Að mennta börn í söfnum – barnamenning

Að mennta börn í söfnum – barnamenning

Höfuðsöfnin þrjú – Þjóðminjasafn Íslands, Listasafn Íslands og Náttúruminjasafn Íslands – boða til árlegs vorfundar mánudaginn 29. apríl n.k. Fundurinn verður haldinn í Safnahúsinu við Hverfisgötu undir yfirskriftinni: Að mennta börn í söfnum – barnamenning.

Vorfundurinn hefst kl. 9 með ávarpi f.h. mennta- og menningarmálaráðherra og erindi dr. Christian Gether, safnstjóra Arken í Danmörku, sem nefnist: ARKEN, a Part of Society´s Enlighetenment Project towards its Citizens. Ideas and Practices. 

Síðan verður fjallað um verkefni á sviði barnamenningar hjá höfuðsöfnunum og rannsóknir og þekkingarsköpun í safnastarfi. Eftir hádegið verða sýningar og höfuðsöfn heimsótt. Við lok dagskrár kl. 16:30 heldur Safnaráð úthlutunarboð í Listasafni Íslands við Fríkirkjuveg.

Vissirðu að vatn getur líka flogið?

Vatnskötturinn er vinsælt myndefni. Ljósm. IRI.

Sýning Náttúruminjasafnsins í Perlunni er sniðin að börnum. Vatnskötturinn tekur á móti börnunum og leiðir þau um sýninguna, en vatnsköttur er þeirri náttúru gæddur að geta flogið á einu lífsstigi sínu, þegar hann er orðinn að fjallaklukku!

Sigrún Þórarinsdóttir, safnakennari við Náttúruminjasafnið segir frá sýningu Náttúruminjasafnsins á vorfundinum kl. 10:55. Erindi hennar nefnist: Vissirðu að vatn getur líka flogið? Börnin og vatnið í náttúru Íslands. Heimsókn með leiðsögn og kynningu á sýningunni verður svo kl. 14:30. Óskað er eftir að fólk skrái sig í heimsóknina.

Dagskrá vorfundar 2019

Skráning fer fram hér  og stendur til og með 23. apríl.

 

Viðar og Jón lærði á Vetrarhátíð

Vetrarhátíð er hafin og af því tilefni spjalla sérfræðingar frá söfnum sem eiga verk í Safnahúsi á sýningunni Sjónarhorn við gesti kl. 20-21 í kvöld föstudaginn 2. febrúar.

Viðar Hreinsson

Frá Náttúruminjasafni kemur Viðar Hreinsson bókmenntafræðingur. Hann spjallar um listirnar, náttúruna og vísindin og samspilið þar á milli með áherslu á Jón lærða Guðmundsson, en Viðar er höfundur bókar um Jón sem nefnist Jón lærði og náttúrur náttúrunnar og kom út í nóvember 2016. Viðar mun ganga um sýninguna með gestum Safnahúss og stoppa við valda sýningarhluta.

Spekingar spjalla

Söfnin sem standa að sýningunni Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim eru sex talsins og  verða sérfræðingar frá öllum stofnununum á staðnum í kvöld.

Frá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum verður Gísli Sigurðsson til viðræðu um þann kjörgrip sem nú er í öndvegi. Jóhanna Guðmundsdóttir, frá Þjóðskjalasafni, spjallar um efni sérsýningarinnar Spegill samfélagsins 1770. Frá Landsbókasafni mætir Gunnar Marel Hinriksson og ræðir einkum Íslandskort Guðbrands Þorlákssonar og um galdra. Frá Þjóðminjasafni kemur Ágúst Ó. Georgsson og talar um myndablað sem sýnir helstu störf fólks til sveita á síðari hluta 19. aldar.

Sýningin Sjónarhorn var opnuð í apríl 2015. Á sýningunni er gestum boðið í leiðangur um sjónrænan menningararf þjóðarinnar þar sem saman eru komnar margvíslegar gersemar; forngripir, listaverk, skjöl, handrit og náttúrugripir. Þetta er fyrsta sýningin sem Náttúruminjasafn Íslands, höfuðsafn þjóðarinnar á sviði náttúrufræða, tekur þátt í frá stofnun safnsins vorið 2007.

 

Náttúran í listinni – Listin í náttúrunni

Goddur með leiðsögn í Safnahúsinu

Guðmundur Oddur Magnússon prófessor við LHÍ

Sunnudaginn 26. nóvember klukkan 14 mun Guðmundur Oddur Magnússon (Goddur) prófessor við Listaháskóla Íslands ganga með gestum um sýninguna  Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim í Safnahúsinu við Hverfisgötu.

Leiðsögn Godds er á vegum Náttúruminjasafns Íslands og hann mun spá jafnt í hinn sjónræna þátt náttúrunnar í menningunni og huga að framlagi listageirans til náttúrufræðinnar.

Sýningin Sjónarhorn er grunnsýning á íslenskri list og sjónrænum menningararfi, og var opnuð í Safnahúsinu 18. apríl 2015.

Safnahúsið við Hverfisgötu 15.

Þetta er fyrsta sýningin sem Náttúruminjasafn Íslands tekur þátt í frá stofnun 2007 en auk Náttúruminjasafnsins standa fimm aðrar menningarstofnanir að sýningunni: Þjóðminjasafn Íslands, Listasafn Íslands, Þjóðskjalasafn, Landsbókasafn – Háskólabókasafn og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Grunnsýningin stendur yfir í fimm ár – til ársins 2020. 

Leiðsögnin á sunnudaginn er ókeypis. Verið öll velkomin!

Hér má sjá umfjöllun um sýninguna á vef Náttúruminjasafnsins. 

 

Karlfuglinn er fundinn!

Kvenfuglsins enn leitað

Þetta er hann: Karlfuglinn sem drepinn var í Eldey 3. júní 1844 er uppstoppaður í Konunglega belgíska náttúrufræðisafninu í Brussel. Ljósm: Thierry Hubin/Royal Belgian Institute of Natural Sciences.

Hamur karlfuglsins, annars tveggja síðustu geirfuglanna sem drepnir voru við Ísland 1844, er fundinn!

Með DNA-greiningu á innyflum fuglanna, sem varðveitt eru í Náttúrufræðisafni Danmerkur, og samanburði við erfðaefni úr uppstoppuðum eintökum á söfnum víða um heim fannst hamur karlfuglsins í náttúrufræðisafninu í Brussel. Hamur kvenfuglsins er hins vegar enn ófundinn, en vísbendingar eru um hvar hann er niður kominn.

Hamirnir sem hurfu

Þegar fuglarnir voru drepnir í byrjun júní 1844 í Eldey höfðu geirfuglshamir verið eftirsóttir meðal safnara um árabil. Fuglinn var ekki lengur veiddur til átu heldur til að stoppa upp en talið er að til séu í heiminum um 80 hamir og uppstoppaðir geirfuglar – þeirra á meðal sá sem keyptur var til Íslands 1971.

Vitað er að bæði innyflin og hamirnir komu á náttúrufræðisafnið í Kaupmannahöfn 1844 og þar hafa innyfli fuglanna síðan verið varðveitt. Hins vegar hurfu hamirnir, þeir voru á árinu 1845 skráðir í eigu þekkts safnara í Kaupmannahöfn en síðan ekki söguna meir og hafa sagnfræðingar og náttúruvísindamenn reynt að leysa gátuna um hvar þeir væru niður komnir.

Um síðustu aldamót hafði breska geirfuglasérfræðingnum Erroll Fuller tekist að þrengja  hringinn og birti hann skrá yfir fimm eintök sem hann taldi að helst kæmu til greina og varðveitt eru í söfnum í Evrópu og Bandaríkjunum. Og þá kom til kasta nýrrar tækni erfðavísindanna.

Gátan leyst til hálfs

Fimmtán vísindamönnum frá Danmörku, Noregi, Bretlandi, Þýskalandi og Nýja Sjálandi hefur nú tekist að leysa gátuna til hálfs og birtu þeir niðurstöður sínar í sumar í GENES, vísindariti um erfðafræði. Þeir tóku erfðaefni hvatbera úr innyflum síðustu geirfuglanna í Kaupmannahöfn og báru saman við erfðaefni í fjórum uppsettum hömum á söfnum í Kiel og Oldenburg í Þýskalandi, Los Angeles í Bandaríkjunum og Brussel í Belgíu, en Fuller taldi þetta líklegustu eintökin.

Erfðaefni úr vélinda karlfuglsins í Kaupmannahöfn smellpassaði við haminn í Brussel en vonbrigðin urðu mikil þegar erfðaefni úr hjarta kvenfuglsins passaði ekki við neinn haminn. Við nánari athugun telja vísindamennirnir hins vegar líkur á að finna ham kvenfuglsins á safni í Cincinnati í Bandaríkjunum – og hafa reyndar fengið leyfi til að taka sýni úr honum til erfðagreiningar!

Það verður því væntanlega framhald á þessari 173ja ára sögu síðasta geirfuglaparsins sem drepið var við Ísland svo vitað sé.

Geirfugl Pinguinis impennis

Geirfugl var stór fugl af ætt svartfugla og var algengur við norðanvert Atlantshaf fyrr á öldum, þar á meðal við Ísland. Fuglinn var eftirsóttur til matar enda stórvaxinn og feitur. Um hann segir Þorvaldur Thoroddsen í Lýsingu Íslands sem út kom árið 1900:

„Geirfugl var algengur við Ísland fyr á öldum en er 
nú horfinn og að öllum líkindum útdauður; seinast 
var hann í Geirfuglaskerjum fyrir utan Reykjanes, 
en af því fuglinn var eigi fleygur og viðkoman lítilen mikið var drepið eyddist hann fljótt.“

Aldauði tegundar – sérsýning sem var

Vélinda og magi karlfuglsins sem drepinn var í Eldey 1844. Sýnið var tekið úr vélindanu. Ljósm. Ólöf Nordal.

Náttúruminjasafn Íslands og Ólöf Nordal myndlistamaður efndu til sérsýningar um geirfuglinn í Safnahúsinu á síðasta ári.

Sýningunni  var ætlað að vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi ábyrgrar og siðlegrar umgengni við undur og auðlindir náttúrunnar. Útrýming geirfuglsins er svartur blettur í sögu mannkyns og þar eiga Íslendingar sinn þátt. Núlifandi ættingjar geirfuglsins, haftyrðill, stuttnefja og fleiri svartfuglar, eiga í vök að verjast vegna veiða og loftslagshlýnunar. Sú staða vekur upp spurningar um hvað við höfum lært af fyrri mistökum.

Á sýningunni gaf að líta uppstoppaðan geirfugl sem keyptur var 1971, uppdrátt af Geirfuglaskeri frá því um 1770 sem sýnir veiðar á geirfugli og fleiri svartfuglum, og ný verk eftir Ólöfu Nordal: Ellefu ljósmyndir af líffærum og innyflum síðustu geirfuglanna tveggja eins og þau eru varðveitt í Náttúrufræðisafni Danmerkur, frásögn af drápi síðustu geirfuglanna í Eldey og myndskeið sem sýndi veiðar á fugli í Vestmannaeyjum. Sýningin var opnuð 16. júní 2016 og stóð í Safnahúsinu í eitt ár.

Náttúruminjasafnið komið í Perluna?

Miðvikudaginn 17. maí síðastliðinn afhentu 16 félagasamtök á sviði náttúrufræða, útivistar og umhverfismála Kristjáni Þór Júlíussyni mennta- og menningarmálaráðherra áskorun þess efnis að Alþingi og ráðherra tryggi uppbyggingu Náttúruminjasafns Íslands, eins og lofað var á Alþingi á síðasta þingi með samþykkt ályktunar í tengslum við 100 ára fullveldisafmælið árið 2018. Um þessa þingsályktun hefur verið fjallað áður á heimasíðu Náttúruminjasafnsins. Það voru Hið íslenska náttúrufræðifélag og Landvernd sem fóru fyrir áskoruninni og hana má lesa hér: Ályktun samtaka um eflingu natturugripasafns16.5.2017.

Kristján Þór Júlíusson mennta- og menningarmálaráðherra tekur við áskorun frá 16 félagasamtökum úr hendi Árna Hjartarsonar formanns Hins íslenska náttúrufræðifélags sem fór fyrir áskoruninni ásamt Landvernd.

 

 

 

 

Ráðherra tók vel á móti hópnum, liðlega tíu manns, og fjölmiðlar sýndu málinu töluverðan áhuga. RÚV gerði málinu m.a. skil í aðalfréttatíma sínum um kvöldið og Fréttablaðið greindi frá atburðinum degi síðar.

Tilefni áskorunar samtakanna er ekki ánægjulegt en í ríksfjármálaáætluninni til næstu fimm ára, 2018-2022, er ekki að finna stafkrók um Náttúruminjasafnið eins og lofað var á Alþingi. Ráðherra lét þó þau orð falla að hann væri …„ekkert úrkula vonar um það að við getum komið málum til betri vegar og hyggst vinna með þeim hætti og svo sjáum við hvað setur.“ Þá greindi ráðherra frá þeim ánægjulegum tíðindum að verið væri að skoða þann möguleika að Náttúruminjasafnið taki þátt í sýningahaldi með Perlu Norðursins ehf. í Perlunni, en það félag hefur gert ríkinu nokkur tilboð um þátttöku Náttúruminjasafnsins. Nú virðist samstarf þessara aðila ætla að verða að veruleika, sem er mjög ánægjulegt, og er vinna þegar hafin að framgangi verkefnisins.

(more…)