Út er komið 1.–2. hefti 87. árgangs Náttúrufræðingsins, félagsrits Hins íslenska náttúrufræðifélags og tímarit Náttúruminjasafns Íslands. Í heftinu, sem er 88 bls., er að venju fjölbreytt efni um náttúru landsins og spennandi rannsóknir á hinum ýmsu þáttum hennar.
Forsíðugreinin er að þessu sinni um Viðhorf ferðamanna til raflína í náttúru Íslands. Höfundarnir, Þorkell Stefánsson og Anna Dóra Sæþórsdóttir, könnuðu viðhorf ferðamanna á sjö stöðum á landinu þar sem virkjanir eru til skoðunar. Almennt eru ferðamenn neikvæðir gagnvart raflínum skv. niðurstöðum þeirra, sérstaklega á hálendinu. Þá kom fram töluverður munur á viðhorfum eftir þjóðerni og er andstaðan við raflínur mest meðal íslenskra ferðamanna.
Ferðamenn eru einnig til umfjöllunar í leiðara sem Guðmundur Ingi Guðbrandsson ritar og nefnist: Ferðaþjónusta og náttúruvernd. Guðmundur Ingi hvetur til þess að brugðist verði við vaxandi ferðamannastraumi með uppbyggingu innviða, ítölu á viðkvæmum svæðum, uppbyggingu ferðaþjónustu utan verndarsvæða og að friðlýsingum verði beitt sem stjórntæki í ferðaþjónustu.
Aðrir höfundar greina eru: Ásta Rut Hjartardóttir og Páll Einarsson, Ólafur S. Ástþórsson, Haraldur Ólafsson, Jón Einar Jónsson, Jóhann Örlygsson og Sean Michael Scully, Helgi Hallgrímsson og Bergþóra Sigurðardóttir.
Ritstjóri Náttúrufræðingsins er Álfheiður Ingadóttir.
Hér má sjá efnisyfirlit heftisins.