Fréttablaðið birtir í dag (24.03.2017) mynd á bls. 2 sem sýnir framkvæmdir inni í glerhvelfingu Perlunnar í Öskjuhlíð og er fyrirsögnin með myndinni „Nýir tímar í Öskjuhlíð“. Í texta með myndinni segir m.a.: „Nú er unnið hörðum höndum að undirbúningi sýningar Náttúruminjasafns Íslands í Perlunni í Reykjavík.“ Betur ef satt væri! Satt er að verið er að vinna af krafti að undirbúningi sýningar í Perlunni. Ósatt er að framkvæmdirnar séu á vegum Náttúruminjasafns Íslands. Það er einkahlutafélagið Perla norðursins sem stendur alfarið að framkvæmdunum. Þessi misskilningur leiðréttist hér með. Rétt er hins vegar að taka fram að Náttúruminjasafnið á í góðu samstarfi við Perlu norðursins um verkefnið í Perlunni og veitir m.a. faglega ráðgjöf þar að lútandi.
Þá er rétt að benda á að Perla norðursins hefur nýlega endurnýjað tilboð sitt um þátttöku Náttúruminjasafnsins í sýningahaldi félagsins í Perlunni. Það tilboð er á borði mennta- og menningarmálaráðherra, Kristjáns Þórs Júlíussonar. Við þetta má bæta að Náttúruminjasafnið og Safnaráð sendu ráðuneytinu umbeðna umsögn við fyrra tilboð Perlu norðursins frá því í maí 2016 og voru þær samhljóða og á jákvæðum nótum.