Náttúruminjasafninu bættist nýverið öflugur liðsmaður í samstarfshópinn sem er Sigrún Helgadóttir líffræðingur og kennari með meiru en hún vinnur nú að ævisöguritun Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings, eins merkasta og þekktasta fræðimanns sem Íslendingar hafa eignast, að ógleymdum vinsældum hans meðal þjóðarinnar fyrir skemmtan og söngvísnasmíð.
Sigrún hóf ritun ævisögu Sigurðar á síðasta ári þegar farið var þess á leit við hana að hún tæki að sér verkið. Á árinu 2014 fékk hún þriggja mánaða laun úr Rithöfundasjóði til verksins og ein mánaðarlaunum til viðbótar frá Hagþenki. Á árinu 2015 hefur Sigrún fengið sex mánaðarlaun til verksins úr Rithöfundasjóði. Framlag Náttúruminjasafns Íslands til verksins felst til að byrja með í endurgjaldslausri skrifstofuaðstöðu í Loftskeytastöðinni. Málefnið er Náttúruminjasafninu skylt á margan hátt og nægir að nefna að Sigurður var um tíma formaður Hins íslenska náttúrufræðifélags og forstöðumaður land- og jarðfræðideildar Náttúrugripasafns Íslands (nú Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúruminjasafn Íslands).
Um ævisöguritun Sigurðar Þórarinssonar (1912-1983)
Þegar aldarafmælis dr. Sigurðar Þórarinssonar, jarðfræðings, var minnst í upphafi árs 2012 kom í ljós að margt ungt fólk þekkti lítið sem ekkert til hans. Sigurður mun þó vera sá vísindamaður íslenskur sem oftast hefur verið í vitnað í alþjóðlegum vísindagreinum. Slík vanþekking er eðlileg því að rúm 30 ár eru liðin frá andláti Sigurðar. Það fennir í sporin þótt djúp séu. Bent hefur verið á að það væri menningarslys ef samantekt um líf Sigurðar væri ekki skrifuð á meðan enn lifir fólk sem man hann. Eðli málsins samkvæmt fer því fólki fækkandi.
Í ævisögunni verður leitast við að svara spurningunni um hver Sigurður Þórarinsson var. Hann var heimsfrægur vísindamaður og brautryðjandi á mörgum sviðum jarðfræði, s.s. jöklafræði og öskulagafræði og var flestum betur að sér í fornleifafræði og sögu landsins. Sigurður var líka þekktur sem ákaflega skemmtilegt vísnaskáld, hagyrðingur og sögumaður, góður ferðafélagi, frábær og hvetjandi kennari og alþýðufræðari en líka hlýr vinur og fjölskyldufaðir – eða hvað – var hann allt þetta? Og hver var uppruni þessa manns, hvaðan kom hann, hvað mótaði hann? Hann var jafnan dulur um persónuleg mál. Börn Sigurðar eru mjög áhugasöm um skrif endurminninga hans og tilbúin að veita alla mögulega aðstoð og aðgang að gögnum og dagbókum sem faðir þeirra lét eftir sig. Sama má segja um nánasta samstarfsmann Sigurðar til margra áratuga, Halldór Ólafsson. Hann hefur safnað geysilega miklu efni, sögum og vísum, sem hvergi hefur birst en hann er tilbúinn að leggja til verksins.
Sigurður var leiftrandi áhugamaður um ýmiss konar þjóðmál, glöggur samfélagsrýnir og hafði mikil áhrif á sviði náttúruverndar og umhverfismála. Hann var ekki aðeins virtur vísindamaður heldur líka þekktur og dáður listamaður á sviði náttúrutúlkunar. List Sigurðar fólst ekki síst í því hve snjall hann var að miðla vísindaþekkingu á þann hátt að fólk skildi. Fátt er mikilvægara í lýðræðisþjóðfélagi. Til hvers væru vísindamenn ef sú þekking sem þeir afla næði ekki að hríslast um samfélagið allt og nýtast þegnum landsins. Fæstir vísindamenn kunna þá list, eða geta gefið sér til þess tíma, og ekki er hægt að ætla þeim það. Því er mikilvægt að það fólk sem kann og hefur áhuga á að túlka flókin fræði fyrir almenningi fái til þess tækifæri og aðstöðu. Í nútímaþjóðfélagi byggist slík túlkun ekki bara á hæfileikaríku fólki heldur líka margslungnu neti miðla; rituðu máli, hugbúnaði og vönduðum söfnum fyrir almenning.“