Mikilvægi náttúrunnar í forgrunni

Náttúruminjasafn Íslands vinnur nú að undirbúningi og frumhönnun á náttúrusýningu í um 350 m2 rými á milligólfi á nýrri 2. hæð í aðalrými Perlunnar. Verkefnið er fyrri áfangi af tveimur og er skv. samkomulagi sem undirritað var 27. júní s.l. milli fulltrúa Perlu norðursins ehf. og Náttúruminjasafns Íslands.

Fyrsta fundinn sátu (frá vinstri): Droplaug Ólafsdóttir, Margrét Hugadóttir, Sólrún Harðardóttir, Bryndís Sverrisdóttir, Þóra Ellen Þórhallsdóttir, Skúli Skúlason, Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir, Hilmar J. Malmquist, Snorri Sigurðsson og Sigrún Helgadóttir. Ljósm. ÁI.

Í gær boðaði Náttúruminjasafnið til fyrsta fundar til undirbúnings sýningahaldinu en á fundinum voru fulltrúar í sýningarstjórn ásamt fræðslu- og fagráði, en nokkrir voru utan bæjar eða í sumarfríi. „Þetta var góður fundur, hópurinn samtaka og margar fínar hugmyndir á lofti“, sagði Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður safnsins. „Markmiðið er að gestir sýningarinnar upplifi aðdáun og væntumþykju um náttúru landsins og fræðist um mikilvægi náttúrunnar og náttúrulegra ferla sem undirstöðu lífs og forsendu fyrir farsælli búsetu í landinu.“

Fyrri áfanginn felst í skilgreiningu á innihaldi og efnistökum sýningarinnar, frumhönn­un á framsetningu sýningaratriða, kostnaðaráætlun um framleiðslu og uppsetningu, lýsingu á að­gangs­­stýringu og gestaflæði um rýmið ásamt framkvæmdaáætlun fram að opnun sýningarinnar sem er fyrirhuguð 1. maí 2018. Þessum áfanga skal vera lokið eigi síðar en 15. október 2017. Fáist verk­efnið fjármagnað í meðförum Alþingis á haustdögum tekur við annar áfangi sem felst í fullnaðar­hönnun sýningarinnar, framleiðslu og í kjölfarið uppsetningu.

Sýningarstjórn

Sýningarstjórn í fyrri áfanganum skipa Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir sýningahönnuður og sýningar­stjóri verkefnisins, Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafnsins, Skúli Skúlason pró­fessor, Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor, Bryndís Sverrisdóttir safnfræðingur og Álfheiður Ingadóttir líffræðingur ritstjóri verkefnisins. Sýningarstjóri fer fyrir sýningarstjórn.

Fag- og fræðsluráð

Hlutverk fag- og fræðsluráðs er að vera sýningarstjórn til ráðgjafar í fyrri áfanga um efnistök og inni­hald sýningarinnar á vegum safnsins. Fag- og fræðsluráð skipa: Árni Hjartarson jarðfræðingur, Bryndís Marteinsdóttir líffræðingur, Droplaug Ólafsdóttir líffræðingur, Lovísa Ásbjörnsdóttir jarðfræðingur, Margrét Hugadóttir kennari, Sigrún Helgadóttir líffræðingur og kennari, Sólrún Harðardóttir námsefnishöfundur, Snorri Sigurðsson líffræðingur og Snorri Baldursson líffræðingur.

Jaðrakan

Jaðrakan

Jaðrakan (Limosa limosa)

Jaðrakan með vind í fiðrinu í Friðlandinu í Flóa.

 

Vaðfuglar tilheyra allir sama ættbálki, strandfuglum (Charadriiformes), ásamt máfum og svartfuglum. Einkenni margra vaðfugla eru langur goggur, langir fætur og langur háls. Þeir eru dýraætur sem eta alls konar hryggleysingja og langur goggurinn er hentugur til að grafa eftir æti í leirum, tjarnarbotnum og jarðvegi. Sumir þeirra sækja í þurrlendi og hafa þá fremur stuttan gogg og fætur eins og sandlóa og heiðlóa. Vaðfuglar helga sér óðul og verpa pörin stök, en stundum er hægt að tala um að þeir verpi í dreifðum byggðum.

Útlit og atferli

Jaðrakan er einn af einkennisfuglum láglendismýra. Hann er háfættur, hálslangur og spengilegur, álíka stór og spói. Á sumrin er hann rauðbrúnn um höfuð, háls og niður á bringu en annars með brúnleitu mynstri, kvenfugl er litdaufari og stærri en karlfugl. Í vetrarbúningi er hann jafnlitur, grábrúnn að ofan og ljós að neðan. Ungfugl er rauðgulbrúnn á höfði, hálsi og bringu og minnir á fullorðna fugla í sumarfiðri. Á flugi sjást áberandi hvít vængbelti, hvítur gumpur og stél með svörtum afturjaðri.

Jaðrakan á varpstað á Stokkseyri.

Ungur jaðrakan í fjöru í Sandgerði. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Jaðrakan lætur í sér heyra í Friðlandinu í Flóa. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Goggur er langur og beinn, gulrauður í rótina með dökkan brodd. Fætur eru langir, svartleitir og skaga langt aftur fyrir stélið á flugi. Augu eru brún og augnhringur ljós.

Fluglag er ákveðið með hröðum vængjatökum. Fuglinn er hávær og órólegur á varpstöðvum. Hann er félagslyndur utan varptíma.

Jaðrakanapar á góðri stund á Djúpavogi. Litar- stærðarmunur kynjanna sést vel. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Hreiður jaðrakans. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Lífshættir

Potar með goggnum djúpt í leirur, mýrar eða tjarnarbotna eftir ormum, samlokum, sniglum, lirfum og öðrum hryggleysingjum. Tekur einnig fæðu úr jurtaríkinu, svo sem fræ og ber.

Er eindreginn votlendisfugl, verpur í og við margs konar votlendi á láglendi, t.d. flæðiengi, flóa og hallamýrar, og jafnvel í lyngmóum og kjarrlendi, en aldrei langt frá vatni. Hreiðrið er dæld í gróður, fóðrað með sinu og venjulega vel falið. Eggin eru oftast fjögur. Útungunartíminn er 24 dagar og verða ungarnir fleygir á um fimm vikum. Þeir eru bráðgerir og yfirgefa hreiðrið strax og þeir eru orðnir þurrir. Báðir foreldrarnir ala önn fyrir ungunum. Utan varptíma heldur jaðrakan sig mest í votlendi, á túnum og leirum.

Háfættur jaðrakan leitar ætis í Andakílsá (fyrir umhverfisslys Orku náttúrunnar). Vísindamenn fygljast með ferðum fuglanna m.a. með því að auðkenna þá með litmerkjum. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Jaðrakanar á leiru að vorlagi í Álftafirði, Djúpavosghreppi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Jaðrakanar berjast um æti í fjörunni í Borgarfirði eystra. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Vorhret á Stokkseyri. Undir þannig kringumstæðum kemur sér vel að hafa langan gogg. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Útbreiðsla og stofnstærð

Fyrir 1920 var jaðrakan bundinn við Suðurlandsundirlendið en hefur breiðst mjög út á undanförnum áratugum og verpur nú á láglendi um mestallt land. Íslenskir jaðrakanar hafa vetrardvöl á Bretlandseyjum og með ströndum Vestur-Evrópu, frá Þýsklandi suður til Portúgals og Marokkó, flestir á Írlandi. Íslenski jaðrakaninn (undirtegundin L. l. islandica) er á norður- og vesturmörkum útbreiðslusvæðis tegundarinnar. Þessi undirtegund finnst aðallega hér á landi, en einnig lítils háttar í Færeyjum, á Hjaltlandi og í Noregi. Annars verpur jaðrakan dreift um Vestur- og Mið-Evrópu, aðallega í Hollandi og austur um Rússland.

Nýkomnir jaðrakanar á Eyrarbakka seðja hungrið eftir farflugið. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Þreyttir jarðrakanar eftir langflug hvílast við Dyrhólaós. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Hópur jaðrakana síðsumars við Austari-Héraðsvötn. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Jaðrakan í vetrarbúningi á Stokkseyri. Þeir sjást sjaldan í þessum skrúða hér á landi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Þjóðtrú og sagnir

Jaðrakan gefur frá sér hrjúft kvak og hvellt nefhljóð á varptíma, einkum á flugi, annars er hann þögull. Þessi hljóð hafa orðið tilefni sagna og þjóðtrúar. Menn þóttust jafnvel greina orð úr hljóðum fuglsins og er til um það ágæt saga. Þannig var að maður kom að á og var á báðum áttum hvort hann ætti að freista þess að vaða yfir eða ekki. Þá kom þar að jaðrakan og sagði: „Vaddúdí, vaddúdí“, sem maðurinn og gerði en blotnaði. Þá heyrðist frá jaðrakaninum: „Vaddu vodu? Vaddu vodu?“ Maðurinn, sem nú var orðinn reiður yfir að hafa látið ginna sig útí, steytti hnefann móti fuglinum og svaraði: „Já, ég varð votur.“ Þá flaug jaðrakaninn burt og heyrðist manninum fuglinn segja í kveðjuskyni: „Vidduþi, vidduþi“ og fór hann að því ráði og tók að vinda föt sín. – Heiti fuglsins er ráðgáta, en ein tilgátan er að þá sé komið úr gelísku.

Kveðskapur

Að Skálabrekku

Hér stend ég aftur á brekkunnar brún og horfi
á blálygnt djúpið með himinhvolf sitt og fjöll.
En jaðraki, stelkur og hrossagaukur hamast
við hljómleika sína í nánd við iðgrænan völl.

Eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson.

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.