Duggönd

Duggönd

Duggönd (Aythya marila)


Útlit og atferli

Duggöndin er meðalstór kafönd og svipar til skúfandar. Í fjarska virðist karlfuglinn, steggurinn, dökkur að framan og aftan en ljós þess á milli. Höfuðið er svart og grængljáandi, bringan svört, síður og kviður hvít. Bak, axlafjaðrir og framvængir eru gráyrjótt, vængbelti hvít, gumpur og undirstélþökur svört, stél grábrúnt. Í felubúningi er steggur grár á síðum og móskulegur. Kvenfuglinn, kollan, er dökkbrún á höfði, hálsi, bringu, baki og axlafjöðrum, oft með gráum yrjum. Afturendinn er dökkgrár, síður gulbrúnflikróttar, kviður hvítur. Hvít vængbelti eru á dökkbrúnum yfirvæng, hvít blesa við goggrót. Á varptíma er einnig ljós blettur á hlustarþökum. Ungfugli svipar til kollu en er jafndekkri og með ljósari vanga. Bæði kyn hafa ljósa undirvængi.

Eitt af sérkennum andfugla er að þeir fella fjaðrir síðsumars, þar á meðal flugfjaðrir og verða því ófleygir um tíma. Andasteggir skipta um bolfiður áður en þeir fella flugfjaðrir og fá þá svonefndan felubúning, sem er oft svipaður búningi kollunnar. Felubúningurinn er því eins konar sumarbúningur þeirra. Þeir skarta síðan skrúðbúningi um haustið, eftir að þeir verða fleygir að nýju.

Goggur beggja kynja er blágrár með svartri nögl, fætur einnig blágráir með dekkri fitjum. Augu fullorðinna eru skærgul en brún á ungfugli. Duggöndin gefur frá sér lágt kurr en er oftast þögul.

Duggönd er félagslynd á öllum árstímum. Hún flýgur hratt með hröðum vængjatökum, er djúpsynd og fimur kafari en þung til flugs og hleypur á vatni í flugtaki eins og aðrar kafendur. Hún er best greind frá skúfönd á stærð og hnöttóttara höfði, steggur á ljósu baki, kolla á ljósari lit og stærri og ljósari flekkjum á höfði.

Duggandarkolla með stóra dúnunga á Laxá í Mývatnssveit.

Duggandarhreiður við Reykjavíkurtjörn.

Lífshættir

Duggönd er dýraæta sem kafar til botns eftir smádýrum, t.d. mýlirfum, krabbadýrum, vatnabobbum og ertuskeljum. Lifir jafnframt nokkuð á grænþörungum og nykrum, sem og hornsílum.

Hún heldur sig við vötn og tjarnir bæði á hálendi og láglendi. Duggönd velur sér hreiðurstæði nærri vatni, stundum í dreifðum byggðum og oft innan um hettumáf og kríu. Hreiðrið er vel falið í stör, runnum og öðrum gróðri. Urptin er 7-11 egg, eggin klekjast á um 4 vikum og ungarnir verða fleygir á um 6 vikum. Á veturna er hún helst á lygnum, lífríkum vogum eða sæmilega stórum vötnum nærri sjó.

Duggandarkolla með litla dúnunga á Mývatni.

Duggandarpar á Mývatni.

Útbreiðsla, stofnstærð 

Duggönd er algengust við lífrík vötn á Norður-, Norðaustur- og Austurlandi, líka allalgeng sums staðar í miðhálendinu, en sjaldgæfust á Vestfjörðum. Stór hluti hans stofnsins er við Mývatn og sáust þar lengi um 2.000 steggir að vori og var hún þar algengust anda. Duggönd hefur fækkað mikið á Mývatni á síðustu árum og steggirnir aðeins verið 400−1.000 frá árinu 2010. Á móti hefur skúfönd fjölgað mikið á Mývatni og er þar nú algengasta öndin. Duggönd hefur fækkað á vetrarstöðvum í Evrópu og er þar á válista sem tegund í nokkurri hættu (VU), en á íslenska válistanum er hún talin í hættu (EN). Stofninn gæti verið að hámarki 3000 varppör. Vetrarstöðvarnar íslenskra fugla eru einkum með ströndum Írlands, Bretlands og Hollands, sem og víðar með ströndum meginlands Evrópu. Nokkur hundruð vetursetufugla halda til á Suðvesturlandi og jafnframt er hópur í Berufirði. Varpstöðvar eru á túndrubeltinu á norðurhveli jarðar.

Þjóðtrú og sagnir

Líkt og um flestar aðrar endur, fjallar íslensk þjóðtrú ekki mikið um duggöndina. Víða eru endur taldar veðurvitar og jafnvel að þær finni á sér eldsumbrot eða jarðhræringar. Þessu tóku menn eftir hjá Mývatnsöndum í Kröflueldum 1975-84.

Duggandarsteggir á flugi við Mývatn.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson

Evrópsku safnaverðlaunin 2022.

Evrópsku safnaverðlaunin 2022.

Evrópsku safnaverðlaunin 2022

Covid heimsfaraldurinn hefur sett mark sitt á safnastarf alls staðar í heiminum og víða hafa söfn þurft að loka tímabundið. Evrópsku safnaverðlaunin, EMYA (European Museum of the Year Awards), hafa ekki farið varhluta af faraldrinum og verðaunaafhendingum frestað og breytt í streymisviðburð á netinu. Nú hillir undir betri tíð þar sem faraldurinn er í rénun og í vikunni heimsótti Christophe Dufour, einn af dómnefndarmönnum verðlaunanna, Náttúruminjasafnið og sýningu þess, Vatnið í Náttúru Íslands.  Sýning Náttúruminjasafnsins er meðal nær 50 keppenda um Evrópsku safnaverðalunin í ár og munu úrslit verða kunngerð í byrjun árs 2022.

Christophe Dufour, dómnefndarmaður EMYA verðlaunanna ásamt starfsfólki Náttúruminjasafns Íslands, Álfheiði Ingadóttur, Önnu Katrínu Guðmundsdóttur og Hilmari Malmquist, forstöðumanni safnsins.

Áhugasamir ungir gestir sýninarinnar, Vatnið í náttúru Íslands fræðast um bleikjuafbrigðin í Þingvallavatni.

Dagur hinna villtu blóma

Dagur hinna villtu blóma

Plöntuleit og greining í Öskjuhlíðinni

Náttúruminjasafn Íslands tekur þátt í samnorrænum viðburði, Degi hinna villtu blóma, sunnudaginn 20. júní frá kl. 14 til 16. Gengið verður um Öskjuhlíðina, leitað að plöntum og þær greindar en einnig brugðið á leik og leitað að nokkrum algengum plöntutegunum. Gestum verður jafnframt boðið að skoða sýningu safnsins, Vatnið í náttúru Íslands.

Þátttaka er ókeypis, mæting í andyri Perlunnar er kl. 14.

Tilgangur dagsins er að stuðla að áhuga almennings á íslensku flórunni. Gróður í Öskjuhlíðinni hefur tekið miklum breytingum á síðustu áratugum. Stór svæði hafa verið tekin undir skógrækt en enn má finna staði sem gefa vísbendingu um fyrra gróðurfar.

 

Skúmur

Skúmur

Skúmur (Stercorarius skua)


Skúmur er af kjóaætt og af ættbálki strandfugla, eins og vaðfuglar, máfar, þernur, svartfuglar o.fl. Þrír nánir ættingjar hans halda sig hér eða sjást reglulega, kjói er varpfugl, fjallkjói er umferðarfugl og sjaldgæfur varpfugl og ískjói er umferðarfugl eða fargestur.

 

Útlit og atferli

Skúmur er einkennisfugl hinna miklu sanda sunnan- og suðaustanlands. Honum svipar til kjóa en er þó mun stærri og þreknari, minnir á stóran, dökkan, hálsstuttan máf. Kvenfugl er sjónarmun stærri en karlfugl. Skúmurinn er dökkbrúnn með ljósbryddum fjöðrum á höfði, hálsi, bringu og baki. Ljósir blettir framarlega á væng eru einkennandi á þöndum vængjum. Vængirnir eru breiðir og snubbóttir, stélið stutt og breitt, miðfjaðrir lítið eitt lengri. Ungfuglar eru dökkbrúnir og jafnlitir. Goggurinn er svartur og sterklegur, krókboginn fremst, fæturnir sterklegir og svartir og augun einnig svört.

Skúmurinn gefur frá sér gargandi kokhljóð eða hrjúft nefhljóð á varpstöðvum.

Skúmurinn er mjög kröftugur flugfugl og ótrúlega fimur þrátt fyrir þyngslalegan vöxt. Hann er árásargjarn við hreiður sitt og hikar ekki við að ráðast að fólki. Eitt af sérkennum skúms er að þegar hann lendir lyftir hann vængjunum og eru hvítu vængblettirnir þá áberandi. Jafnframt eru vænglyftur með opnum goggi merki um árásarhneigð. Skúmur er félagslyndur á varpstöðvum en fer oft einförum utan þeirra.

Skúmapar með unga í Ingólfshöfða.

Skúmshreiður á Skógasandi.

Lífshættir

Sandsíli er líklega aðalfæða skúms, en hann lifir annars á fjölbreyttri fæðu úr dýraríkinu. Hann er þekktur fyrir að leggja aðra sjófugla í einelti, svo sem fýla, svartfugla, máfa og jafnvel súlur, og þvinga þá til að sleppa eða æla æti sínu. Hann drepur einnig aðra fugla sér til matar, bæði fullorðna og unga, og fer einnig í fiskúrgang.

Skúmur verpur aðallega í dreifðum byggðum á sjávarmelum og grónum aurum jökuláa, en stundum í höfðum og eyjum. Hreiðrið er dæld í jörðina, oft án hreiðurefna. Eggin eru tvö, álegan tekur um fjórar vikur og ungarnir verða fleygir á 6–7 vikum.

Ógnandi skúmur í Öræfum.

Skúmurinn í ríki sínu, Öræfajökull fjær.

Útbreiðsla, stofnstærð og staða á válista

Skúmur er farfugl. Um ¾ hlutar stofnsins verpa á Skeiðarársandi, í Öræfum og á Breiðamerkursandi. Slæðingur verpur utan hefðbundinnar útbreiðslu, aðallega á NA-verðu landinu. Engin heildartalning hefur verið gerð á skúmastofninum síðan 1984–1985. Þá var stærð stofnsins metin 5400 pör. En síðan hefur skúmi fækkað mikið í langflestum byggðum og er hann nú á válista sem tegund í bráðri hættu (CR: Critically endangered), sem er efsti hættuflokkur sem lífvera nær, fyrir utan að vera útdauð. Þó eru til menn sem stugga við skúmnum, þar sem hann er að reyna að nema land á nýjum stöðum.

Skúmurinn er úthafsfugl utan varptíma og heldur sig á veturna á Norður-Atlantshafi suður að miðbaug. Utan Íslands verpur hann aðallega á skosku eyjunum, en einnig í Færeyjum, Noregi, Rússlandi og norrænum eyjum eins og Bjarnarey, Svalbarða, Jan Mayen og austur til Novaja Zemlya. Þrjár náskyldar tegundir verpa á suðurhveli jarðar og er talið að norðurhvelsskúmurinn sé upprunninn þar.

Þjóðtrú og sagnir

Lítil þjóðtrú fylgir skúminum. Hann átti að vísa á fisk, eins og gjarnt er um sjófugla, sérstaklega þótti hákarlaveiðimönnum lán af návist skúms.

Séð hef ég köttinn syngja á bók,
selinn spinna hör á rokk,
skötuna elta skinn í brók,.
skúminn prjóna smábandssokk.

Kunn öfugmælasvísa

Fullvaxinn skúmsungi í Ingólfshöfða.

Skúmur ógnar ljósmyndaranum í Öræfum.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson

Líffræðileg fjölbreytni

Líffræðileg fjölbreytni

Dagur líffræðilegrar fjölbreytni    

Fréttatilkynning frá Náttúruminjasafni Íslands í tilefni af 22. maí,
degi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni.

Náttúruminjasafn Íslands gerðist nýlega þátttakandi í alþjóðlegum samstarfsvettvangi til verndar líffræðilegri fjölbreytni, Global Coalition #UnitedforBiodiversity, og er safnið fyrsta stofnunin á Íslandi sem stígur það skref.

Þverþjóðlegt samstarf rannsókna- og fræðslustofnana um verndun líffræðilegrar fjölbreytni markar ný tímamót í viðbrögðum alþjóðasamfélagsins við þeim alvarlega vanda sem steðjar að mannkyni vegna ósjálfbærrar umgengni okkar við náttúruna. Þótt við séum fá hér á Íslandi getum við lagt margt gott til í öflugu samstarfi á sviði vísinda og fræðslu og með góðum fordæmum í sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda, þ.m.t. verndun hennar. Þátttaka Náttúruminjasafnsins í alþjóðlegu átaki til verndar líffræðilegri fjölbreytni verður vonandi til þess að hvetja aðrar stofnanir til dáða þannig að standa megi vörð um búsvæði og lífríki á Íslandi og á hnettinum öllum, segir Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminasafns Íslands.

Meiri ógn steðjar að líffræðilegri fjölbreytni en nokkru sinni á okkar tímum og telja vísindamenn að vegna athafna mannsins sé allt að ein milljón tegunda nú í útrýmingarhættu í heiminum. Þessu til viðbótar er fjölbreytni innan tegunda og þeir ferlar sem stýra og viðhalda líffræðilegri fjölbreytni í hættu vegna eyðingar búsvæða og vistkerfa. Náttúruminjasafn Íslands er stolt af þátttöku í þessu verkefni ásamt ríflega 200 stofnunum og samtökum um allan heim sem hafa skuldbundið sig til að vernda fjölbreytileika lífríkis á jörðinni.

Virginijus Sinkevicius framkvæmdastjóri Evrópusambandsins á sviði umhverfismála ýtti á árinu 2020 úr vör heimsátaki sem nefnist „Samstaða um líffræðilega fjölbreytni“. Var það í aðdraganda CoP 15 fundar Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni sem Kína mun hýsa í október n.k. þar sem áætlanir um vernd líffræðilegrar fjölbreytni á næsta áratug verða samþykktar. Hvatt er til þess að dýragarðar, grasagarðar, rannsóknastofnanir, háskólar, sædýra- og vatnalífsgarðar og söfn taki upp hanskann fyrir náttúruna og skori á leiðtoga og ráðamenn til að setja metnaðarfull markmið sem veita líffræðilegri fjölbreytni raunverulega vernd á hnattræna vísu.

„Grasagarðar heimsins, dýragarðar, almenningsgarðar, söfn, rannsóknastofnanir, sædýra- og vatnalífsgarðar sýna okkur berlega hvað það er sem við þurfum að vernda og koma aftur í samt lag. Við verðum án tafar að grípa til aðgerða á öllum sviðum og stigum, á heimavelli jafnt og á heimsvísu, ella verða þetta einu staðirnir þar sem við getum upplifað náttúruna. Þá væri mannkyn komið í þrot. Það er kominn tími til að við endurtengjum okkur við náttúruna.“  – Virginijus Sinkevičius

Líffræðileg fjölbreytni á Íslandi og einstök vistkerfi

Líffræðileg fjölbreytni og búsvæði á Íslandi eru einstök og helgast það einkum af landfræðilegri legu og einangrun landsins í Norður-Atlantshafi, ungum jarðfræðilegum aldri og mikilli eldvirkni. Vegna þess að aðeins eru liðin um tíu þúsund ár frá síðasta jökulskeiði, býr Ísland yfir ungum búsvæðum og kviku lífríki. Hér eru tiltölulega fáar tegundir ef miðað er við nágrannalöndin, en fjölbreytt búsvæði, einkum í tengslum við eldvirku beltin og ferskvatn. Þessar einstöku aðstæður veita lífverum óvenjuleg tækifæri sem kalla á sérhæfingu og sérstaka aðlögun. Ísland og hafið umhverfis landið er einnig heimkynni stórra stofna fugla, fiska og sjávarspendýra, bæði staðbundinna sem og far- og umferðartegunda, sem treysta á heilbrigða starfsemi vistkerfa í þessum norðlæga heimshluta.

Náttúruminjasafn Íslands og fjölbreytni náttúrunnar

Á Náttúruminjasafni Íslands eru stundaðar rannsóknir og miðlun upplýsinga um líffræðilega fjölbreytni á Íslandi. Lögð er áhersla á að greina, skrásetja, skilja og miðla upplýsingum um ferlana sem skapa og viðhalda líffræðilegri fjölbreytni á Íslandi og hvernig þessir ferlar valda óvenju mikilli fjölbreytni innan tegunda. Þekkt dæmi um þetta er bleikjan (Salvelinus alpinus) í Þingvallavatni en þar hafa fjögur mjög ólík afbrigði þróast og nýtir hvert afbrigði sér mismunandi fæðu og búsvæði í vatninu. Með því að skrásetja og rannsaka þennan breytileika getum við öðlast skilning á því hvernig nýjar tegundir myndast og hvaða áhrif líffræðilegur breytileiki innan tegundar hefur á starfsemi vistkerfa.

Rannsóknir Náttúruminjasafnsins og samstarfsaðila munu efla og stuðla að alhliða þekkingu á líffræðilegri fjölbreytni á Íslandi. Náttúruminjasafnið stefnir einnig að því að tryggja að niðurstöðum rannsóknanna verði miðlað og þær gerðar aðgengilegar almenningi, skólakerfinu og þeim sem koma að skipulagningu og stefnumótun um nýtingu náttúrunnar, þ.m.t. verndun.

Með undirritun áskorunar Alþjóða samstöðu um verndun líffræðilegrar fjölbreytni #UnitedforBiodiversity skuldbindur Náttúruminjasafn Íslands sig til að vernda líffræðilega fjölbreytni bæði á Íslandi og hnattrænt. Náttúruminjasafn Íslands skorar á allar stofnanir á Íslandi og um heim allan að taka þátt í þessu brýna verkefni.

Frekari upplýsingar um átakið Global Coalition #UnitedforBiodiversity og hvernig taka má þátt í því er að finna á vefsetrinu:

https://ec.europa.eu/environment/nature/biodiversity/coalition/index_en.htm