Stefna Náttúruminjasafnsins 2023-2027
„Þetta er langþráður áfangi í sögu Náttúruminjasafnsins“, segir Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður safnsins, en stefna Náttúruminjasafns Íslands 2023-2027 hefur verið samþykkt og birt opinberlega. Aðdragandann má rekja til ársbyrjunar 2008 en lokahnykkinn tók starfsfólk safnsins s.l. haust með aðstoð ráðgjafarfyrirtækisins SJÁ ehf. Viðbúið er þó að endurskoða þurfi stefnuskjalið fyrr en ella, enda eru miklar breytingar framundan hjá safninu þegar það flytur í nýjar höfuðstöðvar á Seltjarnarnesi, Náttúruhús í Nesi, á næsta ári eða því þarnæsta.
„Fjölmargir innan safns og utan hafa komið að stefnumótuninni“ segir Hilmar, sem þakkar kærlega þeim öllum fyrir óeigingjarnt starf og vandað og gagnlegt framlag. „Stefnunni er ætlað að varða leið Náttúruminjasafnsins næstu fimm ár og styðja við metnaðarfulla, skilvirka og áhugaverða starfsemi þessarar stofnunar sem vinnur í almannaþágu. Stefnan er ekki meitluð í stein, heldur á hún að vera stöðugt til skoðunar, löguð að þörfum og kröfum samtímans.“
Forsíða Stefnu Náttúruminjasafns Íslands 2023–2027
Stefnu Náttúruminjasafnsins má finna á stefna.nmsi.is en einnig hlaða niður sem pdf-skrá.
Höfuðsafn á sviði náttúrufræða
Náttúruminjasafn Íslands er höfuðsafn á sviði náttúrufræða. Meginhlutverk safnsins er að stuðla að varðveislu náttúruarfs Íslands, afla þekkingar um hann og rannsaka, varpa ljósi á náttúrusögu landsins og náttúruspeki, styrkja safnkost og heimildasöfnun á sínu sviði og gera söfn sín aðgengileg almenningi og fræðimönnum. Safnið er þýðingarmikill hluti af formlegu og óformlegu menntakerfi landsmanna og gegnir mikilvægu samfélagslegu þjónustuhlutverki með sýningarhaldi og annars konar miðlun, útgáfu og þátttöku í samfélagsumræðu.
Gildi Náttúruminjasafnsins eru virðing, fagmennska, samvinna og miðlun
Framtíðarsýn
- Náttúruminjasafn Íslands stefnir að því með starfsemi sinni auka lífsgæði og hamingju með því að efla skilning á þróun og stöðu náttúru Íslands og varpa ljósi á sambúð manna og náttúru í staðbundnu og hnattrænu samhengi.
- Safnið stefnir að því að vera í fararbroddi í þekkingaröflun og faglegum vinnubrögðum á sviði safntengdra náttúrufræða og miðlunar og vera leiðandi í umræðu um náttúru og náttúruvernd á landsvísu og alþjóðavettvangi. Þá stefnir safnið að því að öðlast sem fyrst stöðu sem viðurkennd háskólastofnun.
- Náttúruhús í Nesi verður glæsileg, nútímaleg og eftirsóknarverð þekkingarmiðstöð og félaslegur vettvangur í sífelldri þróun og vexti þar sem áreiðanlegu efni um náttúru Íslands og jarðar er miðlað á lifandi hátt til gesta og gangandi.
Skipulag
Starfsemi Náttúruminjasafnsins er skipt í fjögur meginsvið auk skrifstofu forstöðumanns:
1) framkvæmda- og rekstrarsvið, 2) safnasvið (söfnun, skráning, varðveisla), 3) rannsóknasvið og 4) miðlunarsvið.
Starfsemi framkvæmda- og rekstrarsviðs gengur þvert á faglegu sviðin þrjú, safnasvið, rannsóknasvið og miðlunarsvið. Starfsemi sviðanna skarast einnig að meira eða minna leyti.
Í stefnuskjalinu er fjallað um stefnu hvers sviðs fyrir sig, markmið og leiðir: Stefnuna má finna á stefna.nmsi.is, en henni má einnig hlaða niður sem pdf-skrá.