Líffræðileg fjölbreytni Norðurlanda – nýtt verkefni

Líffræðileg fjölbreytni Norðurlanda – nýtt verkefni

Líffræðileg fjölbreytni Norðurlanda – nýtt verkefni

Líffræðileg fjölbreytni Norðurlanda (The Nordic Biodiversity Framework) er samstarfsverkefni BIODICE sem nýlega fékk styrk (um 31 milljón ISK) frá Norræna vinnuhópnum um líffræðilega fjölbreytni á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Megintilgangur verkefnisins er að styðja við innleiðingu á Kunming-Montreal samningnum um líffræðilega fjölbreytni á Norðurlöndunum.

Bakgrunnur og sýn

Viðfangsefni verkefnisins er tap á líffræðilegri fjölbreytni sem er eitt alvarlegasta vandamál okkar tíma. Árið 2022 skrifuðu 196 þjóðir, þar á meðal öll Norðurlöndin, undir Kunming-Montreal samninginn um líffræðilega fjölbreytni á COP15 ráðstefnu samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni. Sýn markmiðanna, sem eru mjög metnaðarfull, er heimur þar sem fólk lifir í sátt og samlyndi með og í náttúrunni. Meginmarkmið til ársins 2050 eru vernd og endurheimt líffræðilegrar fjölbreytni, sjálfbær nýting náttúruauðlinda, viðhald og efling vistkerfa og þeirri þjónustu sem þau veita, á sanngjarnan hátt fyrir alla. Einnig eru sértækari markmið sem ætlunin er að ná fyrir árið 2030.

Markmið

Verkefnið Líffræðileg fjölbreytni Norðurlanda snýst um að rannsaka stöðu og aðferðir Íslands, Danmerkur og Finnlands við innleiðingu ofangreinds samnings um líffræðilega fjölbreytni og styðja við það ferli með faglegum greiningum og tillögum. Þetta verður gert með markvissri upplýsingaöflun um líffræðilega fjölbreytni, stefnu, aðgerðir og árangur. Einnig verður komið á fót neti vísindamanna, sérfræðinga, stjórnvalda og hagsmunaaðila og haldnir formlegir vinnufundir og málþing. Með því að bera saman rannsóknir og stefnur þvert á Norðurlöndin þá geta þjóðirnar lært hver af annarri sem gagnast í þessari vinnu. Niðurstöður verkefnisins munu nýtast stjórnvöldum við innleiðingu á Kunming-Montreal samningnum um líffræðilega fjölbreytni.

Samstarfshópurinn

Verkefnið er samstarf sérfræðinga frá Íslandi, Danmörku og Finnlandi. Verkefnisstjóri er Skúli Skúlason hjá Náttúruminjasafni Íslands og Háskólanum á Hólum. Aðrir sem leiða verkefnið eru Katherine Richardson við Center for Macroecology, Evolution, and Climate hjá Globe Institue við Kaupmannahafnarháskóla í Danmörku og Hanna-Kaisa Lakka hjá Department of Biological and Environmental Sciences, Háskólanum í  Jyväskylä í Finnlandi.

Aðrir samstarfsaðilar eru Carsten Rahbek og Lars Dinesen við Center for Macroecology, Evolution and Climate hjá Globe Institute, Ole Sandberg hjá Náttúruminjasafni Íslands og Háskóla Íslands, Ragnhildur Guðmundsdóttir hjá Náttúruminjasafni Íslands, Rannveig Magnúsdóttir hjá Náttúruminjasafni Íslands og Landvernd og K. Emily Knott og Katja Räsänen hjá Department of Biological and Environmental Sciences, Háskólanum í Jyväskylä í Finnlandi.

BIODICE leiðir verkefnið en það er samstarfsvettvangur stofnana, einstaklinga og fyrirtækja um eflingu þekkingar og skilnings á líffræðilegri fjölbreytni á Íslandi. Þar að auki er áhersla er lögð á eflingu rannsókna, menntunar og stefnumótunar á málefnum sem tengjast líffræðilegri fjölbreytni á Íslandi.

Samstarf Náttúruminjasafns Íslands og Hafrannsóknarstofnunar

Samstarf Náttúruminjasafns Íslands og Hafrannsóknarstofnunar

Samstarf Náttúruminjasafns Íslands og Hafrannsóknastofnunar

Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands og Þorsteinn Sigurðsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar, rannsókna- og ráðgjafarstofnunar hafs og vatna, innsigluðu rammasamkomulag um samstarf stofnananna 24. janúar síðastliðinn. Markmið samkomulagsins er að stuðla að samstarfi fræðimanna og nemenda á vegum stofnananna um rannsóknir og miðlun á fræðasviðum sínum.

Undirritun samkomulagsins er mikilvægur liður í að styrkja tengsl stofnananna sem er einkar mikilvægt fyrir Náttúruminjasafnið í því ljósi að nú er unnið hörðum höndum að gerð grunnsýningar í nýjum höfuðstöðvum safnsins á Seltjarnarnesi, Náttúruhúsinu í Nesi, sem til stendur að opna um mitt ár 2025. Þema sýningar verður hafið, eðli þess og gerð, með áherslu á líffræðilega fjölbreytni og vistfræði og þær ógnir sem steðja að sjávarlífríkinu. Hin nýja aðstaða mun veita einstakt tækifæri varðandi miðlun og fræðslu á mikilvægi hafsins fyrir land og þjóð.

Samstarf stofnananna býður upp á mikil samlegðaráhrif á sviði vísinda, menntunar og menningar. Það er mikil tilhlökkun innan veggja Náttúruminjasafnsins á samstarfinu við Hafrannsóknastofnun sem býr að úrvalsþekkingu á málefnum hafsins og sjávarlífríkisins.

Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands, og Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, undirrita rammasamkomulagið.

Hnúfubakur í Hafnarfjarðarhöfn tók á móti starfsmönnum Náttúruminjasafnsins í heimsókninni til Hafrannsóknastofnunar. Hvalurinn hringsólaði um höfnina, líklega í leit að smásíld að éta.

Eldur, ís og mjúkur mosi

Eldur, ís og mjúkur mosi

Eldur, ís og mjúkur mosi

Á Alþjóðlegum degi barna í gær kynntum við þróunar- og samstarfsverkefnið Eldur, ís og mjúkur mosi.

Verkefnið vinna Vatnajökulsþjóðgarður og Náttúruminjasafn Íslands í samstarfi við átta grunn- og leikskóla í nágrenni við þjóðgarðinn ásamt einum á höfuðborgarsvæðinu og breiðum hóp listafólks og hönnuða í heimabyggð skólanna. Markmið verkefnisins er að skapa tengingar milli barna og náttúru Vatnajökulsþjóðgarðs sem er verndaður sem sameign þjóðarinnar og þau ýmist búa í nálægð við eða þekkja til. Börnin vinna því fjölbreytt verkefni þar sem þau segja frá honum og túlka náttúru, verndargildi og sögu í gegnum list og skapandi ferli.

Smiðjur innblásnar af fjölbreyttri náttúru og sögu eru þegar farnar af stað í flestum skólunum og nemendur munu í vetur þróa listaverk sem koma svo öll saman á samsýningu skólanna í sýningarrými Náttúruminjasafnsins á 2. hæð Perlunnar á Barnamenningarhátíð í vor.

Auk samsýningarinnar verða sýningar og viðburðir í heimabyggðum skólanna, í gestastofum þjóðgarðsins og menningarhúsum.

Áhersla er lögð á að nemendur vinni út frá sínu áhugasviði, endurnýtingu og með spennandi efni og aðferðir.

Verkefnið er styrkt af Barnamenningarsjóði Íslands.

Geimfarar við æfingar í Öskju, eftir nemendur í Reykjahlíðarskóla í Mývatnssveit.

Þökkum komuna á Vísindavöku

Þökkum komuna á Vísindavöku

Þökkum komuna á Vísindavöku

Á laugardaginn var Vísindavaka Rannís haldin með pompi og prakt.

Systurstofnanirnar Náttúruminjasafn Íslands og Náttúrufræðistofnun Íslands sameinuðu krafta sína ásamt Biodice í stórum og veglegum bási þar sem kenndi margra grasa.

Aðaláherslan þetta árið var á líffræðilega fjölbreytni í sinni smæstu og stærstu mynd og fengu áhugasamir og upprennandi gestir Vísindavökunnar meðal annars að kynnast grösum og fléttum í litla móanum okkar og víðsjám.

Við þökkum öllum sem heimsóttu okkur kærlega fyrir komuna og sjáumst aftur að ári!

Bás Náttúruminjasafnsins og Náttúrufræðistofnunar

Þóra fræðir gesti um plöntur í litlu móspildunni okkar

Ragga sýnir áhugasömum fléttur og skófir í víðsjám

Frábær þátttaka í málþingi um vistkerfisnálgun

Frábær þátttaka í málþingi um vistkerfisnálgun

Frábær þátttaka í málþingi um vistkerfisnálgun

Matvælaráðuneytið og BIODICE stóðu fyrir málþingi um vistkerfisnálgun í umgengni við og nýtingu náttúru Íslands þann 21. september síðastliðinn.

Málþingið var haldið á Hilton Reykjavík Nordica og mættu um 60 manns á staðinn en tæplega 300 fylgdust með í streymi. Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra ávarpaði málþingið í upphafi en á eftir fylgdu erindi, fyrst frá fagaðilum BIODICE um hugtakið vistkerfisnálgun og svo frá hagaðilum þar sem staða vistkerfisnálgunar var metin fyrir landbúnað, sjávarútveg og náttúruvernd.

Hægt er að nálgast upptöku af viðburðinum hér: https://vimeo.com/event/3710420 og hægt er að skoða dagskrána nánar á https://biodice.is/2023/09/20/malthing-um-vistkerfisnalgun-i-umgengni-vid-og-nytingu-natturu-islands/

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra

Markmið málþingsins var að vekja athygli á hugtakinu vistkerfisnálgun, og hlutverki þess í stefnumörkun matvælaráðuneytisins. Efni málþingsins mun nýtast í aðgerðaáætlunum ráðuneytisins en samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni til 2030 er gert ráð fyrir að stefna um aðgerðir verði innleidd hjá aðildarríkjum samningsins með vistkerfisnálgun.

Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs var fundarstjóri

Í kjölfar málþingsins mun BIODICE taka saman skýrslu fyrir ráðuneytið þar sem staða málaflokkanna og helstu áskoranir varðandi innleiðinguna munu verðar reifaðar. Svo raddir sem flestra hagaðila heyrist verður hægt að senda inn svör við tveimur spurningum er varðar málið inná www.nmsi.is/malthing fram til 2. október. 

Spurningarnar tvær sem um ræðir eru:

1) Hver eru sjónarmið þín til vistkerfisnálgunar á auðlindanýtingu lands og sjávar?

2) Hvað þarf til að ná árangri í þessu málaflokki til framtíðar?

Aðrar athugasemdir og ábendingar er hægt að senda á biodice@nmsi.is.