Tildra (Arenaria interpres)

Tildra í Eyrarbakkafjöru. Karlfugl í sumarskrúða. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Tildra er vaðfugl, en vaðfuglar tilheyra allir sama ættbálki, strandfuglum (Charadriiformes), ásamt máfum og svartfuglum. Þeir eru dýraætur, sem éta alls konar hryggleysingja. Kynjamunur er lítill hjá vaðfuglum, karlfuglinn er þó oft aðeins skærlitari og ívið minni en kvenfuglinn.

Tildra í Eyrarbakkafjöru. Kvenfugl í sumarskrúða. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Tildra í Eyrarbakkafjöru. Karlfugl í sumarskrúða. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Útlit og atferli

Tildran er fremur lítill, sterkbyggður fjörufugl, skrautlegur og kvikur. Í sumarfiðri er tildra rauðbrún að ofan, með svartar rákir á höfði og bringu og hvít að neðan. Höfuðið er hvítt og kollurinn rákóttur. Á veturna er hún öll grárri og litdaufari og það sama gildir um ungfugla, sem virðast hreistraðir á baki. Hvít bak- og vængbelti eru áberandi á flugi. Kynjamunur er sýnilegur á varptíma, karlfuglinn er með ljósari koll, skærlitari á baki og svörtu rákirnar skýrt afmarkaðri en á kvenfugli.

Goggur er svartur, stuttur og oddhvass. Fætur eru gulrauðir og stuttir, augun dökk.

Tildran dregur nafn sitt á mörgum tungumálum af því háttalagi að velta við steinum og þangi í fjörunni í leit að æti. Enska heitið er turnstone og danska heitið stenvender. Hún er félagslynd, en er sjaldan í stærri hópum en frá nokkrum tugum fugla upp í fáein hundruð.

Gefur frá sér hvellt og klingjandi skvaldur, sem minnir á bjölluhljóm.

Ung tildra síðsumars.

Tildra í vetrarfiðri.

Lífshættir

Tildran veltir við steinum og rótar í þangi í fjörunni, þykkur og sterklegur goggurinn hentar vel til slíks. Hún tínir skordýr, t.d. þangflugulirfur, auk þess smá krabbadýr og lindýr eins og kræklinga og sæsnigla. Stundum sækir hún í brauð þar sem fuglum er gefið. Erlendis þekkist að tildrur leggist á hræ.

Tildran heldur sig helst í klettafjörum og á opnum ströndum með miklum þanghrönnum, einnig á leirum. Á vorin sést hún oft inn til landsins, bæði á túnum og við vötn og tjarnir og er þá að tína mý, sem er að klekjast.

Varp tildru hefur aldrei verið staðfest hér á landi. Það vekur nokkra furðu, því hún verpur bæði vestan og austanmegin við okkur og dvelur hér allt árið. Tildrur með varpatferli hafa stundum sést hér á vorin og höfundur þessa pistils sá eitt sinn nýfleyga tildruunga í Kringilsárrana síðsumars. Engin sönnun er þó fyrir varpi enn sem komið er. Hún verpur annars bæði með ströndum fram og á túndrum.

Tildra rótar í þanghrönn. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Tildrur í Eyrarbakkafjöru ybba gogg yfir æti.

Tildra, karlfugl, flýgur upp undan öldunni við Eyrarbakka.

Útbreiðsla og stofnstærð

Tildra er fargestur eða umferðarfarfugl hér á landi. Varpfuglar á Grænlandi og NA-Kanada hafa hér viðdvöl vor og haust á leið sinni milli varpstöðvanna og vetrarstöðva í V-Evrópu suður til V-Afríku. Talið er að þessi stofn telji rúmlega 100.000 fugla, jafnvel hátt í 200.000, en stofninn er í vexti.

Tildrur sjást um allt land, stærstu hóparnir við Faxaflóa og Breiðafjörð, á Vestfjörðum, við Skjálfanda og á Sléttu. Um 1000‒2000 tildrur dvelja allan veturinn í fjörum SV-lands og slæðingur af geldfugli er hér allt sumarið. Varpútbreiðsla tildru er með ströndum allra Norðurlandanna nema Íslands og Færeyja, svo og meðfram Norður-Íshafinu allt í kringum heimskautið.

Tildrur í flóðsetri við Eyrarbakka að vorlagi, ásamt nokkrum öðrum fargestum úr hópi vaðfugla, á leið til varpstöðvanna norðan og vestan við okkur: stakur rauðbrystingur, fjórar sanderlur og tíu lóuþrælar. Lóuþrællinn er reyndar bæði fargestur og íslenskur varpfugl.

Tildra í sumarskrúða.

Þjóðtrú og sagnir

Það er lítið að finna um tildru í íslenskri þjóðtrú, en væntanlega hefur svipuð trú fylgt henni og mörgum öðrum umferðarfuglum og farfuglum, áður en fólk gerði sér grein fyrir eðli farflugsins. Allt í einu skjóta upp kollinum stórir hópar af tildrum, sem hverfa svo jafnaharðan eftir fáeinar vikur. Hvaðan komu fuglarnir og hvað verður um þá? Lögðust þeir í dvala? Dveljast þeir í sjónum og verða að hrúðurkörlum? Slíkt var hald manna áður fyrr um helsingja ‒ að þeir tækju á sig mynd hrúðurkarlstegundarinnar helsingjanefs (Lepas anatifera), milli þess sem þeir sáust hér vor og haust.

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.