Nýir og bjartir tímar framundan 

–  hugleiðing forstöðumanns á jólaföstu 2016

jolakvedja-2016Þá hefur árið 2016 senn runnið sitt skeið á enda með kostum sínum og göllum, sigrum og ósigrum, gleði, harmi og hamingju – eins og gengur. Ekki verður annað sagt en að rofað hafi til í málefnum safnsins nú á allra síðustu vikum og að nokkuð bjart sé framundan, a.m.k. í ljósi hartnær 130 sögu safnsins og forvera þess. 

Hér er annars vegar átt við þingsályktunina vegna 100 ára fullveldisafmælis íslenska ríkisins árið 2018, sem Alþingi samþykkti skömmu fyrir þingkosningarnar í október, og hins vegar fjárlagafrumvarp ársins 2017 sem lagt var fram í byrjun desember. Í báðum tilvikum felast býsna merk tíðindi fyrir Náttúruminjasafnið.

Í fyrra tilvikinu, þingsályktuninni sem samþykkt var í október, er að finna málsgrein um Náttúruminjasafnið þar sem segir að Alþingi skuli „fela ríkisstjórninni að sjá til þess að í fjármálaáætlun til næstu fimm ára, sem lögð verður fyrir Alþingi vorið 2017, verði gert ráð fyrir uppbyggingu Náttúruminjasafns.“ Þetta er í fyrsta skipti síðan safnið var sett á laggirnar sem fyrir liggur staðfestur, þverpólitískur vilji Alþingis til að gera vel við höfuðsafn þjóðarinnar í náttúrufræðum. Að ályktuninni stóðu forsvarsmenn allra fimm flokkanna sem sæti áttu á síðasta Alþingi og var ályktunin samþykkt með 56 atkvæðum mótatkvæðalaust en sjö þingmenn voru fjarverandi. Afar ánægjuleg niðurstaða og þótt fyrr hefði verið! Gangi allt eðlilega eftir á Alþingi næsta vor verður Náttúruminjasafni Íslands loksins gert kleift að byggja starfsemi sína upp til frambúðar og rækja mikilvægt fræðslu- og menntunarhlutverk sitt með sóma og virðingu í samræmi við lög. Oft var þörf en nú er nauðsyn.

Hin ánægjulegu tíðindin eru að samkvæmt nýsamþykktu fjárlagafrumvarpi hækkar fjárheimild safnsins árið 2017 um nær 50% miðað við fyrri ár, fer úr um 25 m.kr. á ári eins og verið hefur að jafnaði sl. tíu ár og verður tæpar 39 m.kr. Þetta er að vísu ekki há upphæð miðað við fjárveitingar til hinna höfuðsafnanna tveggja, Listasafns Íslands og Þjóðminjasafns Íslands, sem fá á næsta ári 10-20 sinnum meira fé en Náttúruminjasafnið. En mjór er mikils vísir og með tilvísun í áðurnefnda þingsályktun er viðbúið að í fimm ára ríkisfjármálaáætluninni fyrir árabilið 2018-2022 verði staða Náttúruminjasafnsins allt önnur.

Við Eldborg á Mýrum í júníbyrjun 2016: Sigrún Helgadóttir, Álfheiður Ingadóttir, Hilmar J. Malmquist, Þorleifur Eiríksson, Stefán Óli Steingrímsson, Skúli Skúlason og Viðar Hreinsson. Þessi hópur ásamt Sigmundi Einarssyni hefur vinnuaðstöðu í Loftskeytastöðinni.

Við Eldborg á Mýrum í júníbyrjun 2016: Sigrún Helgadóttir, Álfheiður Ingadóttir, Hilmar J. Malmquist, Þorleifur Eiríksson, Stefán Óli Steingrímsson, Skúli Skúlason og Viðar Hreinsson. Þessi hópur ásamt Sigmundi Einarssyni hefur vinnuaðstöðu í Loftskeytastöðinni.

Það er ekki einasta að bjart sé framundan hjá Náttúruminjasafninu heldur gekk starfsemi safnsins og samstarfsmanna þess á líðandi ári mjög vel. Margs er að minnast en hæst stendur útgáfan með Lesstofunni á stórvirki Viðars Hreinssonar um Jón lærða og náttúrur náttúrunnar sem kom út í nóvember og tilnefnd hefur verið til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Viðar gekk til liðs við Náttúruminjasafnið fyrir tæpum tveimur árum síðan og veitir safnið honum starfsaðstöðu og eilítinn fjárstuðning. Mikill fengur er af samstarfinu við Viðar og ljóst nú þegar að framhald verður á því. Það verkefni mun byggjast m.a. á afar áhugaverðum niðurstöðum í rannsókn Viðars á Jóni lærða og varða uppgötvun hans á áður óþekktum myndverkum hans.

Af öðrum merkisviðburðum í starfsemi safnsins árið 2016 skal getið samstarfsins við Ólöfu Nordal myndlistarkonu og sérsýningarinnar með henni, Geirfugl (Pinguinus impennis) – aldauði tegundar – síðustu sýnin, sem opnuð var við hátíðlegt tækifæri 16. júní á stofndegi Hins íslenska náttúrufræðifélags í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Sérsýningin þykir einkar sterk og vönduð og hefur hlotið afar góðar viðtökur. Sýningin stendur í ár og er hluti af grunnsýningunni Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim, sem Náttúruminjasafnið stendur að ásamt Árnastofnun, Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni, Listasafni Íslands, Þjóðminjasafni Íslands og Þjóðskjalasafninu. Sjónarhornssýningin var opnuð 18. apríl 2015 og stendur yfir í fimm ár.

Til merkisviðburða í starfsemi á árinu ber einnig að nefna útgáfu á fyrstu tveimur skýrslum í ritröð Náttúruminjasafnsins. Annars vegar er það skýrslan Samþætt mat á fjölbreytni náttúru og menningarminjar (NMSI 2016 001, 20 bls.) og hins vegar Um áhrif virkjana á náttúru og menningarminjar (NMSI 2016 002, 42 bls.). Hér eru á ferð niðurstöður í verkefni samstarfsaðila Náttúruminjasafnsins, RORUM ehf., sem unnin voru fyrir faghóp 1 í þriðja áfanga Rammaáætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða. Höfundar að skýrslunum eru Sigmundur Einarsson jarðfræðingur og Þorleifur Eiríksson líffræðingur. Náttúruminjasafnið veitir Rorum starfsaðstöðu í Loftskeytastöðinni gegn afnotum af niðurstöðum í sameiginlegum rannsóknum á sviði safn- og náttúrufræða.

Ýmislegt fleira mætti telja upp, jafnt orðna hluti sem fyrirheit, sem gefur tilefni til að fagna og líta framtíð Náttúruminjasafns Íslands björtum augum, en hér skal látið staðar numið.

Það er vonandi að þau teikn sem nú eru á lofti um bættan hag Náttúruminjasafnsins rætist hið fyrsta, þannig að safnið fái að upplýsa og fræða þjóðina og gesti landsins um undur og eðli náttúrunnar sem allt mannlíf er háð og ganga verður um af virðingu með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi.

Ég óska samstarfsfólki Náttúruminjasafns Íslands og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og heillaríks nýs árs. Með þökk fyrir árið sem er að líða.

Hilmar J. Malmquist forstöðumaður 

Náttúruminjasafn Íslands
á kortið 2018–2022

„Stórtíðindi,“ segir forstöðumaður safnsins

Síðasta verk Alþingis fyrir kosningar var að samþykkja ályktun nr. 70/145 um aðgerðir í tilefni af aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands 2018.  Þar er m.a. gert ráð fyrir uppbyggingu Náttúruminjasafns Íslands og í greinargerð segir að mikilvægt sé að „koma á byggingu sem hýsi merkar náttúruminjar og tryggja Náttúruminjasafni með því aðstöðu til frambúðar.“

Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands

Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands

„Þetta eru stórtíðindi fyrir alla sem unna náttúru landsins, náttúrufræðikennslu og vilja hag náttúrunnar og mannfólksins sem mestan og bestan. Þetta er í fyrsta sinn sem fyrir liggur staðfestur vilji Alþingis og tilmæli til ríkisstjórnar um að gera skuli vel við þessa mikilvægu stofnun síðan hún var sett á laggirnar, en eins og kunnugt er hefur safnið barist í bökkum frá upphafi. Ég bind miklar vonir við þessa merku þingsályktun,“ segir dr. Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafnsins.

Það vakti athygli þegar fyrsta fimm ára ríkisfjármálaáætlunin var kynnt s.l. vor að þar var ekki vikið orði að Náttúruminjasafni Íslands, höfuðsafns þjóðarinnar í náttúrufræðum, en í hartnær 130 ár, síðan forveri safnsins, Hið íslenska náttúrufræðifélags var stofnað hefur verið beðið eftir viðunandi aðstöðu til sýningarhalds og fræðslu sem sæmir landi og þjóð. Um þetta var m.a. fjallað hér á vefsíðu NMSÍ. En nú er öldin önnur: Í næstu fjármálaáætlun til fimm ára, sem lögð verður fyrir Alþingi 2017 skal ríkisstjórnin skv. ákvörðun Alþingis tryggja að gert verði ráð fyrir uppbyggingu fyrir safnið, þ.e. á árunum 2018–2022.

Þau fluttu tillöguna á Alþingi sem 56 þingmenn samþykktu.

Þau fluttu tillöguna á Alþingi sem 57 þingmenn samþykktu.

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra mælti fyrir tillögunni sem hann flutti ásamt öllum formönnum flokka sem sæti eiga á Alþingi, Birgittu Jónsdóttur, Bjarna Benediktssyni, Katrínu Jakobsdóttur, Oddnýju G. Harðardóttur og Óttari Proppé, og var ályktunin samþykkt með 56 atkvæðum en sjö voru fjarstaddir.

Sem fyrr segir er það aldarafmæli fullveldisins 2018 sem er tilefni ályktunarinnar og mun Alþingi kjósa skuli nefnd til að afmælið, m.a. hátíðafund á Þingvöllum 18. júlí og önnur hátíðahöld 1. desember. Þá verður efnt til samkeppni um hönnun og útlit Stjórnarráðsbyggingar, tekið saman rit um aðdraganda sambandslaganna og inntak fullveldisréttarins, efnt til sýningar á helstu handritum Árnastofnunar, stuðlað að heildarútgáfu Íslendingasagnanna og skólar hvattir til að beina sjónum að þeim tímamótum sem urðu í íslensku samfélagi með sambandslögunum 1918.

Auk framangreinds skal ríkisstjórnin eins og fyrr segir sjá til þess að gert verði ráð fyrir uppbyggingu Náttúruminjasafns í næstu fjármálaáætlun, undirbúa uppbyggingu innviða fyrir máltækni fyrir íslenska tungu og fimm ára áætlun um það efni og loks felur Alþingi Þingvallanefnd að ljúka stefnumörkun fyrir framtíðaruppbyggingu þjóðgarðsins á Þingvöllum og efna til sýningar um sögu Þingvalla og náttúrufar.

Náttúran í íslenskum myndheimi

Sunnudaginn 25. september klukkan 14 mun Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands, ganga með gestum um sýninguna Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Í leiðsögninni verður áhersla lögð á hinn sjónræna þátt náttúru í menningu landsins og spáð einkum í þá muni á sýningunni sem eru á vegum Náttúruminjasafnsins og systurstofnunarinnar, Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Í leiðsögninni verður geirfuglinum gerð sérstök skil en í sumar var opnuð sérsýning um hann sem ber heitið Geirfugl †Pinguinus impennis. Aldauði tegundar – síðustu sýnin, og er þar á ferð samstarfsverkefni Náttúruminjasafns Íslands og Ólafar Nordal myndlistarmanns í samvinnu við Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn og Náttúrufræðistofnun Íslands.

Augun

Augu  síðustu geirfuglanna tveggja sem drepnir voru í Eldey 18944. Ljósm. Ólöf Nordal.

Geirfuglinn er

Geirfuglinn – eign íslensku þjóðarinnar, sem keyptur var fyrir söfnunarfé 1971, er til sýnis í Safnahúsinu.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Á sérsýningunni gefur m.a. að líta geirfuglinn sem þjóðin eignaðist árið 1971, uppdrátt af Geirfuglaskeri frá því um 1770, og ný verk eftir Ólöfu Nordal: ljósmyndaröð af innyflum síðustu geirfuglanna tveggja sem drepnir voru í Eldey árið 1844 og myndskeið sem sýnir fuglaveiðar fyrir um hálfri öld í Vestmannaeyjum.

Höfum við lært af fyrri mistökum?

Sérsýningunni um geirfuglinn er ætlað að vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi ábyrgrar og siðlegrar umgengni við undur og auðlindir náttúrunnar. Útrýming geirfuglsins er svartur blettur í sögu mannkyns og þar eiga Íslendingar sinn þátt. Hafa verður í huga að vitneskja og þekking á náttúru og umhverfi var takmarkaðri þá en nú. Samt sem áður eiga núlifandi ættingjar geirfuglsins, haftyrðill, stuttnefja og fleiri svartfuglar, í vök að verjast vegna veiða, búsvæðaröskunar og loftslagshlýnunar. Sú staða vekur upp spurningar um hvað við höfum lært af fyrri mistökum.

Sýningin Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim – er grunnsýning á íslenskri list og sjónrænum menningararfi, og var opnuð í Safnahúsinu 18. apríl 2015. Þetta er fyrsta sýningin sem Náttúruminjasafn Íslands tekur þátt í frá stofnun 2007 en auk Náttúruminjasafnsins standa fimm aðrar menningarstofnanir að sýningunni: Þjóðminjasafn Íslands, Listasafn Íslands, Þjóðskjalasafn, Landsbókasafn – Háskólabókasafn og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Grunnsýningin stendur yfir í fimm ártil ársins 2020. Sérsýningin um geirfuflinn var opnuð 16. júní s.l. og stendur í eitt ár. 

Leiðsögnin er ókeypis og allir eru velkomnir!

Hér má sjá efni um sýninguna í Safnahúsinu á vef Náttúruminjasafnsins.

Málþing í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur 18. september

Tengingin milli lista og raunvísinda er viðfangsefni sýningarinnar RÍKI - flóra, fána, fabúla. Ljósmynd: Listasafn Reykjavíkur.

Tengingin milli lista og raunvísinda er viðfangsefni sýningarinnar RÍKI – flóra, fána, fabúla. Uppstilling eftir Olgu Bergmann. Ljósmynd: Listasafn Reykjavíkur.

Í Hafnarhúsinu stendur nú yfir sýningin  RÍKI – flóra, fána, fabúla sem veitir áhorfendum innsýn í listsköpun ólíkra listamanna með verkum frá síðustu árum og áratugum, glænýjum verkum sem og öðrum eldri úr safneign Listasafns Reykjavíkur. Á sýningunni eru verk 50 listamanna.

Hvernig leitar samtímalist fanga í ríki náttúrunnar?

Hvernig leitar samtímalist fanga í ríki náttúrunnar?                                                                       Selurinn eftir Bryndísar Snæbjörnsdóttur og Mark Wilson.                                                       Ljósmynd: Listasafn Reykjavíkur.

Lokadagur á sunnudag – málþing og leiðsögn 

Sýningunni lýkur n.k. sunnudag, 18. september en þann dag kl. 13 standa Listasafn Reykjavíkur og Náttúruminjasafn Íslands að umræðufundií tengslum við sýninguna. Listamenn sem eiga verk á sýningunni deila hugleiðingum sínum um hlutverk og möguleika myndlistar þegar kemur að áhuga og ábyrgð mannsins á lífríki jarðar. Fulltrúar safnanna taka þátt í fundinum og velta upp spurningum um samlegð lista og raunvísinda.  Að samræðum loknum er gestum boðið upp á leiðsögn sýningarstjóra um sýninguna en þetta er eins og fyrr segir síðasti sýningardagur.

Þátttakendur:

Anna Fríða Jónsdóttir, myndlistarmaður
Dr. Hilmar J. Malmquist, líffræðingur og forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands
Markús Þór Andrésson, sýningarstjóri og verkefnisstjóri dagskrár í Listasafni Reykjavíkur
Olga Soffía Bergmann, myndlistarmaður
Unndór Egill Jónsson, myndlistarmaður

Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Menningarkorts Reykjavíkur.

Náttúrufræðingurinn er kominn út

Út er komið 1.-2. hefti 86. árgangs Náttúrufræðingsins, félagsrits Hins íslenska náttúrufræðifélags og tímarit Náttúruminjasafns Íslands. Í heftinu, sem er 72 bls., eru að venju spennandi greinar um náttúru landsins og fjölbreyttar rannsóknir á hinum ýmsu þáttum hennar.

Forsíða nýja heftisins.

Forsíða nýja heftisins.

Forsíðugreinin er að þessu sinni um rannsókn sem gerð var í Stykkishólmi á ólíkum aðferðum til að hefta útbreiðslu lúpínu. Greinin nefnist Áhrif sláttar og eitrunar á lúpínubreiður og gróðurfar, en eitrun og árlegum slætti var beitt á lúpínubreiður í tilraunareitum á fimm ára tímabili, 2011–2015. Höfundar eru Kristín Svavarsdóttir, Menja von Schmalensee, Ása L. Aradóttir, Anne Bau og Róbert A. Stefánsson.

Ólafs Arnalds ritar leiðara sem hann nefnir: Sauðfjárbeit og íslensk vistkerfi: Afneitun vanda. Telur Ólafur að nýgerður samningur um sauðfjárrækt sýni glögglega að sjónarmið náttúruverndar séu gerð hornreka í stjórnsýslunni þegar kemur að beitarnýtingu á Íslandi.

Aðrir höfundar greina eru: Lilja Karlsdóttir, Margrét Hallsdóttir, Ægir Þór Þórsson, Kesera Anamthawat-Jónsson, Ævar Petersen, Lars Hedenas, Kristín Jónsdóttir, Skarphéðinn G. Þórisson, Haraldur R. Ingvason, Finnur Ingimarsson og Stefán Már Stefánsson, Haraldur Ólafsson og Jónína Sigríður Þorláksdóttir.

Ritstjóri Náttúrufræðingsins er Álfheiður Ingadóttir.

Hér má sjá efnisyfirlit heftisins.