… að vatn er í eilífri hringrás – það gufar upp af sjó og landi, myndar ský sem berast um allan heim í veðrahvolfinu og senda frá sér rigningu, slyddu eða snjókomu og hagl. Á íslensku eru til ótal orð yfir ský. Á meðal þeirra eru: gefja, gegnsær, geisli, glitský, gluggaþykkni, gráblika og gullský.

… að lindár, dragár og jökulár hafa hver sín ólíku einkenni. Lindár renna jafnt allt árið, rennsli dragáa fylgir úrkomu og lofthita og jökulárnar bólgna í takt við jökulleysingu á sumrin og hlaupa sumar reglulega vegna eldsumbrota undir jökli.

… að um miðja síðustu öld var nær helmingur votlendis á Íslandi ræstur fram og tún ræktuð í staðinn? Nú vilja menn endurheimta votlendi í þeim tilgangi að draga úr losun koltvíoxíðs og loftslagsbreytingum. Í votlendi er fjölbreytt líf smádýra, fugla og plantna.

Opnun nýrrar sérsýningar

Opnun nýrrar sérsýningar

Náttúruminjasafn Íslands opnar sérsýninguna Rostungurinn 14. mars n.k. í Perlunni. Vegna COVID-19 faraldursins verður ekki boðið til opnunar sýningarinnar sem er opin alla daga milli kl. 9 og 22 og stendur til 8. nóvember 2020.

Nýleg rannsókn, sem Náttúruminjasafn Íslands átti frumkvæði að og vann með Háskóla Íslands, Fornleifafræðistofunni, Ævari Petersen, Háskólanum í Kaupmannahöfn og Háskólanum í Groningen, varpar alveg nýju ljósi á tilvist rostunga til forna við Ísland. Með C-14 aldursgreiningu og erfðagreiningu á beinaleifum rostunga frá Íslandi hefur í fyrsta skipti verið staðfest að hér á landi lifði sérstakur íslenskur rostungsstofn í nokkur þúsund ár, allt fram til 800–1200 e.Kr., þegar hann leið undir lok. Á sýningunni er þessum merkilegu niðurstöðum gerð skil og fléttað saman við umfjöllun um líffræði rostunga almennt og útbreiðslu í dag, sem og við nytjar af rostungum til forna og hugsanlegum þætti þeirra í landnámi Íslands.

Sýningin er unnin í samstarfi við m.a. Bjarna F. Einarsson fornleifafræðing, Bergsvein Birgisson bókmennta- og norrænufræðing og Snæbjörn Pálsson, prófessor og stofnerfðafræðing.  Sýningarhönnun: Visionis, Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir og Ingibjörg Jara Sigurðardóttir.

Náttúruminjasafnið tekur þátt í Safnanótt

Náttúruminjasafnið tekur þátt í Safnanótt

Safnanótt verður haldin föstudaginn 7. febrúar frá kl. 18 – 23 og er hluti af Vetrarhátíð. Náttúruminjasafnið tekur að sjálfsögðu þátt í viðburðinum og munu vísindamenn og safnkennarar taka á móti gestum á sýningu okkar Vatnið í náttúru Íslands í Perlunni.  Sýningin fjallar um vatn í öllum sínum myndum, um fjölbreytileik vatnsauðlindarinnar, lífríkið sem í vatninu býr, vistþjónustu vatns og hlutverk þess við mótun lands og myndun. Miðlun efnis er sérstaklega sniðin að yngri kynslóðinni. Safnkennarar og vísindamenn taka á móti gestum og miðla fræðslu og spjalla um þessa dásamlegu auðlind. Hægt verður að sulla í vatnsborði, skoða vatnabjöllur, uppgötva hvernig vatnsþrýstingur virkar og margt fleira.