Nýir og bjartir tímar framundan 

–  hugleiðing forstöðumanns á jólaföstu 2016

jolakvedja-2016Þá hefur árið 2016 senn runnið sitt skeið á enda með kostum sínum og göllum, sigrum og ósigrum, gleði, harmi og hamingju – eins og gengur. Ekki verður annað sagt en að rofað hafi til í málefnum safnsins nú á allra síðustu vikum og að nokkuð bjart sé framundan, a.m.k. í ljósi hartnær 130 sögu safnsins og forvera þess. 

Hér er annars vegar átt við þingsályktunina vegna 100 ára fullveldisafmælis íslenska ríkisins árið 2018, sem Alþingi samþykkti skömmu fyrir þingkosningarnar í október, og hins vegar fjárlagafrumvarp ársins 2017 sem lagt var fram í byrjun desember. Í báðum tilvikum felast býsna merk tíðindi fyrir Náttúruminjasafnið.

Í fyrra tilvikinu, þingsályktuninni sem samþykkt var í október, er að finna málsgrein um Náttúruminjasafnið þar sem segir að Alþingi skuli „fela ríkisstjórninni að sjá til þess að í fjármálaáætlun til næstu fimm ára, sem lögð verður fyrir Alþingi vorið 2017, verði gert ráð fyrir uppbyggingu Náttúruminjasafns.“ Þetta er í fyrsta skipti síðan safnið var sett á laggirnar sem fyrir liggur staðfestur, þverpólitískur vilji Alþingis til að gera vel við höfuðsafn þjóðarinnar í náttúrufræðum. Að ályktuninni stóðu forsvarsmenn allra fimm flokkanna sem sæti áttu á síðasta Alþingi og var ályktunin samþykkt með 56 atkvæðum mótatkvæðalaust en sjö þingmenn voru fjarverandi. Afar ánægjuleg niðurstaða og þótt fyrr hefði verið! Gangi allt eðlilega eftir á Alþingi næsta vor verður Náttúruminjasafni Íslands loksins gert kleift að byggja starfsemi sína upp til frambúðar og rækja mikilvægt fræðslu- og menntunarhlutverk sitt með sóma og virðingu í samræmi við lög. Oft var þörf en nú er nauðsyn.

Hin ánægjulegu tíðindin eru að samkvæmt nýsamþykktu fjárlagafrumvarpi hækkar fjárheimild safnsins árið 2017 um nær 50% miðað við fyrri ár, fer úr um 25 m.kr. á ári eins og verið hefur að jafnaði sl. tíu ár og verður tæpar 39 m.kr. Þetta er að vísu ekki há upphæð miðað við fjárveitingar til hinna höfuðsafnanna tveggja, Listasafns Íslands og Þjóðminjasafns Íslands, sem fá á næsta ári 10-20 sinnum meira fé en Náttúruminjasafnið. En mjór er mikils vísir og með tilvísun í áðurnefnda þingsályktun er viðbúið að í fimm ára ríkisfjármálaáætluninni fyrir árabilið 2018-2022 verði staða Náttúruminjasafnsins allt önnur.

Við Eldborg á Mýrum í júníbyrjun 2016: Sigrún Helgadóttir, Álfheiður Ingadóttir, Hilmar J. Malmquist, Þorleifur Eiríksson, Stefán Óli Steingrímsson, Skúli Skúlason og Viðar Hreinsson. Þessi hópur ásamt Sigmundi Einarssyni hefur vinnuaðstöðu í Loftskeytastöðinni.

Við Eldborg á Mýrum í júníbyrjun 2016: Sigrún Helgadóttir, Álfheiður Ingadóttir, Hilmar J. Malmquist, Þorleifur Eiríksson, Stefán Óli Steingrímsson, Skúli Skúlason og Viðar Hreinsson. Þessi hópur ásamt Sigmundi Einarssyni hefur vinnuaðstöðu í Loftskeytastöðinni.

Það er ekki einasta að bjart sé framundan hjá Náttúruminjasafninu heldur gekk starfsemi safnsins og samstarfsmanna þess á líðandi ári mjög vel. Margs er að minnast en hæst stendur útgáfan með Lesstofunni á stórvirki Viðars Hreinssonar um Jón lærða og náttúrur náttúrunnar sem kom út í nóvember og tilnefnd hefur verið til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Viðar gekk til liðs við Náttúruminjasafnið fyrir tæpum tveimur árum síðan og veitir safnið honum starfsaðstöðu og eilítinn fjárstuðning. Mikill fengur er af samstarfinu við Viðar og ljóst nú þegar að framhald verður á því. Það verkefni mun byggjast m.a. á afar áhugaverðum niðurstöðum í rannsókn Viðars á Jóni lærða og varða uppgötvun hans á áður óþekktum myndverkum hans.

Af öðrum merkisviðburðum í starfsemi safnsins árið 2016 skal getið samstarfsins við Ólöfu Nordal myndlistarkonu og sérsýningarinnar með henni, Geirfugl (Pinguinus impennis) – aldauði tegundar – síðustu sýnin, sem opnuð var við hátíðlegt tækifæri 16. júní á stofndegi Hins íslenska náttúrufræðifélags í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Sérsýningin þykir einkar sterk og vönduð og hefur hlotið afar góðar viðtökur. Sýningin stendur í ár og er hluti af grunnsýningunni Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim, sem Náttúruminjasafnið stendur að ásamt Árnastofnun, Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni, Listasafni Íslands, Þjóðminjasafni Íslands og Þjóðskjalasafninu. Sjónarhornssýningin var opnuð 18. apríl 2015 og stendur yfir í fimm ár.

Til merkisviðburða í starfsemi á árinu ber einnig að nefna útgáfu á fyrstu tveimur skýrslum í ritröð Náttúruminjasafnsins. Annars vegar er það skýrslan Samþætt mat á fjölbreytni náttúru og menningarminjar (NMSI 2016 001, 20 bls.) og hins vegar Um áhrif virkjana á náttúru og menningarminjar (NMSI 2016 002, 42 bls.). Hér eru á ferð niðurstöður í verkefni samstarfsaðila Náttúruminjasafnsins, RORUM ehf., sem unnin voru fyrir faghóp 1 í þriðja áfanga Rammaáætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða. Höfundar að skýrslunum eru Sigmundur Einarsson jarðfræðingur og Þorleifur Eiríksson líffræðingur. Náttúruminjasafnið veitir Rorum starfsaðstöðu í Loftskeytastöðinni gegn afnotum af niðurstöðum í sameiginlegum rannsóknum á sviði safn- og náttúrufræða.

Ýmislegt fleira mætti telja upp, jafnt orðna hluti sem fyrirheit, sem gefur tilefni til að fagna og líta framtíð Náttúruminjasafns Íslands björtum augum, en hér skal látið staðar numið.

Það er vonandi að þau teikn sem nú eru á lofti um bættan hag Náttúruminjasafnsins rætist hið fyrsta, þannig að safnið fái að upplýsa og fræða þjóðina og gesti landsins um undur og eðli náttúrunnar sem allt mannlíf er háð og ganga verður um af virðingu með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi.

Ég óska samstarfsfólki Náttúruminjasafns Íslands og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og heillaríks nýs árs. Með þökk fyrir árið sem er að líða.

Hilmar J. Malmquist forstöðumaður 

Jón lærði og náttúrur náttúrunnar

Út er komin bókin Jón lærði og náttúrur náttúrunnar eftir Viðar Hreinsson bókmenntafræðing og samstarfsmann Náttúruminjasafnsins. Það er Lesstofan sem gefur bókina út í samstarfi við Náttúruminjasafn Íslands. Áhugamenn um íslenskan menningararf og náttúrusögu hafa ærið tilefni til að fagna þessu merka verki Viðars.

jl_kapa_oll

Kápa bókarinnar Jón lærði og náttúrur náttúrunnar.

Jón lærði Guðmundsson (1574-1658) var skáld, læknir, náttúrufræðingur, listaskrifari, málari, tannsmiður og sjálflærður andófsmaður og fyrstur til að skrifa rit á íslensku um náttúru Íslands, hið merka verk „Ein stutt undirrétting um Íslands aðskiljanlegar náttúrur“. Jón lærði tók einnig saman náttúrulækningaritið „Um nokkrar grasanáttúrur.“

Bókin er mikil að vöxtum, 760 bls., ríkulega myndskreytt og afrakstur um sex ára rannsóknastarfs Viðars. Í bókinni birtist náttúruskyn 17. aldar í gegnum hugarheim Jóns lærða. Ævi Jóns myndar söguþráð bókarinnar en grunntónn verksins er samband Jóns og samtíðar við náttúruna í víðu hugmyndafræðilegu samhengi, m.a. í tengslum við samtímamenn í Evrópu á sviði náttúrufræða.

Viðar hefur unnið að verkinu um Jón lærða Guðmundsson frá árinu 2011, fyrst undir merkjum ReykjavíkurAkademíunnar, en síðar í samstarfi við Náttúruminjasafnið þar sem Viðar hefur haft vinnuaðstöðu sl. tvö ár. Mikill fengur er að þessu samstarfi fyrir Náttúruminjasafnið.

Í tilefni af útgáfu bókarinnar standa Lesstofan og Náttúruminjasafnið að hófi föstudaginn 25. nóvember kl. 17 í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Höfundur les úr bókinni og tónlist innblásin af Jóni lærða og verkum hans verður frumflutt. Léttar veitingar verða á boðstólum og eru allir velkomnir.

(more…)

Náttúran í íslenskum myndheimi

Sunnudaginn 25. september klukkan 14 mun Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands, ganga með gestum um sýninguna Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Í leiðsögninni verður áhersla lögð á hinn sjónræna þátt náttúru í menningu landsins og spáð einkum í þá muni á sýningunni sem eru á vegum Náttúruminjasafnsins og systurstofnunarinnar, Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Í leiðsögninni verður geirfuglinum gerð sérstök skil en í sumar var opnuð sérsýning um hann sem ber heitið Geirfugl †Pinguinus impennis. Aldauði tegundar – síðustu sýnin, og er þar á ferð samstarfsverkefni Náttúruminjasafns Íslands og Ólafar Nordal myndlistarmanns í samvinnu við Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn og Náttúrufræðistofnun Íslands.

Augun

Augu  síðustu geirfuglanna tveggja sem drepnir voru í Eldey 18944. Ljósm. Ólöf Nordal.

Geirfuglinn er

Geirfuglinn – eign íslensku þjóðarinnar, sem keyptur var fyrir söfnunarfé 1971, er til sýnis í Safnahúsinu.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Á sérsýningunni gefur m.a. að líta geirfuglinn sem þjóðin eignaðist árið 1971, uppdrátt af Geirfuglaskeri frá því um 1770, og ný verk eftir Ólöfu Nordal: ljósmyndaröð af innyflum síðustu geirfuglanna tveggja sem drepnir voru í Eldey árið 1844 og myndskeið sem sýnir fuglaveiðar fyrir um hálfri öld í Vestmannaeyjum.

Höfum við lært af fyrri mistökum?

Sérsýningunni um geirfuglinn er ætlað að vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi ábyrgrar og siðlegrar umgengni við undur og auðlindir náttúrunnar. Útrýming geirfuglsins er svartur blettur í sögu mannkyns og þar eiga Íslendingar sinn þátt. Hafa verður í huga að vitneskja og þekking á náttúru og umhverfi var takmarkaðri þá en nú. Samt sem áður eiga núlifandi ættingjar geirfuglsins, haftyrðill, stuttnefja og fleiri svartfuglar, í vök að verjast vegna veiða, búsvæðaröskunar og loftslagshlýnunar. Sú staða vekur upp spurningar um hvað við höfum lært af fyrri mistökum.

Sýningin Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim – er grunnsýning á íslenskri list og sjónrænum menningararfi, og var opnuð í Safnahúsinu 18. apríl 2015. Þetta er fyrsta sýningin sem Náttúruminjasafn Íslands tekur þátt í frá stofnun 2007 en auk Náttúruminjasafnsins standa fimm aðrar menningarstofnanir að sýningunni: Þjóðminjasafn Íslands, Listasafn Íslands, Þjóðskjalasafn, Landsbókasafn – Háskólabókasafn og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Grunnsýningin stendur yfir í fimm ártil ársins 2020. Sérsýningin um geirfuflinn var opnuð 16. júní s.l. og stendur í eitt ár. 

Leiðsögnin er ókeypis og allir eru velkomnir!

Hér má sjá efni um sýninguna í Safnahúsinu á vef Náttúruminjasafnsins.

Geirfugl † Pinguinus impennis Aldauði tegundar – Síðustu sýnin

Fimmtudaginn 16. júní verður opnuð sérsýning um geirfuglinn í Safnahúsinu við Hverfisgötu en í sérsýningarrými hússins skiptast á sýningar á vegum þeirra sex stofnana sem standa að sýningunni Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim.

Sýningin er samstarfsverkefni Náttúruminjasafns Íslands og Ólafar Nordal myndlistarmanns í samvinnu við Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn og Náttúrufræðistofnun Íslands og nefnist:

Geirfugl  † Pinguinus impennis   Aldauði tegundar – Síðustu sýnin

Geirfugl er útdauð tegund en talið er að síðustu tveir geirfuglarnir á Jörðu hafi verið drepnir í Eldey undan Reykjanesi í júní árið 1844. Fuglarnir voru sendir til Háskólans í Kaupmannahöfn og þar eru líffæri og innyfli fuglanna enn varðveitt í 11 glerkrukkum í Náttúrufræðisafni Danmerkur. Ekki er vitað með vissu hvar hamir fuglanna eru niður komnir.

Innyfli síðasta geirfuglsins af kvenkyni: Ólöf Nordal. 2016. Ljósm. 60x90.

Ólöf Nordal Alca impennis ♀ Island 1844. Spiserør og mave af hunfuglen. 2016. Ljósmynd 60 × 90 cm.

Geirfuglinn. Mynd af Eldey í baksýn. Ljósm. Erling Ólafsson.

Geirfuglinn sem keyptur var 1971 fyrir söfnunarfé verður sýndur í Safnahúsinu. Mynd af Eldey í baksýn. Ljósm. Erling Ólafsson.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Á sýningunni gefur að líta uppstoppaðan geirfugl sem keyptur var 1971, uppdrátt af Geirfuglaskeri frá því um 1770 sem sýnir veiðar á geirfugli og fleiri svartfuglum, og ný verk eftir Ólöfu Nordal: Ellefu ljósmyndir af líffærum og innyflum síðustu geirfuglanna tveggja eins og þau eru varðveitt í Náttúrufræðisafni Danmerkur, frásögn af drápi síðustu geirfuglanna í Eldey og myndskeið sem sýnir veiðar á fugli í Vestmannaeyjum.

Sérsýningunni um geirfuglinn er ætlað að vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi ábyrgrar og siðlegrar umgengni við undur og auðlindir náttúrunnar. Útrýming geirfuglsins er svartur blettur í sögu mannkyns og þar eiga Íslendingar sinn þátt. Hafa verður í huga að vitneskja og þekking á náttúru og umhverfi var takmarkaðri þá en nú. Samt sem áður eiga núlifandi ættingjar geirfuglsins, haftyrðill, stuttnefja og fleiri svartfuglar, í vök að verjast vegna veiða og loftslagshlýnunar. Sú staða vekur upp spurningar um hvað við höfum lært af fyrri mistökum.

Sýningin verður opnuð kl. 15:30  fimmtudaginn, 16. júní, á stofndegi Hins íslenska náttúrufræðifélags (1889) sem stofnað var í þeim tilgangi að koma upp náttúruminjasafni í Reykjavík. Félagið rak m.a. sýningarsal í Safnahúsinu við Hverfisgötu á tímabilinu 1909–1947, en 1947 færði félagið ríkinu safnið að gjöf ásamt byggingarsjóði. Náttúruminjasafn Íslands og Náttúrufræðistofnun Íslands eru afsprengi þessa félagsskapar.

ON SvartHvit2016minni

Ólöf Nordal myndlistamaður http://www.olofnordal.com

Sýningin stendur í eitt ár.

Um Ólöfu Nordal        

Ólöf Nordal býr og starfar í Reykjavík. Hún nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og lauk meistaraprófi frá Cranbrook Academy of Art í Michigan og MFA frá höggmyndadeild Yale Háskólans í New Haven, Connecticut.

Í ljósmyndum sínum og skúlptúrum leikur Ólöf sér gjarnan með hugmyndafræði söfnunar, framsetningu á sýnum og það afskræmda sem fellur utan flokkunarkerfa. Verkin eru iðulega sprottin úr heimi þjóðsagna og þjóðtrúar sem Ólöf notar til að rannsaka og skoða þær vísindalegu aðferðir sem beitt er á náttúruna til að viðhalda henni, varðveita hana og skrá.

Ólöf er höfundur ýmissa útilistaverka og minnisvarða á opinberum vettvangi og má þar nefna Geirfuglinn í Skerjafirði, Bríetarbrekku, minnisvarða um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur,  Vitid ér enn – eda hvat? í Alþingishúsinu, og umhverfislistaverkið Þúfu sem stendur við Reykjavíkurhöfn. Hún hefur hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar, þar með talið úr Höggmyndasjóði Richard Serra frá Listasafni Íslands.

Um Sjónarhorn                  

Sýningin Sjónarhorn var opnuð í apríl 2015. Sýningin er ferðalag um íslenskan myndheim fyrr og nú, en í sjö álmum Safnahússins við Hverfisgötu eru jafn mörg sjónarhorn sem tengja saman ólík listaverk og áhugaverða muni, þvert á efni og tímabil. Sýningin í Safnahúsinu er samstarfsverkefni Þjóðminjasafns Íslands, Listasafns Íslands, Náttúruminjasafns Íslands, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og Þjóðskjalasafns Íslands.

Sérsýningarrit í þríbroti á íslensku um geirfuglinn.

Sérsýningarrit í þríbroti á ensku um geirfuglinn.

Handout in English on the Great Auk special exhibition.

Náttúruminjasafnið á alþjóðlega safnadeginum 18. maí 2016

Capture

Alþjóðlegi safnadagurinn er haldinn ár hvert þann 18. maí að frumkvæði Alþjóðaráðs safna (International Council of Museums, ICOM). Þemað í ár er „Söfn og menningarlandslag“ („Museums and Cultural Landscapes“) og eru söfn um víða veröld hvött til að líta út fyrir veggi safnanna og huga menningarlegu, sögulegu og náttúrulegu landslagi utan þeirra.

Í tilefni dagsins stendur Íslandsdeild ICOM fyrir hádegisviðburði í fyrirlestrarsal Safnahússins við Hverfisgötu. Formaður Íslandsdeildar ICOM, Kristín Dagmar Jóhannesdóttir flytur ávarp, listgreinakennararinir Ásdís Spanó og Hugrún Þorsteinsdóttir fjalla um fræðsluefni um útilistaverk í Reykjavík og Ólöf Gerður Sigfúsdóttir kynnir tilnefningar til Íslensku Safnaverðlaunanna 2016. Dagskrána má kynna sér hér.

Náttúruminjasafnið í Safnahúsi

Geirfuglinn var kjörgripur sýningarinnar Sjónarhorn í Safnahúsinu og verður þungamiðja á nýrri sérsýningu þar í júní.

Geirfuglinn verður þungamiðja á nýrri sérsýningu í Safnahúsinu í samvinnu Náttúruminjasafnsins og Ólafar Nordal, myndlistarmanns.

Náttúruminjasafn Íslands fagnar alþjóðlega safnadeginum og vill rifja upp það sem hæst bar á vegum safnsins á liðnu ári. Þar ber fyrst að nefna þátttöku safnsins í sýningunni „Sjónarhorn“ í Safnahúsinu við Hverfisgötu, sem er fyrsta sýningin sem safnið tekur þátt í frá stofnun 2007. Sýningin á geirfuglinum sem fyrsta „kjörgrip“ sýningarinnar stóð í eitt ár og vakti mikla athygli. Í ljósi þess hefur nú verið ákveðið að Náttúruminjasafnið standi fyrir nýrri sérsýningu á geirfuglinum í Safnahúsinu. Þar verður hann settur á stall sem sá ómetanlegi gripur sem hann er, fjallað verður um fækkun tegunda af manna völdum og mun Ólöf Nordal myndlistarmaður vinna og sýna ný verk tengd útrýmingu geirfuglsins. Sýningin verður opnuð 16. júní n.k. á stofndegi Hins íslenska náttúrufræðifélags.

Skrifstofur safnsins festar í sessi 

Á árinu hefur aðstaða safnsins í gömlu Loftskeytastöðinni við Suðurgötu, Brynjólfsgötu 5, verið fest í sessi. Þar eru skrifstofur safnsins og ritstjóri Náttúrufræðingsins auk ágætrar fundaraðstöðu. Í Loftskeytastöðinni starfa nú ýmsir sérfræðingar á eigin vegum og í samvinnu við Náttúrminjasafnið og má þar nefna Viðar Hreinsson bókmenntafræðing og rithöfund, Sigrúnu Helgadóttur, líffræðing og rithöfund, Skúla Skúlason, prófessor, Stefán Óla Steingrímsson líffræðing og starfsmenn Rorum ehf., Þorleif Eiríksson og Sigmund Einarsson.

Samvinna um væntanlegt sýningarhald í Perlunni

Loks er þess að geta að á árinu gerði Náttúruminjasafnið samning við Perluvini ehf. um samvinnu um væntanlegt sýningarhald Perlu norðursins í Perlunni. Reykjavíkurborg hefur samið við Perlu norðursins um uppsetningu náttúrusýningar þar og er frekari aðkoma og stuðningur Náttúruminjasafnsins við sýninguna í undirbúningi.

Sömu fjárveitingar og 2007

Þrátt fyrir allt sem að framan er talið verður að viðurkennast að staða höfuðsafnsins hefi ekki verið jafn bág í hartnær tíu ára sögu safnsins hvað varðar fjárheimildir og annan stuðning frá ríkisvaldinu. Árlegt rekstrarfé frá upphafi starfseminnar árið 2007 hefur að jafnaði numið um 25 m.kr. – á verðlagi hvers árs, en á sama tíma hafa vísitölur hækkað um 45–52%! Aukið rekstrarfé hefur ekki fengist.

Steypireyðurin

Takmarkaðar fjárheimildir Náttúruminjasafnsins hafa m.a. í för með sér að safnið getur ekki sinnt lögboðnum og umsömdum verkefnum. Eitt skýrasta og alvarlegasta dæmið um þetta varðar steypireyðina sem rak á land við Ásbúðir á Skaga í ágúst 2010 og flutt var síðastliðið haust norður í Hvalasafnið á Húsavík en hefði átt að verða þungamiðja í fyrirhugaðri sýningu Náttúruminjasafnsins í Perlunni í Öskjuhlíð.

Náttúruminjasafnið var sniðgengið þegar kom að uppsetningu beinagrindarinnar og umsjón með gerð varðveislusamnings um gripinn. Var það þvert á yfirlýsingar mennta- og menningarmálaráðherra á Alþingi 3. nóvember 2014. Forstöðumaður Náttúruminjasafnsins hefur því séð sig knúinn til að drepa niður penna og fjalla sérstaklega um það mál, m.a. í ljósi umfjöllunar í ársriti Náttúrufræðistofnunar fyrir árið 2015 en Náttúruminjasafn Íslands hefur frá upphafi haft beina aðkomu að málefninu, jafnt faglega sem fjárhagslega.

Pistill forstöðumanns 18. maí 2016.