Stelkur

Stelkur

Stelkur (Tringa totanus)

Vaðfuglar tilheyra allir sama ættbálki, strandfuglum (Charadriiformes), ásamt máfum og svartfuglum. Einkenni margra vaðfugla eru langur goggur, langir fætur og langur háls. Þeir eru dýraætur sem eta alls konar hryggleysingja og langur goggurinn er hentugur til að grafa eftir æti í leirum, tjarnarbotnum og jarðvegi. Vaðfuglar helga sér óðul og verpa pörin stök, en stundum er hægt að tala um að þeir verpi í dreifðum byggðum. Þetta getur átt við stelkinn þar sem hann verpur þéttast. Ungar eru bráðgerir og yfirgefa hreiðrið strax og þeir eru orðnir þurrir. Hjá flestum vaðfuglum ala báðir foreldrarnir önn fyrir ungunum. Kynjamunur er lítill hjá vaðfuglum.

Stelkur í Friðlandinu í Flóa.

Stelkur á flugi á Stokkseyri.

.

Nýfleygur stelksungi í Eyrarbakkafjöru.

.

Stelkur í vetrarbúningi í Hafnarfirði.

Ungur stelkur í vatnsnálarpolli við Eyrarbakka.

Útlit og atferli

Stelkurinn er meðalstór, hávær vaðfugl. Á sumrin er hann grábrúnflikróttur að ofan og ljósari að neðan, minnst flikróttur á kviði. Hvítur gumpur og vængbelti eru áberandi á flugi, stélið er þverrákótt. Hann er grárri að ofan og jafnlitari á veturna. Ungfugl er brúnleitur að ofan, með gula fætur.

Goggur er rauður með svartan brodd. Augun eru brún og augnhringur ljósgrænn. Fætur eru skærlitir, gulrauðir, standa aftur fyrir stél á flugi.

Á varpstöðvum er stelkurinn áberandi og tyllir sér gjarnan á staura með stél- og höfuðrykkjum og hefur hátt, ef honum finnst utanaðkomandi nálgast hreiður eða unga um of. Flýgur þá með stuttum, rykkjóttum vængjatökum. Flýgur annars hratt og beint. Er félagslyndur utan varptíma.

Hljóð stelksins eru breytileg, endurtekin stef, hræðsluhljóð og kallhljóð margvísleg.

Lífshættir

Fæðan er skordýr, ormar og áttfætlur til landsins; í fjörum marflær, smáskeljar, kuðungar, mýlirfur og þangflugulirfur. 

Stelkurinn heldur sig í graslendi og votlendi á sumrin en í fjörum á fartíma og á veturna. Hann gerir sér hreiður í graslendi eða mýrum, oft í óræktarlandi í þéttbýli, í túnjöðrum eða við bæi. Hreiðrið er vel falið í þúfnakolli eða sinu. Eggin eru fjögur og klekjast þau á 24 dögum. Ungar verða fleygir á 25–35 dögum.

Stelkshjón á góðri stund á Stokkseyri.

Stelkur á flugi á Stokkseyri.

Útbreiðsla og stofnstærð

Stelkurinn er að mestu farfugl. Flestir íslenskir stelkar fara af landi brott á haustin og hafa vetursetu á Bretlandseyjum og víðar í Vestur-Evrópu en 1.000–2.000 fuglar hafa vetrardvöl í fjörum á Suðvesturlandi og fáeinum öðrum lífríkum fjörum. Um 19% af öllum stelkum í heimi verpa hér á landi og er varpstofninn talinn vera um 75.000 pör.

Þjóðtrú og sagnir

Mjög lítið finnst í þjóðtrúnni um stelkinn. Ættkvíslarheitið, Tringa, merkir þann sem býr við ströndina. Á norrænum málum er hann ýmist kenndur við rauða eða háa fætur og gæti íslenska heitið og svipuð heiti allt eins táknað „háfætta fuglinn sem gengur sperringslega“.

 

Að skálabrekku

Hér stend ég aftur á brekkunnar brún og horfi
á blálygnt djúpið með himinhvolf sitt og fjöll. 
En jaðraki, stelkur og hrossagaukur hamast
við hljómleika sína í nánd við iðgrænan völl. 

Úr kvæðinu Að Skálabrekku eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson

 

 

 

Myndir og texti eftir Jóhann Óla Hilmarsson

Bjargdúfa og húsdúfa

Bjargdúfa og húsdúfa

Rauðbrystingur á Barðaströnd

Bjargdúfa og húsadúfa (Columba livia)

Bjargdúfa er gráblá, með gljáandi grænar og purpuralitar hálshliðar. Hún er með hvítan yfirgump, dökka rák á jaðri stéls og tvær svartar vængrákir. Ungfugl er brúnni, án gljáa á hálshliðum. Dökkar bjargdúfur eru líka til. Húsdúfan (C.l. domestica) er afkomandi bjargdúfunnar. Hún er til í mörgum litum, t.d. hvít, alsvört og brún, og til eru ýmis ræktuð afbrigði.

Goggur bjargdúfu er dökkur með hvíta vaxhúð, augu rauð og ljós hringur um augu. Goggur, vaxhúð og augnhringur eru stærri á húsdúfum en villtum dúfum.

Fullorðinn rauðbrystingur í vorbúningi á Patreksfirði.

Bjargdúfa á Djúpavogi.

Ungur rauðbrystingur í Eyrarbakkafjöru.

Húsdúfa við Reykjavíkurtjörn.

.

Fljúgandi bjargdúfur á Djúpavogi.

.

Bjargdúfur svífa oft með vængina uppsveigða. Þær eru félagslyndar, halda hópinn árið um kring og verpa yfirleitt í byggðum. Hljóðin sem þær gefa frá sér er malandi kurr.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Bjargdúfuhópur í Mýrdal.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Bjargdúfur á Norðfirði að vetri.

Lífshættir

Aðallega frææta, fer gjarnan í kornakra, en tekur einnig arfafræ, sprota, ber og smáskordýr á jörðu niðri. Koma einnig í fóður, þar sem fuglum er gefið kornmeti.

Bjargdúfa verpur í klettaskútum og syllum. Húsdúfa lifir í bæjum og þéttbýli og verpur á húsum. Hreiðrið er grófgert, úr sprekum og gróðri. Eggin eru tvö, álegan tekur 16–19 daga og eru ungarnir 5 vikur í hreiðrinu.

 

 

Útbreiðsla, stofnstærð og uppruni

Dúfur sem bera öll einkenni bjargdúfna hafa orpið í klettum á nokkrum stöðum á Austurlandi, frá Berufirði norður í Norðfjörð um nokkurra áratuga skeið. Á undanförnum árum hefur útbreiðsla þeirra færst suður til Hornafjarðar og til vesturs á sunnanverðu landinu og nær hún nú alla leið í Mýrdal, undir Eyjafjöll, til Vestmannaeyja og í Ölfus. Þessi útbreiðsluaukning er talin fylgja aukinni kornrækt. Uppruni þessara dúfna er óviss, þær gætu verið afkomendur húsdúfna sem hafa lagst út og/eða bjargdúfna sem hafa flækst hingað, en þær verpa m.a. í Færeyjum og á Skotlandi. Húsdúfa verpur á helstu þéttbýlisstöðum landsins og dreift á sveitabæjum. Töluvert hefur verið herjað á hana á síðustu árum og hefur henni fækkað mikið í Reykjavík. Bjargdúfan er alfriðuð.

Þjóðtrú og sagnir

Hér hefur ekki skapast þjóðtrú í kringum svo nýjan landnema, en erlendis er margt um hana í þjóðtrúnni.

Skyldar tegundur

Tvær dúfnategundir hafa reynt hér landnám og er líklegt að allavega önnur þeirra sé komin til að vera. Það er hringdúfa (Columba palumbus), stóra frænka bjargdúfunnar. Hún er skógarfugl, sem flækist hingað aðallega snemmsumars. Hringdúfur hafa orpið í skógarlundum víða um land og eru líklega á jaðri landnáms, þær njóta góðs af kornræktinni eins og bjargdúfur.

Önnur dúfa, minni og ljósari, er tyrkjadúfa (Streptopelia decaocto). Hún er skógarfugl sem upprunnin er í Asíu, en hefur breiðst norðvestur um Evrópu á síðustu áratugum og er staðfugl í heimkynnum sínum. Hún sást fyrst hérlendis 1971 og hefur sést alloft síðan og orpið nokkrum sinnum Tyrkjadúfan sést á öllum árstímum, mest á Innnesjum og um miðbik Austurlands.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Hringdúfa í Rutland Water Nature Reserve, Englandi.

Hópur rauðbrystinga í Flóa.

Tyrkjadúfa í Viðarlundinum í Þórshöfn.

Myndir og texti eftir Jóhann Óla Hilmarsson

Stokkönd

Stokkönd

Stokkönd (Anas platyrhynchos)

Karlfuglinn, steggurinn, er ávallt stærri en kvenfuglinn, kollan, hjá andfuglum, og hjá öndum er hann yfirleitt mun skrautlegri. Eitt af sérkennum andfugla er að þeir fella fjaðrir síðsumars, þar á meðal flugfjaðrir og verða því ófleygir um tíma. Andasteggir skipta um bolfiður áður en þeir fella flugfjaðrir og fá þá svonefndan felubúning, sem er oft svipaður búningi kollunnar. Felubúningurinn er því eins konar sumarbúningur þeirra. Þeir skarta síðan skrúðbúningi um haustið, eftir að þeir verða fleygir að nýju.

Fullorðinn rauðbrystingur í vorbúningi á Patreksfirði.

Stokkandarhjón á Djúpavogi.

Ungur rauðbrystingur í Eyrarbakkafjöru.

Stokkandarhjón á Stokkseyri.

.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Sofandi stokkandarsteggir í Suðurnesi, Seltjarnarnesi.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Stokkandarhjón á Bakkatjörn, Seltjarnarnesi.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Stokkandarhreiður í Vatnsmýri, Reykjavík.

Útlit og atferli

Stokköndin er algeng, stór buslönd sem flestir kannast við. Steggurinn, grænhöfðinn, er með glansandi dökkgrænt höfuð og háls, neðst á hálsi er hvítur hálshringur og neðan hans tekur við rauðbrún bringan. Búkur og vængir eru gráleit, dekkri og brúnleitari að ofan en neðan. Undirstél og undirgumpur eru svört, stélið hvítt og gumpurinn svartur með tveimur krókfjöðrum fyrir miðju. Í felubúningi er hann dekkri en kolla, sérstaklega á höfði, og goggur gulleitari. Ungfuglar taka á sig lit fullorðinna fugla strax á fyrsta hausti. Kollan er öll brúnflikrótt, með ljósara höfuð og bringu. Höfuð og háls eru fínlega rákótt, með dekkri koll og augnrák. Bæði kyn hafa dökkbláa vængspegla með hvítum og svörtum bryddingum. Goggur steggs er gulgrænn með svartri nögl, goggur kollu daufgulrauður eða ólífubrúnn, oft með flekkjum. Fætur beggja kynja eru rauðgulir og augu dökk.

Stokkönd er stærst og þéttvöxnust buslandanna og oftast auðgreind. Hún flýgur hratt með grunnum vængjatökum og flýgur snöggt upp af vatni með bröttu uppflugi. Hún á auðvelt með gang og gengur í láréttri stöðu. Hún leitar sér ætis með því að hálfkafa með bakhlutann upp í loft, aðeins með haus og háls undir yfirborði, eða hún tínir æti úr vatnsborði. Steggurinn yfirgefur kolluna meðan hún liggur á og safnast steggirnir í hópa til að fella flugfjaðrir. Pörun stendur síðan yfir allan veturinn fram á vor.

Er venjulega hávær, garg kollunnar er rámt „bra-bra“ en steggurinn er hljóðlátari, flautar í biðilsleikjum.

 

Lífshættir

Stokkönd er bæði plöntu- og dýraæta. Hálfkafar eða buslar eftir smádýrum, fræjum, rótum og sprotum á grunnu vatni, leitar einnig ætis á þurru landi. Kollur um varptímann og ungar lifa aðallega á dýrafæðu (t.d. rykmýslirfum og -flugum) fyrstu vikurnar. Kafar stundum.

Verpur í margs konar kjörlendi, þó aðallega í og við votlendi á láglendi, oft nærri mannabústöðum. Hreiðrið er venjulega vel falið í gróðri, milli steina eða þúfna, í drasli o.s.frv., gert úr grasi og fóðrað með dúni. Urptin er 6–12 egg, álegan tekur um 4 vikur og ungarnir verða fleygir á 7–9 vikum. Stokkendur fella flugfjaðrir á vötnum og tjörnum girtum stör. Eru á veturna við strendur en einnig á íslausu ferskvatni.

Útbreiðsla og stofnstærð

Stokkönd er sennilega útbreiddasta öndin á láglendi, en er sjaldgæf á hálendinu. Hún hefur mikla aðlögunarhæfni og er oft í nánu sambýli við manninn. Sést víða um land á veturna. Talið er að slæðingur hafi vetursetu á Bretlandseyjum. Algeng um allt norðurhvelið og hefur verið flutt um allan heim .

Þjóðtrú og sagnir

Líkt og um flestar aðrar endur, fjallar íslensk þjóðtrú ekki mikið um stokköndina. Víða eru endur taldar veðurvitar og hér hefur borið við, að þær finni á sér eldsumbrot eða jarðhræringar.

Grænhöfði

Er sólvindar taka að sækja á
og sópa burt vetrarsnænum,
einn dag er hann kominn karlinn sá
í kelduna skammt frá bænum.

Það glampar fallega á grænan koll
og glitofnar fjaðrir skína,
er göslar hann útí grunnan poll,
með gráu konuna sína.

Og sálir barnanna vermdar von
í víddum blámans sig lauga,
er sjá þau vatnanna villta son
með vorið blikandi í auga.

Þau hlusta ekki oftar á það rugl
að enn geti komið hríðar,
hver efar að svona fagur fugl
sé forboði nýrrar tíðar.

Jóhannes úr Kötlum

Hópur rauðbrystinga í Flóa.

Stokkandarkolla með unga á Reykjavíkurtjörn.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Stokkandarsteggur í fjaðrafelli á Reykjavíkurtjörn.

Myndir og texti eftir Jóhann Óla Hilmarsson

Álka

Álka

Álka í Látrabjargi

Álka (Alca torda)

Álka telst til svartfugla, þeir tilheyra ættbálki strandfugla (Charadriiformes) og eru allir af sömu ættinni, svartfuglaættinni. Svartfuglar afla fæðu sinnar úr sjó, verpa við sjó og ala allan sinn aldur á sjó, nema þegar þeir koma á land til að verpa. Þetta eru langlífir fuglar sem verða seint kynþroska. Svartfuglar sýna maka tryggð, verpa í byggðum og þeir verpa allir einu eggi nema teista.

Álka í Ingólfshöfða.
Álka í Ingólfshöfða.
Álka með sandsíli við Látrabjarg
Álka með sandsíli við Látrabjarg.

Útlit og atferli

Álkan er miðlungsstór svartfugl. Í sumarbúningi er hún svört á höfði, hálsi og baki en hvít á bringu og kviði. Yfirvængur er svartur með hvítum afturjaðri en undirvængur að mestu hvítur. Á veturna eru framháls, kverk og hlustarþökur hvít. Álka líkist langvíu og stuttnefju en er hálsstyttri og með hærri gogg.

Álka að vetri í Þorlákshöfn.
Álka að vetri í Þorlákshöfn.
Goggur er hár og hliðflatur, bogadreginn fremst, með hvítri langrák og einni greinilegri þverrák. Rákirnar dofna á veturna og þá er goggurinn lægri, eins og á ungfuglum sem eru með smágerðari gogg.

Álka flýgur hratt og beint með teygðan háls, lágt yfir haffleti. Er létt á sundi og sperrir þá oft stél og jafnvel gogg. Nýtur sín vel í kafi. Á erfitt um gang, situr á ristinni og heldur jafnvægi með stélinu. Henni svipar til langvíu og stuttnefju og er félagslynd eins og þær.  Á varpstöðvum gefur álka frá sér rýtandi „urr“ og ungar flauta.

 

Lífshættir

Álka kafar eftir fiski og notar vængina til að kafa með eins og aðrir svartfuglar, hún „flýgur“ neðansjávar. Fæðan er aðallega smáfiskur eins og sandsíli, loðna og síld, í minna mæli ljósáta og aðrir hryggleysingjar.

Álkan heldur sig bæði á grunnsævi og dýpra. Verpur í byggðum við sjó, björgum eða grýttum urðum. Verpur oftast í sprungum eða undir steinum en einnig á berar syllur. Eggið er aðeins eitt og klekst á 5 vikum. Ungarnir yfirgefa vörpin aðeins 2–3 vikna gamlir, seinni hluta júlímánaðar, löngu áður en þeir verða fleygir, og elta foreldrana á haf út. Þeir verða fleygir á 7–10 vikum.

Álkur á flugi við Rosmhvalanes.
Álkur á flugi við Rosmhvalanes.
Álkur á Jökulsárlóni.
Álkur á Jökulsárlóni.

Útbreiðsla og stofnstærð

Stærsta álkubyggð heims var lengi vel Stórurð undir Látrabjargi, en um 75% íslenska stofnsins varp í bjarginu fram undir aldamótin. Nú er stærsta byggðin líklega í Grímsey. Álkan er að nokkru farfugl, sumar álkur fara ekki langt, halda sig á hafinu umhverfis landið, meðan aðrar halda sig á hafinu milli Íslands, Færeyja og Noregs Álkan kemur aðeins á land til að verpa.

 

Veiðar, vernd og válisti

Álka hefur löngum verið nýtt í íslenskum björgum, bæði fuglar og egg. Álku hefur fækkað talsvert og var íslenski stofninn talinn 313.000 pör í kringum 2007, eða 82% af því sem hann var í kringum 1985. Mest var fækkunin í stærstu byggðinni, Látrabjargi, og á Hornströndum, en fjölgun var í Grímsey. Væntanlega hafa álkurnar fært sig þangað því fæðuskilyrði eru betri við eyna nú en við Látrabjarg.

Þar sem meirihluti af álkum heimsins verpur á Íslandi var tegundin sett á heimsválista og evrópskan válista sem tegund í yfirvofandi hættu vegna neikvæðrar stofnþróunar. Hún er í sama flokki á íslenska válistanum frá 2018.

 

Álkur í Látrabjargi.
Álkur í Látrabjargi.
Álka í Grímsey.
Álka í Grímsey.
Álka í Grímsey.
Álka í Grímsey.

Þjóðtrú og sagnir

Íslensk þjóðtrú segir fátt um álkuna, en trúin tekur iðulega til allra svartfugla og hegðunar þeirra. Það er helst að svartfuglarnir tengist veðurútliti, viti á óveður, sérstaklega slæmar norðanáttir. Þeir boða einnig góðan afla, en sjómenn notuðu og nota enn fugla og hvali til að finna fiskitorfur.

Geirfugl var skyldur álku, stór fugl og ófleygur, stundum nefndur mörgæs norðursins. Síðustu geirfuglarnir (Pinguinus impennis) voru drepnir í Eldey í byrjun júní 1844.

Lítið hefur verið ort um álkuna í gegnum tíðina, en þeim mun meira um bjargsig og bjargnytjar. Eftirfarandi erindi er úr gamalli færeyskri fuglavísu:

Álka og ont á gólfi sita,
reiða mat á disk,
otan flýgur út í hav
og veiðir feskan fisk.
Dúgvan situr á miðjum bekki.

Álka á hreiðri í Látrabjargi. Hreiðrið er ber klöppin.
Álka á hreiðri í Látrabjargi. Hreiðrið er ber klöppin.
Myndir og texti eftir Jóhann Óla Hilmarsson
Skógarþröstur

Skógarþröstur

Rauðbrystingur á Barðaströnd

Skógarþröstur (Turdus iliacus)

Þessi söngfagri spörfugl er einkennisfugl íslenskra birkiskóga og garða í þéttbýli. Hann er meðalstór af spörfugli að vera, dökkmóbrúnn að ofan, hvítur eða ljósgulur að neðan. Bringa hans er alsett þéttum, dökkum langrákum, kviðurinn er minna rákóttur. Ljós, breið brúnarák og skeggrák, ásamt rauðbrúnum síðum og undirvængþökum, greina hann frá öðrum þröstum. Ungfugl síðsumars eru ljósari með ljósa fjaðrajaðra að ofan. Goggur er fremur sterklegur spörfuglsgoggur, gulleitur með dökkan brodd og mæni. Fætur eru ljósbrúnir og augu dökkbrún.

Um leið og skógarþrösturinn kemur til landsins á vorin byrjar karlinn að syngja og helga sér svæði. Fuglinn er félagslyndur utan varptíma og fer þá um í hópum. Hann hoppar oftast jafnfætis á jörðu niðri. Um varptímann einkennir ómþýður söngur skógarþröstinn og stundum syngur hann angurvært á haustin og veturna. Gefur auk þess frá sér hart og hvellt kallhljóð

Fullorðinn rauðbrystingur í vorbúningi á Patreksfirði.

Syngjandi skógarþröstur í Mývatnssveit.

Ungur rauðbrystingur í Eyrarbakkafjöru.

Skógarþröstur með fullvaxinn unga (t.v.) í Fossvogskirkjugarði.

.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Syngjandi skógarþröstur í Njarðvíkum. Toppurinn er athyglisverður.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Skógarþröstur ýfir sig til að halda á sér hita í vetrarkulda. Árbæjarhverfi í Ölfusi.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Nýkomnir skógarþrestir í vorhreti í Eyrarbakkafjöru.

Lífshættir

Skógarþrösturinn er bæði dýra- og jurtaæta, hann étur skordýr, áttfætlur, orma og bobba á sumrin og fæðir ungana á þeim. Síðsumars leggjast þrestirnir í berjamó og sækja síðan í reyniber og önnur ber í görðum. Fyrir vetrarfuglana er gott að leggja út epli, perur, fitu og kjötsag.

Skógarþröstur verpir í alls konar skóglendi á láglendi. Mesti þéttleikinn er í birkiskógi með ríkulegum undirgróðri, í görðum og ræktuðum skógi. Hreiðrið er karfa, ofin á undirstöðu úr leir, tágum og stönglum, staðsett í tré, gjarnan barrtré í þéttbýli, á jörðu niðri í kjarri, í skurðbökkum og á byggingum. Eggin (urptin) eru 4–6, þau klekjast á 12–13 dögum og ungarnir verða fleygir á 13–14 dögum. Ungarnir yfirgefa oft hreiðrin áður en þeir verða fleygir og mikil hætta er á að þeir lendi í kattarklóm þegar þeir verpa í húsagörðum. Það er enn í eðli unganna að hreiðrið sé á jörðu niðri eins og tíðkast hefur um aldir í íslenska birkikjarrinu. Skógarþrösturinn verpur iðulega tvisvar til þrisvar á sumri. Sést víða á fartíma, t.d. í fjörum og skógum.

Síðan um aldamót hefur frændi hans, svartþrösturinn, numið land og er hann að mestu leyti þéttbýlisfugl. Þeim frændum virðist koma vel saman þó að stundum slái í brýnu, enda eru þrestir einstaklingshyggjufuglar og eiga oft erfitt með að una öðrum fuglum að nýta sama svæði og þeir. Það getur kveðið svo rammt að vörnum skógarþrasta við hreiður, að þeir ráðast á fólk sem hættir sér of nærri og dæmi er um garðeigendur sem hafa ekki vogað sér út á meðan þrösturinn undirokar garðinn.

 

Útbreiðsla og stofnstærð

Skógarþrösturinn verpur á láglendi um land allt, um 99% stofnsins er talinn verpa neðan 300 m hæðarlínunnar. Hann er að mestu farfugl og fer til Vestur-Evrópu á haustin, mest til Bretlands, Írlands, Frakklands og Pýreneaskaga. Nokkur þúsund þreyja hér þorrann og góuna í þéttbýli. Varpheimkynni eru í norðanverðri Evrópu og Asíu. Íslenski skógarþrösturinn er sérstök undirtegund, Turdus iliacus coburni. Stofninn er talinn vera um 165.000 varppör. Hauststofninn er því væntanlega á bilinu 400.000–500.000 fuglar.

Þjóðtrú og sagnir

Skógarþrösturinn er veðurspáfugl. Þegar þrestir koma heim á bæi í góðu veðri, haust eða vor, er von á vondum veðrum. Sumir segja það merki um stórhríð í vændum ef þrestir koma heim að bæjum að haust- eða vorlagi. Talið er að álög meini þrestinum vetrarvist.

Ég bið að heilsa!

Nú andar suðrið sæla vindum þýðum,
á sjónum allar bárur smáar rísa
og flykkjast heim að fögru landi Ísa,
að fósturjarðar minnar strönd og hlíðum.

Ó! heilsið öllum heima rómi blíðum
um hæð og sund í drottins ást og friði;
kyssi þið, bárur! bát á fiskimiði,
blási þið, vindar! hlýtt á kinnum fríðum.

Vorboðinn ljúfi! fuglinn trúr sem fer
með fjaðrabliki háa vegaleysu
í sumardal að kveða kvæðin þín!

Heilsaðu einkum ef að fyrir ber
engil með húfu og rauðan skúf, í peysu;
þröstur minn góður! það er stúlkan mín.

Jónas Hallgrímsson

 

Vorið góða

Vorið góða, grænt og hlýtt,
græðir fjör um dalinn,
allt er nú sem orðið nýtt,
ærnar, kýr og smalinn.

Kveður í runni, kvakar í mó
kvikur þrastasöngur;
eins mig fýsir alltaf þó:
aftur að fara’ í göngur.

Jónas Hallgrímsson

 

Nú haustar að

Einhverja nóttina koma skógarþrestirnir
að tína reyniber af trjánum
áður en þeir leggja í langferðina yfir hafið,
en það eru ekki þeir sem koma með haustið
það gera lítil börn með skólatöskur.

Vilborg Dagbjartsdóttir

 

Þrastarhreiðrið

Ég veit um lítið leyndarmál
Í lágu, fögru tré.
Í gengum ljósgrænt limið þess
ég lítinn bústað sé.

Ég á mér ljúfan, lítinn vin
er ljóð um ástir söng.
Við gluggann minn hann kvað oft kátt
um kvöldin björt og löng.

Með hagleik sá ég húsið reist
og hoppað grein af grein
og stráin fest þar eitt og eitt
en aldrei mistök nein.

Það varð að hafa hraðan á,
í húfi mikið var.
Og bólið þurfti að vanda vel
allt vott um kærleik bar.

Svo komu eggin ofursmá,
þau urðu að lokum sex.
Og móðurástin annast þau
hún eykst og stöðugt vex.

Þótt úti vorið andi svalt
sinn yl hún gefur þeim,
sem kominn er um langa leið
til landsins kalda heim.

Ég gægist út um gluggann minn
það gleður hug og sál
að horfa á grænt og gróið tré
sem geymir leyndarmál.

Margrét Jónsdóttir

Hópur rauðbrystinga í Flóa.

Skógarþrastarhreiður í Laxárdal í S-Þingeyjarsýslu.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Skógarþröstur á hreiðri í birki í Kjarnaskógi.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Skógarþröstur að gefa ungum í Lambhagahverfi í Reykjavík.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Skógarþrestir eigast við í Eyrarbakkafjöru.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Skógarþröstur baðar sig á Húsavík.

Myndir og texti eftir Jóhann Óla Hilmarsson

Rauðbrystingur

Rauðbrystingur

Rauðbrystingur á Barðaströnd

Rauðbrystingur (Calidris canutus)

Rauðbrystingur er meðalstór, hnellinn vaðfugl með stuttan gogg, háls og fætur. Á sumrin er hann rauðbrúnn á höfði, hálsi, bringu og kviði, dökkur að ofan með móleitum dröfnum og með dökkrákóttan koll. Á haustin og veturna er hann að mestu grár með ljósari fjaðrajaðra á baki og virðist hreistraður, ljós að neðan. Ungfugl er svipaður en dekkri að ofan, með meira áberandi „hreistur“ á baki og gulbrúnan blæ á bringu. Rauðbrystingur er alltaf með gráa vængi og hvít vængbelti, ljósgráan, fínrákóttan gump og grátt stél. Kynjamunur er lítill, karlfuglinn er þó aðeins skærlitari og ívið minni en kvenfuglinn. Goggur er svartur, fætur grágrænleitir, augu dökk.
Fullorðinn rauðbrystingur í vorbúningi á Patreksfirði.

Fullorðinn rauðbrystingur í vorbúningi á Patreksfirði.

Ungur rauðbrystingur í Eyrarbakkafjöru.

Ungur rauðbrystingur í Eyrarbakkafjöru.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Lífshættir

Rauðbrystingur finnst hér aðallega í fjörum og tekur þar skordýr, orma, skeldýr og krabbadýr. Sækir eitthvað í mý og mýlirfur inn til landsins.

Kjörlendi er aðallega leirur og þangfjörur með leirublettum. Sést stundum inn til landsins á túnum og ökrum á vorin. Ekki er vitað til þess að rauðbrystingur hafi orpið hér á landi.

 

Útbreiðsla, stofnstærð og ferðir

Rauðbrystingur er hánorrænn varpfugl og skiptist í nokkra vel aðgreinda stofna. Sá stærsti, undirtegundin Calidris canutus islandica notar „bensínstöðina Ísland“ á leið sinni milli varpstöðva á Grænlandi og íshafseyjum Kanada og vetrarstöðva í Vestur-Evrópu og Vestur-Afríku. Aðalviðkomustaðirnir eru við Faxaflóa og Breiðafjörð, en nokkuð kemur einnig við á Eyrum og sunnanverðum Reykjanesskaga, í Arnarfirði, Dýrafirði, við Húnaflóa, á NA-landi frá Skjálfanda í Vopnafjörð og á SA-landi kringum Hornafjörð. Fyrstu farfuglarnir sjást venjulega viku af apríl, en vorfarið er þó aðallega í maí. Haustfarið dreifist yfir lengri tíma og hóparnir eru þá minni, fullorðnu fuglarnir koma fyrst, frá miðjum júlí, en ungarnir seinna og dvelja sumir fram í september. Talið er að vorstofninn sé um 270.000 fuglar. Slæðingur af geldfugli dvelur hér mestallt sumarið og fáeinir fuglar dvelja í fjörum á Suðvesturlandi allan veturinn.

 

 

 

Þjóðtrú og sagnir

Rauðbrystingurinn skipar ekki háan sess í þjóðtrúnni, fremur en aðrir umferðarfuglar eða fargestir sem koma hér við á ferðum sínum. Áður en fólk gerði sér grein fyrir fari fugla voru ýmsar furðuskýringar á því hvað varð um þá, sérstaklega á haustin, til dæmis að þeir svæfu vetrarsvefni í holum og gjótum niðri í jörðinni með laufblað í gogginum.

Ekki má rugla rauðbrystingi saman við glóbrysting eins og henti þýðanda fyrstu bókarinnar sem kom út á íslensku um Harry Hole eftir Jo Nesbø. Á norsku heitir glóbrystingur rødstrupe, en rauðbrystingur heitir polarsnipe.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Hópur rauðbrystinga í Flóa.

Hópur rauðbrystinga í Flóa.

Myndir og texti eftir Jóhann Óla Hilmarsson