Leðurblökur

Í Síðdegisútvarpinu í RÚV í seinustu viku var fjallað um áhugaverðan fund leðurblöku sem fannst síðastliðinn mánudag dauð við heimili Ólöfu Ástu Skúladóttur í Hvalfirði. Bendir flest til að leðurblakan hafi verið lifandi skömmu áður en hún fannst.  

Fundur leðurblökunnar er mjög áhugaverður að mörgu leyti. Þessi fljúgandi spendýr eru mjög sjaldgæfir flækingar á Íslandi. Á síðustu tvö hundruð árum eða svo, eða síðan fyrsta heimildin um fund leðurblöku á Íslandi var færð til bókar árið 1817, eru þekkt aðeins rúmlega 40 tilfelli, eða að jafnaði um eitt dýr á fimm ára fresti. Tíðni heimsókna þessara dýra virðist hafa aukist á síðustu 10–20 árum, t.d. voru skráð 12 tilfelli á árunum 2000–2009.

Trítilblaka (Pipistrellus nathusii) er algengasti flækingur leðurblaka á Íslandi.

Ekki er vitað með vissu um ástæður fyrir fjölgun heimsókna leðurblakanna loftslagsbreytingar og hlýnun hafa verið nefndar, auk tíðari skipakoma til landsins, en flestir fundir leðurblaka hafa verið á SV-horni landsins, einkanlega um borð í vöruflutningaskipum og gámum í höfnum. Talið er að þær geti einnig borist hingað fljúgandi af eigin rammleik en margar tegundirnar eru mikil fardýr og ferðast árlega langar leiðir milli landshluta.  

Alls er um átta tegundir af leðurblökum að ræða sem fundist hafa á Íslandi (Ævar Petersen o.fl. 2014, nmsi.is). Algengastar eru trítilblaka (Pipistrellus nathusii) og hrímblaka (Lasiurus cinereus). Trítilblaka á heima á meginlandi Evrópu og hún er lítil, búkurinn tæpir 5 cm og vænghafið um 25 cm. Aðalheimkynni hrímblöku eru um miðbik Ameríku þar sem hún er mjög algeng. Hún telst stór, búkurinn er 12-15 cm og vænghafið nær 40 cm. Báðar þessar leðurblökur eru skordýraætur. 

Ekki er enn vitað hvaða tegund leðurblakan sem fannst í Hvalfirði tilheyrir og er verið að rannsaka hana. En fundur leðurblökunnar er athyglisverður í tengslum við kórónuveirufaraldurinn sem hrjáir Íslendinga og alla heimsbyggðina. Leðurblökur eru nefnilega vel þekktir hýslar fyrir óvenjumargar veirutegundir sem valda sjúkdómum í mönnum, þ.m.t. kórónuveirur. Ein flækingstegundin hér á landi (Eptesicus fuscus) er þekktur hýsill SARS-CoV veiru í N-Ameríku (Emerg Infect Dis. 2007 Sep; 13(9): 1295–1300. doi: 10.3201/eid1309.070491). Þessi tegund hefur reyndar aðeins slæðst hingað einu sinni, einstaklingur sem fannst í bananagámi sem kom frá S-Ameríku. Ekki er vitað með vissu um fleiri flækingstegundir leðurblaka hér á landi sem bera með sér kórónuveirusmit. Tegundin Myotis occultus frá N-Ameríku er einnig þekktur hýsill SARS-CoV veiru, en sú tegund hefur ekki fundist hér á landi enda þótt frænkur hennar tvær, M. lucifugus og M. septentrionalis, hafi flækst hingað lifandi með skipi. 

Vegna smithættu ber að forðast beina snertingu við leðurblökur og gera viðeigandi aðilum viðvart, Náttúrufræðistofnun Íslands eða Matvælastofnun Íslands.  

Heimildir/Ítarefni: 

Fróðleikur um fljæugandi spendýr á vef Náttúruminjasafnsins: https://nmsi.is/2014/08/ 

Dr. Hilmar J. Malmquist forstöðumaður. Lifað með veirumNáttúra kórónuveira –veirur í sýningahaldi. Erindi á „HaustVorfundi“ höfuðsafnanna. Safnahúsinu. 17. september 2020. 

Glæra nr. 9 og 10. https://nmsi.is/wp-content/uploads/2020/09/Lifad-med-veirum_Hilmar-J.-Malmquist_NMSI_17.09.2020.pdf 

Grein um flækingsleðurblökur á Íslandi og NE-Atlantshafi. o og norðanverðu  

Ævar Petersen o.fl. 2014. Acta Chiropterologica, 16(1):169-195 (2014). https://doi.org/10.3161/150811014X683381 

A Review of the Occurrence of Bats (Chiroptera) on Islands in the North East Atlantic and on North Sea Installations. Aevar Petersen, Jens-Kjeld Jensen, Paulina Jenkins, Dorete Bloch, Finnur Ingimarsson. 

Grein um leðurblökur og kórónuveirur í N-Ameríku: 

Samuel R. Dominguez, Thomas J. O’Shea, Lauren M. Oko and Kathryn V. Holmes. 2007. Detection of Group 1 Coronaviruses in Bats in North America. 

https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC2857301/ 

 Ævar Petersen. 1994. Leðurblökur á Íslandi. Náttúrufræðingurinn 64: 3–12. 

 Ævar Petersen. 1993. Leðurblökukomur til Íslands. Bls. 347–351. Í: Villt íslensk spendýr (Páll Hersteinsson og Guðmundur Sigbjarnarson ritstjórar). Hið íslenska náttúrufræðifélag og Landvernd, Reykjavík. 

 Finnur Guðmundsson. 1957. Leðurblaka handsömuð í Selvogi. Náttúrufræðingurinn 27: 143–144.