Náttúruhús á Nesinu?

Starfshópur sem Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra skipaði, hefur komist að þeirri niðurstöðu að Nes á Seltjarnarnesi sé kjörinn framtíðarstaður fyrir Náttúruminjasafn Íslands m.t.t. nálægðar við hafið, fjölbreyttrar náttúru svæðisins og menningarsögulegs gildis þess. Er hús Lækningaminjasafnsins sem þar stendur hálfbyggt, talið henta að mörgu leyti vel fyrir starfsemi Náttúruminjasafnsins.

 

Miklir möguleikar

„Rísi Náttúruhús á Nesinu sér fyrir endann á langri og strangri baráttu fyrir viðunandi aðstöðu fyrir höfuðsafn þjóðarinnar í náttúrufræðum,“ segir Hilmar J. Malmquist forstöðumaður safnsins. Kjarni nýs Náttúruhúss yrði bygging sem kennd er við Lækningaminjasafnið. Hún er um 1360 m2 að gólffleti, jarðhæð og kjallari, hálfbyggð og því auðvelt að laga hana að þörfum safnsins til næstu ára. Til að svara þörfum safnsins til lengri tíma eru áhugaverðir möguleikar fyrir hendi til að stækka húsið. Þá eru fyrir hendi möguleikar á nýtingu á Nesstofu í samráði við Þjóðminjasafn Íslands og samnýtingu á Ráðagerði og fræðasetrinu í Gróttu í eigu Seltjarnarnesbæjar, sem léttir á framtíðarþörf nýbygginga fyrir Náttúruminjasafnið.

Starfshópurinn mælir með því að samið verði við Seltjarnarnesbæ um að ríkið eignist húsnæði Lækningaminjasafnsins og að það verði fullbyggt í samræmi við þarfir Náttúruminjasafnsins. Aðlögun húsnæðisins að þörfum Náttúruminjasafnsins tæki tiltölulega skamman tíma og yrði hagkvæmara en hönnun og bygging nýs húss. Áætlað er að gera megi húsnæðið tilbúið undir starfsemi Náttúruminjasafnsins og fullgera þar sýningu á um tveimur árum.

 

Áætlaður kostnaður við að ljúka byggingu hússins miðað við núverandi teikningar er 650 m.kr. með -10% til +15% vikmörkum. Viðbótarkostnaður vegna aukningar á sýningarými á aðalhæð og í kjallara er áætlaður um 100 m.kr.

 

Sýningahald

Áætlaður kostnaður við fullgerða sýningu Náttúruminjasafnsins í allt að 500 m2 sýningarými er um 400 m.kr. (0,8 m.kr./m2).  Árlegur rekstrarkostnaður miðað við allt að 18 ársverk, sem sum hver samnýtast starfsemi Náttúruminjasafnsins í Perlunni og á fleiri stöðum, er áætlaður um 300 m.kr. Tekjur af sýningahaldi eru áætlaðar 150–400 m.kr. á ári og helgast aðallega af fjölda erlendra gesta á sýningar safnsins.

Húsin í Nesi: Lækningaminjasafnið, Lyfjafræðisafnið, hvítt hús fyrir miðri mynd, og Nesstofa, sem er hluti af húsasafni Þjóðminjasafns Íslands. Nesstofa var reist sem embættisbústaður fyrsta landlæknsins og er eitt af elstu steinhúsum landsins, byggt á árunum 1761–1767. Ljósmynd: Vigfús Birgisson.

Merkur áfangi

 

„Þetta er vafalítið einn merkasti áfanginn í langri og strangri baráttu fyrir viðunandi aðbúnaði fyrir þetta höfuðsafn þjóðarinnar í náttúrufræðum“ segir Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafnsins. „Ég vænti þess að þetta brýna verkefni, sem snýr að fræðslu í náttúruvísindum, rannsóknum og verndun á náttúruarfi landsins, muni njóta almenns stuðnings og brautargengis á alþingi. Ríkisstjórnin og sér í lagi mennta- og menningarmálaráðherra á hrós skilið fyrir að höggva á ríflega 100 ára gamlan hnút í húsnæðismálum og rekstri safnsins. Það er nú eða aldrei.“

 

Hér má lesa GREINARGERÐ starfshópsins

Nes er ysta jörðin á Seltjarnarnesi og þekkt fyrir fjölbreytt náttúrufar. Horft til vesturs. Gróttuviti til hægri í friðlandinu Gróttu og  friðlandið Bakkatjörn til vinstri. Ljósmynd: Vigfús Birgisson.

FYLGISKJÖL með greinargerðinni:

Fskj. nr. 1. Minnisblað safnstjóra höfuðsafnanna þriggja, afhent mennta- og menningarmálaráðherra, dags. 1. maí 2019.

Fskj. nr 2. Skipunarbréf mennta- og menningarmálaráðherra, dags. 18. september 2019.

Fskj. nr. 3. NÁTTÚRUHÚS. Náttúruminjasafn Íslands – höfuðsafn í náttúrufræðum. – Lýsing á þörfum Náttúruminjasafns Íslands fyrir húsnæði, starfsemi og mannafla með hliðsjón af þingsályktun nr. 70/145. Drög nr. 1, 8. mars 2017. 7 bls.

 

Fskj. nr. 4. Bréf bæjarráðs Seltjarnarness, dags. 12. desember 2019. 

Fskj. nr. 5. Framkvæmdasýsla ríkisins. minnisblað. Lækningaminjasafn Seltjarnarnesi – athugun fyrir Náttúruminjasafn Íslands, dags. 13. desember 2019. 

Fskj. nr. 6. Yrki Arkitektar – V001 Safn//Náttúruhús, dags. 8. nóvember 2019.