Kaupmannahöfn 1887
Þann 7. maí árið 1887 var að frumkvæði Björns Bjarnarsonar (1853-1918), lögmanns og síðar sýslumanns í Dalalsýslu og alþingismanns, stofnað Íslenzkt náttúrufræðisfélag á Café Electrik í Kaupmannahöfn. Þess má geta að Björn var einnig frumkvöðull að stofnun Listasafns Íslands í Kaupmannahöfn í október 1884. Stefán Stefánsson (1863-1921), grasafræðingur og síðar skólameistari á Akureyri, átti einnig drjúgan þátt í stofnun náttúrufræðisfélagsins. Til félagsins var stofnað til að koma upp náttúrugripasafni á Íslandi og hljóðaði önnur lagagrein félagsins er svo: „Aðaltilgangur fjelagsins er sá, að koma upp sem fullkomnustu náttúrugripasafni á Íslandi, er sje geymt í Reykjavík.“
Björn og Stefán fluttu heim til Íslands sama ár og félagið var stofnað, en við það lognaðist félagið í Kaupmannahöfn út af. Gripirnir sem safnað hafði verið voru í kjölfarið sendir heim til Íslands.
Reykjavík 1889
Tveimur árum eftir stofnun Kaupmannahafnarfélagsins, þ.e. 16. júlí 1889, var Hið íslenska náttúrufræðifélag stofnað í Reykjavík að frumkvæði Stefáns Stefánssonar grasafræðings, Benedikts Gröndals skálds og náttúrufræðings, Þorvaldar Thoroddsens jarðfræðings, Björns Jenssonar yfirkennara og Jónasar Jónassonar landlæknis. Gripir Kaupmannahafnarfélagsins voru hafðir til sýnis á stofnfundinum. Í lögum félagsins kemur fram að markmið með stofnun þess er „að koma upp sem fullkomnustu náttúrugripasafni á Íslandi, sem sé eign landsins og geymt í Reykjavík“.
Hið íslenska náttúrufræðifélag rak sýningasafn á ýmsum stöðum í Reykjavík allt fram til 1947 er safnið var gefið íslenska ríkinu. Félagið er vel virkt og eitt helsta baráttumál þess, að koma upp sýninghaldi sem hæfir höfuðsafni á sviða náttúrufræða, er enn við líði.