Ungur haförn í Ölfusi.

Haförn (Haliaeetus albicilla)

Haförninn er af ættbálki haukfugla (Accipitriformes) og af haukaætt (Accipitridae). Hann er eini fulltrúi ættbálksins hér á landi.

Útlit og atferli

Haförn er stærsti og sjaldgæfasti ránfugl landsins, með yfir 2 m vænghaf, oft nefndur konungur fuglanna. Aðallitur er brúnn. Fullorðinn örn er gulur eða ljósbrúnn á höfði, aftur á bak og niður á bringu en fjaðrajaðrar ljósir á baki og yfirvæng (hann er „hreistraður“). Fleyglaga stélið er hvítt. Ungfugl er allur dekkri, mógul- og rauðbrúnflikróttur að ofan, ljósari að neðan, sérstaklega á bringu. Hann lýsist smám saman með aldrinum, stél á undan höfði, og verður fulltíða sex ára. Kvenfuglinn, assan, er töluvert stærri en karlfuglinn, arinn. Goggurinn er stór, krókboginn og gulur en dökkur á ungfugli. Fætur eru gulir og klærnar dökkar. Augu eru rauðgul á fullorðnum erni, dökkgrá á ungfugli.

Örninn er auðgreindur á stærð og lögun og ferhyrndum vængjunum með ystu handflugfjaðrir vel aðskildar (fingraðar). Svífur gjarnan en er þunglamalegur í flugtaki. Oft má sjá úr mikilli fjarlægð hvar örninn svífur á þöndum vængjum yfir landi eða hafi og leitar að bráð, eða hvar hann situr langtímum saman kyrr á sama útsýnisstaðnum. Venjulega er hann styggur og friðsamur en getur verið ágengur við hreiður. Ernir eru oftast stakir, í pörum eða smáhópum (ungfuglar).

Hljóð arnarins eru hrjúft gelt eða hlakk, assan er dimmraddaðri.

 

Fullorðinn haförn steypir sér.
Fullorðinn örn við Breiðafjörð.
Fullorðinn örn við Breiðafjörð.
Ungur örn við Breiðafjörð. Fuglinn er merktur með númeruðum fóthringjum, svo fylgjast megi með ferðum hans.

Lífshættir

Örninn veiðir sér til matar og er aðalbráðin fýll sem hann tekur á flugi, en æðarfugl tekur hann á sjó og fisk (hrognkelsi, laxfiskar) grípur hann við yfirborð. Lundi og máfar eru einnig teknir. Hann etur gjarnan hræ og rænir stundum æti frá öðrum fuglum.

Kjörlendi hafarnar er strendur með miklu útfiri, einnig fiskauðugar ár og vötn. Hann verpur í hólmum, á klettasyllum, stöpum í bröttum hlíðum eða hraunum. Hreiðrið er stundum allmikill birkilaupur en oftast lauslega samsett dyngja úr þangi, hvannnjólum og grasi. Eggin eru 1-3, en þrír ungar komast sjaldan á legg. Útungunartíminn er 5-6 vikur og ungarnir verða fleygir á 10-11 vikum.

Arnarhjón við Breiðafjörð.
Arnartvíburar í hreiðri við Faxaflóa.
Arnarhjón við hreiður með einum unga.

Útbreiðsla og stofnstærð

Haförninn er staðfugl. Hann var áður dreifður um land allt en höfuðstöðvarnar hafa ávallt verið á Vesturlandi. Þar hélt hann velli þrátt fyrir skefjalausar ofsóknir undir lok 19. aldar. Hann var alfriðaður 1913 en var þrátt fyrir það nærri útdauður um 1960, þá voru aðeins um 20 hjón í stofninum. Árið 1963 var Fuglaverndarfélag Íslands stofnað til verndar erninum. Síðan þá hefur stofninn er rækilega vaktaður í samstarfi Fuglaverndar og Náttúrufræðistofnunnar.

 

Ernir „klóast“ í loftinu. Í Faxaflóa.
Á síðustu áratugum hefur erninum fjölgað hægt en örugglega og var stofninn 75 pör, 200-250 fuglar, árið 2016. Þar af verpa 63% við Breiðafjörð, en afgangurinn við Faxaflóa, á Vestfjörðum og við Húnaflóa. Sennilega á örninn eftir að nema land í öðrum landshlutum að nýju. Hann hefur reynt varp á Suðurlandi á síðustu árum, en ekki komið upp ungum. Þeir leita aftur á gamla varpstaði, sem hafa ekki verið notaðir í áratugi. Á veturna má búast við þeim hvar sem er. Annars staðar verpa hafernir frá Vestur-Grænlandi austur um Evrópu og Asíu að Kyrrahafi.

Ekki má nálgast hreiður arna á varptíma, nema með sérstöku leyfi frá Umhverfisstofnun. Allar hreiðurmyndir sem fylgja pistlinum eru teknar með leyfi stofnunarinnar.

Fullorðinn örn hefur sig til flugs.
Örn á flugi í Breiðafirði að vetrarlagi.
Hrafnar gera at í ungum erni. Í Faxaflóa.
Fullorðinn haförn.

Þjóðtrú og sagnir

Eins og eðlilegt má teljast, fylgja ófár sagnir og mikil þjóðtrú erninum. Það er alþekkt þjóðtrú, að ernir taki börn. En börn urðu minnug af að drekka mjólk gegnum arnarfjöðurstaf. Til að sjá hulda hluti skal maður bera á sér arnarauga eða maka því í kringum augu sér. Ef gull er látið í arnarhreiður, skapast óskasteinn og úr ófrjóu eggi brýst sá mikli ránfugl, sem flugdreki nefnist.

Kveðskapur

Örninn flýgur fugla hæst
Örninn flýgur fugla hæst um forsal vinda.
Hinir það sér láta lynda,
leika, kvaka, fljúga og synda.

Þjóðvísa.

Að vestan

Yst á Hornströndum heitir
Hornbjarg og Kópatjörn.
Þeir vita það fyrir vestan,
þar verpur hvítur örn.

Eftir Theodóru Thoroddsen.


Klógulir ernir yfir veiði hlakka;
því fiskar vaka þar í öllum ám.
Blikar í laufi birkiþrastasveimur
og skógar glymja, skreyttir reynitrjám.

Úr Gunnarshólma eftir Jónas Hallgrímsson.

Haförn

Fagur er fuglinn
er flýgur hér hjá.
Frjálsborinn er hann
og hafið hann á.

Flýgur yfir Esjuna
haförninn sá.
Gyllir í sól
við sjávarrönd.

Ferjumaðurinn.

 

 

Ungur örn í Ölfusi.
Fullvaxinn arnarungi. Í Faxaflóa.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson