by Anna Katrín Guðmundsdóttir | 11.02.2016 | Fréttir

Hvannstóð á Reykjahlíðarheiði. Leirhnjúkur og Krafla í baksýn til vinstri. Svarta hraunið er frá Kröflueldum, gráa hraunið með mosa er frá Mývatnseldum. Ljósm. Kristján Jónasson.
Landvernd og Náttúruverndarsamtök Íslands efna í samvinnu við Náttúruverndarsjóð Pálma Jónssonar til ráðstefnu í Hörpu 26.-27. febrúar næstkomandi. Efni ráðstefnunnar er miðhálendið og stofnun þjóðgarðs á hálendi Íslands. Þar munu innlendir og erlendir sérfræðingar, sem þekkja til náttúrufars og útivistar á hálendinu halda fyrirlestra, auk þess sem fjallað verður um reynsluna af stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs.
Ráðstefnan hefst kl. 13:15 á föstudag og stendur til kl. 17:10 og á laugardag kl. 10:30-14:45. Frú Vigdís Finnbogadóttir setur ráðstefnuna. Ráðstefnustjóri er Guðrún Pétursdóttir, forstöðumaður stofnunar Sæmundar fróða.
Meðal fyrirlesara á laugardagsmorgni (kl. 10:35) er Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafnsins og nefnist erindi hans Verndun náttúrugæða hálendisins: mikilvægi þekkingar og fræðslu.
Tveir erlendir fræðimenn flytja erindi: Dr. Christopher Hamilton er bandarískur eldfjallafræðingur og sérfróður um eldvirkni á reikistjörnum sólkerfisins. Margar hliðstæður eru á milli jarðfræði Íslands og Mars og hefur landið, og þá sérstaklega miðhálendið, verið vinsæll áfangastaður fyrir þá sem rannsaka rauðu reikistjörnuna. Dr. Hamilton mun segja ráðstefnugestum frá rannsóknum sínum.
Joel Erkkonen ráðgjafi hjá finnsku stofnuninni Parks & Wildlife Finland fjallar um efnahagslega og heilusfarslega ábata af þjóðgörðum í Finnlandi. Hann hefur rannsakað samfélagsleg og efnahagsleg áhrif þjóðgarða þar í landi. Þær rannsóknir hafa m.a. sýnt fram á að fyrir hverja evru sem lögð er í rekstur þjóðgarða skila 10 evrur sér tilbaka til samfélagsins.
Ókeypis er á ráðstefnuna og hún opin öllum. Skráning fer fram í gegnum steinar@natturuvernd.is Stofnaður hefur verið viðburður á Facebook þar sem nálgast má frekari upplýsingar um ráðstefnuna en dagskrána má nálgast hér.
by Anna Katrín Guðmundsdóttir | 15.12.2015 | Fréttir
Út er komið 3.-4. hefti 85. árgangs Náttúrufræðingsins, félagsrits Hins íslenska náttúrufræðifélags og tímarit Náttúruminjasafns Íslands. Í heftinu, sem er 76 bls., eru að venju spennandi greinar um náttúru landsins og fjölbreyttar rannsóknir á hinum ýmsu þáttum hennar.
Forsíðugreinin er yfirlitsgrein um Forystufé á Íslandi, sérstaka eiginleika þess og dreifingu um landið. Höfundar eru Jón Viðar Jónmundsson, Lárus G. Birgisson, Sigríður Jóhannesdóttir, Emma Eyþórsdóttir, Þorvaldur Kristjánsson og Ólafur R. Dýrmundsson.
Halldór Björnsson, sérfræðingur á Veðurstofu Íslands ritar leiðara um Leiðina til Parísar, þangað sem augu allra hafa beinst undanfarnar vikur. Aðrir höfundar greina eru: Hörður Kristinsson, Árni Hjartarson, Gunnar Steinn Jónsson, Jón Einar Jónsson, Þórður Ö. Kristjánsson, Árni Ásgeirsson og Tómas G. Gunnarsson, Arnar Pálsson, Ævar Petersen, Helgi Hallgrímsson, Lovísa Ásbjörnsdóttir og Kristján Jónasson.
Ritstjóri Náttúrufræðingsins er Álfheiður Ingadóttir.
Hér má fá ítarlegri upplýsingar um efni heftisins.
by Anna Katrín Guðmundsdóttir | 2.10.2015 | Fréttir

Ábúendur á Ytri-Görðum ásamt vísindamönnunum: Frá vinstri: Dr. Jan Heinemeier, dr. Hilmar J. Malmquist, dr. Hreggviður Norðdahl, Svava Svandís Guðmundsdóttir, bóndi, dr. Árný Erla Sveinbjörnsdóttir og Símon Sigurmonsson bóndi.
Föstudaginn 25. september s.l. fór hópur vísindamanna frá Náttúruminjasafninu og Háskóla Íslands vestur á Snæfellsnes til að taka sýni úr hauskúpu af rostungi sem fannst Garðafjöru í lok ágúst. Í hópnum voru auk forstöðumanns Náttúruminjasafnsins, Hilmars J. Malmquists, Árný Erla Sveinbjörnsdóttir og Hreggviður Norðdahl jarðfræðingar við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands og Jan Heinemeier, eðlisfræðingur frá Árósarháskóla.
Þó talsvert sé til af beinaleifum rostunga sem fundist hafa í jarðlögum á Íslandi, bæði smíðisgripum og náttúrulegum beinum, hafa munirnir nær ekkert verið rannsakaðir með óyggjandi hætti m.t.t. aldurs þeirra. Beinaleifar úr aðeins fimm rostungum hafa verið aldursgreindar til þessa með geislakolsaðferð (C-14), þ.e. nýverið í rannsókn Náttúruminjasafnsins og samstarfsaðila á beinum fjögurra rostunga frá Barðastöðum á Snæfellsnesi, og í rannsókn Páls Imslands jarðfræðings á rostungstönn sem fannst fyrir liðlega tíu árum í jökulurð við Hoffellssand á suðausturhorni landsins.
Samstarf um rannsóknirnar
Forsagan að ferðinni í Garðafjöru er að á árinu 2008 rak þrjá vel tennta rostungshausa og nokkrar stakar skögultennur upp í fjöru við Barðastaði í Staðarsveit. Einn hausinn rataði til Náttúruminjasafns Íslands þegar Guðmundur G. Þórarinsson færði safninu hann að gjöf. Varð það kveikjan að samstarfi Náttúruminjasafnsins við vísindamenn og –stofnanir um rannsókn á fornlíffræði rostunga hér við land. Markmiðið með rannsóknunum er að grafast fyrir um aldur og kyn dýranna, skyldleika við aðra rostungsstofna í norðanverðu Atlantshafi og ástæður þessara beinafunda á sunnanverðu Snæfellsnesi. Að rannsókninni standa auk Náttúruminjasafnsins, Líffræðistofa Háskóla Íslands, Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands og Fornleifafræðistofan. Með rannsóknunum er vonast til að varpa ljósi á fornvistfræði dýranna og kringumstæður í náttúru landsins til forna, sem og að skýra þátt rostunga í menningarsögulegu samhengi fyrir þjóðina fyrr á öldum. Fundurinn við Barðastaði er talinn renna stoðum undir kenningar um að rostungar hafi haft hér fasta viðveru áður fyrr og jafnvel haft látur og kæpt. Til rannsóknar eru einnig leifar um 50 annarra rostunga sem fundist hafa hér við land allt frá 1884 og varðveittar eru hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.
(more…)
by Anna Katrín Guðmundsdóttir | 18.09.2015 | Fréttir

Eggert Pétursson listmálari við mynd sína frá 1985: Flóra Íslands.
Í Safnahúsinu við Hverfisgötu getur nú að líta frummynd Eggerts Péturssonar, listmálara, af FLÓRU ÍSLANDS, sem Hið íslenska náttúrufræðifélag gaf fyrst út á veggspjaldi 1985. Veggspjaldið er nú komið út á ný, í fjórða sinn, enda fyrri útgáfur löngu uppseldar.
Myndina, sem sýnir 63 tegundir íslenskra blómplantna, málaði Eggert með vatnslitum (gvass) á árinu 1985 að beiðni stjórnar Hins íslenska náttúrufræðifélags en hann hafði áður myndskreytt bókina Íslensk flóra með litmyndum eftir Ágúst H. Bjarnason grasafræðing sem kom út árið 1983. 1989 sýndi Eggert í fyrsta sinn olíumálverk þar sem myndefnið var sótt í jurtaríkið. Hann er nú meðal dáðustu listamanna þjóðarinnar – ekki síst fyrir einstaka túlkun á hinu smáa og fíngerða í íslenskri náttúru.

Dagur íslenskrar náttúru í Safnahúsinu: Bryndís Marteinsdóttir, stjórnarmaður HÍN, Kristín Svavarsdóttir fyrrverandi formaður HÍN, Rannveig Magnúsdóttir, í ritstjórn Náttúrufræðingsins, Kristján B. Magnússon, Crymogeu, Eggert Pétursson, listmálari og Hilmar Malmquist, forstjóri Náttúruminjasafnsins.
Eggert var viðstaddur þegar endurútgáfu veggspjaldsins FLÓRU ÍSLANDS var fagnað á Degi íslenskrar náttúru 16. september s.l. í Safnahúsinu við Hverfisgötu.
CRYMOGEA /FOLDA annaðist nýja prenthönnun verksins og sá um útgáfuna fyrir Náttúruminjasafnið og Hið íslenska náttúrufræðifélag.
Veggspjaldið er 70×50 sm á stærð. Það fæst í Safnabúð Safnahússins, í verslunum Eymundssonar, Bókaverslun Máls og menningar og Minju og kostar 2.990 kr.
Hægt er að panta veggspjaldið og fá það heimsent með því að senda póst á netfangið: crymogea@crymogea.is
by Anna Katrín Guðmundsdóttir | 15.09.2015 | Fréttir
Margir kannast efalaust við Flóru Íslands, vatnslitamyndina sem Eggert Pétursson listmálari málaði að beiðni Hins íslenska náttúrufræðifélags og gefin var út á veggspjaldi 1985. Nú að 30 árum liðnum hefur Náttúruminjasafn Íslands haft forgöngu um að gefa veggspjaldið út í fjórða sinn, en frummyndin sem er í eigu HÍN, er í vörslu safnsins.

Nýja veggspjaldið, Flóra Íslands er 70×50 cm að stærð, útgefandi er CRYMOGEA/FOLDA.
Veggspjaldið prýða 63 tegundir íslenskra háplantna sem lætur nærri að vera um 15% af öllum tegundum villtra háplantna sem vaxa á Íslandi. Tegundunum á myndfleti Flóru Íslands er skipt í fjóra hópa með hliðsjón af því við hvaða skilyrði þær lifa: 1) Holta- og melagróður (14 tegundir), 2) móa- og graslendisgróður (27 tegundir), 3) votlendisgróður (9 tegundir) og 4) blómlendisgróður (12 tegundir). Til hliðar við myndina eru íslensk, ensk og latnesk tegundarheiti.
Frumgerð Eggerts er nú sýnd opinberlega í fyrsta sinn á sýningunni Sjónarhorn í Safnahúsinu við Hverfisgötu og er gerð skil í sýningarskrá á bls. 67. Í tilefni af Degi íslenskrar náttúru, miðvikudaginn 16. september verður kynning á spjaldinu í Lestrarsal Safnahússins kl. 12 á hádegi. Dagur íslenskrar náttúru er haldinn hátíðlegur í sjötta sinn og er að vinna sér fastan sess í haustdagskrá landans, eins og sjá má af því að margir viðburðir eru í boði að þessu sinni.
Veggspjaldið er til sölu í Safnabúð Safnahússins, í verslunum Eymundssonar, Bókaverslun Máls og menningar og Minju og kostar 2.990 kr. Hægt er að panta veggspjaldið og fá það heimsent með því að senda póst á netfangið: crymogea@crymogea.is