Dvergmáfur

Dvergmáfur

Fullorðinn dvergmáfur á Stokkseyri.

Dvergmáfur (Hydrocoloeus minutus)

Útlit og atferli

Dvergmáfur líkist hettumáfi en er mun minni. Fullorðnir fuglar eru með ljósgráan yfirvæng og svartan undirvæng með hvítum afturjaðri, vængir eru styttri og ávalari en á hettumáfi. Hann er með dökka hettu í sumarbúningi, á veturna með svartan koll og svartar hlustarþökur. Á sumrin bregður fyrir bleikum lit á kviði, sem hverfur á veturna. Ungfuglar eru með svarta bekki á baki og yfirvæng líkt og rita. Fætur eru rauðleitir og goggur dökkur.

Flýgur með hröðum vængjatökum, fluglag er oft reikult og ójafnt og minnir á fluglag kríu. Á fullorðnum fuglum bregður til skiptis fyrir ljósgráum yfirvæng og svörtum undirvæng, þetta einkenni sést oft á löngu færi.

Ársgamall dvergmáfur á Bakkatjörn, Seltjarnarnesi.

Ársgamall dvergmáfur á Bakkatjörn, Seltjarnarnesi.

Lífshættir

Þeir dvergmáfar sem hafa fundist í varpi hér hafa undantekningalaust verið í hettumáfsvörpum í votlendi, mýrum eða jöðrum stöðuvatna og tjarna. Eggin eru 2-3, þau klekjast á þremur vikum og ungarnir verða fleygir á um fjórum vikum. Dvergmáfurinn er dýraæta og veiðir gjarnan á flugi yfir vatni, svipað og þernur.

Útbreiðsla og ferðir

Dvergmáfur er árviss hérlendis og fer honum fjölgandi, er það er í samræmi við útbreiðsluaukningu hans til vesturs á síðustu áratugum, hann verpur nú m.a. í Svíþjóð, Noregi (fyrst 1976), Írlandi og Skotlandi. Hefðbundnar varpstöðvar hans eru annars frá Eystrasalti og gloppótt austur um Evrópu og Asíu allt að Kyrrahafi. Auk þess verpur hann í Hollandi og eitthvað við vötnin miklu og Hudsonflóa í Kanada og víðar í N-Ameríku. Amerísku vörp eru þó stopul og er uppruni fuglanna óviss.

Hérlendis sést hann á öllum tímum árs, einna helst snemma sumars, í maí og júní, í hettumáfsvörpum. Hann hefur sést í öllum landshlutum, oftast þó við Faxaflóa, í Þingeyjarsýslum og á Höfn. Dvergmáfar hafa sést næstum árlega í hettumáfsvörpum á varptíma í Mývatnssveit frá 2003. Par kom upp tveimur ungum 2008 og hreiður fannst 2011. Hann verpur þar sennilega árlega. Síðan hefur varp verið staðfest víðar í Þingeyjarsýslum og á Snæfellsnesi. Utan varptíma sést hann gjarnan við strandvötn eða í fjörum. Það bendir því margt til þess að dvergmáfur fari senn að teljast til fullgildra íslenskra varpfugla.

Fullorðinn dvergmáfur á Stokkseyri.

Fullorðinn og ársgamall dvergmáfur á Stokkseyri.

Ársgamall dvergmáfur á Stokkseyri.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson
Barrfinka

Barrfinka

Barrfinkukarl að næra sig á barrfræi.

Barrfinka (Spinus spinus)

Með aukinni skógrækt hefur þeim skógarfuglum fjölgað, sem hafa orpið hér. Fuglaskoðun hefur og aukist og grannt er fylgst með mörgum trjáræktarreitum, þar sem sjaldgæfir fuglar hafa reynt varp. Hin torsótta farleið til og frá landinu, 800 km yfir opið haf, veldur því m.a. að litlir stofnar farfugla eiga erfitt uppdráttar. Það eru vafalaust mikil afföll í hafi af þeim fuglum sem ekki geta sest á sjó til að hvíla sig, eins og spörfuglum og smávöxnum vaðfuglum, enda eru stofnar gamalgróinna íslenskra farfugla í smærri kantinum stórir og sterkir og þola því nokkur afföll. Þeir fuglar sem hafa numið hér land undanfarin hundrað ár eða svo og eru jafnframt farfuglar, eru aðallega sundfuglar og geta sest á sjó. En flestir landnemar eru staðfuglar.

Útlit og atferli

Barrfinka líkist auðnutittlingi, karlfuglinn er skrautlegur, grængulur með svarta kollhettu, gul vængbelti í dökkum vængjum og gula stélreiti, kvenfuglinn er litdaufari en þó með svipað væng- og stélmynstur. Ungfuglar líkjast kvenfugli. Goggur er dökkur eða gráleitur, fætur sömuleiðis.

Barrfinkukarl.

Barrfinkukerla í sólblómafræi á Selfossi.

Lífshættir

Barrfinkan gerir sér hreiður í trjám, það er fínlega ofið og fóðrað, svipað og hjá auðnutittlingi. Eggin eru 3-5, kvenfuglinn klekur þeim á 12-13 dögum og verða ungarnir fleygir á 13-15 dögum. Varptíminn í Evrópu er frá því í mars fram í ágúst og ræðst hann af fæðuframboði. Fæða barrfinku er einkum fræ af barrtrjám, en hún tekur einnig önnur fræ, svo og brum og skordýr. Barrfinkur eiga það til að koma í fóður þar sem fuglum er gefið, einkanlega sólblómafræ.

Útbreiðsla og stofnstærð

Barrfinka var lengi árlegur flækingur sem sást á haustin, frá miðjum september fram eftir október og á vorin, frá apríllokum fram í júní. Barrfinkur urpu í grenilundum á Suðurlandi 1994-1997 og aftur 2001. Haustið 2007 komu óvenjumargar barrfinkur til landsins, lítið bar þó á þeim um veturinn, en sumarið 2008 urpu þær víða um sunnan og austanvert landið. Síðan er vitað um eitt eða örfá varptilvik á hverju ári og er barrfinkan líklega orðinn reglulegur varpfugl hér á landi, einkum í barrskógum og lundum á Suður- og Suðvesturlandi, m.a. í Reykjavík og nágrenni, en hún hefur einnig fundist á Norður- og Austurlandi. Talið er að barrfinkan sé staðfugl hér, en hún er farfugl á norðlægum slóðum og hafa þeir fuglar sem hingað rata vafalaust lent í hrakningum á farflugi. Barrfinkur eiga einnig til að leggjast á flakk, ef lítið er um fæðu, eins og títt er með krossnef og silkitoppu. Annars er barrfinkan varpfugl í barrskógum Evrópu og Austur-Asíu, en eyða er í útbreiðslunni um miðbik síðarnefndu álfunnar.

Barrfinkupar á fóðurstauki, kerlan til vinstri, karlinn til hægri.

Barrfinkukarl á fóðurstauki.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson
Náttúruminjasafnið og verkefnið FishFAR

Náttúruminjasafnið og verkefnið FishFAR

FishFAR

verkefni um áhrif loftslagsbreytinga í litlum vötnum

Náttúruminjasafnið tekur þátt í samstarfsverkefni með Háskólanum á Hólum, Tjóðsavninu í Færeyjum og Háskólanum í Kaupmannahöfn. Verkefnið heitir FishFAR og gengur út á kanna áhrif loftslagsbreytinga á samfélög og vistfræði ferskvatnsfiska í litlum vötnum en sömu vötn voru heimsótt árið 2000 í verkefni sem kallast NORLAKE. Ásamt því að skoða tegundasamsetningu fiska þá verður einnig gerð athugun á umhverfisbreytum, svifdýrasamfélögum og botndýrasamfélögum vatnanna. Með því að bera saman niðurstöður úr þessum tveimur verkefnum má sjá breytingar síðustu 20 ára.

Verkefninu er stýrt af Camille Leblanc, dósent við Háskólann á Hólum og Dr. Agnesi-Katharinu Kreiling við Tjóðsavnið í Færeyjum.

Aðrir þátttakendur í verkefninu eru prófessor Bjarni K. Kristjánsson (Háskólinn á Hólum), Kári Heiðar Árnason (Háskólinn á Hólum), prófessor Kirsten S. Christoffersen (Háskólinn í Kaupmannahöfn), Leivur Janus Hansen (Tjóðsavnið), Dr. Hilmar J. Malmquist (Náttúruminjasafn Íslands) og Dr. Ragnhildur Guðmundsdóttir (Náttúruminjasafn Íslands).

Færeyska sjónvarpið fjallaði um rannsóknina og má sjá fréttina hér: https://kvf.fo/netvarp/sv/2022/08/09/granskingarferd-i-foroyskum-votnum.

Hægt er að fræðast frekar um verkefnið á síðu þess hjá Tjóðsavninu: https://www.tjodsavnid.fo/landdjoradeild/fishfar.

Verkefnið er styrkt af Færeyska rannsóknarsjóðnum, Granskingarráðið https://www.gransking.fo/.

Leiðangursstjórinn Camille Leblanc tekur upp net úr Saksunarvatni.

Urriði úr Toftavatni.

Fjallkjói

Fjallkjói

Tveggja ára fjallkjói á Skjálfanda.

Fjallkjói (Stercorarius longicaudus)

Fjallkjói líkist ljósum kjóa, en er minni og nettari, með afar langar miðfjaðrir í stéli. Bak og yfirvængir eru grábrún, ljósari en á ljósum kjóa, vængendar dökkir, án hvítra vængskella kjóans. Svört kollhetta sker sig greinilega frá annars ljósu höfði, hálsi og bringu. Dökkt litarafbrigði er afar fátítt. Ungar eru svipaðir kjóum. Ískjói er annar hánorrænn kjói sem fer hér um bæði vor og haust á leið milli varpstöðva á túndrunni allt í kringum N-Íshafið og vetrarstöðva suður í höfum. Ískjói er heldur stærri og þreknari en kjói, minnir jafnvel á skúm á flugi og eru miðfjaðrir stéls langar, undnar og með ávalan enda.

Ískjói við Hafnarberg hjá Þorlákshöfn.

Fullorðinn fjallkjói á varpstað á Norðurlandi.

Lífshættir

Kjörfæða fjallkjóa í upprunalegum heimskynnum sínum eru læmingjar. Hér lifir hann á svipaðri fæðu og kjóinn, smáum fuglum, fuglsungum, eggjum, skordýrum og berjum. Sjálfsagt hagamúsum líka. Fjallkjói hefur þó ekki orðið uppvís af því að ræna aðra fugla æti eins og kjóinn.

Varpkjörlendi fjallkjóa hér á landi er mólendi fjarri sjó. Eggin eru tvö, þau klekjast á 24 dögum og ungarnir verða fleygir á 25-30 dögum. Varptíminn er í júní og flugtími unga seinni partinn í júlí eða byrjun ágúst.

Fullorðinn fjallkjói á varpstað á Norðurlandi.

Fullorðinn fjallkjói á varpstað á Norðurlandi.

Útbreiðsla og stofnstærð

Hánorrænn fugl sem fer hér um vor og haust á leið milli varpstöðva og vetrarstöðva. Fjallkjói sést frá byrjun maí fram í miðjan október, tíðastur um mánaðamótin maí/júní og í ágúst, hefur fundist um allt land sem og á hafinu umhverfis. Varp var staðfest á Norðurlandi 2003, en fuglar höfðu sést þar um árabil og lék sterkur grunur um varp. Þeir hafa orpið þar síðan og hafa einnig fundist verpandi á Strandahálendinu.

Fjallkjói sést oftar inn til landsins en ískjói, jafnvel í miðhálendinu og gætu það ef til vill verið varpfuglar á ferð. Fjallkjói verpur aðallega á freðmýrabeltinu allt í kringum norðurskautið og hefur meiri útbreiðslu en ískjói. Næst okkur verpa fjallkjóar á Grænlandi og upp til fjalla í Skandinavíu. Stofninn sveiflast þar í takt við hinar þekktu sveiflur í læmingjastofninum. Vetrarstöðvar fjallkjóa eru m.a. í sunnanverðu Atlantshafi og Suður-Íshafi.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson
Grafönd

Grafönd

Grafandarsteggur í Hafnarfirði.

Grafönd (Anas acuta)

Graföndin er grannvaxin og hálslöng votlendisönd og oftast auðgreind á löguninni. Í fjarlægð virðist karlfuglinn, steggurinn, grár með hvíta bringu og dökkt höfuð. Höfuðið er kaffibrúnt, sem og kverk og afturháls. Framháls, bringa og kviður eru hvít og hvítar rákir á hálshliðum teygja sig upp til höfuðsins. Hann er gráyrjóttur á hliðum, og að ofan á baki, vængþökum og gumpi. Undirgumpur er svartur og stél hvítt og svart með löngum svörtum miðfjöðrum, axlafjaðrir langar og svartar með hvítum jöðrum. Vængspegill er grængljáandi með brúnan framjaðar og hvítan afturjaðar. Í felubúningi síðsumars, þegar hann er ófleygur og í fjaðraskiptum, er steggurinn svipaður kollunni en grárri að ofan. Kvenfuglinn, kollan, er svipuð öðrum buslandakollum en ljósari og grárri, grennri, með lengri háls og oddhvasst stél. Kviður er hvítur og vængspeglar eins og á stegg en brúnni og dauflitari. Kollurnar gefa frá sér djúpt garg, steggirnir lágt blístur, en yfirleitt er fuglinn þögull.

Goggur er blágrár, á stegg með svartan mæni og nögl, og fætur einnig. Augu eru brún.

Flug grafandar er kraftmikið með tíðum vængjatökum, vængir grannir og oddhvassir. Hún flýtur vel á vatni og á auðvelt með gang. Sést venjulega í pörum eða litlum hópum, oft með öðrum buslöndum. Er fremur stygg, hegðar sér líkar rauðhöfða en stokkönd.

Grafandarkolla á flugi í Friðlandi Fuglaverndar í Flóa.

Grafandarpar við Núpa í Ölfusi.

Lífshættir

Graföndin etur fjölbreytt úrval jurtafæðu; fræ, jarðstöngla og rótarhnýði. Tekur jafnframt dýrafæðu í einhverjum mæli og er hún aðalfæða unganna. Hálfkafar eða stingur haus og hálsi undir yfirborð.

Kjörlendi grafandar er blautar flæðimýrar, fen og lífrík vötn og tjarnir með aðliggjandi mýrum. Hún verpur í móum og mýrum, hreiðrið er venjulega opnara en hjá öðrum buslöndum en annars svipað að gerð. Urptin er 7-9 egg, álegan tekur 22-24 daga og ungarnir verða fleygir á 40-50 dögum.

Stofnstærð og útbreiðsla

Grafönd verpur dreift um land allt, en er algengust á Norðurlandi og Úthéraði. Stofnstærðin er talin vera um 500 pör. Þekktir eru nokkrir hausthópar, meðal annars í Öxarfirði og á Úthéraði, allt að nokkur hundruð fuglar hafa sést þar. Á Mývatni hafa sést 70 steggir að vorlagi. Grafönd er alfriðuð og á válista sem fugl í yfirvofandi hættu (NT), aðallega vegna stofnsmæðar hér.

Graföndin er farfugl. Vetrarstöðvar eru víða um vestanverða Evrópu, austan frá Finnlandi og suður til Spánar og Ítalíu, en flestar hafa vetursetu á Bretlandseyjum og frá Bretagne-skaga til Þýskalands. Stöku fuglar sjást flesta vetur á Suðvesturlandi. Graföndin er útbreiddur varpfugl á norðurhveli jarðar.

Grafandarpar á Djúpavogi.

Grafandarhreiður í Biskupstungum.

Þjóðtrú og sagnir

Graföndin hefur ekki skipað sér neinn sérstakan sess í íslenskri þjóðtrú, enda er hún fremur sjaldgæf. Íslensk þjóðtrú fjallar almennt lítið um endur. Þær eru taldar veðurvitar og hér hefur borið við, að þær finni á sér eldsumbrot eða jarðhræringar.

Nær fullvaxnir grafandarungar í Friðlandi Fuglaverndar í Flóa.

Tveir grafandarsteggir að elta kollu á Djúpavogi.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson