra Náttúrufræðingsins á tímabilinu 1. febrúar til 31. ágúst 2014 en þann 1. nóvember 2014 tók Álfheiður Ingadóttir við ritstjórastarfinuNáttúrufræðingurinn er alþýðlegt tímarit um náttúrufræðileg efni sem Hið íslenska náttúrufræðifélag hefur lengst af gefið út, eða samfellt síðan 1931, en frá og með 84. árgangi stendur Náttúruminjasafnið að útgáfunni með félaginu.Þóra Katrín Hrafnsdóttir var ráðin sviðsstjóri rannsókna- og miðlunarsviðs 1. ágúst 2018. 1. janúar 2019 komu fimm starfsmenn til viðbótar að safninu: Anna Katrín Guðmundsdóttir er verkefna- og viðburðastjóri, Kristín Harðardóttir og Þóra Björg Andrésdóttir eru safnkennarar og annast móttöku og fræðslu skólahópa á sýningu safnsins Vatnið í náttúru Íslands í Perlunni. Skúli Skúlason prófessor kom til starfa skv. samningi milli safnsins og Háskólans á Hólum og Viðar Hreinsson bókmenntafræðingur stundar rannsóknir í umhverfishugvísindum og menningarsögu náttúruvísinda. 

 

Upphafið 1887

Kaupmannahöfn 1887

Þann 7. maí árið 1887 var að frumkvæði Björns Bjarnarsonar (1853-1918), lögmanns og síðar sýslumanns í Dalalsýslu og alþingismanns, stofnað Íslenzkt náttúrufræðisfélag á Café Electrik í Kaupmannahöfn. Þess má geta að Björn var einnig frumkvöðull að stofnun Listasafns Íslands í Kaupmannahöfn í október 1884. Stefán Stefánsson (1863-1921), grasafræðingur og síðar skólameistari á Akureyri, átti einnig drjúgan þátt í stofnun náttúrufræðisfélagsins. Til félagsins var stofnað til að koma upp náttúrugripasafni á Íslandi og hljóðaði önnur lagagrein félagsins er svo: „Aðaltilgangur fjelagsins er sá, að koma upp sem fullkomnustu náttúrugripasafni á Íslandi, er sje geymt í Reykjavík.

Björn og Stefán fluttu heim til Íslands sama ár og félagið var stofnað, en við það lognaðist félagið í Kaupmannahöfn út af. Gripirnir sem safnað hafði verið voru í kjölfarið sendir heim til Íslands.

 

Reykjavík 1889

Tveimur árum eftir stofnun Kaupmannahafnarfélagsins, þ.e. 16. júlí 1889, var Hið íslenska náttúrufræðifélag stofnað í Reykjavík að frumkvæði Stefáns Stefánssonar grasafræðings,  Benedikts Gröndals skálds og náttúrufræðings, Þorvaldar Thoroddsens jarðfræðings, Björns Jenssonar yfirkennara og Jónasar Jónassonar landlæknis. Gripir Kaupmannahafnarfélagsins voru hafðir til sýnis á stofnfundinum. Í lögum félagsins kemur fram að markmið með stofnun þess er „að koma upp sem fullkomnustu náttúrugripasafni á Íslandi, sem sé eign landsins og geymt í Reykjavík“.

Hið íslenska náttúrufræðifélag rak sýningasafn á ýmsum stöðum í Reykjavík allt fram til 1947 er safnið var gefið íslenska ríkinu. Félagið er vel virkt og eitt helsta baráttumál þess, að koma upp sýninghaldi sem hæfir höfuðsafni á sviða náttúrufræða, er enn við líði.

Náttúrgripasafn 1947-1965

Náttúrugripasafnið gefið ríkinu

Árið 1947 afhenti Hið íslenska náttúrufræðifélag menntamálaráðuneytinu náttúrugripsafn sitt til eignar. Gjöfin tók til allra gripa, bóka, rita, mynda, skjala, skápa og annarra innanstokksmuna, ásamt byggingarsjóði félagsins. Gjöfin var afhent gegn munnlegu loforði um að byggt yrði yfir safnið og starfsemi þess. Í samningi félagsins og menntamálaráðuneytis er þess getið að félagið fái aðstöðu í væntanlegu húsi.

Teikningar að nýju húsi fyrir náttúrugripasafn voru tilbúnar árið 1950 og árið eftir voru fyrstu lögin um safnið samþykkt, Lög um Náttúrugripasafn Íslands nr. 17/1951.

Til að hefja framkvæmdir þurfti fjárfestingarleyfi frá Innflutningsskrifstofu ríkisins og í umsókn til hennar kom fram að búið væri að tryggja fé til að greiða allan byggingarkostnað. Þrátt fyrir þessa yfirlýsingu og þá staðreynd að bæði ríkisstjórn og háskólaráð höfðu samþykkt framkvæmdina og teikningar og lóð tilbúnar, fékkst ekki fjárfestingarleyfi frá Innflutningsskrifstofu ríkisins. Ekkert varð því af framkvæmdum.

Náttúrugripasafn Íslands stofnsett 1951

Fyrstu lög um Náttúrugripasafn Íslands nr. 17 voru samþykkt af Alþingi 10. febrúar 1951. Þar er safninu skipt upp í dýrafræði-, grasafræði- og jarðfræði- og landfræðideild. Hlutverk safnsins var að safna íslenskum og erlendum náttúrugripum og varðveita þá, annast fuglamerkingar, vinna skipulagsbundið að rannsóknum á náttúru Íslands og annast tilteknar rannsóknir samkvæmt óskum ríkisstórnarinnar. Auk þess skyldi Náttúrugripasafnið vera opið almenningi til sýnis eigi sjaldnar en þrisvar í viku. Stöður voru þrjár og skiptust deildarstjórar á að vera forstöðumenn, en heimilt var að ráða fleiri starfsmenn til eins árs í senn „ef sérstök ástæða virðist til“.

Lögin um Náttúrugripasafn Íslands frá 1951 voru endurskoðuð árið 1965 og við tóku Lög um almennar náttúrurannsóknir og Náttúrufræðistofnun Íslands, nr. 48/1965. Þar er nafni Náttúrugripasafnsins breytt og við tók ný stofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands.

Náttúrufræðistofnun Íslands

Lögin frá 1951 um Náttúrugripasafn Íslands voru endurskoðuð árið 1965 og við tóku Lög um almennar náttúrurannsóknir og Náttúrufræðistofnun Íslands, nr. 48/1965. Þar var nafni Náttúrugripasafnsins breytt og meginverkefni hinnar nýju stofnunar skilgreint svo að hún eigi „að vera miðstöð almennra vísindalegra rannsókna á náttúru Íslands.

Hlutverk Náttúrufræðistofnunar var jafnframt að sinna áfram safnavinnu og sýningahaldi og í lögunum var kveðið á um að stofnunin skuli „koma upp sem fullkomnustu vísindalegu safni íslenskra og erlendra náttúrugripa og varðveita það“ og „að koma upp sýningarsafni sem veiti sem gleggst yfirlit um náttúru Íslands og sé opið almenningi.

Í skýringum við lögin 1965 segir svo um nafnabreytinguna og hlutverk hinnar nýju stofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands, orðrétt:

Nafnið breytist úr Náttúrugripasafni Íslands í Náttúrufræðistofnun Íslands. Fyrra    nafn stofnunarinnar hefur valdið töluverðum misskilningi. Margir hafa álitið, að verkefni stofnunarinnar hafi fyrst og fremst eða jafnvel eingöngu verið að safna náttúrugripum til sýnis fyrir almenning. Því er lagt til, að nafninu verði breytt og áherzla lögð á meginverkefni stofnunarinnar, sem er vísindalegar rannsóknir á náttúru landsins.

     Í lögum nr. 17/1951 er það talið fremst í aðalhlutverkum safnsins að safna  náttúrugripum og varðveita þá. Í þessu frumvarpi er þessu breytt og fyrst talið það mikilvæga verkefni stofnunarinnar að vera miðstöð almennra vísindalegra rannsókna á náttúru landsins.

Í kjölfar framangreindra áherslubreytinga á hlutverki Náttúrufræðistofnunar fylgdi töluverð umræða og nefndavinna á vegum hins opinbera þar sem fjallað var um málefni náttúruminjasafns og sýningahalds. Hæst ber í þessu samhengi skýrsla svokallaðrar NNN-nefndar sem kom út fyrst í mars 1990 (Náttúruhús í Reykjavík. NNN-nefnd. Mars 1990. 20 bls.) og aftur í nóvember 1991 þá endurskoðuð af nýrri nefnd (Náttúruhús í Reykjavík. Starfshópur. Nóvember 1991. 79 bls.). Fyrri nefndin starfaði á vegum menntamálaráðuneytisins en sú síðari undir umhverfisráðuneytinu, en málefni Náttúrufræðistofnunar voru færð til umhverfisráðuneytisins við stofnun þess árið 1990.

Í báðum skýrslunum er lagt til að starfsemi Náttúrufræðistofnunar verði tvískipt. Annars vegar starfsemi sem lýtur að grunnrannsóknum á náttúru landsins (Náttúrufræðistofnun) og hins vegar starfsemi sem snýr að miðlun og sýningahaldi (Náttúrusafn). Báðir hóparnir lögðu til að reist yrði Náttúruhús í Reykjavík, nánar til tekið í Vatnsmýrinni, og ráðgert að það yrði 6.850 m2 að flatarmáli, þar af væri Náttúrusafn 3.300 m2 auk sameiginlegs rýmis. Þá var gengið út frá því að Náttúrusafnið yrði sameign ríkis, Reykjavíkurborgar, Háskóla Íslands og e.t.v. fleiri aðila og stofnað félag meðal eigendanna um reksturinn. Náttúrufræðistofnun skyldi vera burðarstólpi Náttúrusafnsins fyrir hönd ríkisins.

Á árunum 1990-1992 var unnið á vegum umhverfisráðuneytisins að undirbúningi hins nýja „safns“ með það fyrir augum að starfsemi gæti hafist árið 1995. Húsið átti að hýsa bæði Náttúrusafn og Náttúrufræðistofnun. Fyrir lá viljayfirlýsing frá Reykjavíkurborg og Háskóla Íslands um þátttöku í sýningarþættinum, þ.e. Náttúrusafninu. Þáverandi borgarstjóri Davíð Oddsson og Sigmundur Gubjarnarson rektor Háskóla Íslands veittu málinu brautargengi. Undirbúningsfjárveiting vegna byggingaframkvæmda fór í fjárlagafrumvarp vegna ársins 1992, en þá hljóp snurða á þráðinn, stjórnarliði gekk úr skaftinu og fjárveitingin var strikuð út. Síðan hefur málefnið átt á brattan að sækja, enn einn ganginn.

NNN-nefndin hafði einnig það hlutverk að semja lagafrumvarp um breytingar á lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands á grundvelli áherslubreytinganna sem urðu á hlutverki stofnunarinnar með lögum nr. 48/1965. Ný lög nr. 60/1992 um Náttúrufræðistofnun Íslands voru sett og tóku þau mið af framangreindum áherslubreytingum. Rannsóknahlutverk stofnunarinnar var styrkt en dregið úr sýningastarfsemi. Í 4. gr. laga nr. 60/1992 er kveðið á um aðalhlutverk Náttúrufræðistofnunar: „Náttúrufræðistofnun Íslands stundar undirstöðurannsóknir í dýrafræði, grasafræði og jarðfræði landsins og annast skipulega heimildasöfnun um náttúru Íslands. Hún varðveitir niðurstöður og eintök í fræðilegum söfnum er veiti sem best yfirlit um náttúru landsins.” Jafnframt segir í d-lið 4. gr. að Náttúrufræðistofnun skuli: …„styðja við uppbyggingu sýningarsafna um náttúrufræði með upplýsingum og ráðgjöf og miðla þekkingu um íslenska náttúru til skóla, fjölmiðla og almennings,“.

Safnalög 2001

Með safnalögum nr. 106/2001 urðu þáttaskil í safnamálum hér á landi, en þá voru í fyrsta sinn sett rammalög um safnastarfsemi í landinu. Safnalögin voru nýlega endurskoðuð og tóku ný Safnalög nr. 141/2011 gildi þann 28. september 2011. Í safnalögunum frá 2001 er að finna í fyrsta skipti tilvísun í íslenskri löggjöf í Náttúruminjasafn Íslands sem stofnunar, „höfuðsafns“ í eigu íslenska ríkisins.

Tilgangur safnalaganna er (sbr. 1. gr., 141/2011): „að efla starfsemi safna  við varðveislu menningar- og náttúruarfs Íslands, tryggja að honum verði skilað óspilltum til komandi kynslóða, veita fólki aðgang að honum og stuðla að aukinni þekkingu á þessari arfleifð og skilningi á tengslum hennar við umheiminn.“ Lögin taka til safna í eigu ríkisins og annarra safna sem eru viðurkennd samkvæmt safnalögunum.

Um hlutverk safna segir í 3. gr.:

„Söfn í skilningi laga þessara eru varanlegar stofnanir sem starfa í þágu almennings og eru ekki rekin í hagnaðarskyni. Þau skulu vera opin almenningi.“ 

Með söfnun, skráningu, varðveislu, rannsóknum, sýningum og annarri miðlun er það hlutverk safna að tryggja menningar- og náttúruarf Íslands, varpa ljósi á menningar-, náttúru- og listasögu landsins, styrkja safnkost og heimildasöfnun innan síns sérsviðs og gera safnkost sinn og heimildasöfn aðgengileg almenningi og fræðimönnum. Í starfi sínu skulu söfn hafa að leiðarljósi að auka lífsgæði manna með því að efla skilning á þróun og stöðu menningar, lista, náttúru eða vísinda.

„Söfn skulu stunda markvissa söfnun muna og heimilda til að safnkostur þeirra gefi sem heildstæðasta mynd af sérsviði þeirra.“

Um höfuðsöfn stendur eftirfarandi:

Höfuðsöfn eru þrjú: Listasafn Íslands, Náttúruminjasafn Íslands og Þjóðminjasafn Íslands. Þau eru öðrum söfnum til ráðgjafar og skulu stuðla að samvinnu safna og samræmdri safnastefnu hvert á sínu sviði.

Höfuðsöfn skulu hafa forustu í málefnum safna á sínu sviði, stuðla að eflingu og samræmi í safnastarfi og leiða faglegt samstarf safna og annarra aðila. Höfuðsöfn skulu leitast við að efla og auka þekkingu og færni starfsfólks safna.

Höfuðsöfn skulu annast kynningu á sérsviði sínu innan lands og utan.

Safnkostur höfuðsafna skal vera undirstaða fræðslu- og sýningarstarfs þeirra. Hann skal jafnframt vera aðgengilegur til rannsókna.

Höfuðsöfn mega ekki taka við gjöfum sem kvaðir fylgja. Ráðherra getur veitt undanþágu frá þessu ákvæði ef sérstök rök mæla með því.

Menntamálaráðherra skipaði í janúar árið 2002 þriggja manna nefnd (Karítas Gunnarsdóttir, Gunnar Jóhann Birgisson og Jón Gunnar Ottósson) sem skyldi gera tillögu að frumvarpi að sérlögum fyrir Náttúruminjasafn Íslands. Átti nefndin samkvæmt skipunarbréfi að skila tillögum sínum í apríl sama ár, en framlagning frumvarpsins tafðist og lög um Náttúruminjasafn voru ekki samþykkt fyrr en í mars 2007. Tafirnar má m.a. rekja til þess að ekki tókst að leysa úr ýmsum þeim atriðum sem fylgdu stofnun safnsins og snúa m.a. að verkaskiptingu þess og Náttúrufræðistofnunar og skiptingu gripasafna.

Náttúruminjasafn 2007

Þann 17. mars árið 2007 urðu merk tímamót í sögu náttúruminjasafna hérlendis en þá voru loks samþykkt á Alþingi lög nr. 35/2007 um Náttúruminjasafn Íslands.

Þáverandi menntamálaráðherra skipaði í janúar árið 2002 þriggja manna nefnd sem skyldi gera tillögu að frumvarpi að sérlögum fyrir Náttúruminjasafn Íslands. Samkvæmt skipunarbréfi átti nefndin að skila tillögum í apríl sama ár, en framlagning frumvarpsins tafðist og lög um Náttúruminjasafn voru ekki samþykkt fyrr en í mars 2007.

Þrátt fyrir langa sögu, og oft á tíðum stranga, stendur Náttúruminjasafn Íslands nánast á byrjunarreit, a.m.k. hvað varðar sýningahald. Stofnunin býr við jafnframt óvissu varðandi skrifstofuhúsnæði og fjárheimildir hafa til þessa rétt dugað til reksturs með einn starfsmann auk forstöðumanns.

Það er á valdi ríkisins að styrkja starfsemi safnsins og gera það að þeirri stofnun sem sárlega hefur vantað í íslenskt mennta- og menningarlíf í áratugi og raunar allt frá stofnun Hins íslenska náttúrufræðifélags í Reykjavík árið 1889.

Húsnæðishrakir

Allt frá stofnun Hins íslenska náttúrufræðifélags í Reykjavík árið 1889 hefur sýningaraðstaða á náttúrgripum félagsins lengst af verið á hrakhólum.

Fyrsta árið í sögu félagsins voru gripir þeir sem safnið fékk í upphafi geymdir heima hjá fyrsta formanni félagsins, Benedikti Gröndal, að Vesturgötu 16. Það hús stóð á sínum stað fram til 14. janúar 2009 er húsið var flutt af grunni út í Örfirisey til viðgerðar á vegum Reykjavíkurborgar. Endurgert Gröndalshús var opnað í júní 2017 í Grjótaþorpinu, á mótum Fischersunds og Mjóstrætis. Þar er nú safn til húsa um Beneditk Gröndal og aðstaða fyrir skáld og fræðimenn að dvelja í.

Gröndalshús

Vorið 1890 var leigt herbergi fyrir safnið í einu af Thomsenshúsum (núna Vesturgata 38). Vorið 1892 var safnið flutt í tvö herbergi í húsi sem nú er Kirkjustræti 10, en í þeim húsakynnum var safnið til sumarsins 1895. Á þessum fyrstu árum safnsins var það ekki formlega opið almenningi.

Í ágúst 1895 var safnið flutt í húsið Glasgow við Vesturgötu 5a. Þar fékk safnið til umráða stóran sal og var opnað almenningi á hverjum sunnudegi eftir messu. Húsnæði Náttúrugripasafnsins í Glasgow þótti ekki nógu gott og fóru þá að heyrast kröfur um að safnið yrði viðurkennt sem opinber eign landsins, þjóðareign, sem þyrfti fullnægjandi húsnæði. Glasgow brann til kaldra kola árið 1903 en áður, árið 1899, hafði Náttúrugripasafnið verið flutt í Doktorshúsið þar sem Stýrimannaskólinn gamli var, við Ránargötu 13 (nú horfið). Árið 1903 var safnið enn flutt, að þessu sinni í nýtt hús á Vesturgötu 10 í Reykjavík.

Þegar Safnahúsið við Hverfisgötu var teiknað árið 1906 var Náttúrugripasafninu markaður þar staður. Árið 1908 var safnið flutt í hið nýreista Safnahús og var þar til ársins 1960. Þar fékk safnið til afnota 130 fm sýningarsal ásamt 50 fm geymslu. Með árunum varð húsnæðið ófullnægjandi og þar að auki hafði landsbókavörður óskað eftir því til afnota.

Með lögum nr. 125/1943 fékk Háskóli Íslands framlengt einkaleyfi til að reka happadrætti til ársins 1960 með því skilyrði að hann byggði yfir Náttúrugripasafnið. Árið 1946 náðist samkomulag um að Háskóli Íslands léti byggja hús fyrir Náttúrugripasafnið fyrir ágóða af happdrætti sínu. Af þessum byggingum hefur ekki orðið, en háskólaráð mun hafa samþykkt 13. mars 1942 að safnið yrði reist á háskólalóðinni.

Náttúrugripasafnið var í Safnahúsinu fram til ársins 1960 en þá var sýningahaldi á náttúrugripunum hætt og öllum mununum komið fyrir í geymslum. Náttúrugripasafn Íslands flutti sama ár í húsnæði við Hlemm en þar fór ekkert sýningahald fram fyrr en árið 1967 þegar grunnsýning á náttúru Íslands var opnuð á vegum Náttúrufræðistofununar Íslands, sem tók til starfa árið 1965 með breytingum á lögum nr. 17/1951 um Náttúrugripasafn Íslands. Sýningarýmið við Hlemmtorg var um 100 fm að flatarmáli og húsnæðið eigu Háskóla Íslands. Á 100 ára afmæli Hins íslenska náttúrufræðifélags árið 1989 var sýningarhúsnæðið við Hlemm stækkað í 200 fm að meðtöldum stigagangi og var um tvo sali að ræða á tveimur hæðum.

Sýningarsölum við Hlemm var lokað 31. mars 2008 og sýningarmunum komið fyrir í geymslum á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands. Þá höfðu tekið gildi lög um Náttúruminjasafn Íslands og stefnt að opnun sýningar, en allt kom fyrir ekki.

Um tíma var stefnt að opnun grunnsýningar á náttúru landsins í Perlunni á vegum Náttúruminjasafnsins, en af því varð því miður ekki.

Vorið 2015 var opnuð sýningin Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim í Safnahúsinu við Hverfisgötu sem Náttúruminjasafnið tekur þát tí ásamt fimm öðrum ríkissöfnum.