Bjartmáfur (Larus glaucoides)
Útlit og atferli
Bjartmáfur er vetrargestur sem líkist mjög hvítmáfi (Larus hyperboreus) en er minni, fíngerðari, með hnöttóttara höfuð og brattara enni, frábrugðið flötu höfði hvítmáfs. Búningar og búningaskipti fullorðinna og ungra bjartmáfa eru svipuð og hjá öðrum stórum máfum. Skiptin, frá því að þeir skrýðast fyrsta ungfuglabúning uns kynþroska er náð, eru afar flókinn og er greining ungra máfa eitt erfiðasta verkefnið sem fuglaskoðarar standa frammi fyrir. Máfar skipta að hluta um fjaðurham á fyrsta hausti. Þá fella þeir höfuð- og bolfjaðrir. Eftir það skipta þeir um fjaðrir tvisvar á ári, á haustin (ágúst−október) fella þeir allt fiður, en höfuð- og bolfiður síðla vetrar (febrúar−apríl).
Fullorðinn bjartmáfur er að mestu hvítur, ljósgrár á baki og ofan á vængjum með hvíta vængbrodda. Á veturna er hann brúnflikróttur á höfði. Ungfugl á fyrsta ári er allur ljósbrúnflikróttur, aðeins brúnni að ofan og án dökks jaðars á stéli. Hann lýsist smám saman, getur á öðru ári verið alhvítur og er að mestu kominn í fullan búning á þriðja ári, en er þó með eitthvað af brúnum flikrum á vængjum og stéli. Það einkennir fullorðinn bjartmáf að hvergi sést dökkur litur í búningi hans, en fullorðinn silfurmáfur (Larus argentatus) hefur hvítt og svart mynstur á vængendum. Hinn alíslenski hvítmáfur er mjög líkur bjartmáfi. Hann dvelur hér allt árið og varpstöðvarnar eru á Vesturlandi og Vestfjörðum. Hvítmáfur er með kraftmeiri gogg, flatara enni og vængir ná ekki eins langt aftur fyrir stél á sitjandi fugli og hjá bjartmáfi. Vængir eru einnig hlutfallslega breiðari.
Goggur er gulur með rauðum bletti framarlega á neðra skolti á fullorðnum fugli, mun styttri og grennri en á hvítmáfi, en bleikur með dökkan brodd á ungfugli. Fætur eru grábleikir–rauðbleikir, styttri og skærlitari en á hvítmáfi. Á sumrin eru fullorðnir fuglar með rauðlitan augnhring.
Vængir bjartmáfs eru lengri og mjórri en hvítmáfs og ná lengra aftur fyrir stélið, hann virðist léttari og fimari á flugi. Er mun léttari á sundi en hvítmáfur, minnir á fýl (Fulmarus glacialis), afturhlutinn vísar á ská upp á við en á hvítmáfi virðist hann láréttur. Gefur frá sér svipuð hljóð og aðrir máfar.
Lífshættir
Fæða bjartmáfa er fiskur, t.d. sandsíli og loðna, svo og fiskúrgangur. Einnig þangflugur, krabbar og skeldýr. Bjartmáfur aflar sér aðallega fæðu á sundi, hleypur stundum eftir yfirborðinu með blakandi vængi og tínir upp agnir.
Bjartmáfur heldur sig mest með ströndum fram, oft með öðrum máfum. Sést sjaldan á landi, þó stundum á tjörnum og sjávarlónum og þá helst síðla vetrar eða snemma vors. Best er að skoða hann í höfnum eða við ræsi, hann er víða algengasti eða einn algengasti máfurinn á slíkum stöðum á veturna. Meðfylgjandi myndir eru flestar teknar í Þorlákshöfn, en tvær á Ólafsfirði og ein á Stokkseyri.
Útbreiðsla og ferðir
Bjartmáfurinn er vetrargestur frá varpstöðvum á Grænlandi, Baffinslandi og nálægum eyjum, oft í stórum hópum. Fyrstu fuglarnir koma til landsins upp úr miðjum september og hann er sennilega alkominn í október. Fullorðnir fuglar halda fyrr frá landinu á útmánuðum, eru að mestu farnir í marslok, en ungfuglar sjást áfram fram eftir maí. Sést stöku sinnum á sumrin. Talið er að hér dvelji 15−20 þúsund fuglar á hverjum vetri, sem er nálægt því að vera 5−8% af áætluðum heimsstofni. Sú tala er þó sennilega of lág. Í árlegum talningum á fuglum í svartasta skammdeginu, sem eru kallaðar vetrarfugla- eða jólatalningar, hafa sést 2800–5000 bjartmáfar ár hvert síðastliðin 5 ár og hafa þeir fundist á um helmingi talningarsvæða (af 150–180 alls). Enska nafn fuglsins er Iceland Gull, sem er skondið vegna þess að hann verpur ekki hér. Hann er alfriðaður.
Þjóðtrú og sagnir
Engin íslensk þjóðtrú tengist bjartmáfi sérstaklega, enda vafasamt að fólk hafi greint hann frá hvítmáfi fyrr á öldum. Þjóðtrú um máfa er yfirleitt tengd sjó og sjósókn. Máfar vísa á fiskitorfur. Víða í evrópskri þjóðtrú eru máfar taldir sálir þeirra sem hafa farist á sjó.
Kveðskapur
Eftir endalaus skammdegiskvöldin
Saltur sjór sem skvettist
endalaus dægur haustsins
þegar dimman lengist – dagurinn styttist.
Hvítur mávur sem flögrar
sest á bryggjusporð, mastur skips
meðan fólkið þyngist á brún – dagurinn styttist.
Seinna – löngu seinna
eftir endalaus skammdegiskvöldin
takast sólin og himinninn í hendur
og lita veröldina bláa.
Lita veröldina bláa
og dagurinn lengist á ný.
Eftir Elísabetu Þorgeirsdóttur
Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.