Skógarþröstur

Skógarþröstur

Rauðbrystingur á Barðaströnd

Skógarþröstur (Turdus iliacus)

Þessi söngfagri spörfugl er einkennisfugl íslenskra birkiskóga og garða í þéttbýli. Hann er meðalstór af spörfugli að vera, dökkmóbrúnn að ofan, hvítur eða ljósgulur að neðan. Bringa hans er alsett þéttum, dökkum langrákum, kviðurinn er minna rákóttur. Ljós, breið brúnarák og skeggrák, ásamt rauðbrúnum síðum og undirvængþökum, greina hann frá öðrum þröstum. Ungfugl síðsumars eru ljósari með ljósa fjaðrajaðra að ofan. Goggur er fremur sterklegur spörfuglsgoggur, gulleitur með dökkan brodd og mæni. Fætur eru ljósbrúnir og augu dökkbrún.

Um leið og skógarþrösturinn kemur til landsins á vorin byrjar karlinn að syngja og helga sér svæði. Fuglinn er félagslyndur utan varptíma og fer þá um í hópum. Hann hoppar oftast jafnfætis á jörðu niðri. Um varptímann einkennir ómþýður söngur skógarþröstinn og stundum syngur hann angurvært á haustin og veturna. Gefur auk þess frá sér hart og hvellt kallhljóð

Fullorðinn rauðbrystingur í vorbúningi á Patreksfirði.

Syngjandi skógarþröstur í Mývatnssveit.

Ungur rauðbrystingur í Eyrarbakkafjöru.

Skógarþröstur með fullvaxinn unga (t.v.) í Fossvogskirkjugarði.

.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Syngjandi skógarþröstur í Njarðvíkum. Toppurinn er athyglisverður.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Skógarþröstur ýfir sig til að halda á sér hita í vetrarkulda. Árbæjarhverfi í Ölfusi.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Nýkomnir skógarþrestir í vorhreti í Eyrarbakkafjöru.

Lífshættir

Skógarþrösturinn er bæði dýra- og jurtaæta, hann étur skordýr, áttfætlur, orma og bobba á sumrin og fæðir ungana á þeim. Síðsumars leggjast þrestirnir í berjamó og sækja síðan í reyniber og önnur ber í görðum. Fyrir vetrarfuglana er gott að leggja út epli, perur, fitu og kjötsag.

Skógarþröstur verpir í alls konar skóglendi á láglendi. Mesti þéttleikinn er í birkiskógi með ríkulegum undirgróðri, í görðum og ræktuðum skógi. Hreiðrið er karfa, ofin á undirstöðu úr leir, tágum og stönglum, staðsett í tré, gjarnan barrtré í þéttbýli, á jörðu niðri í kjarri, í skurðbökkum og á byggingum. Eggin (urptin) eru 4–6, þau klekjast á 12–13 dögum og ungarnir verða fleygir á 13–14 dögum. Ungarnir yfirgefa oft hreiðrin áður en þeir verða fleygir og mikil hætta er á að þeir lendi í kattarklóm þegar þeir verpa í húsagörðum. Það er enn í eðli unganna að hreiðrið sé á jörðu niðri eins og tíðkast hefur um aldir í íslenska birkikjarrinu. Skógarþrösturinn verpur iðulega tvisvar til þrisvar á sumri. Sést víða á fartíma, t.d. í fjörum og skógum.

Síðan um aldamót hefur frændi hans, svartþrösturinn, numið land og er hann að mestu leyti þéttbýlisfugl. Þeim frændum virðist koma vel saman þó að stundum slái í brýnu, enda eru þrestir einstaklingshyggjufuglar og eiga oft erfitt með að una öðrum fuglum að nýta sama svæði og þeir. Það getur kveðið svo rammt að vörnum skógarþrasta við hreiður, að þeir ráðast á fólk sem hættir sér of nærri og dæmi er um garðeigendur sem hafa ekki vogað sér út á meðan þrösturinn undirokar garðinn.

 

Útbreiðsla og stofnstærð

Skógarþrösturinn verpur á láglendi um land allt, um 99% stofnsins er talinn verpa neðan 300 m hæðarlínunnar. Hann er að mestu farfugl og fer til Vestur-Evrópu á haustin, mest til Bretlands, Írlands, Frakklands og Pýreneaskaga. Nokkur þúsund þreyja hér þorrann og góuna í þéttbýli. Varpheimkynni eru í norðanverðri Evrópu og Asíu. Íslenski skógarþrösturinn er sérstök undirtegund, Turdus iliacus coburni. Stofninn er talinn vera um 165.000 varppör. Hauststofninn er því væntanlega á bilinu 400.000–500.000 fuglar.

Þjóðtrú og sagnir

Skógarþrösturinn er veðurspáfugl. Þegar þrestir koma heim á bæi í góðu veðri, haust eða vor, er von á vondum veðrum. Sumir segja það merki um stórhríð í vændum ef þrestir koma heim að bæjum að haust- eða vorlagi. Talið er að álög meini þrestinum vetrarvist.

Ég bið að heilsa!

Nú andar suðrið sæla vindum þýðum,
á sjónum allar bárur smáar rísa
og flykkjast heim að fögru landi Ísa,
að fósturjarðar minnar strönd og hlíðum.

Ó! heilsið öllum heima rómi blíðum
um hæð og sund í drottins ást og friði;
kyssi þið, bárur! bát á fiskimiði,
blási þið, vindar! hlýtt á kinnum fríðum.

Vorboðinn ljúfi! fuglinn trúr sem fer
með fjaðrabliki háa vegaleysu
í sumardal að kveða kvæðin þín!

Heilsaðu einkum ef að fyrir ber
engil með húfu og rauðan skúf, í peysu;
þröstur minn góður! það er stúlkan mín.

Jónas Hallgrímsson

 

Vorið góða

Vorið góða, grænt og hlýtt,
græðir fjör um dalinn,
allt er nú sem orðið nýtt,
ærnar, kýr og smalinn.

Kveður í runni, kvakar í mó
kvikur þrastasöngur;
eins mig fýsir alltaf þó:
aftur að fara’ í göngur.

Jónas Hallgrímsson

 

Nú haustar að

Einhverja nóttina koma skógarþrestirnir
að tína reyniber af trjánum
áður en þeir leggja í langferðina yfir hafið,
en það eru ekki þeir sem koma með haustið
það gera lítil börn með skólatöskur.

Vilborg Dagbjartsdóttir

 

Þrastarhreiðrið

Ég veit um lítið leyndarmál
Í lágu, fögru tré.
Í gengum ljósgrænt limið þess
ég lítinn bústað sé.

Ég á mér ljúfan, lítinn vin
er ljóð um ástir söng.
Við gluggann minn hann kvað oft kátt
um kvöldin björt og löng.

Með hagleik sá ég húsið reist
og hoppað grein af grein
og stráin fest þar eitt og eitt
en aldrei mistök nein.

Það varð að hafa hraðan á,
í húfi mikið var.
Og bólið þurfti að vanda vel
allt vott um kærleik bar.

Svo komu eggin ofursmá,
þau urðu að lokum sex.
Og móðurástin annast þau
hún eykst og stöðugt vex.

Þótt úti vorið andi svalt
sinn yl hún gefur þeim,
sem kominn er um langa leið
til landsins kalda heim.

Ég gægist út um gluggann minn
það gleður hug og sál
að horfa á grænt og gróið tré
sem geymir leyndarmál.

Margrét Jónsdóttir

Hópur rauðbrystinga í Flóa.

Skógarþrastarhreiður í Laxárdal í S-Þingeyjarsýslu.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Skógarþröstur á hreiðri í birki í Kjarnaskógi.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Skógarþröstur að gefa ungum í Lambhagahverfi í Reykjavík.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Skógarþrestir eigast við í Eyrarbakkafjöru.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Skógarþröstur baðar sig á Húsavík.

Myndir og texti eftir Jóhann Óla Hilmarsson

Rauðbrystingur

Rauðbrystingur

Rauðbrystingur á Barðaströnd

Rauðbrystingur (Calidris canutus)

Rauðbrystingur er meðalstór, hnellinn vaðfugl með stuttan gogg, háls og fætur. Á sumrin er hann rauðbrúnn á höfði, hálsi, bringu og kviði, dökkur að ofan með móleitum dröfnum og með dökkrákóttan koll. Á haustin og veturna er hann að mestu grár með ljósari fjaðrajaðra á baki og virðist hreistraður, ljós að neðan. Ungfugl er svipaður en dekkri að ofan, með meira áberandi „hreistur“ á baki og gulbrúnan blæ á bringu. Rauðbrystingur er alltaf með gráa vængi og hvít vængbelti, ljósgráan, fínrákóttan gump og grátt stél. Kynjamunur er lítill, karlfuglinn er þó aðeins skærlitari og ívið minni en kvenfuglinn. Goggur er svartur, fætur grágrænleitir, augu dökk.
Fullorðinn rauðbrystingur í vorbúningi á Patreksfirði.

Fullorðinn rauðbrystingur í vorbúningi á Patreksfirði.

Ungur rauðbrystingur í Eyrarbakkafjöru.

Ungur rauðbrystingur í Eyrarbakkafjöru.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Lífshættir

Rauðbrystingur finnst hér aðallega í fjörum og tekur þar skordýr, orma, skeldýr og krabbadýr. Sækir eitthvað í mý og mýlirfur inn til landsins.

Kjörlendi er aðallega leirur og þangfjörur með leirublettum. Sést stundum inn til landsins á túnum og ökrum á vorin. Ekki er vitað til þess að rauðbrystingur hafi orpið hér á landi.

 

Útbreiðsla, stofnstærð og ferðir

Rauðbrystingur er hánorrænn varpfugl og skiptist í nokkra vel aðgreinda stofna. Sá stærsti, undirtegundin Calidris canutus islandica notar „bensínstöðina Ísland“ á leið sinni milli varpstöðva á Grænlandi og íshafseyjum Kanada og vetrarstöðva í Vestur-Evrópu og Vestur-Afríku. Aðalviðkomustaðirnir eru við Faxaflóa og Breiðafjörð, en nokkuð kemur einnig við á Eyrum og sunnanverðum Reykjanesskaga, í Arnarfirði, Dýrafirði, við Húnaflóa, á NA-landi frá Skjálfanda í Vopnafjörð og á SA-landi kringum Hornafjörð. Fyrstu farfuglarnir sjást venjulega viku af apríl, en vorfarið er þó aðallega í maí. Haustfarið dreifist yfir lengri tíma og hóparnir eru þá minni, fullorðnu fuglarnir koma fyrst, frá miðjum júlí, en ungarnir seinna og dvelja sumir fram í september. Talið er að vorstofninn sé um 270.000 fuglar. Slæðingur af geldfugli dvelur hér mestallt sumarið og fáeinir fuglar dvelja í fjörum á Suðvesturlandi allan veturinn.

 

 

 

Þjóðtrú og sagnir

Rauðbrystingurinn skipar ekki háan sess í þjóðtrúnni, fremur en aðrir umferðarfuglar eða fargestir sem koma hér við á ferðum sínum. Áður en fólk gerði sér grein fyrir fari fugla voru ýmsar furðuskýringar á því hvað varð um þá, sérstaklega á haustin, til dæmis að þeir svæfu vetrarsvefni í holum og gjótum niðri í jörðinni með laufblað í gogginum.

Ekki má rugla rauðbrystingi saman við glóbrysting eins og henti þýðanda fyrstu bókarinnar sem kom út á íslensku um Harry Hole eftir Jo Nesbø. Á norsku heitir glóbrystingur rødstrupe, en rauðbrystingur heitir polarsnipe.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Hópur rauðbrystinga í Flóa.

Hópur rauðbrystinga í Flóa.

Myndir og texti eftir Jóhann Óla Hilmarsson

Gulönd

Gulönd

Myndir og texti eftir Jóhann Óla Hilmarsson

Gulönd (Mergus merganser)

Gulönd telst til andfuglaættbálksins, auk anda tilheyra honum svanir og gæsir. Þessir fuglar tilheyra síðan allir sömu ættinni, andaætt. Gulönd telst til fiskianda. Karlfuglinn er ávallt stærri en kvenfuglinn hjá andfuglum, og hjá öndum er hann yfirleitt mun skrautlegri. Eitt af sérkennum andfugla er að þeir fella fjaðrir síðsumars, þar á meðal flugfjaðrir og verða því ófleygir um tíma. Andasteggir skipta um bolfiður áður en þeir fella flugfjaðrir og fá þá svonefndan felubúning, sem er oft svipaður búningi kollunnar. Felubúningurinn er því eins konar sumarbúningur þeirra. Þeir skarta síðan skrúðbúningi um haustið, eftir að þeir verða fleygir að nýju.

Gulandarsteggur á Elliðaám.

Gulandarkolla á Elliðaám.

Gulandarsteggir á Elliðaám.

Útlit og atferli

Gulöndin er stundum nefnd stóra systir toppandarinnar og er stærsta íslenska ferskvatnsöndin. Fullorðinn steggur virðist í fjarska svartur að ofan en hvítur að neðan. Aðallitur er hvítur með rjómagulum eða laxableikum blæ. Höfuðið er dökkgrængljáandi með úfnar hnakkafjaðrir í stað topps. Bakið er svart og afturendi grár. Í felubúningi líkist hann kollu en er dekkri að ofan og ljósari á síðum. Kollan er með gráan búk og rauðbrúnt höfuð. Einfaldur, stríður hnakkatoppur, hvít kverk og skörp skil á hálsi milli brúna og gráa litarins greina hana frá toppandarkollu, auk stærðarinnar, blágrárri búks og rauðleitara höfuðs. Bæði kyn eru með stóra hvíta vængreiti sem þó eru stærri á steggnum og ekki skiptir eins og á toppönd. Goggur beggja kynja er langur, mjór og rauðlitaður með svarta nögl. Fætur eru einnig rauðleitir og augu brún.

Gulandarpar á flugi við Ölfusá.

Gulandarpar á flugi við Elliðavatn.

Gulönd virðist fremur löng og flöt á flugi, enda heldur hún höfði, hálsi og bol lárétt. Hún flýgur venjulega lágt og hratt með sterklegum vængjatökum. Tilhugalífið er oft fjörlegt og mikil læti í báðum kynjum og þá sérstaklega steggnum á útmánuðum og vorin. Gulönd er afbragðs kafari og góð til gangs og sést stundum veiða í hópum og hrekja bráðina á undan sér inn á grynningar. Hún er félagslynd og oftast í litlum hópum. Gulönd er venjulega þögul nema í tilhugalífinu, gargar þá rámt.

Lífshættir

Gulönd er fiskiæta, kafar eftir smásilungi, laxaseiðum og hornsíli. Á sjó tekur hún m.a. marhnút og annan smáfisk. Tekur dýfur þegar hún kafar.

Gulandarsteggur á Elliðaám.

Gulandarkolla með hálfstálpaðan unga á Mývatni.

Kjörlendi er við stöðuvötn og straumvötn þar sem fisk er að finna. Hreiðrið er í gjótu eða skúta í klettum eða bökkum, einnig í runnum og lyngi eða jafnvel í gömlum húsum og hrafnshreiðrum. Urptin er 8–11 egg, álegan er 30–35 dagar og ungarnir verða fleygir á nærri 10 vikum. Hún er aðallega inn til landsins á ferskvatni á veturna, þar sem ekki leggur, en einnig á sjó, sérstaklega í frosthörkum.

„Styggar“ gulendur á Ölfusá.

Útbreiðsla og stofnstærð

Gulönd verpur um land allt, þar sem búsvæði hennar er að finna og er talin staðfugl. Helstu vetrarstöðvar eru m.a. á opnu vatni á Innnesjum, Suðurlandsundirlendinu, Meðallandi, Landbroti og á Norðausturlandi. Stærsti hópur vetursetufugla er á Mývatni. Meira en helmingur allra gulandarsteggja í Evrópu fella flugfjaðrir í Finnmörku í N-Noregi og er talið að íslenskir steggir eða hluti þeirra felli þar. Íslenski stofninn er talinn vera um 300 pör. Varpheimkynni gulandar er á breiðu belti um allt norðurhvel jarðar.

Friðun og veiðar

Gulönd er alfriðuð og hefur verið lengi. Hún er samt með alstyggustu fuglum og er auðséð á hegðun hennar, að þar er ekki öllum reglum fylgt. Talið er að hagsmunaðilar í fiskeldi eða ræktun í ám líti á gulöndina sem keppinaut og stuggi við henni. Stofninn er lítill og hæpið að hún geri mikinn skaða.

Þjóðtrú og sagnir

Líkt og um flestar aðrar endur, fjallar íslensk þjóðtrú ekki mikið um gulöndina. Víða eru endur taldar veðurvitar og hér hefur borið við, að þær finni á sér eldsumbrot eða jarðhræringar.

 

Krossnefur

Krossnefur

Myndir og texti eftir Jóhann Óla Hilmarsson.

Krossnefur (Loxia curvirostra)

Krossnefskarl á Selfossi.

Krossnefskerla tekur flugið í Heiðmörk.

Ungur krossnefur, líklega kvenfugl, á Selfossi.

Spörfuglar (Passeriformes) eru langstærsti ættbálkur fugla. Um 60% hinna rúmlega 9700 fuglategunda sem þekktar eru í heiminum tilheyra honum. Af þeim eru þó aðeins 12 tegundir spörfugla sem verpa hér á landi að staðaldri og fáeinar til viðbótar eru sjaldgæfir eða óreglulegir varpfuglar. Einangrun landsins, skógleysi og vætusöm veðrátta eru taldar helstu ástæður fyrir þessum rýra hlut spörfugla í íslenskri fuglafánu.

Með aukinni skógrækt hefur þeim fuglum fjölgað sem reyna hér varp. Hin torsótta farleið til og frá landinu, 800 km yfir opið haf, veldur því m.a. að litlir stofnar farfugla eiga erfitt uppdráttar. Það eru vafalaust mikil afföll í hafi af þeim fuglum sem ekki geta sest á sjó til að hvíla sig, eins og spörfuglum og smávöxnum vaðfuglum. Stofnar gamalgróinna íslenskra farfugla í smærri kantinum eru stórir og sterkir og þola því nokkur afföll. Þeir fuglar sem hafa numið hér land undanfarin hundrað ár eða svo og eru jafnframt farfuglar, eru aðallega sundfuglar og geta sest á sjó. Smærri landnemar, eins og stari, glókollur, svartþröstur og krossnefur, eru að hluta til eða öllu leyti staðfuglar.

Útlit og atferli

Krossnefur er sérkennileg, stór finka með stóran gogg, skoltarnir ganga á misvíxl og ber fuglinn nafn sitt af því. Goggurinn er sérhæfður til að ná fræjum úr könglum. Karlfuglinn er oftast hárauður með dekkri vængi, en getur einnig verið appelsínugulur eða jafnvel grænn. Kvenfuglinn er grágrænn með gulgrænan gump og ungfugl er sterkrákóttur, grábrúnn eða mógrænn. Augu eru svört, fætur gráir eða grábrúnir og goggur eru dökk, en neðri skolturinn er oft ljósari.

Krossnefskarl í Grímsnesi.

Krossnefskarl með gulu ívafi í Grímsnesi.

Krossnefskerling í Grímsnesi.

Krossnefskerling í Grímsnesi.

Nýfleygur krossnefsungi nartar í birkifetalirfur á Hofi í Öræfum.

Krossnefsungi etur sólblómafræ í Grímsnesi. Hann er aðeins farinn að taka lit.

Krossnefur er félagslyndur utan varptíma. Hóparnir fljúga milli könglabúnta í trjátoppum og hafa hátt á flugi, en eru hljóðlátir þegar þeir eta. Flugið er bylgjótt.

Lífshættir

Aðalfæða krossnefs er grenifræ, en einnig furu- og lerkifræ, sem hann nær úr könglum með „sérhönnuðum“ goggnum. Einnig smádýr, t.d. skordýralirfur. Krossnefir koma stundum í fræ sérstaklega sólblómafræ, þar sem fuglum er gefið.

Kjörlendi krossnefs er greniskógar, en hann finnst einnig í furu- og lerkiskógum. Lítið er vitað um varphætti hans hér á landi. Varptími er sérstakur en hann fylgir þroska grenifræja og fuglarnir geta orpið árið um kring. Hérlendis virðist aðalvarptími krossnefs vera frá útmánuðum og fram á haust en jafnframt eitthvað yfir háveturinn. Hann gerir sér hreiður á grein í barrtré, venjulega í nokkurri hæð. Hreiðrið er karfa, gróf yst, og fóðruð með fínna efni. Eggin eru 3–5 og tekur útungun 14–15 daga. Ungarnir eru 20–25 daga í hreiðrinu áður en þeir verða fleygir. Krossnefur verpur nokkrum sinnum yfir árið.

Útbreiðsla og ferðir

Krossnefur er staðfugl hérlendis. Hann varp hér fyrst í desember 1994 og aftur sumarið 2006, stök pör í bæði skiptin. Næst er vitað um varp veturinn 2008 til 2009 en þá urpu mörg pör og víða um land (Hérað, Suðurland, Suðvesturland og Vesturland). Varpið hefur haldið áfram síðan og hefur Norðurland bæst við útbreiðslusvæðið. Stofninn er talinn vera 200–500 varppör og má telja að krossnefur hafi öðlast fullan þegnrétt í íslenskri náttúru.

Fuglarnir eiga það til að leggjast í flakk að loknu varpi og fara þá langt út fyrir heimkynni sín og m.a. til Íslands. Þeir koma stundum í stórum hópum og sjást víða um land. Þetta er kallað rásfar.

Uppruni krossnefs er í barrskógabelti Evrasíu og Norður-Ameríku, en hann hefur numið land í barrskógum víða um heim í kjölfar rásfars.

Þjóðtrú og sagnir

Þar sem krossnefurinn er einn af okkar yngstu landnemum finnst hann ekki í þjóðtrúnni og engin skáld hafa ort um hann – enn sem komið er.

Silfurmáfur

Silfurmáfur

Myndir og texti eftir Jóhann Óla Hilmarsson.

Silfurmáfur (Larus argentatus)

Fyrsta árs silfurmáfur í Þorlákshöfn.

Fullorðinn silfurmáfur í Garði.

Máfar, kjóar og þernur eru af sama ættbálki og vaðfuglar og svartfuglar og teljast til strandfugla (Charadriiformes). Fuglarnir hafa sundfit, flestir máfar og kjóar eru með sterklegan gogg sem er krókboginn í endann. Þeir eru leiknir flugfuglar. Kynin eru eins útlits, en karlfuglinn er oftast heldur stærri. Máfar, kjóar og þernur verpa yfirleitt í byggðum. Máfum er oft skipt í tvo hópa til hægðarauka, stóra máfa (svartbakur, hvítmáfur, silfurmáfur o.fl.) og litla máfa (t.d. hettumáfur, rita og stormmáfur). Búningaskipti máfa, frá því að þeir skrýðast fyrsta ungfuglabúningi og uns kynþroska er náð, eru flókin og er greining ungra máfa eitt erfiðasta verkefnið sem fuglaskoðarar standa frammi fyrir. Þeir skipta að hluta um fjaðurham á fyrsta hausti. Þá fella þeir höfuð- og bolfjaðrir. Eftir það skipta þeir um fjaðrir tvisvar á ári, á haustin fella þeir allt fiður (ágúst−október), en höfuð- og bolfiður síðla vetrar (febrúar−apríl).

Silfurmáfspar í Þorlákshöfn, karlinn til vinstri.

Tveggja ára silfurmáfur í Keflavík.

Silfurmáfur á þriðja vetri í Þorlákshöfn.

Útlit og atferli

Silfurmáfur er stærsti máfurinn með grátt bak og svarta vængbrodda. Hann er nokkru minni en hvítmáfur og eilítið stærri en sílamáfur, sterklega vaxinn með hlutfallslega stutta, breiða vængi. Fullorðinn fugl er hvítur á höfði og að neðan, en ljósgrár á baki og yfirvængjum. Vængbroddar eru svartir með hvítum dílum. Ungfuglar á fyrsta ári eru, líkt og sílamáfar á sama aldri, dekkstir ungra máfa. Þeir þekkjast frá sílamáfum á ljósara yfirbragði, ljósu svæði á innanverðum framvæng og fjaðrajaðrar á stórþökum eru ljósari. Svartur bekkur er á stéli. Á öðru ári verða bak og yfirvængir grá og kviður og bringa ljós. Á þriðja ári lýsast fuglarnir enn, en þó vottar fyrir svarta stélbandinu og þeir fá fullan skrúða á fjórða ári.

Að ofan og niður: silfurmáfur á 2. ári, fullorðinn og á 1. ári í Þorlákshöfn.

Goggur er gulur með rauðan blett á neðra skolti á fullorðnum fugli. Fætur eru ljósbleikir. Á ungfugli er goggur dökkbrúnn og fætur brúnir, hvorutveggja lýsist með aldrinum. Augu eru brún á ungfugli en ljósgul með rauðan augnhring á fullorðnum. Röddin líkist rödd hvítmáfs en tónhæð er meiri.

Fluglag og hegðun er svipuð og hjá öðrum stórum máfum. Silfurmáfur er félagslyndur og er oft í félagsskap annarra máfa.

Silfurmáfshjón í tilhugalífinu í Þorlákshöfn.

Silfurmáfshreiður í Krossanesborgum.

Silfurmáfur fæðir fullvaxta unga á Þórshöfn.

Lífshættir

Silfurmáfurinn lifir á fjölbreyttri fæðu, svo sem fiski, krabbadýrum, skeldýrum, skordýrum, hræjum og úrgangi, sem hann tekur á sjó, í fjörum eða af landi.

Hann verpur í byggðum í grasbrekkum, klettum, eyjum og jafnvel á söndum nærri sjó, stundum innan um aðra stóra máfa. Hreiðrið er allvönduð dyngja úr þurrum gróðri, sprekum og þangi. Eggin eru oftast þrjú og er álegutíminn rétt rúmar fjórar vikur. Ungarnir verða fleygir á 5–6 vikum.

Silfurmáfur hóf varp hér á landi upp úr 1930 og hefur alla tíð verið algengastur á

Austfjörðum. Hann verpur nú um land allt nema við Breiðafjörð og á Vestfjörðum en þar er veldi hvítmáfsins. Þessir tveir máfar blandast og eru kynblendingarnir frjóir. Stofninn er talinn vera 5.000–10.000 pör. Hann er á válista en er samt ófriðaður!

Silfurmáfur er að nokkru leyti farfugl en það eru aðallega ungfuglar sem fara til Bretlandseyja á veturna. Honum hefur fækkað töluvert í Evrópu og er hann nú á válista. Hér á landi benda vetrarfuglavísitölur 1985–2014 til samfelldrar fækkunar frá 1990.

Þjóðtrú og sagnir

Þar sem silfurmáfur er nýlegur landnemi, er ekkert í þjóðtrúnni tengt honum beint. En hjá nágrannaþjóðunum skipar hann stærri sess, þar sem hann hefur verið algengasti stóri máfurinn um aldir. Hann og aðrir máfar eru oft tengdir margs konar þjóðtrú um veðurfar og afla og jafnvel líf og heilsu sjómanna.

Straumönd

Straumönd

Myndir og texti eftir Jóhann Óla Hilmarsson.

Straumönd (Histrionicus histrionicus)

Straumandarpar í iðukasti á Laxá í Mývatnssveit.

Straumandarsteggur við Laxá í Laxárdal.

Útlit og atferli

Heimkynni straumandar eru straumharðar lindár og brimasamar strendur. Hún er smávaxin, hálsstutt og dökk kafönd með hátt enni og fleyglaga stél. Steggurinn er afar skrautlegur. Grunnliturinn er dökkblár og er hann alsettur hvítum, svartjöðruðum rákum. Síður og kollhliðar eru rauðbrúnar, vængir dökkir með lítt áberandi, stuttum, hvítum vængreitum, axlafjaðrir með hvítum langrákum. Steggur í felubúningi og ungfugl eru móskulegri en þó vottar fyrir litamynstri í þeim. Kolla er öll svarbrún, með hvíta bletti á hlustarþökum og milli augna og goggs, ljós á kviði. Goggur er stuttur, blýgrár, fætur grábláir (steggur) eða grænleitir (kolla). Augu eru brún.

Straumandarsteggur við Laxá í Laxárdal.

Straumandarpar í iðukasti á Laxá í Mývatnssveit.

Straumönd stingur sér á kaf í iðukasti.

Straumönd flýgur hratt með hröðum vængjatökum og veltum lágt yfir vatnsfleti. Hún flýgur sjaldan yfir land en fylgir ám og þræðir þá hverja bugðu árinnar og fer jafnvel undir brýr. Straumöndin er mjög fimur sundfugl og getur synt bæði í hörðum straumi og brimi og kafað eftir æti í hvítfyssandi iðuna. Skrautbúningur steggjanna fellur oft ágætlega inn í umhverfið, svo að erfitt getur verið að koma auga á endurnar. Straumöndin sperrir oft stélið á sundi og rykkir til höfðinu. Hún er spök og félagslynd, er utan varptíma oftast í litlum þéttum hópum. Kollan sér um útungun og uppeldi unga, meðan steggurinn fer til sjávar til að fella flugfjaðrir, oftast upp úr miðjum júní.

Steggur gefur frá sér lágt blístur en kolla hrjúft garg, er þó yfirleitt þögul.

Straumandarpar á góðri stundu á Laxá í Mývatnssveit.

Straumendur við Tunguós á Snæfellsnesi.

Lífshættir

Straumöndin er dýraæta. Sumarfæða hennar er fyrst og fremst bitmýslirfur og púpur, sem hún kafar eftir í straumvatni, einnig rykmýs- og vorflugulirfur. Á sjó er fæðan ýmis smádýr: þanglýs, marflær, kuðungar og skerar.

Ungi fær salibunu með mútter á Laxá í Mývatnssveit.

Straumandarkolla með hálfstálpaða unga á Laxá í Mývatnssveit.

Straumönd heldur sig á sumrin við straumharðar lindár og útföll úr stöðuvötnum þar sem nóg er af bitmýi. Hreiðrið er á árbökkum eða í hólmum, vel falið milli steina eða í gróðri. Hún verpur 4–8 eggjum í dúnklætt hreiður, útungun tekur um 4 vikur og ungarnir eru lengi á ánni, þeir verða fleygir á 9–10 vikum. Utan varptímans dvelur straumöndin við brimasamar klettastrendur (brimdúfa).

Straumandarpar við Laxá í Laxárdal.

„Brimdúfur“ við Hafnir á Suðurnesjum.

Útbreiðsla og stofnstærð

Straumöndin er staðfugl. Einu varpstöðvar hennar í Evrópu eru hér á landi en hún finnst annars austast í Síberíu, á Grænlandi og við norðanverða vestur- og austurströnd N-Ameríku. Hér finnst hún um allt land þar sem búsvæði hennar er að finna, lífríkar lindár. Oft gerir hún sér að góðu væna læki ef þar þrífst bitmý. Stöku sinnum sjást straumendur á lífríkum ám á veturna, eins og á Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu og Sogi. Varpstofninn er talinn vera 3000–5000 pör og vetrarstofninn um 14.000 fuglar.

Þjóðtrú og sagnir

Líkt og á við um aðrar endur “Líkt og á við um aðrar endur kemur straumöndin ekki oft fyrir í íslenskri þjóðtrú þrátt fyrir skrautlegt yfirbragð og sérkennilega lífsháttu. Ef þú hefur þurrkað höfuð af straumandarstegg í fórum þínum á það að verja þig „öllu illu eðli og ónáttúru“. Þekkt er sagan af spurningu á prófi í barnaskóla nokkrum um miðja síðustu öld, þar sem spurt var hver væri fallegasti fuglinn. „Rétta“ svarið var straumönd og rangt var gefið fyrir önnur svör. Árið 1817 fórst áttæringur sem hét Straumönd með 12 manns innanborðs á leið frá Grímsey til lands. Nokkuð hefur verið skrifað og ort um þann atburð.

Straumönd þrautfleyg áir á,

uppheims brautum norðar.

Setin laut og sundfær á,

söngla í skauti storðar.

Úr Hörpu eftir Stephan G. Stephansson