Helsingi

Helsingi

Helsingi (Branta leucopsis)

Helsingjahjón, kvenfuglinn (t.h.) safnar kviðfitu sem orku fyrir farflug og varp. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Helsingjahjón, kvenfuglinn (t.h.) safnar kviðfitu sem orku fyrir farflug og varp.
Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Útlit og atferli

Helsinginn er önnur tveggja „svartra“ gæsa sem fara um landið, hin er margæs. Þó hefur í auknum mæli orðið vart við ættingja þeirra, kanadagæsina, á síðustu árum.

Helsingi er meðalstór gæs, á stærð við heiðagæs og blesgæs. Hann verður best greindur á áberandi skörpum skilum dökka litarins að ofan og hvíta litarins að neðan, svo og hvítu andliti, kverkum og vanga. Hann hefur misáberandi svarta augnrák, er svartur á kolli, hnakka, hálsi og bringu, og bak og yfirvængir eru blágrá með hvítjöðruðum svörtum þverrákum. Vængir virðast gráir að ofan á flugi, dökkir að neðanverðu. Fuglinn er ljósgrár að neðan, með hvítar stélþökur og svart stél. Fullorðinn helsingi og ungfugl eru mjög líkir. Kynin eru eins, en karlfuglinn ívið stærri. Goggurinn er stuttur og svartur, fætur svartir og augu brún. Gefur frá sér hvellt gjamm sem minnir á hundgá.

Helsingjar við Jökulsárlón. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Helsingjar við Jökulsárlón. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Helsingjar á flugi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Helsingjar á flugi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Helsingi flýgur sjaldnar í oddaflugi en aðrar gæsir, sem sjást hér reglulega, en er oft í óskipulegum, þéttum hópum eða löngum reinum. Er stærri en margæs og með hægari vængjatök.

Lífshættir

Helsinginn er grasbítur, hann sækir talsvert í tún á vorin, en einnig í úthaga og votlendi.  Varpfuglar ala unga sína við ár og jökullón.  Fæða þeirra er væntanlega kornsúra, starir og sef.  Ber eru mikilvæg fæða á haustin ásamt kornsúrurótum og stararfræjum. Helsingi nýtir sér mýrar og tún nærri ströndinni á vorin, auk þess gróið land á hálendinu og lyngmóa á haustin.

Helsingjar að vorlagi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Helsingjar að vorlagi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Helsingjahópur í Langadal. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Helsingjahópur í Langadal. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Gæsir parast til langframa, kvenfuglinn ungar út eggjunum meðan karlinn stendur vörð og hjónin sjá saman um að ala önn fyrir ungunum. Ungar andfugla eru bráðgerir, þeir yfirgefa hreiðrið strax og þeir verða fleygir. Eitt af sérkennum andfugla er að þeir fella fjaðrir síðsumars, þar á meðal flugfjaðrir og verða því ófleygir um tíma. Flugfjaðrir í vexti (líka nefndar blóðfjaðrir) eru mjög blóðríkar og blæðir úr þeim ef fuglarnir verða fyrir einhverju hnjaski. Því er talað um að fuglarnir séu í sárum eða særist á þessum tíma. Fullorðnu fuglarnir verða oft fleygir að nýju um svipað leyti og ungarnir verða fleygir.

Helsingjahjón með unga í Austur-Skaftafellssýslu. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Helsingjahjón með unga í Austur-Skaftafellssýslu. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Helsingjahjón með unga í Austur-Skaftafellssýslu. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Helsingjahjón með unga í Austur-Skaftafellssýslu. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Helsingjahjón með unga í Austur-Skaftafellssýslu. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Helsingjahjón með unga í Austur-Skaftafellssýslu. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Útbreiðsla og far

Helsingjar eru fyrst og fremst fargestir hér á landi. Varpstofn í Norðaustur-Grænlandi. hefur viðkomu hér á ferð sinni til og frá vetrarstöðvum á Bretlandseyjum. Helstu viðkomustaðirnir á vorin eru í Húnavatnssýslum og Skagafirði, þar sem hátt í 70% af Austur-Grænlandsstofninum dvelur í 3-4 vikur. Á haustin staldra helsingjarnir aftur á móti við á sunnanverðu miðhálendinu og í Skaftafellssýslum. Utan Grænlands verpa helsingjar á Svalbarða og Novaja Zemlja. Á þessum norðlægu slóðum verpa helsingjarnir aðallega í klettum.

Helsingjar á Jökulsárlóni. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Helsingjar á Jökulsárlóni. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Fyrsta bókfærða varp helsingja hér á landi var í Hörgárdal 1927. Reglulegt varp hófst í Breiðafirði árið 1964. Helsingjar urpu þar í eyjum um 20 ára skeið. Árið 1988 fundust helsingjar á hreiðrum í hólmum á jökullóni í Austur-Skaftafellssýslu. Síðan hefur þetta varp vaxið og dafnað og helsingjar numið land á nokkrum öðrum stöðum í Skaftafellssýslum, m.a. við Hólmsá í Vestursýslunni, þar sem þeir urpu fyrst 1999. Helsingjar hafa orpið í Seley við Reyðarfjörð undanfarin ár, á Snæfellsnesi um þriggja ára skeið og víðar um land. Sumarið 2014 var talið að stofninn teldi rúmlega 700 varppör og á annað þúsund gelfugla. Heildarstærð íslenska varpstofnsins að hausti, með ungum, gæti því verið 4-5000 fuglar.

Helsingjar á Hestgerðislóni síðsumars. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Helsingjar síðsumars á Hestgerðislóni í Austur-Skaftafellssýslu. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Þetta landnám helsingja er sérstakt og vöxtur stofnsins hraður. Helsingjar hafa væntanlega komið hér við í þúsundir ára á ferðum sínum milli varp- og vetrarstöðva, en afhverju hefja þeir varp nú? Afhverju hafa ekki fleiri umferðarfuglar eða fargestir farið að verpa hér, eins og margæs og blesgæs, svo og vaðfuglarnir rauðbrystingur, sanderla og sérstaklega tildra. Eini fargesturinn fyrir utan helsingja, sem hefur numið land, er fjallkjói. Báðir þessir fuglar verpa á norðlægum slóðum og fara því í „öfuga átt”, miðað við hlýnun jarðar.

Nákvæmlega er fylgst með stofnstærð gæsa og álftar á vetrarstöðvum þeirra á Bretlandseyjum og hérlendis, eftir því sem við á.  Því eru stofnstærðir og stofnsveiflur þessara fugla betur þekkt en margra annarra. Talningar eru einnig gerðar á meginlandi Evrópu. Stofn helsingja hefur stækkað, allt frá sjöunda áratuginum, þó með smá niðursveiflu á þeim áttunda. Árið 1959 var stofninn 8300 fuglar, en árið 2013 var hann 80.700 fuglar, árunum 2008 til 2013 var heildaraukningin 14%. Þessi aukning er talin eiga rætur í lægri dánartíðni m.a. vegna þess að veiðum hefur verið hætt á Grænlandi, fremur en því að varpárangur hafi batnað.

Helsingjafjölskylda við Jökulsárlón, ungarnir eru fullvaxnir. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Helsingjafjölskylda við Jökulsárlón, ungarnir eru fullvaxnir. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Þjóðtrú og sagnir

Forðum vissu íslendingar ekki hvað varð af helsingjanum á milli þess sem hann kom við á vorin og síðan aftur á haustin. Þá varð til sú þjóðsaga að helsinginn dveldi þess á milli í sjónum. Hrúðurkarlategund, sem ber heitið helsingjanef (Lepas anatifera), ber þjóðtrúnni vitni. Helsingjanef er frábrugðið fjörukörlum, hinum hefðbundnu hrúðurkörlum. Ólíkt þeim festa þau sig við undirlagið með nokkurs konar stilki. Skelin er einnig nokkuð frábrugðin en hún minnir á fuglsgogg. Algengast er að helsingjanef komi sér fyrir á talsverðu dýpi, en það þekkist þó að þau festi sig á einhverju rekaldi og geta þá borist með því langar leiðir og upp í fjöru.

Helsingjanef á netakúlu. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Helsingjanef á netakúlu. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.

Margæs

Margæs

Margæs(Branta bernicla) Margæs telst til andfuglaættbálksins ásamt svönum og öndum og tilheyra þessir fuglar allir sömu ættinni, andaætt. Gæsum sem telja má íslenskar er oft skipt í tvo hópa, gráar gæsir og svartar. Karlfuglinn er ávallt stærri en kvenfuglinn hjá...
Heiðagæs

Heiðagæs

Heiðagæs (Anser brachyrhynchus)

Heiðagæsahjón að vori í Möðrudal. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Til andfugla (Anseriformes) teljast svanir, gæsir og endur, sem öll tilheyra sömu ættinni, andaætt (Anatidae). Íslensku gæsirnar eru fimm, þar af eru tvær eingöngu fargestir, margæs og blesgæs; tvær eru reglulegir varpfuglar, heiðagæs og grágæs; þriðji fargesturinn er jafnframt nýr varpfugl (helsingi). Nákvæmlega er fylgst með stofnstærðum gæsa og álftar á vetrarstöðvum þeirra á Bretlandseyjum og hérlendis, eftir því sem við á.

Álftir, gæsir og gásendur parast til langframa. Kvenfuglinn ungar út eggjunum, karlinn stendur vakt og hjónin sjá saman um að ala önn fyrir ungunum. Hjá öndum sér kollan ein um útungun og ungauppeldi, en steggirnir safnast í hópa til að fella flugfjaðrir. Ungar andfugla eru bráðgerir. Eitt af sérkennum andfugla er að þeir fella fjaðrir síðsumars, þar á meðal flugfjaðrir og verða því ófleygir um tíma. Flugfjaðrir í vexti (líka nefndar blóðfjaðrir) eru mjög blóðríkar og blæðir úr þeim ef fuglarnir verða fyrir einhverju hnjaski. Því er talað um að fuglarnir séu í sárum eða særist á þessum tíma. Fullorðnu fuglarnir verða oft fleygir að nýju um svipað leyti og ungarnir verða fleygir.

Heiðagæsir í sárum í Þjórsárverum. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Heiðagæsahjón á hreiðri í Þúfuveri, einu Þjórsárvera.

Heiðagæsahreiður í Þúfuveri. Arnarfell og Arnarfellsjökull fjær. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Heiðagæsahjón með unga í Herðubreiðarlindum.

Heiðagæsahjón með ungahóp við Héraðsvötn. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Útlit og atferli

Heiðagæs er einn af einkennisfuglum miðhálendisins. Hún er nokkru minni en grágæs og hálsinn hlutfallslega styttri. Höfuð og háls eru kaffibrún og skera sig frá blágráum búknum. Hún er ljósari, með fölbleikum blæ á neðanverðum hálsi og bringu, niður á kvið. Undirstél og undirgumpur eru hvít, síður dökkflikróttar. Framvængur er blágrár, dekkri en á grágæs. Fullorðinn fugl og ungfugl eru svipaðir, ungfugl þó dekkri. Gassinn, karlinn, er sjónarmun stærri en gæsin. Goggur er stuttur með breytilegu svörtu og bleiku mynstri. Fætur eru bleikir og augu brún. Gefur frá sér hvellt, gaggandi skvaldurhljóð, gassinn er skrækari en gæsin.

Heiðagæs er félagslynd á öllum tímum árs. Hún flýgur með hröðum vængjatökum og í þéttum hópum, byltir sér meira og er léttari á flugi en grágæs. Lítið höfuð og stuttur háls eru einkennandi á flugi.

Lífshættir

Heiðagæsin er grasbítur eins og aðrar gæsir, sækir nokkuð í ræktarland á vorin, en bítur annars einkum mýragróður: starir, svo sem hálmgresi og fífu, einnig elftingar og kornsúru. Síðsumars leggst hún í berjamó og kornsúrurætur.

Varpstöðvarnar eru í votlendum hálendisvinjum, meðfram ám og lækjum, oft í gljúfrum. Heiðagæs gerir sér hreiður á þúfnakolli eða annarri mishæð, eða á klettasyllu, og klæðir að innan með stráum og dúni. Sami hreiðurstaður er oft notaður ár eftir ár. Urptin er 4-5 egg, álegan um fjórar vikur og ungarnir verða fleygir á um átta vikum.

Hluti gæsanna hefur viðdvöl á láglendi á fartíma, aðallega á vorin og þá oftast í ræktuðu landi. Ef snjóalög leyfa, flýgur stór hluti þó rakleitt inn á hálendið á vorin og tekur sig þaðan upp á haustin.

Útbreiðsla og stofnstærð

Heiðagæs er farfugl. Aðalvarpstöðvarnar eru á hálendinu en heiðagæs hefur verið að breiðast út niður með helstu stórám og víðar og verpur nú sum staðar á láglendi, allt niður undir sjávarmál. Henni hefur fækkað í Þjórsárverum, sem voru lengi stærsta heiðagæsavarp í heimi og hafa gæsirnar flutt sig norður fyrir Hofsjökul, í Guðlaugstungur. Þar er nú langstærsta heiðagæsavarp í heimi, rúmlega 23.000 pör. Stærstu fjaðrafellistöðvarnar eru á Eyjabökkum, við norðaustanverðan Vatnajökul.

Vetrarstöðvar heiðagæsar eru í Skotlandi og Norður-Englandi. Meirihluti íslenskra geldfugla fer til Grænlands í lok júní til að fella flugfjaðrir og grænlenskir varpfuglar fara um Ísland vor og haust. Íslensk-grænlenski stofninn hefur stækkað mjög á undanförnum áratugum, úr 23.000 fuglum árið 1952 í 390.000 fugla haustið 2014. Annar stofn er á Svalbarða.

Það má merkja loftslagsbreytingar á komutíma heiðagæsa, þær koma nú þremur vikum fyrr en fyrir 25-30 árum. Það stafar samt líklega meira af breyttum aðstæðum á vetrarstöðvum, heldur en hér á landi.

Heiðagæsahjón á Vopnafjarðarheiði í vorhreti. Gæsirnar þurfa stundum að bíða eftir að hláni og vorið komi af alvöru, áður en þær geta hafið varp. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Sagan

Í Þjórsárverum má víða finna gæsaréttir á hæðum og öldum, sem eru taldar vera frá 17. öld eða eldri. Þá var gæsunum smalað ófleygum, eða meðan þær voru í sárum og áður en ungarnir urðu fleygir, í réttir og þær drepnar. Á þessum tíma leita gæsirnar uppá miðshæðir, verði þær fyrir styggð og hafa vísindamenn notfært sér þessa hegðun gæsanna til að fanga þær til merkinga á undanförnum árum. Gísli Oddsson Skálholtsbiskup (1593-1638) lýsir þessum veiðum í riti sínu Undur Íslands, en elstu heimildir eru sennilega úr Hrafnkelssögu Freysgoða.

Eftir að gæsaveiðunum var hætt, er eins og vitneskjan um gæsirnar týnist og þær hverfa af sjónarsviðinu í um 250 ár. Það er fyrst árið1929 sem heiðagæsir finnast á hreiðrum í Krossárgljúfri innaf Bárðardal og varpið í Þjórsárverum er ekki kannað fyrr en 1951, í frægum leiðangri sem Peter Scott og James Fisher rituðu um í bókinni A Thousand Geese. Bókin er tileinkuð Finni Guðmundssyni, fuglafræðingi, sem var einn leiðangursmanna.

Heiðagæsahópur að vorlagi í Lóni. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Þjóðtrúin

Það eru því lítið um heiðagæsina í íslenskri þjóðtrú, helst eitthvað sem tengt er gæsum almennt, eins og að þær viti óveður í rassinn á sér og hvæs gæsa sé skaðlegt og jafnvel banvænt.

Kveðskapur

Morgunn

Tvær heiðagæsir út í frelsið fljúga,
— í fjöðrum þeirra súgur vorsins dynur,
og önnur segir: Sjáðu, kæri vinur!
Við silfurtæran læk er mosahrúga.

Þar fjórir ungar blunda og brosa í draumi.
Ó, börnin okkar! gæsahjónin kvaka
og skreppa burt og skunda svo til baka,
og skuggar þeirra kvika á möl og straumi.

Og nakin fjöllin ljóma á ýmsar lundir
og lauga sig í tærri vestankælu.
Og gæsamamma gargar hátt af sælu
og gæsapabbi tekur hrifinn undir.

Nú setjast þau við hreiðrið hjá þeim fjórum
og horfa þarna í morgunfriðnum bláa
á dúnhnoðra, veika og vængjasmáa,
— loks vakna þeir og depla augum stórum.

Og sólin vakir öræfunum yfir
og áfram rennur glaðvær lækjarsprænan.
Og ástin litar mosann gráa grænan
og gefur tóninn öllu því, sem lifir.

Eftir Jóhannes úr Kötlum.

Ljósmyndir og texti eru Jóhanns Óla Hilmarssonar. 

Tildra

Tildra

Tildra (Arenaria interpres)

Tildra í Eyrarbakkafjöru. Karlfugl í sumarskrúða. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Tildra er vaðfugl, en vaðfuglar tilheyra allir sama ættbálki, strandfuglum (Charadriiformes), ásamt máfum og svartfuglum. Þeir eru dýraætur, sem éta alls konar hryggleysingja. Kynjamunur er lítill hjá vaðfuglum, karlfuglinn er þó oft aðeins skærlitari og ívið minni en kvenfuglinn.

Tildra í Eyrarbakkafjöru. Kvenfugl í sumarskrúða. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Tildra í Eyrarbakkafjöru. Karlfugl í sumarskrúða. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Útlit og atferli

Tildran er fremur lítill, sterkbyggður fjörufugl, skrautlegur og kvikur. Í sumarfiðri er tildra rauðbrún að ofan, með svartar rákir á höfði og bringu og hvít að neðan. Höfuðið er hvítt og kollurinn rákóttur. Á veturna er hún öll grárri og litdaufari og það sama gildir um ungfugla, sem virðast hreistraðir á baki. Hvít bak- og vængbelti eru áberandi á flugi. Kynjamunur er sýnilegur á varptíma, karlfuglinn er með ljósari koll, skærlitari á baki og svörtu rákirnar skýrt afmarkaðri en á kvenfugli.

Goggur er svartur, stuttur og oddhvass. Fætur eru gulrauðir og stuttir, augun dökk.

Tildran dregur nafn sitt á mörgum tungumálum af því háttalagi að velta við steinum og þangi í fjörunni í leit að æti. Enska heitið er turnstone og danska heitið stenvender. Hún er félagslynd, en er sjaldan í stærri hópum en frá nokkrum tugum fugla upp í fáein hundruð.

Gefur frá sér hvellt og klingjandi skvaldur, sem minnir á bjölluhljóm.

Ung tildra síðsumars.

Tildra í vetrarfiðri.

Lífshættir

Tildran veltir við steinum og rótar í þangi í fjörunni, þykkur og sterklegur goggurinn hentar vel til slíks. Hún tínir skordýr, t.d. þangflugulirfur, auk þess smá krabbadýr og lindýr eins og kræklinga og sæsnigla. Stundum sækir hún í brauð þar sem fuglum er gefið. Erlendis þekkist að tildrur leggist á hræ.

Tildran heldur sig helst í klettafjörum og á opnum ströndum með miklum þanghrönnum, einnig á leirum. Á vorin sést hún oft inn til landsins, bæði á túnum og við vötn og tjarnir og er þá að tína mý, sem er að klekjast.

Varp tildru hefur aldrei verið staðfest hér á landi. Það vekur nokkra furðu, því hún verpur bæði vestan og austanmegin við okkur og dvelur hér allt árið. Tildrur með varpatferli hafa stundum sést hér á vorin og höfundur þessa pistils sá eitt sinn nýfleyga tildruunga í Kringilsárrana síðsumars. Engin sönnun er þó fyrir varpi enn sem komið er. Hún verpur annars bæði með ströndum fram og á túndrum.

Tildra rótar í þanghrönn. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Tildrur í Eyrarbakkafjöru ybba gogg yfir æti.

Tildra, karlfugl, flýgur upp undan öldunni við Eyrarbakka.

Útbreiðsla og stofnstærð

Tildra er fargestur eða umferðarfarfugl hér á landi. Varpfuglar á Grænlandi og NA-Kanada hafa hér viðdvöl vor og haust á leið sinni milli varpstöðvanna og vetrarstöðva í V-Evrópu suður til V-Afríku. Talið er að þessi stofn telji rúmlega 100.000 fugla, jafnvel hátt í 200.000, en stofninn er í vexti.

Tildrur sjást um allt land, stærstu hóparnir við Faxaflóa og Breiðafjörð, á Vestfjörðum, við Skjálfanda og á Sléttu. Um 1000‒2000 tildrur dvelja allan veturinn í fjörum SV-lands og slæðingur af geldfugli er hér allt sumarið. Varpútbreiðsla tildru er með ströndum allra Norðurlandanna nema Íslands og Færeyja, svo og meðfram Norður-Íshafinu allt í kringum heimskautið.

Tildrur í flóðsetri við Eyrarbakka að vorlagi, ásamt nokkrum öðrum fargestum úr hópi vaðfugla, á leið til varpstöðvanna norðan og vestan við okkur: stakur rauðbrystingur, fjórar sanderlur og tíu lóuþrælar. Lóuþrællinn er reyndar bæði fargestur og íslenskur varpfugl.

Tildra í sumarskrúða.

Þjóðtrú og sagnir

Það er lítið að finna um tildru í íslenskri þjóðtrú, en væntanlega hefur svipuð trú fylgt henni og mörgum öðrum umferðarfuglum og farfuglum, áður en fólk gerði sér grein fyrir eðli farflugsins. Allt í einu skjóta upp kollinum stórir hópar af tildrum, sem hverfa svo jafnaharðan eftir fáeinar vikur. Hvaðan komu fuglarnir og hvað verður um þá? Lögðust þeir í dvala? Dveljast þeir í sjónum og verða að hrúðurkörlum? Slíkt var hald manna áður fyrr um helsingja ‒ að þeir tækju á sig mynd hrúðurkarlstegundarinnar helsingjanefs (Lepas anatifera), milli þess sem þeir sáust hér vor og haust.

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.

Grágæs

Grágæs

Grágæs (Anser anser)

Grágæsin etur mýragróður stuttu fyrir varp. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Svanir, gæsir og endur heyra til andfuglum (Anseriformes), teljast reyndar til sömu ættarinnar, andaættar (Anatidae). Álftin er eini svanurinn sem verpur hér á landi. Gæsirnar eru fimm, þar af eru tvær eingöngu fargestir (blesgæs og margæs) og tvær reglulegir varpfuglar (grágæs og heiðagæs), þriðji fargesturinn, helsingi, er jafnframt nýr varpfugl.

Útlit og atferli

Grágæs er stærst þeirra gæsa sem verpa eða hafa viðdvöl á Íslandi. Hún er ljósari, þéttvaxnari og höfuðstærri en aðrar gæsir. Kynin eru eins að lit en gassinn er sjónarmun stærri. Grágæs er öll grábrún, dökk að ofan og á hálsi, ljós að neðan nema síðurnar eru dökkar, hún er stundum með dökka flekki á bringu og kviði. Grágæs er eins og aðrar gráar gæsir með hvítan undirgump, undirstél- og yfirstélþökur. Ljósgráir framvængir og gumpur eru áberandi á flugi. Fullorðinn fugl og ungfugl eru svipaðir, í návígi sést að sá fullorðni er með ljósa fjaðrajaðra á þverstýfðum vængþökum en vængþökur eru dekkri og yddari á ungfugli. Goggur er stór og rauðgulur, dökk nögl á goggi ungfugls en ljós á fullorðnum, fætur grábleikir. Augu eru dökk með gulrauðan augnhring. Hljóð grágæsar eru breytileg, aðallega hátt og nefkveðið skvaldurhljóð.

Grágæsapar í Friðlandi í Flóa. Gassinn til vinstri. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Grágæsir halda sig oftast í hópum nema pör á varptíma. Á flugi raða einstaklingarnir sér upp í v-laga reinar, fljúga oddaflug og skiptast á um að hafa forystu. Flugið er beint og kraftmikið. Þær eru mest á ferli í dögun og rökkurbyrjun. Pörin halda saman árið um kring og annast uppeldi unga í sameiningu, gæsin ungar út meðan gassinn er á verði. Geldfuglar hópa sig nærri varpstöðvum.

Grágæsir í oddaflugi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Lífshættir

Grágæs er grasbítur og er fæðan ýmiss grænn gróður, starir og grös yfir sumarið og síðsumars og á haustin taka þær m.a. ber. Etur forðarætur kornsúru á vorin, rífur upp gras til að ná í græna plöntuhluta og sækir í  korn frá fyrra hausti.

Hún verpur aðallega neðan 300 m hæðarlínu, í mýrum, hólmum og grónum eyjum, á ár- og vatnsbökkum eða í kjarri og lyngmóum, oft í dreifðum byggðum, alltaf í nánd við vatn þar sem gæsirnar geta leitað athvarfs með ófleyga unga og þegar þær eru í sárum. Hreiðrið er dæld í gróður, fóðrað með dúni, oft falið í runna eða sinubrúski. Urptin er 4-7 egg sem klekjast á fjórum vikum og eru ungarnir um tvo mánuði að verða fleygir.

Grágæsapar stuttu fyrir varp. Gassinn t.v. Gæsin safnar kviðfitu sem orku fyrir varpið, en hún etur lítið meðan á varpi og álegu stendur. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Grágæsarhreiður með sjö eggjum. Einn ungi er byrjaður að brjóta á einu egginu. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Grágæs með unga í friðlandinu í Vatnsmýri, Reykjavík. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Grágæsahjón með unga. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Eitt af sérkennum andfugla er að þeir fella fjaðrir síðsumars, þar á meðal flugfjaðrir og verða því ófleygir um tíma. Flugfjaðrir í vexti (líka nefndar blóðfjaðrir) eru mjög blóðríkar og blæðir úr þeim ef fuglarnir verða fyrir einhverju hnjaski. Því er talað um að fuglarnir séu í sárum eða særist á þessum tíma. Fullorðnu fuglarnir verða oft fleygir að nýju um svipað leyti og ungarnir verða fleygir.

Grágæsir eru utan varptíma gjarnan í ræktuðu landi, t.d. túnum, ökrum og kartöflugörðum (etur smælki sem orðið hefur eftir), en einnig í votlendi. Náttar sig á tjörnum, vötnum og stórám.

Útbreiðsla og ferðir

Grágæs og heiðagæs skipta með sér landinu. Heiðagæsin er á hálendi og grágæs á láglendi, þótt heiðagæsin hafi á síðari árum seilst nokkuð inn á yfirráðasvæði grágæsarinnar og verpa þær nú alveg niður undir sjávarmál.

Grágæs hefur vetursetu á Bretlandseyjum, aðallega í Skotlandi, en minna á N-Írlandi og N-Englandi. Íslenskir fuglar hafa fundist á meginlandinu, bæði í Noregi og Hollandi. Á síðustu árum hefur veturseta aukist mjög hérlendis, einkum á Suðurlandi og tengist væntanlega aukinni kornrækt og hlýnandi veðráttu. Staðfuglarnir geta skipt þúsundum (7100 fundust í vetrartalningum Náttúrufræðistofnunnar snemma í janúar 2017). Fram til þessa voru nokkur hundruð fuglar viðloðandi Reykjavíkurtjörn á veturna, þeir fuglar sáust víða á Innnesjum og Suðurnesjum. Farfuglarnir koma snemma. Meðalkomutími fyrstu fugla 2002-2012 var 14. mars. Þær fara líka seint, í október-nóvember.

Varpheimkynnin eru víða í N- og Mið-Evrópu og austur um Asíu. Íslenski varpstofninn er á milli 20.000 og 30.000 pör. Fuglarnir eru taldir á haustin á vetrarstöðvunum og var hann 95.400 fuglar haustið 2015. Hann hefur verið nokkuð stöðugur undanfarin hálfan annan áratug, sveiflast á bilinu 80.000-110.000 fuglar. Grágæs hefur löngum verið nýtt hér á landi, egg, fugl sem og dúnn.

Grágæsahópur á flugi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Grágæsahópur undir Eyjafjöllum að hausti. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Þjóðtrú og fleira

Ekki er mikið um grágæs í íslenskri þjóðtrú. Þær eiga þó að vita óveður í rassinn á sér. Hvæs þeirra á vera skaðlegt, þeim sem fyrir verður.

Elstu lög þjóðveldisaldar voru kennd við grágæs, lagaskráin og lögskýringarritið Grágás. Hún var undanfari Járnsíðu og síðan Jónsbókar.

Ljáðu mér vængi

„Grágæsa móðir!
ljáðu mér vængi“,
svo ég geti svifið
suður yfir höf.
Bliknuð hallast blóm í gröf,
byrgja ljósið skugga tröf;
ein ég hlýt að eiga töf
eftir á köldum ströndum,
ein ég stend á auðum sumarströndum.
Langt í burt ég líða vil,
ljá mér samfylgd þína!
Enga vængi á ég til
utan löngun mína,
utan þrá og æskulöngun mína.
Lof mér við þitt létta fley
lítið far að binda;
brimhvít höf ég óttast ei
eða stóra vinda.
Okkar bíður blómleg ey
bak við sund og tinda,
bak við sæ og silfurhvíta tinda.
Eftir mér hún ekki beið, –
yst við drangann háa
sá ég hvar hún leið og leið
langt í geiminn bláa,
langt í geiminn vegalausa, bláa.

Eftir Huldu (Unni Benediktsdóttur Bjarklind).

Flýg ég heim í föðurtún

Gæsin, gæsin gráa,
gef mér vænginn fráa,
beint í loftið bláa.
Flýg eg heim í föðurtún,
finn þar allt í blóma,
og svanasöng óma.
Þar spretta laukar,
þar gala gaukar.
Þar situr lítið barn,
lítil snót, hún leikur að gullepli.

Eftir Margréti Jónsdóttur.

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.