Upplifunarferð fyrir leikskóla
Leikskólabörnum er boðið í spennandi upplifunarferð um sýninguna Vatnið í náttúru Íslands. Þar fá þau að kynnast mismunandi birtingarmyndum vatns, meðal annars með því að hlusta, snerta, sulla og skoða lífverur sem búa í vatninu.
Markmið heimsóknarinnar er að nemendur kynnist mismunandi birtingarmyndum vatns og kynnist því að fara á safn og skoða sýningu saman.
Fyrirkomulag heimsóknar
Tekið er á móti leikskólahópum við inngang Perlunnar og þeim fylgt upp á 2. hæð þar sem sýning Náttúruminjasafnsins, Vatnið í náttúru Íslands er. Þar er fatahengi þar sem hægt er að hengja upp útifatnað. Hópurinn sest svo fyrir framan vatnsköttinn í anddyri sýningarinnar þar sem safnkennarar bjóða hópinn velkominn og fara yfir fyrirkomulag heimsóknarinnar. Safnkennarar tala við nemendur um vatnið, hvernig við notum það, upplifum og finnum fyrir því, auk þess er sagt frá vatnskettinum og farið yfir lífsferil hans.
Því næst leiðir safnkennari hópinn í gegnum sýninguna með það að markmiði að upplifa vatnið á fjölbreyttan hátt. Við hlustum á vatnið, göngum á því, sullum í því, förum bakvið foss, veltum fyrir okkur mismunandi formum steina og skoðum lífverur sem lifa í fersku vatni. Því næst skoðum við plöntur í vatnsbúrum, lifandi plöntur í gróðurkúlum og endum á spennandi sýningu á vegum Vatnajökulsþjóðgarðs um þjóðgarðinn og náttúru hans.
Ef tími gefst er hópnum skipt upp og þau sem vilja geta sest á vatnsköttinn í anddyri sýningarinnar. Safnkennari fylgir svo hópnum niður og kveður. Heimsóknin tekur 40 – 50 mínútur eftir því sem kennurum finnst passa.
Æskilegt er að ekki séu fleiri en 20 börn í hverjum hópi til þess að þau njóti heimsóknarinnar sem best.
Mikilvægt er að nemendur séu búin að borða nesti áður en þau koma í Perluna eða borði það þegar heim í skólann er komið þar sem það er ekki nestisaðstaða í Perlunni.
Undirbúningur og eftirfylgni fræðsluleiðarinnar
Fróðleiksbrunnurinn er ný fræðslusíða Náttúruminjasafns Íslands í náttúrufræðum. Hér fyrir neðan eru hlekkir á fræðsluefni sem getur hentað til undirbúnings og eftirfylgni fyrir heimsóknina.
Náttúrufræðsla – Líf í fersku vatni
Tenging við Aðalnámsskrá leikskóla
Tenging við kennsluefni.
Vala Steingrímsdóttir og Unnar Ingi Sæmundarson, 2023. Fræðslumyndasögur um líffræðilega fjölbreytni. Náttúrufræðistofnun Íslands.