Ragnhildur Guðmundsdóttir skipuð staðgengill forstöðumanns Náttúruminjasafns Íslands

Ragnhildur Guðmundsdóttir skipuð staðgengill forstöðumanns Náttúruminjasafns Íslands

Ragnhildur Guðmundsdóttir skipuð sem staðgengill forstöðumanns Náttúruminjasafns Íslands

Menningar- og viðskiptaráðherra hefur skipað dr. Ragnhildi Guðmundsdóttur í starf forstöðumanns Náttúruminjasafns Íslands tímabundið. Ragnhildur hefur starfað við Náttúruminjasafnið síðan 2021 þar sem hún sinnir meðal annars fræðslu, en hún er með doktorspróf í líffræði frá Háskóla Íslands.

Ragnhildur tók við embættinu 21. maí og mun sinna því til 30. september á meðan Hilmar J. Malmquist, núverandi forstöðumaður er í rannsóknarleyfi.

Dr. Ragnhildur Guðmundsdóttir, staðgengill forstöðumanns Náttúruminjasafns Íslands

Náttúru­minja­safn Ís­lands má sinna sýninga­haldi!

Náttúru­minja­safn Ís­lands má sinna sýninga­haldi!

Náttúru­minja­safn Ís­lands má sinna sýninga­haldi!

Samkeppniseftirlitið hefur nú lokið skoðun á kvörtun Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) og Perlu norðursins hf. (PN) frá því í janúar í fyrra vegna áforma Náttúruminjasafns Íslands, eins þriggja höfuðsafna landsins ásamt Þjóðminjasafni Íslands og Listasafni Íslands, um að starfrækja sýningu með ríkisframlagi í nýjum höfuðstöðvum safnsins á Seltjarnarnesi. Vinna við gerð sýningarinnar hefur staðið yfir frá því um mitt ár 2022 og er stefnt er að því að opna hana vorið 2026. Meginþema sýningarinnar snýst um hafið og sjávarlífríkið.

SAF og PN fóru fram á tvennt við Samkeppniseftirlitið. Að það mælti fyrir um fjárhagslegan aðskilnað sýningahalds frá öðrum rekstri Náttúruminjasafnsins í samræmi við 14. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 og að kannað yrði hvort sú starfsemi Náttúruminjasafnsins, sem sé í beinni samkeppni við starfsemi PN, teljist til brota á samkeppnislögum og hvort tilefni sé til að grípa til aðgerða gagnvart safninu á grundvelli ákvæða samkeppnislaga.

Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins er í hnotskurn sú að fyrirhugað sýningahald Náttúruminjasafnsins á Seltjarnarnesi sé ekki á skjön við samkeppnislög og að rétt sé að loka rannsókn málsins með vísan til forgangsröðunar og þeirra sérlaga sem gilda um Náttúruminjasafn Íslands, þ.e. lög um Náttúruminjasafn Íslands nr. 35/2007 og safnalög nr. 1412/2011. Áform Náttúruminjasafns Íslands um sýningahald í Náttúruhúsinu í Nesi, eins og höfuðstöðvarnar eru kallaðar, standa því blessunarlega óbreytt.

 

Náttúruhús í Nesi, framtíðarhöfuðstöðvar Náttúruminjasafns Íslands.

Kvörtunin og niðurstaðan

Tilefni kvörtunar SAF og PN er ótti þeirra við að sýning Náttúruminjasafnsins muni keppa við sýningu PN í Perlunni, en þar er að finna sýningaratriði um hafið og aðra þætti náttúru Íslands, sem SAF og PN telja að myndi kippa fótunum undan rekstri PN. SAF og PN líta svo á að starfsemi Náttúruminjasafnsins sé ríkisstyrkt atvinnustarfsemi í beinni samkeppni við einkageirann á frjálsum markaði sem ekki njóti framlaga frá ríkinu. Slíkt skekkti samkeppnisstöðu gangvart einkaaðilum og bryti í bága við ákvæði samkeppnislaga.

Samkeppniseftirlitið kemst að annarri niðurstöðu en SAF og PN. Að mati eftirlitsins uppfylla ákvæði í sérlögunum sem gilda um safnið, lög nr. 35/2007 og nr. 141/2011, þau skilyrði …„að ganga framar samkeppnislögum, að þau séu skýr og feli í sér afdráttarlausar og sérgreindar heimildir til frávika frá samkeppnislögum.“. Samkeppniseftirlitið komst jafnframt að því að rekstur fyrirhugaðrar sýningar Náttúruminjasafnsins væri ekki þess eðlis að hann myndi hafa víðtæk skaðleg áhrif á samkeppni þannig að ástæða væri til þess að aðhafast frekar vegna kvörtunarinnar (sbr. 3. mgr. 8.gr. laga nr. 44/2005 og 2. mgr. 9. gr. reglna nr. 880/2005).

Sérlögin sem gilda um Náttúruminjasafn Íslands eru að mati Samkeppniseftirlitsins það skýr og fela í sér afdráttarlausar og sérgreindar heimildir til frávika frá samkeppnislögum að þau ganga framar almennum ákvæðum samkeppnislaga (niðurstöðuliður nr. 14). Samkeppniseftirlitið lítur einkum til þess að starfsemi Náttúruminjasafnsins er rekin í menningar- og samfélagslegum tilgangi án hagnaðarmarkmiða og að stofnunin gegnir lögbundnum hlutverkum á sviði vísindarannsókna, varðveislu, skráningar og fræðslu, ólíkt því sem gildir um PN og önnur einkafyrirtæki undir hatti SAF. Náttúruminjasafnið rækir miðlunarhlutverk sín með sýningahaldi, útgáfu og öðrum hætti og stuðlar þannig að varðveislu á menningar- og náttúruarfi þjóðar og lands. Starfsemi Náttúruminjasafnsins er með slíku móti að hún fellur hvorki undir skilgreiningu á hefðbundinni atvinnustarfsemi né fyrirtæki í skilningi samkeppnislaga (sbr. 1. mgr. 2. gr. og 2. tölul. 1 mgr. 4. gr. samkeppnislaga).

Fleiri aðilar undir og frekari málsókn?

Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins er afar þýðingarmikil fyrir Náttúruminjasafnið og vonandi fær safnið núna frið til að vinna óhindrað að undirbúningi á grunnsýningu safnsins á Seltjarnarnesi. Það er hins vegar spurning hvort niðurstaðan hafi ekki fordæmisgildi fyrir aðra opinbera aðila sem sinna sýningahaldi. Eðlilegt er að velta þessu fyrir sér m.a. vegna þess að SAF og PN hvöttu Samkeppniseftirlitið ekki einvörðungu til að skoða starfsemi Náttúruminjasafnsins heldur einnig til að …„taka til athugunar þau söfn og sýningar sem rekin eru af opinberum aðilum og fyrirtækjum í eigu ríkisins,“. Samkeppniseftirlitið fjallar hins vegar ekkert um þennan þátt í niðurstöðum sínum. Líklega er það vegna þess að málatilbúnaður SAF og PN er þannig vaxin að hann gefur ekki tilefni til þess að fjalla frekar um málið (sbr. 2. mgr. 9. gr. reglna nr. 880/2005).

Enda þótt ólíklegt verði að teljast að SAF og PN muni aðhafast frekar í málinu á grundvelli íslenskrar löggjafar er ekki útilokað að farið verði með málið út fyrir landsteinana. SAF og PN beindu nefnilega þeirri fyrirspurn einnig til Samkeppniseftirlitsins hvort framlög ríkisins til Náttúruminjasafnsins … „geti talist til ólögmætrar ríkisaðstoðar.“ á grundvelli ákvæða um ríkisaðstoð í EES-samningnum, sem hefur lagagildi hér á landi á grundvelli laga um Evrópska efnahagssvæðið. Í niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins er ekki tekin afstaða til þessa atriðis en bent á að SAF og PN geti leitað réttar síns hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA).

Er ekki mál að linni?

Fátt bendir til þess málatilbúnaður SAF og PN gegn Náttúruminjasafni Íslands sé þannig vaxinn að hann muni við frekari meðferð Samkeppniseftirlitsins og eða hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) breyta nokkru um starfsemi eða rekstur Náttúruminjasafnsins. Hið sama virðist eiga við um sýningastarfsemi opinberra aðila almennt í landinu þar sem starfsemin byggir á lögbundnum hlutverkum sem varða rannsóknir, varðveislu og miðlun á menningar- og náttúruarfi okkar.

Þá verður að teljast afar langsótt að niðurstaða ESA muni á nokkurn hátt hugnast hugmyndafræði SAF og PN. Þetta helgast m.a. af því að starfsemi Náttúruminjasafns Íslands hvílir á íslenskum sérlögum sem taka mið af evrópskri löggjöf og reglum Alþjóðaráðs safna (ICOM) á sviði safnamála og sýningastarfsemi. Kvörtun SAF og PN hjá ESA myndi snerta grunnstarfsemi hjá fleiri tugum þúsunda opinberra sýningaraðila í Evrópu, aðilum sem hafa ríkum, lögbundnum skyldum að gegna við rannsóknir, varðveislu og miðlun á menningar- og náttúrarfi til almennings, hlutverk sem einkageirinn gegnir ekki lögum samkvæmt. Ætla SAF og PN að umbylta þessu fyrirkomulagi í sýningastarfsemi í Evrópu á grundvelli þeirrar hugmyndafræði að einkaaðilar fari betur með almannafé og menningar- og náttúruarf þjóða en opinberir aðilar? Vonandi verður þeim ekki kápan úr því klæðinu. Það er rúm fyrir bæði einkareknar sýningar og ríkisrekin söfn sem sinna sýningahaldi.

Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands.

Greinin birtist 16. maí 2024 á Vísi.is

Líffræðileg fjölbreytni Norðurlanda – nýtt verkefni

Líffræðileg fjölbreytni Norðurlanda – nýtt verkefni

Líffræðileg fjölbreytni Norðurlanda – nýtt verkefni

Líffræðileg fjölbreytni Norðurlanda (The Nordic Biodiversity Framework) er samstarfsverkefni BIODICE sem nýlega fékk styrk (um 31 milljón ISK) frá Norræna vinnuhópnum um líffræðilega fjölbreytni á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Megintilgangur verkefnisins er að styðja við innleiðingu á Kunming-Montreal samningnum um líffræðilega fjölbreytni á Norðurlöndunum.

Bakgrunnur og sýn

Viðfangsefni verkefnisins er tap á líffræðilegri fjölbreytni sem er eitt alvarlegasta vandamál okkar tíma. Árið 2022 skrifuðu 196 þjóðir, þar á meðal öll Norðurlöndin, undir Kunming-Montreal samninginn um líffræðilega fjölbreytni á COP15 ráðstefnu samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni. Sýn markmiðanna, sem eru mjög metnaðarfull, er heimur þar sem fólk lifir í sátt og samlyndi með og í náttúrunni. Meginmarkmið til ársins 2050 eru vernd og endurheimt líffræðilegrar fjölbreytni, sjálfbær nýting náttúruauðlinda, viðhald og efling vistkerfa og þeirri þjónustu sem þau veita, á sanngjarnan hátt fyrir alla. Einnig eru sértækari markmið sem ætlunin er að ná fyrir árið 2030.

Markmið

Verkefnið Líffræðileg fjölbreytni Norðurlanda snýst um að rannsaka stöðu og aðferðir Íslands, Danmerkur og Finnlands við innleiðingu ofangreinds samnings um líffræðilega fjölbreytni og styðja við það ferli með faglegum greiningum og tillögum. Þetta verður gert með markvissri upplýsingaöflun um líffræðilega fjölbreytni, stefnu, aðgerðir og árangur. Einnig verður komið á fót neti vísindamanna, sérfræðinga, stjórnvalda og hagsmunaaðila og haldnir formlegir vinnufundir og málþing. Með því að bera saman rannsóknir og stefnur þvert á Norðurlöndin þá geta þjóðirnar lært hver af annarri sem gagnast í þessari vinnu. Niðurstöður verkefnisins munu nýtast stjórnvöldum við innleiðingu á Kunming-Montreal samningnum um líffræðilega fjölbreytni.

Samstarfshópurinn

Verkefnið er samstarf sérfræðinga frá Íslandi, Danmörku og Finnlandi. Verkefnisstjóri er Skúli Skúlason hjá Náttúruminjasafni Íslands og Háskólanum á Hólum. Aðrir sem leiða verkefnið eru Katherine Richardson við Center for Macroecology, Evolution, and Climate hjá Globe Institue við Kaupmannahafnarháskóla í Danmörku og Hanna-Kaisa Lakka hjá Department of Biological and Environmental Sciences, Háskólanum í  Jyväskylä í Finnlandi.

Aðrir samstarfsaðilar eru Carsten Rahbek og Lars Dinesen við Center for Macroecology, Evolution and Climate hjá Globe Institute, Ole Sandberg hjá Náttúruminjasafni Íslands og Háskóla Íslands, Ragnhildur Guðmundsdóttir hjá Náttúruminjasafni Íslands, Rannveig Magnúsdóttir hjá Náttúruminjasafni Íslands og Landvernd og K. Emily Knott og Katja Räsänen hjá Department of Biological and Environmental Sciences, Háskólanum í Jyväskylä í Finnlandi.

BIODICE leiðir verkefnið en það er samstarfsvettvangur stofnana, einstaklinga og fyrirtækja um eflingu þekkingar og skilnings á líffræðilegri fjölbreytni á Íslandi. Þar að auki er áhersla er lögð á eflingu rannsókna, menntunar og stefnumótunar á málefnum sem tengjast líffræðilegri fjölbreytni á Íslandi.

Samstarf Náttúruminjasafns Íslands og Hafrannsóknarstofnunar

Samstarf Náttúruminjasafns Íslands og Hafrannsóknarstofnunar

Samstarf Náttúruminjasafns Íslands og Hafrannsóknastofnunar

Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands og Þorsteinn Sigurðsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar, rannsókna- og ráðgjafarstofnunar hafs og vatna, innsigluðu rammasamkomulag um samstarf stofnananna 24. janúar síðastliðinn. Markmið samkomulagsins er að stuðla að samstarfi fræðimanna og nemenda á vegum stofnananna um rannsóknir og miðlun á fræðasviðum sínum.

Undirritun samkomulagsins er mikilvægur liður í að styrkja tengsl stofnananna sem er einkar mikilvægt fyrir Náttúruminjasafnið í því ljósi að nú er unnið hörðum höndum að gerð grunnsýningar í nýjum höfuðstöðvum safnsins á Seltjarnarnesi, Náttúruhúsinu í Nesi, sem til stendur að opna um mitt ár 2025. Þema sýningar verður hafið, eðli þess og gerð, með áherslu á líffræðilega fjölbreytni og vistfræði og þær ógnir sem steðja að sjávarlífríkinu. Hin nýja aðstaða mun veita einstakt tækifæri varðandi miðlun og fræðslu á mikilvægi hafsins fyrir land og þjóð.

Samstarf stofnananna býður upp á mikil samlegðaráhrif á sviði vísinda, menntunar og menningar. Það er mikil tilhlökkun innan veggja Náttúruminjasafnsins á samstarfinu við Hafrannsóknastofnun sem býr að úrvalsþekkingu á málefnum hafsins og sjávarlífríkisins.

Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands, og Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, undirrita rammasamkomulagið.

Hnúfubakur í Hafnarfjarðarhöfn tók á móti starfsmönnum Náttúruminjasafnsins í heimsókninni til Hafrannsóknastofnunar. Hvalurinn hringsólaði um höfnina, líklega í leit að smásíld að éta.

Eldur, ís og mjúkur mosi

Eldur, ís og mjúkur mosi

Eldur, ís og mjúkur mosi

Á Alþjóðlegum degi barna í gær kynntum við þróunar- og samstarfsverkefnið Eldur, ís og mjúkur mosi.

Verkefnið vinna Vatnajökulsþjóðgarður og Náttúruminjasafn Íslands í samstarfi við átta grunn- og leikskóla í nágrenni við þjóðgarðinn ásamt einum á höfuðborgarsvæðinu og breiðum hóp listafólks og hönnuða í heimabyggð skólanna. Markmið verkefnisins er að skapa tengingar milli barna og náttúru Vatnajökulsþjóðgarðs sem er verndaður sem sameign þjóðarinnar og þau ýmist búa í nálægð við eða þekkja til. Börnin vinna því fjölbreytt verkefni þar sem þau segja frá honum og túlka náttúru, verndargildi og sögu í gegnum list og skapandi ferli.

Smiðjur innblásnar af fjölbreyttri náttúru og sögu eru þegar farnar af stað í flestum skólunum og nemendur munu í vetur þróa listaverk sem koma svo öll saman á samsýningu skólanna í sýningarrými Náttúruminjasafnsins á 2. hæð Perlunnar á Barnamenningarhátíð í vor.

Auk samsýningarinnar verða sýningar og viðburðir í heimabyggðum skólanna, í gestastofum þjóðgarðsins og menningarhúsum.

Áhersla er lögð á að nemendur vinni út frá sínu áhugasviði, endurnýtingu og með spennandi efni og aðferðir.

Verkefnið er styrkt af Barnamenningarsjóði Íslands.

Geimfarar við æfingar í Öskju, eftir nemendur í Reykjahlíðarskóla í Mývatnssveit.