Ævisaga Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings komin út

Ævisaga Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings komin út

Sigurður Þórarinsson - Mynd af manni I-II

Náttúruminjasafnið kynnir með miklu stolti ritverk Sigrúnar Helgadóttur, ævisögu Sigurðar Þórarinssonar, eins kunnasta vísindamanns Íslendinga fyrr og síðar. Sigurður hlaut alþjóðlega athygli og ekki síst fyrir að þróa sérstaka fræðigrein, öskulagafræði. Hann gjörþekkti landið, eldgosin, jöklana og jarðlögin en líka sögu og menningu og glæddi áhuga og þekkingu þjóðarinnar á náttúru landsins og mikilvægi náttúruverndar. Sigurður var einnig vinsælt söngvaskáld og margir texta hans eru enn sungnir eins og til að mynd Vorkvöld í Reykjavík.

Höfundur bókarinnar er Sigrún Helgadóttir, kennari, líffræðingur og rithöfundur sem sérhæft hefur sig í náttúruvernd og umhverfismennt. Eftir hana liggja bækur um þjóðgarðana í Jökulsárgljúfrum og Þingvöllum auk margra fleiri rita. Náttúruminjasafnið gefur verkið út en hægt verður að kaupa það í öllum helstu bókabúðum landsins sem og í gegnum vefsíðu Pappýrs á pappyr.com.

Sigrún Helgadóttir ávarpaði gesti og sagði frá ritun ævisögunnar. 
Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands, afhenti Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, eintak bókarinnar og höfundinum, Sigrúnu Helgadóttur, veglegan blómvönd. 
Sigrún og Lilja ráðherra með öskjuna góðu sem inniheldur tvö bindi ævisögu Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings: Mynd af manni. 
Það var við hæfi að halda útgáfuhófið á Háskólasvæðinu, vöggu jarðfræða á Íslandi – á Háskólatorgi, einmitt á þeim stað sem til stóð að reisa Náttúruminjasafn 1954. 

Skeiðönd

Skeiðönd

Skeiðönd (Spatula clypeata)


Útlit og atferli

Þessi sérkennilega önd, með sinn mikla gogg, er sjaldgæfasta öndin sem verpur reglulega hér á landi. Skeiðönd er buslönd og minni en stokkönd, hún er hálsstutt og fremur kubbsleg. Á steggnum skiptast á dökkir litir og hvítur, hann er með grængljáandi höfuð og háls, hvítur á bringu og teygir hvíti liturinn sig um axlafjaðrir aftur á undirgump. Hann hefur svart bak, gump og svart, ljósjaðrað stél, hvítar og svartar axlafjaðrir og rauðbrúnar síður og kvið. Í felubúningi er steggur svipaður kollu en dekkri að ofan með ljósari reiti á framvængjum. Bæði kyn eru með dökkgrænan spegil og ljósbláan reit á framvæng (vængþökum) og hvíta rák þar á milli. Kollan er svipuð öðrum buslandakollum, verður best greind á miklum goggi, ljósgulbrúnum eða bleikleitum fjaðrajöðrum og vængmynstri, sem er daufara en á steggi.

Goggur skeiðandar er langur, breiður og spaðalaga, dökkgrár á stegg en á kollu er hann gráleitur með rauðgulum skoltröndum. Fætur eru rauðgulir og augu gul eða brún. Skeiðöndin gefur frá sér lágvært kvak en er venjulega þögul.

Vegna hins stóra goggs virðist hún framþung á flugi. Hún er djúpsynd og veit goggurinn niður á sundi. Hún síar æti úr leðju með framrétt höfuð en hálfkafar einnig. Er fremur stygg. Fuglarnir eru venjulega stakir, í pörum eða litlum hópum.

Skeiðandarsteggur á Djúpavogi.

Skeiðandarpar snyrtir sig á Kálfstjörn í Mývatnssveit.

Skeiðandarkolla á flugi við Víkingavatn í Kelduhverfi.

Skeiðandarkolla á Bakkatjörn á Seltjarnarnesi.

Lífshættir

Skeiðönd hefur nokkuð aðra fæðuhætti en aðrar buslendur, notar stórgerðan gogginn til að sía fæðu á grunnu vatni eða úr leðju, hálfkafar einnig.  Fæðan er sviflæg krabbadýr, lítil skeldýr, skordýr og skordýralirfur, fræ og plöntuleifar.

Kjörlendi skeiðandar er lífríkt votlendi og seftjarnir, venjulega nærri ströndinni. Hreiðrið er í háum gróðri, oftast nærri vatni, gert úr grasi og stör og fóðrað með dúni. Urptin er venjulega 9-11 egg, álegan er um 22-23 dagar og ungarnir verða fleygir á um 6 vikum.

Útbreiðsla og stofnstærð

Skeiðönd er fremur nýr varpfugl hérlendis, hún var áður þekkt sem sjaldgæfur flækingur. Hún er talin hafa orpið í Borgarfirði 1911 og næstu ár, en varp sannaðist fyrst í Aðaldal 1931. Hún verpur á fáeinum lífríkum votlendissvæðum í flestum landshlutum en er algengust á Norður- og Norðausturlandi, t.d. við Mývatn og Víkingavatn. Varpstofninn er talinn vera 50-100 pör. Skeiðendur sjást oft á strandvötnum á Suðvesturlandi á fartíma. Skeiðönd er alfriðuð og á válista sem tegund í nokkurri hættu (VU).

Skeiðönd er farfugl, vetrarstöðvar eru taldar vera á Bretlandseyjum. Heimkynni eru víða um norðurhvel, bæði austanhafs og vestan, næstum hringinn í kringum jörðina nema vantar í austanverðri Norður-Ameríku. Er hér á norðurmörkum útbreiðslu sinnar í Evrópu.

Engin þjóðtrú hefur skapast um svo nýjan og sjaldgæfan varpfugl og að sama skapi hafa skáld sniðgengið hana í verkum sínum.

Skeiðandarhreiður við Víkingavatn.

Skeiðandarpar á Djúpavogi.

Stálpaðir skeiðandarungar á Fýluvogi við Djúpavog.

Skeiðandarpar á Djúpavogi.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson

Leðurblökur

Leðurblökur

Leðurblökur

Í Síðdegisútvarpinu í RÚV í seinustu viku var fjallað um áhugaverðan fund leðurblöku sem fannst síðastliðinn mánudag dauð við heimili Ólöfu Ástu Skúladóttur í Hvalfirði. Bendir flest til að leðurblakan hafi verið lifandi skömmu áður en hún fannst.  

Fundur leðurblökunnar er mjög áhugaverður að mörgu leyti. Þessi fljúgandi spendýr eru mjög sjaldgæfir flækingar á Íslandi. Á síðustu tvö hundruð árum eða svo, eða síðan fyrsta heimildin um fund leðurblöku á Íslandi var færð til bókar árið 1817, eru þekkt aðeins rúmlega 40 tilfelli, eða að jafnaði um eitt dýr á fimm ára fresti. Tíðni heimsókna þessara dýra virðist hafa aukist á síðustu 10–20 árum, t.d. voru skráð 12 tilfelli á árunum 2000–2009.

Trítilblaka (Pipistrellus nathusii) er algengasti flækingur leðurblaka á Íslandi.

Ekki er vitað með vissu um ástæður fyrir fjölgun heimsókna leðurblakanna loftslagsbreytingar og hlýnun hafa verið nefndar, auk tíðari skipakoma til landsins, en flestir fundir leðurblaka hafa verið á SV-horni landsins, einkanlega um borð í vöruflutningaskipum og gámum í höfnum. Talið er að þær geti einnig borist hingað fljúgandi af eigin rammleik en margar tegundirnar eru mikil fardýr og ferðast árlega langar leiðir milli landshluta.  

Alls er um átta tegundir af leðurblökum að ræða sem fundist hafa á Íslandi (Ævar Petersen o.fl. 2014, nmsi.is). Algengastar eru trítilblaka (Pipistrellus nathusii) og hrímblaka (Lasiurus cinereus). Trítilblaka á heima á meginlandi Evrópu og hún er lítil, búkurinn tæpir 5 cm og vænghafið um 25 cm. Aðalheimkynni hrímblöku eru um miðbik Ameríku þar sem hún er mjög algeng. Hún telst stór, búkurinn er 12-15 cm og vænghafið nær 40 cm. Báðar þessar leðurblökur eru skordýraætur. 

Ekki er enn vitað hvaða tegund leðurblakan sem fannst í Hvalfirði tilheyrir og er verið að rannsaka hana. En fundur leðurblökunnar er athyglisverður í tengslum við kórónuveirufaraldurinn sem hrjáir Íslendinga og alla heimsbyggðina. Leðurblökur eru nefnilega vel þekktir hýslar fyrir óvenjumargar veirutegundir sem valda sjúkdómum í mönnum, þ.m.t. kórónuveirur. Ein flækingstegundin hér á landi (Eptesicus fuscus) er þekktur hýsill SARS-CoV veiru í N-Ameríku (Emerg Infect Dis. 2007 Sep; 13(9): 1295–1300. doi: 10.3201/eid1309.070491). Þessi tegund hefur reyndar aðeins slæðst hingað einu sinni, einstaklingur sem fannst í bananagámi sem kom frá S-Ameríku. Ekki er vitað með vissu um fleiri flækingstegundir leðurblaka hér á landi sem bera með sér kórónuveirusmit. Tegundin Myotis occultus frá N-Ameríku er einnig þekktur hýsill SARS-CoV veiru, en sú tegund hefur ekki fundist hér á landi enda þótt frænkur hennar tvær, M. lucifugus og M. septentrionalis, hafi flækst hingað lifandi með skipi. 

Vegna smithættu ber að forðast beina snertingu við leðurblökur og gera viðeigandi aðilum viðvart, Náttúrufræðistofnun Íslands eða Matvælastofnun Íslands.  

Heimildir/Ítarefni: 

Fróðleikur um fljæugandi spendýr á vef Náttúruminjasafnsins: https://nmsi.is/2014/08/ 

Dr. Hilmar J. Malmquist forstöðumaður. Lifað með veirumNáttúra kórónuveira –veirur í sýningahaldi. Erindi á „HaustVorfundi“ höfuðsafnanna. Safnahúsinu. 17. september 2020. 

Glæra nr. 9 og 10. https://nmsi.is/wp-content/uploads/2020/09/Lifad-med-veirum_Hilmar-J.-Malmquist_NMSI_17.09.2020.pdf 

Grein um flækingsleðurblökur á Íslandi og NE-Atlantshafi. o og norðanverðu  

Ævar Petersen o.fl. 2014. Acta Chiropterologica, 16(1):169-195 (2014). https://doi.org/10.3161/150811014X683381 

A Review of the Occurrence of Bats (Chiroptera) on Islands in the North East Atlantic and on North Sea Installations. Aevar Petersen, Jens-Kjeld Jensen, Paulina Jenkins, Dorete Bloch, Finnur Ingimarsson. 

Grein um leðurblökur og kórónuveirur í N-Ameríku: 

Samuel R. Dominguez, Thomas J. O’Shea, Lauren M. Oko and Kathryn V. Holmes. 2007. Detection of Group 1 Coronaviruses in Bats in North America. 

https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC2857301/ 

 Ævar Petersen. 1994. Leðurblökur á Íslandi. Náttúrufræðingurinn 64: 3–12. 

 Ævar Petersen. 1993. Leðurblökukomur til Íslands. Bls. 347–351. Í: Villt íslensk spendýr (Páll Hersteinsson og Guðmundur Sigbjarnarson ritstjórar). Hið íslenska náttúrufræðifélag og Landvernd, Reykjavík. 

 Finnur Guðmundsson. 1957. Leðurblaka handsömuð í Selvogi. Náttúrufræðingurinn 27: 143–144. 

Súla

Súla

Súla (Morus bassanus)


Súlan telst til súluættar og var lengi talin til árfætla eða pelíkanfugla (Pelicaniformes), þeir draga nafn sitt af því að fuglarnir hafa sundfit milli allra fjögurra tánna (auk súlu tilheyra díla- og toppskarfur ættbálknum hér á landi). En með nútíma DNA tækni hefur allri flokkunarfræði verið umbylt. Höfundur treystir sér ekki til að fara nánar útí þá sálma hér.

Útlit og atferli

Súla er stór, ljós og rennilegur sjófugl. Fullorðin súla er nær alhvít, með gulleitan haus, sem lýsist á veturna, og svarta vængenda. Vængir eru langir, oddmjóir og stélið fleyglaga. Kynin eru eins. Ungfugl er margbreytilegur að lit en þó alltaf auðþekktur á stærð, lögun og hegðun frá öðrum sjófuglum. Nýfleygir ungar eru aldökkir með ljósum dílum, en lýsast smám saman þangað til þeir skrýðast fullorðinsbúningi fjögurra ára gamlir. Þeir byrja að lýsast að neðan, svo á höfði, hálsi og bringu, síðan á vængjum og síðast armflugfjöðrum og stéli.

Goggur er súlunnar er langur, oddhvass og blágrár að lit. Fætur grásvartir með ljósgrænum langröndum. Augu ljósblágrá með kóbaltbláum augnhring. Fiðurlaus húð er umhverfis augu að goggi.

Súlan er oft nefnd drottning Atlantshafsins vegna þess hve tíguleg hún er. Er venjulega félagslynd og flýgur oft í litlum hópum lágt yfir haffleti. Flugið er kraftmikið með djúpum vængjatökum, brotið upp af svifflugi með lítið eitt aftursveigðum vængjum. Er fremur létt á sundi.

Gefur frá sér rám, geltandi hljóð á varpstöðvum.

Súluhreiður í Skrúðnum.

Súluvarpið í Karli við Skoruvíkurbjarg.

Súlur á flugi við Garð á Rosmhvalanesi, nokkrir fuglar eru í ungfuglabúningi.

Tveggja ára súla við Skoruvíkurbjarg.

Lífshættir

Súlukast er það kallað þegar súlan stingur sér eftir æti með aðfelldum vængjum, lóðrétt úr allt að 40 m hæð, en einnig á ská úr minni hæð á grunnu vatni.  Fæðan er fiskur, eins og síld, loðna, makríll, þorskfiskar, sandsíli o.fl., jafnvel úrgangur frá fiskiskipum.

Súlan er úthafsfugl, sem verpur í þéttum byggðum á sæbröttum eyjum, stöpum eða í björgum. Gerir stóran hreiðurhrauk úr þangi, þara og ýmsu drasli, notar drit og leir til að líma hreiðurefnin saman.

 

Útbreiðsla og stofnstærð

Varpheimkynni súlunnar, auk Íslands, er beggja vegna Atlantsála: í Kanada, Færeyjum, á Bretlandseyjum, stærstu vörpin eru í Skotlandi, í Noregi, Þýskalandi og Frakklandi. Hún er nýfarin að verpa á Kólaskaga í Rússlandi og á Bjarnarey. Vel hefur verið fylgst með súlustofninum á varpstöðvum hennar.  Talningar hafa farið fram í öllum íslenskum byggðum á 5−10 ára fresti frá 1977. Sumar byggðir hafa verið vaktaðar allt frá árinu 1913. Stofninn telur nú um 37.000 pör og hefur vaxið stöðugt um langt skeið, um tæp 2% á ári. Vörpin eru aðeins fimm, ef vörpin í Eyjum eru talin sem eitt. Eldey var löngum langstærsta byggðin en nú hafa vörpin í Vestmannaeyjum náð henni. Alls verpa á þessum tveimur svæðum um sunnanvert landið um 30.000 pör. Hinar þrjár byggðirnar eru á austanverðu landinu: í Skrúði (rúmlega 6.000 pör), Skoruvík á Langanesi (656 pör) og Rauðanúpi á Melrakkasléttu (655 pör). Súlan er eini íslenski sjófuglinn sem ræður við makrílinn og gæti landnám hans, illu heilli, á íslensku hafsvæði, ýtt undir fjölgun hennar.

Súlan er talin farfugl en hún hverfur aðeins frá landinu í stuttan tíma, frá október til desember. Vetrarstöðvar eru í Norður-Atlantshafi. Íslenskar súlur hafa fundist á Grænlandi og með ströndum Vestur-Evrópu suður til Vestur-Afríku.

Súla að lenda í Skoruvíkurbjargi.

Ársgömul súla við Skoruvíkurbjarg.

Súla stingur sér í Kolgrafarfirði.

Súla undirbýr stungu í Kolgrafarfirði.

Þjóðtrú og sagnir

Íslensk þjóðtrú geymir ekki mikið um súluna. Hún var talin boða góðan afla, eins og margir aðrir sjófuglar.

Hægt er að fylgjast með lífi súlunnar í varpi í beinu streymi á vefnum eldey.is.

Hrafnar flugu úr huga okkar frjálsir
Súlur svömluðu
með rótfestu okkar alsetta verndarorðum

Súlur og hrafnar:
Boginn og örvarnar
Tréð og söngur fuglanna
Staðfestan og hugarflugið

úr Ljóðnámuland eftir Sigurð Pálsson

Þar er hafsúla og már,
þar er haftyrðill smár,
þar eru hrafnar, lundar og skarfar.
Þar er æður og örn
þar sín ótalmörg börn
elur svartfugl og skegglurnar þarfar.

Úr Skrúðsbóndanum eftir Ólaf Indriðason

Súlukast í Kolgrafarfirði.

Súla í Skrúðnum.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson

Ætihvönn til matar, litunar og heilsubótar.  Sumardagskrá í Alviðru.

Ætihvönn til matar, litunar og heilsubótar. Sumardagskrá í Alviðru.

Ætihvönn til matar, litunar og heilsubótar

- sumardagskrá í Alviðru -

Alviðra fræðslusetur Landverndar stendur í sumar fyrir metnaðarfullri og áhugaverðri sumardagskrá fyrir gesti og gangandi. Náttúruminjasafn Íslands skipuleggur þrjá viðburði í sumar. Laugardaginn 14. ágúst milli kl. 14 og 16 mun Eva Þorvaldsdóttir, líffræðingur hjá Náttúruminjasafninu fjalla um og sýna hvernig nota má ætihvönn til matar, litunar og heilsubótar.
 
Ætihvönnin (Angelica archangelica) var áður fyrr mikilvæg matjurt á Íslandi. Hún vex víða í landi Alviðru og þar verða laufblöð og stönglar skornir auk þess sem grafnar verða upp rætur.
 
Ætihvönn er stórvaxin jurt sem getur orðið allt að tveggja metra há. Smágerð blómin standa tuttugu til fimmtíu saman í smásveipum sem eru 1,5–2,5 sm í þvermál og skipa sér saman í kúpta eða hálfkúlulaga stórsveipi ofan á sterklegum og gáruðum stöngli með víðu miðholi.
Ætihvönn vex einkum við vatnsmiklar lindir á hálendinu, meðfram lindalækjum og ám en einnig í áburðaríku gróðurlendi. Hún er nokkuð dreifð um allt land en þolir illa stöðuga beit, sem kann að vera skýringin á því að hana vantar á stórum svæðum og eins hversu oft hún finnst í torfærum klettum og hólmum. Hún hefur lengi verið nýtt á margvíslegan hátt, m.a. til matar, lækninga og litunar og hefur verið áberandi í flóru Íslands þegar landið var numið, en um það vitna örnefni á borð við Hvanndalir, Hvanngil, Hvannalindir og Hvanndalabjörg.
 
Viðburðurinn hefst kl. 14 n.k. laugardag í Alviðru og er aðgangur ókeypis og allir hjartanlega velkomnir!
Alviðra er í Ölfusi undir Ingólfsfjalli, gegnt Þrastalundi.