Nýtt hefti Náttúrufræðingsins komið út

Nýtt hefti Náttúrufræðingsins komið út

Út er komið 1.– 2. hefti Náttúrufræðingsins, 93. árgangs. Í heftinu er m.a. sagt frá landnámi plantna og framvindu í Surtsey síðustu 60 árin, sögu veggjalúsarinnar á Íslandi, bókinni Hvenær kemur sá stóri? Að spá fyrir um jarðskjálfta eftir Ragnar Stefánsson og nýjum rannsóknarniðurstöðum um íslenska melrakkann.

Í blaðinu er einnig ljósmynda- og ljóðasería um Surtsey en í henni eru m.a. myndir frá upphafi Surtseyjargossins eftir Sigurð Þórarinsson og Ævar Jóhannesson.

Forsíðuna prýðir mynd af Surtsey sem tekin var af Sigurði Þórarinssyni í lok nóvember 1963.

Nýtt vefsetur Náttúrufræðingsins hefur nú litið dagsins ljós og þar er hægt að skoða allt efni nýjasta heftisins (á forsíðu) sem og efni fyrri árganga. 

natturufraedingurinn.is

Heftið er 86 bls. Útgefendur eru Hið íslenska náttúrufræðifélag og Náttúruminjasafn Íslands. Ritstjóri er Margrét Rósa Jochumsdóttir, margret@nmsi.is

 

Samtök ferðaþjónustunnar á villigötum

Samtök ferðaþjónustunnar á villigötum

Samtök ferðaþjónustunnar á villigötum

„Það er sérlega miður að Samtök ferðaþjónustunnar, sem samanstanda af fjölda fyrirtækja sem reiða sig á náttúru Íslands og íslenska menningu, leggi stein í götu starfsemi höfuðsafns þjóðarinnar á sviði náttúrufræða líkt og gert er með kvörtuninni til Samkeppniseftirlitsins,“ segir Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður NMSÍ.

„Ábyrgð samtakanna er mikil þar sem þau eru í forsvari fyrir marga einkaaðila, en með kvörtuninni hafa þau gengið of langt og í raun sagt safnageiranum á Íslandi stríð á hendur. Það er miður, því ekkert bendir til annars en að nóg sé til skiptanna og ástæðulaust að láta þekkingar- eða skilningsskort á faglegri og samfélagslegri ábyrgð Náttúruminjasafnsins birgja sér sýn.“

 

Væntanlegar höfuðstöðvar Náttúruminjasafns Íslands.

SAF og PN leggja fram kvörtun

Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) ásamt Perlu Norðursins hf. (PN), rekstraraðila Perlunnar, lögðu fram kvörtun til Samkeppniseftirlitsins í janúar þar sem farið er fram á að Samkeppniseftirlitið rannsaki á grundvelli samkeppnislaga fyrirhugaða starfsemi Náttúruminjasafnsins í nýjum höfuðstöðvum safnsins, Náttúruhúsi í Nesi, á Seltjarnarnesi. SAF og PN telja að sýning Náttúruminjasafnsins, sem mun snúast um hafið og líffræðilega fjölbreytni, beinist gegn sýningu PN í Perlunni og að Náttúruminjasafnið, sem opinber stofnun og rekin fyrir almannafé, muni skekkja samkeppnisstöðu á markaði, einkaaðilum í óhag. SAF og PN líta svo á að ríkisframlag til sýningarhalds á vegum Náttúruminjasafnsins feli í sér „ólögmæta ríkisaðstoð“ og að skilja beri fjárhagslegan rekstur sýningar frá öðrum rekstrarþáttum í starfseminni.

En kvörtun SAF og PN beinist ekki einvörðungu að Náttúruminjasafninu heldur er nánast allur opinberi safnageirinn í landinu undir, þ.e. að farið er fram á að Samkeppniseftirlitið rannsaki „þau söfn og þær sýningar sem reknar eru af opinberum aðilum og eru í beinni samkeppni við einkaaðila.

 

Fjölmargar rangfærslur í furðulegri kvörtun

Hilmar segir röksemdafærslu SAF og PN furðulega, eigi sér enga stoð í lögum og að kvörtunin sé uppfull af rangfærslum og uppspuna um starfsemi Náttúruminjasafnsins og fyrirætlanir. Nánar má lesa um þetta í svari Náttúruminjasafnsins við kvörtuninni (sjá tengil hér fyrir neðan).

„Náttúruminjasafnið er eitt þriggja höfuðsafna á Íslandi sem rekið er af hinu opinbera fyrir almannafé og ekki í hagnaðarskyni og gegnir lögbundnum hlutverkum og skyldum á sviði söfnunar, skráningar, varðveislu, rannsókna og miðlunar. Meginmarkmiðið er að tryggja almenningi aðgengi að náttúru- og menningararfi landsins og vernda hann. Náttúruminjasafnið telst til grunnstoða samfélagsins á sviði menningar, mennta og vísinda. Einkaaðilar á borð við PN lúta ekki með lögboðnum hætti framangreindum leikreglum sem Náttúru­minjasafnið verður að starfa eftir, heldur er meginmarkmið þeirra að hámarka arð sinn.“  

 

Saman stöndum við, sundruð föllum við

„Það er sérlega miður að SAF, sem samanstendur af fjölda fyrirtækja sem reiða sig á náttúru Íslands og íslenska menningu, leggi stein í götu starfsemi höfuðsafns þjóðarinnar á sviði náttúrufræða líkt og samtökin gera með kvörtuninni,“ segir Hilmar. „Ábyrgð SAF er mikil þar sem þau eru í forsvari fyrir marga einkaaðila. Með kvörtuninni hafa SAF og PN gengið of langt og í raun sagt safnageiranum á Íslandi stríð á hendur. Það er miður því ekkert bendir til annars en að nóg sé til skiptanna og ástæðulaust að láta þekkingar- eða skilningsskort á faglegri og samfélagslegri ábyrgð Náttúruminjasafnsins birgja sér sýn. Mikilvægast er að hlúa að náttúru landsins, vernda líffræðilega og jarðfræðilega fjölbreytni og miðla fróðleik um hana til landsmanna og gesta landsins á vandaðan, áreiðanlegan og fjölbreyttan hátt. Það er höfuðverkefni Náttúruminjasafns Íslands og óskandi að sem flestir aðilar Samtaka ferðaþjónustunnar líti einnig svo á. Saman stöndum við, sundruð föllum við.”

 

Sjá frétt á visir.is

Kvörtun SF og PN 

Svar NMSÍ

Umsögn menningar- og viðskiðtaráðuneytis

Umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytis

Nýr vefur Náttúrufræðingsins

Nýr vefur Náttúrufræðingsins

Það er með sannri ánægju sem við segjum frá því að nýtt vefsetur Náttúrufræðingsins sem hefur verið í bígerð um nokkurt skeið hefur nú litið dagsins ljós. Vefinn er að finna á slóðinni natturufraedingurinn.is og eru útgefendur þeir sömu og standa að útgáfu tímaritsins, Hið íslenska náttúrufræðifélag og Náttúruminjasafn Íslands.

Vefurinn mun þjóna því hlutverki að birta greinar sem birst hafa í Náttúrufræðingnum sem og annað efni sem tengist náttúrufræði almennt. Markmið og tilgangur vefsins er að vekja athygli á tímaritinu og breikka lesendahópinn með því að gera efnið aðgengilegra svo fleiri fái tækifæri til þess að lesa það. Með því vinnur Náttúrufræðingurinn að því að auka áhuga og þekkingu á náttúrufræðum, umhverfisvísindum og umhverfismálum og hafa þannig áhrif á viðhorf til náttúrunnar og verndunar hennar. Til að þjónusta lesendur framtíðarinnar er nauðsynlegt að þetta efni sé til á rafrænu formi sem stenst kröfur um notendavænleika og auðvelt er að nálgast.

Á vefnum er að finna síðustu þrjá árganga tímaritsins en unnið er að því að setja inn eldra efni. Einnig er hægt að skoða öll tölublöð tímaritsins frá 1. árgangi 1931, á timarit.is. Margrét Rósa Jochumsdóttir, sem tók við starfi ritstjóra Náttúrufræðingsins fyrir ári síðan og er jafnframt vefstjóri vefsetursins, hannaði og setti upp vefinn. Ingi Kristján Sigurmarsson grafískur hönnuður, sem sér um útlit og umbrot Náttúrufræðingsins, sá um að samræma útlit vefsins og prentuðu útgáfu Náttúrufræðingsins. Við erum afskaplega ánægð með árangurinn og ritstjóri þiggur með þökkum allar ábendingar og hugmyndir að efni í tölvupósti á netfangið ritstjori@hin.is.