Forystufé í nýjum Náttúrufræðingi

85 3-4 forsíða smallÚt er komið nýtt hefti Náttúrufræðingsins, 3.–4. hefti 85. árgangs, með fjölbreyttar og spennandi greinar um rannsóknir á íslenskri náttúru.

Forsíðugreinin er að þessu sinni forvitnileg yfirlitsgrein sex sérfræðinga um Forystufé á Íslandi – þar sem fræðast má um fjölda og dreifingu fjárins um landið, erfðir og sérstaka eiginleika þessa fjár sem höfundar leggja til að verði skilgreint sem sérstakt búfjárkyn. Í inngangi greinarinnar segir að forystufé sé þekkt hér á landi allt frá upphafi byggðar og að eiginleikar þess séu einstakir á heimsvísu. Raktar eru heimildir um um féð sem litið er á sem sérstakan stofn innan íslenska stofnsins. Höfundar eru Jón Viðar Jónmundsson, Lárus G. Birgisson, Sigríður Jóhannesdóttir, Emma Eyþórsdóttir, Þorvaldur Kristjánsson og Ólafur R. Dýrmundsson.

Loftslagamálin eru í brennidepli eftir árangursríkan Parísarfund. Halldór Björnsson, veður- og haffræðingur á Veðurstofu Íslands fjallar um aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í leiðara sem nefnist Leiðin til Parísar.

Af öðru efni má nefna yfirlitsgrein Harðar Kristinssonar um Útbreiðslumynstur og aldur íslensku flórunnar, stúdíu Árna Hjartarsonar á heimildum um Skriðuna miklu við Öfugskeldu 1748, yfirlitsgrein Gunnars Steins Jónssonar um rannsóknir á teimur tegundum Kísilþörunga í Þingallavatni og rannsókn Jóns Einars Jónssonar, Þórðar Ö. Kristjánssonar, Árna Ásgeirssonar og Tómasar G. Gunnarssonar á Breytingum á fjölda æðarhreiðra á Íslandi frá því fyrir allt að hundrað árum síðan.

Þá er í heftinu ritdómur um bók Guðmundar Eggertssonar, Ráðgáta lífsins, frásögn af ref sem lék á himbrima vestur við Breiðafjörð, umfjöllun um mosaskorpu, nýútgefið veggspjald með flóru Íslands, nýstofnað félag Perluvina ehf. og ráðstefnu um vernd jarðminja sem haldin var í Reykjavík í haust.

Þetta er 3.-4. hefti 85. árgangs Náttúrufræðingsins sem hóf göngu sína 1931 og er félagsrit Hins íslenska náttúrufræðifélags og tímarit Náttúruminjasafns Íslands. Heftið er 76 bls. að stærð. Ritstjóri er Álfheiður Ingadóttir, líffræðingur og formaður ritstjórnar er Droplaug Ólafsdóttir, dýrafræðingur. Að jafnaði eru gefin út 4 hefti á ári. Áskrift sem jafnframt er árgjald í Hinu íslenska náttúrufræðifélagi er 5.800,- kr, námsmannagjald kr. 4.000,- og hjónaáskrift kr. 6.500,-. Náttúrufræðingurinn fæst í lausasölu í verslunum Pennans og Eymundson. Áskriftarsíminn er 5771802 eða hjá hin@hin.is.

Hér má nálgast efnisyfirlitið.