Margæs (Branta bernicla)


Margæs telst til andfuglaættbálksins ásamt svönum og öndum og tilheyra þessir fuglar allir sömu ættinni, andaætt. Gæsum sem telja má íslenskar er oft skipt í tvo hópa, gráar gæsir og svartar. Karlfuglinn er ávallt stærri en kvenfuglinn hjá andfuglum og hjá öndum er hann yfirleitt mun skrautlegri. Eitt af sérkennum andfugla er að þeir fella fjaðrir síðsumars, þar á meðal flugfjaðrir og verða því ófleygir um tíma.

Útlit og atferli

Margæs er lítil „svört“ gæs, mun minni en helsingi og minnsta gæsin á Íslandi. Hún hefur sótsvart höfuð, háls og bringu, hvítar rákir á hálshliðum og dökkt, brúngrátt bak og vængi. Kviður og síður eru ljósgrá og eru aftanverðar síður rákóttar. Ungfugl er án ráka á hálshliðum og gráleitur á síðum. Goggurinn er stuttur og svartur, sömuleiðis fæturnir og augun dökkbrún.

Margæs flýgur hratt með örum vængjatökum, oftast í óskipulögðum hópum en einnig í oddaflugi. Stuttur háls og smæð eru einkennandi fyrir margæsina sem er lítið eitt stærri en stokkönd. Hún er létt á sundi og hálfkafar gjarnan.

Margæs er venjulega þögul en gefur frá sér kokkennt kvak á flugi. „Hrota“ og „prompa“ eru staðbundin heiti margæsar, byggð á hljóðlíkingum.

Ung margæs á haustfari í Bakkatjörn, Seltjarnarnesi.

Margæsir koma inn til lendingar á Álftanesi, Keilir í baksýn.

Margæsafar að vorlagi við hafnargarðinn á Eyrarbakka.

Margæsahjón á Seltjarnarnesi.

Margæsahópur á Mýrum vestur að haustlagi. Nokkrar rauðhöfðaendur eru í hópnum. Á Mýrum hafa sést allt að 14.000 margæsir í einum hópi.

Lífshættir

Aðalfæða margæsar er marhálmur, grastegund sem vex á grunnsævi, en hún etur einnig maríusvuntu og aðra grænþörunga, sjávarfitjung og sækir jafnframt í tún, aðallega á vorin.

Margæs er meiri sjófugl en aðrar gæsir, sækir á leirur og skjólsæla voga og víkur með ríkulegum marhálmi. Er einnig í túnum og á sjávarlónum.

Útbreiðsla, ferðir og stofnstærð

Margæsir sem verpa á kanadísku Íshafseyjunum eru af hinni svokölluðu kviðljósu undirtegund (B.b. hrota). Þær hafa vetursetu á Írlandi og eru fargestir á Íslandi vor og haust. Á vorin sjást fuglarnir frá Eyrum umhverfis Reykjanesskagann og norður í Breiðafjörð. Þekktasti viðkomustaður margæsa eru túnin við forsetasetrið á Bessastöðum. Þær stoppa hér í allt að tvo mánuði á vorin, í apríl og maí og eru fáir fargestir eða umferðarfarfuglar sem hafa hér jafnlanga viðdvöl. Þær fara héðan um 3000 km leið á varpstöðvar og er algengt að þær fljúgi þá leið í einni lotu á þremur sólarhringum. Leið þeirra liggur yfir Grænlandsjökul í allt að 2400 m h.y.s. Þetta flug er mjög erfitt fyrir margæsirnar, þær eru spikfeitar, hafa safnað orkuforða og eiga því í erfiðleikum með að ná nógu mikilli flughæð til að komast yfir jökulinn. Á haustin, í september og október, er aðalviðkomustaður gæsanna á Mýrum vestur.

Margæsir við Bessastaði.

Farleið margæsa skv. niðurstöðum merkinga með gervihnattasendum (af vef Náttúrufræðistofnunnar).

Margæsir safna hér orku fyrir farflugið og kvenfuglinn orku sem nýtist við varp skömmu eftir komu á varpstöðvar. Aðstæður þar eru kuldalegar og gróður fer ekki að vaxa að ráði fyrr en ungarnir klekjast úr eggjum um mánaðamótin júní-júlí. Staðsetning Íslands og milt loftslag gerir skilyrði til forðasöfnunar fyrir áframhaldandi flug mjög hagstæð og ráða miklu um viðgang stofnsins.

Margæs er hánorræn og útbreidd með ströndum N-Íshafsins. Aðrar undirtegundir eru kviðdökkar og sjást slíkir fuglar stundum í margæsahópum hér á landi. Margæs hefur einu sinni orpið hér svo kunnugt sé, í Bessastaðanesi vorið 2018.

Margæsastofninn hrundi þegar sýking kom upp í marhálmi upp úr 1930. Hann hefur þó náð sér á strik aftur og telur nú um 40.000 fugla að hausti. Hann hefur fjórfaldast frá 1974. Nákvæmlega er fylgst með stofnstærð gæsa og álftar á vetrarstöðvum þeirra á Bretlandseyjum og hérlendis, eftir því sem við á.

Þjóðtrú og sagnir

Lítið er um margæsina í íslenskri þjóðtrú, fremur það sem tengt er gæsum almennt, til dæmis að þær viti á óveður hafi þær vindinn í rassinn á sér. Þá mun hvæs gæsa vera skaðlegt og jafnvel banvænt.

Kviðdökk margæs af Evrópsku undirtegundinni á Álftanesi.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson