Sjónarhorn í Safnahúsi

Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim

Grunnsýning á íslenskri list og sjónrænum menningararfi var opnuð í Safnahúsinu við Hverfisgötu laugardaginn 18. apríl 2015. Að sýningunni standa sex ríkissöfn landsins; Þjóðminjasafn Íslands, sem er rekstraraðili hússins, Listasafn Íslands, Náttúruminjasafn Íslands, Þjóðskjalasafn Íslands, Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Heiti sýningarinnar er Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim.

Safnahúsið við Hverfisgötu 15.

Á sýningunni er gestum boðið í leiðangur um sjónrænan menningaarf þjóðarinnar þar sem saman eru komnar margvíslegar gersemar; forngripir, listaverk, skjöl, handrit og náttúrugripir. Þetta er fyrsta sýningin sem Náttúruminjasafn Íslands, höfuðsafn þjóðarinnar á sviði náttúrufræða, tekur þátt í frá stofnun safnsins vorið 2007 og því um merk tímamót að ræða.

Sýningarstjóri er Markús Þór Andrésson. Nálgast má upplýsingar um sýninguna á Facebook-síðu hennar og heimasíðu.

Grunnsýningunni er ætlað að standa í fimm ár en auk þess verður boðið upp á tímabundnar kjör- og sérsýningar. Annars vegar er um að ræða sérsýningu til eins árs í austurálmu hússins á 3. hæð, þar sem ákveðnu viðfangsefni tiltekins aðstandenda sýningarinnar eru gerð ítarleg skil. Hins vegar er kjörgripasýning, hugsuð til hálfs árs eða svo, sem er í stigaherbergi á 2. hæð fyrir miðju húsinu. Þar munu aðstandendur sýningarinnar kynna gersemar sem þykja einstaklega sérstakar og eða fágætar.

Náttúruminjasafn Íslands reið á vaðið með sýningu á kjörgrip og var það geirfuglinn sem þjóðin eignaðist á uppboði í London 1971. Sú sýning stóð yfir í ár, frá apríl 2015 til apríl 2016. Íslenski geirfuglinn er mikið fágæti og dýrmætur gripur en geirfuglinum var útrýmt af Jörðu um miðja 19. öld. Talið er að síðustu tveir fuglarnir hafi verið drepnir í Eldey í fyrstu viku júni árið 1884. Aðeins eru til um 80 geirfuglar og 75 geirfuglsegg í söfnum erlendis og eru flestir munirnir frá Íslandi. Íslenski geirfuglinn og eitt geirfugslegg eru varðveitt á Náttúrufræðistofnun Íslands.

Sérsýning Náttúruminjasafnsins á grunnsýningu Sjónarhorsins var opnuð vð hátíðlegt tækifæri 16. júní 2016 á stofndegi Hins íslenska náttúrufræðifélags. Sýningin ber heitið Geirfugl  † Pinguinus impennis   Aldauði tegundar – Síðustu sýnin og er samstarfsverkefni Náttúruminjasafnsins og Ólafar Nordal myndlistarmanns í samvinnu við Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn og Náttúrufræðistofnun Íslands.

Á sýningunni gefur að líta uppstoppaðan geirfugl sem keyptur var 1971, uppdrátt af Geirfuglaskeri frá því um 1770 sem sýnir veiðar á geirfugli og fleiri svartfuglum, og ný verk eftir Ólöfu Nordal: Ellefu ljósmyndir af líffærum og innyflum síðustu geirfuglanna tveggja eins og þau eru varðveitt í Náttúrufræðisafni Danmerkur, frásögn af drápi síðustu geirfuglanna í Eldey og myndskeið sem sýnir veiðar á fugli í Vestmannaeyjum.

Sérsýningunni um geirfuglinn er ætlað að vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi ábyrgrar og siðlegrar umgengni við undur og auðlindir náttúrunnar. Útrýming geirfuglsins er svartur blettur í sögu mannkyns og þar eiga Íslendingar sinn þátt. Hafa verður í huga að vitneskja og þekking á náttúru og umhverfi var takmarkaðri þá en nú. Samt sem áður eiga núlifandi ættingjar geirfuglsins, haftyrðill, stuttnefja og fleiri svartfuglar, í vök að verjast vegna veiða og loftslagshlýnunar. Sú staða vekur upp spurningar um hvað við höfum lært af fyrri mistökum.

Áætlað er að sérsýningin um geirfuglinn standi yfir a.m.k. fram á vor 2017 og jafnvel lengur.