Æður – Æðarfugl (Somateria mollissima)
Útlit og atferli
Æðarfugl er stór kafönd sem heldur sig nær eingöngu á og við sjó og er algengasta önd landsins. Æður er breiðvaxin með stórt aflangt höfuð og stutt stél. Fullorðinn bliki er auðþekktur, hvítur að ofan og svartur að neðan, með svarta kollhettu, ljósgræna flekki á hnakka og roðalitaða bringu. Vængir eru svartir með hvítum framjöðrum og löngum hvítum axlafjöðrum. Hvítur blettur er á hliðum undirgumps. Bliki á fyrsta vetri er dökkbrúnn með ljósari bringu og axlafjaðrir, lýsist síðan smátt og smátt á höfði og að ofan, kallast hann ¬„veturliði“. Æðarbliki á öðrum vetri eins og flekkóttur fullorðinn fugl. Í felubúningi er blikinn svipaður og ungfugl en allur dekkri, nær svartur, líka á bringu. Fullorðin kolla er dökkrauðbrún, þverrákótt að neðan en dökkflikrótt að ofan, fínrákótt á höfði og hálsi og er þetta eina öndin með þess konar litamynstur. Vængspeglar eru ógreinilegir, fjólubláir með hvítum jaðri. Ung kolla er mun dekkri og jafnlitari.
Goggur á æðarfugli er fremur stuttur og hár, þríhyrningslaga séður frá hlið, gulgrænn á blika en grár á kollu. Bæði kyn hafa grágræna fætur og brún augu.
Æðarfugl er fremur þungur á sér á flugi og flýgur beint, hratt og lágt yfir ölduföldum. Þarf að taka tilhlaup til að ná sér á flug. Hann er afbragðs kafari. Æðarfugl gengur reistur og vaggandi. Hann er ávallt félagslyndur og oftast spakur. Hljóðið blikans er þýtt og milt „úúú“ en hljóð kollunnar eru dýpri.
Lífshættir
Æður neita fjölbreyttrar fæðu úr dýraríkinu sem fuglinn kafar eftir á grunnsævi. Kræklingur er mikið étinn, einnig aðrar samlokur, sæsniglar, burstaormar, krossfiskar og krabbadýr. Þegar loðnu er landað sækja fuglarnir í hrognin í höfnum og einnig í annan fiskúrgang.
Æðarfuglinn er sjófugl, einnig á varptíma, en slæðingur verpur við ár og vötn allt að 20 km frá sjó. Hann verpur í þéttum byggðum, oft í hólmum og eyjum en einnig á fastalandinu þar sem nýtur verndar. Hreiðrið er opið, fóðrað með hinum verðmæta dúni og oftast staðsett við einhverja mishæð eða í manngerðum varphólfum. Ungarnir eru bráðgerir, fara á stjá um leið og þeir eru orðnir þurrir. Fuglinn fer að verpa 3 – 5 ára og verður líklega að jafnaði 15 – 20 ára gamall.
Karlfuglinn er ávallt stærri en kvenfuglinn hjá andfuglum, og hjá öndum er hann yfirleitt mun skrautlegri. Kollan sér ein um útungun og ungauppeldi, en steggirnir (blikarnir) safnast í hópa til að fella flugfjaðrir. Eitt af sérkennum andfugla er að þeir fella fjaðrir síðsumars, þar á meðal flugfjaðrir og verða því ófleygir um tíma. Flugfjaðrir í vexti (líka nefndar blóðfjaðrir) eru mjög blóðríkar og blæðir úr þeim ef fuglarnir verða fyrir einhverju hnjaski. Því er talað um að fuglarnir séu í sárum eða særist á þessum tíma. Fullorðnu fuglarnir verða oft fleygir að nýju um svipað leyti og ungarnir verða fleygir. Andasteggir skipta um bolfiður áður en þeir fella flugfjaðrir og fá svonefndan felubúning sem er oft svipaður búningi kollunnar. Felubúningurinn er því eins konar sumarbúningur þeirra. Þeir skarta síðan skrúðbúningi eftir að þeir verða fleygir að nýju.
Heimkynni og ferðir
Æðarfuglinn verpur meðfram ströndinni um land allt, þó minnst meðfram suðurströndinni. Er oft í stórum hópum, t.d. fella 1−200.000 blikar við Faxaflóa og stórir hópar fylgja loðnugöngum á útmánuðum. Hér við land eru auk þess vetrarstöðvar og fellistöðvar fugla frá A-Grænlandi. Æðarfugl verpur annars við strendur landanna umhverfis norðurheimskautið.
Dúntekja
Æðardúnninn er einstakt efni til einangrunar og er mikið notaður í sængur og föt. Æðurin tekur vernd og öllum aðgerðum mannsins til að hlú að henni afar vel, en hún var alfriðuð 1849. Þetta hafa íslenskir bændur hagnýtt sér og skapað friðlönd fyrir fuglinn og sinna þar um hann, þannig að einstakt er í heiminum þegar villt dýrategund á í hlut. Eini gallinn við þetta annars ágæta fyrirkomulag er, að sumir æðarbændur hafa horn í síðu arnarins og fleiri sjaldgæfra fugla, sem þeir líta á sem keppinauta. Þegar friður kemst á, verður æðarræktin dæmi um fullkomið samspil manns og náttúru, báðum til hagsbóta.
Rúmlega 400 jarðir á landinu eru með eitthvert æðarvarp og eru þær dreifðar um mestallt land, þó er engin varpjörð í Rangárvallasýslu og aðeins ein í Vestur – Skaftafellssýslu. Árleg dúntekja síðari ára er um 3000 kg af fullhreinsuðum æðardúni. Þótt æðardúnn hafi afar lengi verið verðmæt útflutningsvara, þá sveiflast verðlag á honum verulega, en þegar best lætur þá þarf ekki nema dún úr 5-6 hreiðrum til þess að gefa sama nettóarð til bóndans eins og ein vetrarfóðruð kind.
Þó svo að æðarbændum sé mjög í nöp við tófuna, á hún þó stóran þátt í því að æðarrækt er arðbær atvinnugrein. Tófan þéttir vörpin, heldur fuglinum í eyjum, hólmum og töngum, þar sem hún nær ekki til eða auðvelt er að vernda fuglinn fyrir henni. Það hefur verið sannreynt með tilraunum, að þar sem engar tófur eru, dreifist fuglinn um allar koppagrundir, svo mun erfiðara og tímafrekara er að nýta varpið. Tófan er því einn af bestu vinum æðarbænda, þó svo að þeir muni seint viðurkenna það.
Þjóðtrú
Íslensk þjóðtrú virðist ekki geyma margt um æðina, fremur en aðrar andategundir, þrátt fyrir það hversu verðmæt hún er. En þeim mun meira hefur verið ort.
Skrautlegur ættingi
Æðarkóngur (Somateria spectabilis) er skrautlegur ættingi æðarinnar og kemur hingað frá Grænlandi og Svalbarða. Fullorðinn bliki, kóngurinn, er með skrautlegan rauðgulan hnúð framaná gráu höfðinu og með svart bak, kollan, drottningin, er svipuð æðarkollu, en þekkist best frá henni á höfuðlagi og ryðbrúnni lit og hreisturmynstruðum síðum og bringu. Æðarkóngur sést hér allt árið, en er algengastur seinni hluta vetrar. Blikar paraðir íslenskum æðarkollum eru árvissir í vörpum og kynblendingar, blikar, sjást flest ár. „Æðardrottningar“ eru sjaldséðar á sumrin, en stöku sinnum hafa sést pör á vorin.
Vorvísa 1854
Vorið er komið og grundirnar gróa,
gilin og lækirnir fossa af brún.
Syngur í runni og senn kemur lóa,
svanur á tjarnir og þröstur í tún.
Nú tekur að hýrna um hólma og sker,
hreiðra sig blikinn og æðurin fer.
Hæðirnar brosa og hlíðarnar dala,
hóar þar smali og rekur á ból.
Lömbin sér una um blómgaða bala,
börnin sér leika að skeljum á hól.
Jón Thoroddsen.
Hér snýr skáldið kynhlutverkunum við, væntanlega af bragfræðilegum ástæðum.
Vor í varplandi
Manstu vor í varplandi
Græn strá gægðust úr sinu
Leysingavatn fyllti lautir
Síðan komu sóleyjar og hrafnaklukkur
körfur hvannanna sendu frá sér angan
Víðirinn stóðst vorhretin
vatnið gat orðið að spegli
Þetta vor kom æðarkóngurinn í varpið
Þóra Jónsdóttir frá Laxamýri.
Stoltur bliki
Mörgum kær er minning sú;
mönnum léttir sporin,
þegar hreykið ómar ú – ú
æðarfugls á vorin.
Ungar í hreiðri
Meðan kroppinn vantar væng
og vit í ríkum mæli,
er gott að eiga gráa sæng
og góðan dún í bæli.
Einmana æður
Hausta tekur, magnast mein,
myrkur, sorg og nauðir.
Hnípin sit ég eftir ein
– ungarnir mínir dauðir.
Eysteinn G. Gíslason í Skáleyjum.