Glæsilegt nýtt hefti af Náttúrufræðingnum er komið út – að þessu sinni með jöklana í aðalhlutverki.

Í heftinu má meðal annars finna:

  • Stóra yfirlitsgrein um íslenska jökla – í þessari umfangsmiklu yfirlitsgrein er dregin saman þekking á íslenskum jöklum: myndun þeirra, hreyfingu og afkomu, samspili við eldvirkni, jökulhlaup og loftslag, auk áhrifa rýrnunar á landslag, innviði og samfélag. Greinin byggir á nýjustu mælingum, fjarkönnun og líkanreikningum og varpar ljósi á þróun jökla frá lokum litlu ísaldar til framtíðar í hlýnandi loftslagi.

 

  • Jöklarannsóknafélag Íslands 75 ára – greinin rekur sögu Jöklarannsóknafélags Íslands frá stofnun árið 1950, sjálfboðastarf, vorferðir á Vatnajökul, uppbyggingu skála og lykilhlutverki félagsins í jöklarannsóknum, vöktun og miðlun þekkingar um íslenska jökla.

 

  • Sólmyrkvar á Íslandi – fjallað er ítarlega um sólmyrkva á Íslandi, sérstaklega almyrkvann 12. ágúst 2026, auk yfirlits um alla almyrkva og hringmyrkva sem hafa gengið og munu ganga yfir á Íslandi á árunum 600 til 2200 e.Kr. Þá er fjallað um helstu fyrirbæri sem vert er að gefa gaum þegar fylgst er með almyrkva á sólu.

 

  • Ný tegund sæsnigils í Atlantshafi – sagt er frá mjög athyglisverðum fyrsta fundi sæsnigilsins svartserks (Melanochlamys diomedea) í Atlantshafi. Snigillinn fannst fyrst við strendur Íslands í júní 2020. Sagt er frá ferlinu frá því að hann sást fyrst í fjöru við Ísland þar til staðfest tegundagreining fékkst. Þá er greint frá þekktri útbreiðslu og fjallað um mikilvægi þess að fylgst sé vel með nýrri framandi tegund og framvindu hennar.

 

  • Frá arfgerð til svipgerðar – tengsl breytileika í genastjórnun við svipgerðir og sjúkdóma. – Greinin fjallar um hvernig breytileiki í genastjórnun mótar svipgerð lífvera og getur aukið líkur á sjúkdómum. Sýnt er hvernig nýjustu aðferðir lífmengjafræðinnar gera kleift að greina þessi tengsl á stórum gagnasöfnum og hvernig samþætting erfða-, umritunar- og prótíngagna leggur grunn að persónubundnum lækningum og markvissari meðferð.

 

  • Tveggja flokka kynjakerfi er úrelt. – Í greininni er fjallað um kyn sem litróf, með vísun í líffræði, mannfræði og samtímaumræðu um kyngervi, mannréttindi og fjölbreytileika mannlegrar reynslu.

Heftið er prýtt fallegum ljósmyndum af íslenskri náttúru.

Heftið fæst í öllum bókabúðum Pennans Eymundsson fyrir þau sem ekki eru áskrifendur.

 

Forsíða Náttúrufræðingsins 2025

Forsíða Náttúrufræðingsins 2025