Stórmerkilegt steindasafn til Náttúruminjasafns Íslands
Bræðurnir Björn og Baldur Björgvinssynir frá Höskuldsstaðaseli í Breiðdal afhentu Náttúruminjasafni Íslands í dag safnkost sinn af íslensku bergi, steindum og steingervingum til eignar og varðveislu. Hér er um að ræða eitt stærsta og merkasta safn holufyllinga og bergs í landinu og telur safnkosturinn 10-15 þúsund eintök. Flest eru úr heimabyggð þeirra í Breiðdal og nærliggjandi sveitum á Austurlandi en safnið hefur mikið vísindagildi vegna ítarlegarar skráningar á fundarstað, finnanda og fundardegi. Mörg eintök hafa mikið fágætisgildi og önnur eru undurfagrir skrautsteinar.
Hilmar J. Malmquist og Björn Björgvinsson að undirritun lokinni.
„Þetta er stór dagur í sögu Náttúruminjasafns Íslands,“ sagði Hilmar J. Malmquist forstöðumaður safnsins við afhendinguna í gær. „Safnið mun kappkosta að tryggja heildstæða og faglega varðveislu á þessum merka hluta af náttúruarfi landsins og nýta safnkostinn til fræðslu fyrir almenning og fræðasamfélagið.“
Safnkosturinn er staðsettur á Breiðdalsvík og í Höskuldsstaðaseli í Breiðdal og sagði Hilmar hann verða varðveittan og hýstan til frambúðar í Breiðdal. Ennfremur sagði hann að Náttúruminjasafnið stefni að því að setja upp sýningu á Breiðdalsvík sumarið 2022.
Þetta verkefni hefur verið í undirbúningi í þrjú ár en síðast liðið sumar unnu stúdentar á vegum safnsins að skráningu og ljósmyndun safnkostsins. Stefnt er að því að ljúka því verki sumarið 2021.
Bræðurnir Björn og Baldur ásamt Hilmari. Á skjánum fyrir aftan þá er Smátindafjall milli Berufjarðar og Breiðdals.