Lundi16_ivHeimaslóð

Meðan öldur á Eiðinu brotna
og unir fugl í klettaskor.
Mun ég leita í Eyjarnar eins og fyrr
í æsku minnar spor.

Þar sem lundinn er ljúfastur fugla,
þar sem lifði Siggi Bonn
og Binni hann sótti í sjávardjúp
sextíuþúsund tonn.

Meðan lífþorstinn leitar á hjörtun
meðan leiftrar augans glóð.
Þó á höfðanum þjóti ein 13 stig
ég þrái Heimaslóð.

Ási í Bæ.

Útlit og atferli

Lundi (Fratercula arctica) er einn af minni svartfuglunum og jafnframt sá algengasti. Hann er fremur höfuðstór og kubbslegur. Fullorðinn lundi í sumarbúningi er svartur að ofan og hvítur að neðan með svartan koll og svartan kraga um háls. Höfuðhliðar (vangar) eru gráar, undirvængir svartir og goggur í skærum litum. Á veturna eru vangar dekkri og goggur litdaufari og minni. Ungfugl er svipaður en goggur mjórri og svæðið framan augna dekkra. Hann nefnist kofa eða pysja.

Lundi243v

Litskrúðugur, hliðflatur goggurinn er helsta einkenni lunda, jafnvel á vetrum, þegar litirnir fölna og nefplöturnar falla burt. Á varptímanum er goggurinn gulur, blár og rauður, þríhyrndur og afar áberandi. Í goggvikum eru gulir húðsepar. Fætur eru rauðgulir. Augu eru gulbrún með rauðan augnhring, umhverfis þau hornplötur og dökk rák aftur frá þeim. Hægt er að aldursgreina lunda á goggnum fyrstu fimm árin.

Lundi290v

Lundinn flýgur beint með hröðum vængjatökum, venjulega lágt yfir haffleti. Hann stendur uppréttur og á auðvelt með gang. Lundi er samanreknari en stærri svartfuglar, höfuðlag er annað og engar vængrákir. Afar félagslyndur og með flókið samskiptakerfi, hann tjáir sig með alls kyns fettum og brettum, höfuðrykkjum, göngulagi, fluglagi, vængjablaki og gapi, svo nokkuð sé nefnt.

Lundi122v

Ungur lundi, pysja.

 

Lífshættir

Lundinn kafar eftir æti og syndir kafsund með vængjunum. Getur kafað niður á 60 m dýpi og verið í 1,5 mín. í kafi. Raðar fiskunum í gogginn, ber oftast 6-20 fiska í ferð. Aðalfæðan er síli (sandsíli, marsíli og trönusíli), loðna er einnig mikilvæg, tekur einnig seiði ýmissa fiska, svo og sænál, ljósátu o.fl.

Lundi109ev

Hann heldur sig á grunnsævi á sumrin. Verpur í byggðum í grösugum eyjum, höfðum og brekkum ofan við bjargbrúnir eða í urðum undir þeim. Grefur sér holu í svörð eða verpur undir steinum og í glufum. Hreiðurkiminn innst í holunni, sem getur verið krókótt og með mörgum opum, er fóðraður með þurrum gróðri.

Heimkynni og ferðir

Þegar liðið er á varptímann fara ungfuglar að flakka á milli og heimsækja vörpin. Langstærstur hluti lundastofnsins verpur hér á landi og eru stærstu byggðirnar í Vestmannaeyjum og á Breiðafirði. Talið er að hér verpi um þrjár milljónir para og stofninn síðsumars telji um 10 milljónir fugla. Annars verpa lundar víða umhverfis Norður-Atlantshafið, frá Maine-fylki í Bandaríkjunum og Bretagne-skaga í Frakklandi um Bretlandseyjar, Færeyjar og Noreg norður til Svalbarða.

Lundi 321

Verðmætasti fuglinn okkar?

Þessi skrýtni og skemmtilegi fugl, sem stundum er kallaður prófastur vegna hvíta og svarta búningsins og sperringslegra tilburða, er afar vinsæll meðal ferðamanna. Jafnvel svo, að hingað eru gerðir út leiðangrar eingöngu til að ljósmynda og skoða lunda. Minjagripir í líki eða með mynd af lunda, eru áberandi í minjagripaverslunum. Á sumrin er siglt daglega með ferðamenn umhverfis Lundey og Akurey á Kollafirði, til að skoða lunda. Aðstöðu til lundaskoðunar hefur verið komið upp í Hafnarhólma á Borgarfirði eystri og lundarnir á Bjargtöngum eru þekktir fyrir spekt. Hann er vinsæll hjá sívaxandi hópi þátttakenda í hvalaskoðunarferðum. Lundinn er væntanlega orðinn verðmætasti fugl landsins, hefur velt þaulsetnum æðarfuglinum af þeim stalli. Hér er um auðlind að ræða, sem ber að umgangast með virðingu, eins og reyndar á við um náttúruna í heild sinni. Það fer fyrir brjóstið á mörgum ferðamönnum, að lundi sé veiddur og á hann erfitt með að skilja þennan „barbarisma“ okkar, við erum jú ekki á flæðiskeri stödd þegar kemur að framboði á mat.

 

Hallar undan fæti

Árið 2005 fór að verða vart við ætisskort hjá lundum á sunnan og vestanverðu landinu. Þetta átti reyndar við allan þann fjölda sjófugla, sem byggir afkomu sína á sandsíli, eins og kríu, langvíu, ritu og sílamáf. Nýliðun sandsílis hefur meira og minna brugðist síðan þá og sér ekki fram á að það rétti úr kútnum í bráð. Eftir því sem lengra líður milli góðra árganga verður erfiðara fyrir sílið að ná sér á strik. Það þarf að koma til góð nýliðun i nokkur ár til að stofninn braggist. Ekkert bendir til að það sé að gerast nú. Þessi óáran er ríkjandi um sunnanvert landið, um línu dregna frá Arnarfirði í Stöðvarfjörð eða þar um bil. Norðan línunnar gengur varp sjófugla mun betur, bæði er meira af sandsíli og svo eru fleiri fæðutegundir fyrir fuglana að gæða sér á. Engin lundaveiði hefur verið í Eyjum í nokkur ár og þær raddir gerast á háværari sem vilja friða lundann um land allt, sem og sjófugla almennt, meðan stofninn er í þessari niðursveiflu.

Lundi 328

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.